Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 409, 113. löggjafarþing 148. mál: Húsnæðisstofnun ríkisins (húsbréf).
Lög nr. 124 31. desember 1990.

Lög um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. lög nr. 76/1989 og 70/1990.


1. gr.

     B-liður 35. gr. laganna, sbr. lög nr. 76/1989 og lög nr. 70/1990, orðist svo:
     Að skipta á húsbréfum og fasteignaveðbréfum sem gefin eru út með veði í íbúðarhúsnæði í tengslum við fasteignaviðskipti, nýbyggingar og meiri háttar viðbyggingar, endurbætur og endurnýjun á notuðu íbúðarhúsnæði, sbr. c-lið 2. mgr. 36. gr.

2. gr.

     43. gr. laganna, sbr. lög nr. 76/1989 og lög nr. 70/1990, orðist svo:
     Skipta má á fasteignaveðbréfum fyrir húsbréf fyrir fjárhæð sem nemur allt að 75% af eðlilegu matsverði fasteignar. Ráðherra ákveður með reglugerð hvert hlutfall þetta skuli vera og getur hann ákveðið að hlutfallið vegna nýbygginga eða kaupa á íbúð í fyrsta sinn sé hærra en lánshlutfall vegna annarra fasteignaviðskipta.
     Húsbréfadeild setur reglur um eðlilegt matsverð fasteigna sem skulu byggjast á viðmiðun við markaðsverð, brunabótamat, byggingarkostnað og samþykktan kostnað við meiri háttar endurnýjun eða endurbætur á íbúðarhúsnæði. Taka ber tillit til áhvílandi veðskulda þannig að fasteignaveðbréfið sé innan þessara marka. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið hámarksfjárhæð fasteignaveðbréfa sem húsbréfadeild kaupir vegna hverrar fasteignar.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. gr. um húsbréfaviðskipti í tengslum við endurbætur og endurnýjun á notuðu íbúðarhúsnæði taka þó ekki gildi fyrr en 1. september 1991.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 35. gr. laganna, sbr. lög nr. 76/1989 og lög nr. 70/1990, er húsbréfadeild heimilt fyrstu 12 mánuðina eftir gildistöku laganna að skipta á húsbréfum og fasteignaveðbréfum sem gefin eru út með veði í íbúðarhúsnæði til greiðslu á skuldum íbúðareigenda í greiðsluerfiðleikum. Fjárhæð fasteignaveðbréfs má ekki vera hærri en svo að andvirði þeirra húsbréfa, sem fást við skuldabréfaskiptin, nægi til að greiða fyrirliggjandi kröfur miðað við skráð söluverð húsbréfa á þeim degi sem húsbréfadeild samþykkir skuldabréfaskiptin. Skilyrði fyrir afgreiðslu eru eftirfarandi:
  1. Fjárhagsvandi umsækjanda sé til kominn vegna fjármögnunar á hóflegu íbúðarhúsnæði miðað við fjölskylduaðstæður.
  2. Fyrir liggi að skipti á húsbréfum fyrir fasteignaveðbréf leysi greiðsluvanda umsækjanda.
  3. Skuldareigendur samþykki greiðslu skulda umsækjanda með húsbréfum.
  4. Greiðslubyrði umsækjanda sé að jafnaði yfir 30% af áætluðum heildarlaunum hans á ári næstu fjögur árin. Eftir skuldabréfaskiptin verði greiðslubyrðin að jafnaði um 20% af heildarlaunum hans.
  5. Umsækjandi uppfylli að öðru leyti skilyrði laga þessara.


Samþykkt á Alþingi 19. desember 1990.