Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1301, 112. löggjafarþing 140. mál: eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.
Lög nr. 73 18. maí 1990.

Lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.


1. gr.

     Íslenska ríkið er eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki.
     Hugtakið auðlind samkvæmt lögum þessum tekur til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera.

2. gr.

     Enginn má leita að efnum til hagnýtingar á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga, sbr. 1. gr., nema að fengnu skriflegu leyfi iðnaðarráðherra.

3. gr.

     Óheimilt er að taka eða nýta efni af hafsbotni eða úr honum, sbr. 1. gr., nema að fengnu skriflegu leyfi iðnaðarráðherra.

4. gr.

     Leyfi til hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni skal bundið við ákveðið svæði og gilda til ákveðins tíma sem ekki má vera lengri en 30 ár. Í leyfisbréfi skal m.a. ætíð greina hverjar ráðstafanir leyfishafi skuli gera til að forðast mengun og spillingu á lífríki láðs og lagar.

5. gr.

     Með reglugerð skal iðnaðarráðherra setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal nánari ákvæði um þau leyfi sem um ræðir í 3. og 4. gr.

6. gr.

     Brot á lögum þessum og reglugerðum, settum samkvæmt þeim, varða sektum eða varðhaldi, enda liggi ekki við þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þeir, sem við gildistöku laganna taka efni af eða úr hafsbotni, skulu innan sex mánaða sækja um leyfi skv. 4. gr.

Samþykkt á Alþingi 5. maí 1990.