Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 701, 113. löggjafarþing 120. mál: brottnám líffæra og krufningar.
Lög nr. 16 6. mars 1991.

Lög um brottnám líffæra og krufningar.


I. KAFLI
Brottnám líffæra.

1. gr.

     Hver, sem orðinn er 18 ára, getur gefið samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efna úr eigin líkama til nota við læknismeðferð annars einstaklings. Lífi og heilsu líffæragjafa má þó aldrei stofna í augljósa hættu með slíkri aðgerð.
     Áður en væntanlegur líffæragjafi veitir samþykki sitt skal læknir veita honum upplýsingar um eðli aðgerðar og hugsanlegar afleiðingar hennar. Líffæragjafi skal eiga kost á annarri ráðgjöf en læknis væntanlegs líffæraþega. Læknir skal ganga úr skugga um að væntanlegur líffæragjafi skilji þessar upplýsingar.
     Blóðgjöf og notkun blóðs er undanþegin lögum þessum.

2. gr.

     Nú liggur fyrir samþykki einstaklings og má þá, að honum látnum, nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama hans til nota við læknismeðferð annars einstaklings.
     Liggi slíkt samþykki ekki fyrir er heimilt að fjarlægja líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings ef fyrir liggur samþykki nánasta vandamanns hans og slíkt er ekki talið brjóta í bága við vilja hins látna.
     Með nánasta vandamanni er átt við maka (sambýlismann eða sambýliskonu), börn, ef hinn látni átti ekki maka, foreldra, ef hinn látni var barnlaus, eða systkini ef foreldrar hins látna eru einnig látnir.
     Eftir því sem kostur er skal tilkynna vandamönnum hins látna um andlát hans áður en líffæri eða lífræn efni eru numin brott úr líkama hans til nota við læknismeðferð annars einstaklings.

3. gr.

     Brottnám líffæra skv. 2. gr. er óheimilt ef kryfja þarf hinn látna réttarkrufningu og brottnámið gæti haft áhrif á niðurstöður krufningarinnar að mati sömu lækna og staðfesta andlát, sbr. 1. mgr. 4. gr.

4. gr.

     Áður en líffæri eða lífræn efni eru numin brott, sbr. 2. gr., skal andlát staðfest af tveimur læknum. Skulu það ekki vera sömu læknar og annast brottnám líffæranna.
     Á sjúkrahúsum skal halda sérstaka skrá um brottnám líffæra. Í skrána skal rita andlátsstund, dánarorsök, nöfn þeirra lækna, sem staðfestu andlát, og hvaða viðmiðun var beitt til að staðfesta andlátið.
     Læknir, sem annaðist hinn látna síðast fyrir andlátið, má ekki annast brottnám líffæra eða lífrænna efna.

II. KAFLI
Krufningar.

5. gr.

     Nú liggur dánarorsök ekki fyrir svo að fullnægjandi sé talið og er þá heimilt að kryfja líkið, enda hafi hinn látni eða nánasti vandamaður, sbr. 3. mgr. 2. gr., samþykkt krufninguna.
     Þurfi að afla samþykkis nánasta vandamanns fyrir krufningu skal læknir veita upplýsingar um tilgang og markmið krufningarinnar.
     Vandamönnum er heimilt að krefjast krufningar ef í ljós kemur að ekki er af hálfu læknis hins látna fyrirhugað að óska eftir krufningu.
     Réttarkrufning er undanþegin lögum þessum.

6. gr.

     Krufningu skv. 5. gr. má ekki framkvæma ef læknir hins látna hefur ástæðu til að ætla að réttarkrufningar verði krafist.

III. KAFLI
Almenn ákvæði.

7. gr.

     Ráðherra er heimilt að setja reglur um framkvæmd laga þessara, m.a. um frágang líka að lokinni krufningu.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. febrúar 1991.