Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1128, 113. löggjafarþing 174. mál: grunnskóli (heildarlög).
Lög nr. 49 27. mars 1991.

Lög um grunnskóla.


I. KAFLI
Markmið og skólaskylda.

1. gr.

     Ríki og sveitarfélögum er skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára eftir því sem nánar segir í lögum þessum. Skóli þessi nefnist grunnskóli. Öllum börnum og unglingum á framangreindum aldri er skylt að sækja skóla, en frá því má þó veita undanþágu, sbr. 5., 7. og 8. gr.
     Þegar tilgreindur er aldur nemanda í lögum þessum miðast hann við það almanaksár er nemandinn nær nefndum aldri.

2. gr.

     Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið.
     Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.
     Grunnskólinn skal veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.

3. gr.

     Grunnskóli er tíu ára skóli.
     Stefnt skal að því að hver grunnskóli sé einsetinn.
     Hverjum grunnskóla má skipa í einingar með ákvörðun hlutaðeigandi sveitarstjórna að fenginni umsögn fræðslustjóra og samþykki menntamálaráðuneytisins.

4. gr.

     Í strjálbýli skal stefnt að heimanakstri nemenda en ekki heimavist.
     Stefnt skal að því að börn yngri en tíu ára dvelji ekki í heimavist nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi að mati fræðslustjóra.
     Í grunnskóla skulu nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma.
     Sveitarstjórn er heimilt að koma á fót skólaseljum frá aðalskóla, að fenginni umsögn fræðslustjóra og með samþykki menntamálaráðuneytisins.

5. gr.

     Skólanefnd getur borið fram við fræðslustjóra rökstudda beiðni um tímabundna undanþágu frá því að uppfylla að fullu ákvæði 1. gr. þessara laga um skólaskyldu eða lágmarksákvæði 45. gr. um starfstíma skóla. Að fenginni tillögu fræðslustjóra úrskurðar menntamálaráðuneytið hvort eða að hve miklu leyti slík undanþága skuli veitt.

6. gr.

     Forráðamaður skólaskylds barns ber ábyrgð á að það innritist í skóla, þegar það kemst á skólaskyldualdur, og sæki skólann. Verði verulegur misbrestur á skólasókn skólaskylds barns án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli skal skólastjóri reyna að leysa málið. Takist það ekki skal málinu vísað til fræðslustjóra. Vilji forráðamaður barnsins ekki hlíta ákvörðun fræðslustjóra getur hvor aðili um sig vísað málinu til barnaverndarnefndar.

7. gr.

     Undanþegin því að sækja grunnskóla skv. 1. gr. eru:
  1. börn sem sækja viðurkennda einkaskóla, sbr. 73. gr.,
  2. börn er búa í skólahverfum sem fengið hafa undanþágu skv. 5. gr. að því leyti sem undanþágan kveður á um.


8. gr.

     Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu, í samráði við umsjónarkennara, telji hann til þess gildar ástæður. Fræðslustjóra skal tilkynnt um slíkar undanþágur.

II. KAFLI
Stjórn grunnskóla.

9. gr.

     Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra málefna er lög þessi taka til.
     Grunnskólaráð er samstarfsvettvangur menntamálaráðuneytisins og annarra aðila er starfa að málefnum grunnskólans. Verkefni þess eru m.a. að hafa yfirlit yfir lög og reglur sem varða grunnskóla, gefa ábendingar um lagfæringar á þeim og samræmi á milli þeirra. Grunnskólaráð fylgist með framkvæmd grunnskólalaga og aðalnámsskrár, gerir tillögur um úrbætur og stuðlar að samvinnu og samræmi í starfi þeirra sem vinna að málefnum grunnskólans.
     Ráðið skal skipað 12 fulltrúum: Tveimur fulltrúum kennarasamtaka, einum fulltrúa skólastjórnenda, tveimur fulltrúum foreldrafélaga eða samtaka þeirra og skal annar þeirra vera fulltrúi foreldrafélaga í dreifbýli, einum fulltrúa Kennaraháskóla Íslands, einum fulltrúa Háskóla Íslands, einum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, einum fulltrúa Námsgagnastofnunar auk þriggja fulltrúa menntamálaráðuneytisins og skal einn þeirra vera fræðslustjóri og einn skólastjóri á framhaldsskólastigi.
     Grunnskólaráð skal skipað til tveggja ára í senn.
     Menntamálaráðuneytið setur grunnskólaráði erindisbréf, kveður nánar á um skipun þess, starfstilhögun og starfssvið.

10. gr.

     Skipuð skal samstarfsnefnd menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd laga þessara.
     Verkefni nefndarinnar skulu m.a. vera að gera áætlun um einsetinn skóla, lengdan og samfelldan skóladag og skólamáltíðir, sbr. bráðabirgðaákvæði laga þessara, skólasöfn, heimavistir og félagsstörf nemenda og aðstöðu vegna sérkennslu. Nefndin fær til umsagnar reglugerðir sem varða samskipti ríkis og sveitarfélaga samkvæmt lögum þessum áður en þær eru gefnar út. Enn fremur fær hún til umsagnar ágreiningsatriði sem kunna að koma upp varðandi þessi samskipti áður en þau koma til úrskurðar.
     Nefndin skal skipuð tveimur fulltrúum frá menntamálaráðuneytinu og tveimur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.

11. gr.

     Landið skiptist í fræðsluumdæmi sem hér segir:
  1. Reykjavíkurumdæmi sem nær yfir Reykjavík.
  2. Reykjanesumdæmi sem nær yfir Gullbringu- og Kjósarsýslu, Hafnarfjörð, Keflavík, Grindavík, Njarðvík, Garðabæ, Seltjarnarnes, Kópavog og Mosfellsbæ.
  3. Vesturlandsumdæmi sem nær yfir Borgarfjarðarsýslu, Akranes og Borgarnes, Mýrasýslu, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, Ólafsvík, Stykkishólm og Dalasýslu.
  4. Vestfjarðaumdæmi sem nær yfir Austur-Barðastrandarsýslu, Vestur-Barðastrandarsýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu, Ísafjörð, Bolungarvík, Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu.
  5. Norðurlandsumdæmi vestra sem nær yfir Vestur-Húnavatnssýslu, Austur-Húnavatnssýslu, Blönduós, Skagafjarðarsýslu, Sauðárkrók og Siglufjörð.
  6. Norðurlandsumdæmi eystra sem nær yfir Eyjafjarðarsýslu, Akureyri, Ólafsfjörð, Dalvík, Suður-Þingeyjarsýslu, Húsavík og Norður-Þingeyjarsýslu.
  7. Austurlandsumdæmi sem nær yfir Norður-Múlasýslu, Seyðisfjörð, Suður-Múlasýslu, Neskaupstað, Eskifjörð, Egilsstaði, Austur-Skaftafellssýslu og Höfn.
  8. Suðurlandsumdæmi sem nær yfir Vestur-Skaftafellssýslu, Vestmannaeyjar, Rangárvallasýslu, Árnessýslu, Selfoss og Hveragerði.

     Í hverju fræðsluumdæmi skal vera fræðsluskrifstofa.

12. gr.

     Í hverju fræðsluumdæmi skal vera fræðsluráð.
     Fræðsluráð er samstarfsvettvangur sveitarfélaga í viðkomandi umdæmi.
     Hlutverk fræðsluráðs er m.a. að vinna í samráði við fræðsluskrifstofu að eflingu skólastarfs í fræðsluumdæminu, stuðla að samvinnu oghagræðingu milli skóla, fjalla um sameiginleg verkefni og styðja starf skólanefnda. Fræðsluráð fer að öðru leyti með þau mál sem hlutaðeigandi sveitarstjórnir fela því eða ákveðin kunna að verða í reglugerðum settum samkvæmt lögum þessum.

13. gr.

     Fræðsluráð skal skipað fimm eða sjö mönnum sem kjörnir eru af sveitarstjórnum eða samtökum sveitarfélaga í hlutaðeigandi fræðsluumdæmi. Jafnmargir skulu kjörnir til vara. Um kosningu og starfshætti fer eftir meginreglum sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.
     Fræðslustjóri, fulltrúi skólastjóra, kennara og foreldra í umdæminu skulu hafa málfrelsi og tillögurétt á fræðsluráðsfundum og eru boðaðir á þá á sama hátt og fræðsluráðsfulltrúar.
     Fræðsluráð getur falið fræðslustjóra að annast framkvæmdastjórn fyrir ráðið.
     Kostnaður vegna fulltrúa sveitarfélaga greiðist af viðkomandi sveitarfélögum eða samtökum þeirra. Kostnaður vegna fundarsetu fulltrúa kennara, skólastjóra og foreldra greiðist úr ríkissjóði.
     Heimilt er að stofna í hverju fræðsluumdæmi sérstakt samstarfsráð sem er samstarfsvettvangur sveitarstjórna, skólamanna og foreldra um umbætur og þróun í skólum umdæmisins.

14. gr.

     Menntamálaráðuneytið ræður í stöðu fræðslustjóra að undangenginni auglýsingu. Við ráðningu fræðslustjóra er skylt að taka tillit til kennslufræðilegrar menntunar umsækjenda, stjórnunarreynslu innan skólakerfisins og þekkingar á skólamálum.

15. gr.

     Fræðslustjóri er fulltrúi menntamálaráðuneytisins um skólamál í umdæmi sínu og skal búsettur sem næst fræðsluskrifstofu þess. Hann er forstöðumaður fræðsluskrifstofu og framkvæmdastjóri fræðsluráðs sé svo um samið.
     Í umboði menntamálaráðuneytisins og í samvinnu við skólanefndir og fræðsluráð hefur fræðslustjóri umsjón og eftirlit með framkvæmd laga um grunnskóla í umdæmi sínu. Hann sér til þess að nemendur njóti kennslu og þjónustu samkvæmt lögum og öðrum fyrirmælum menntamálaráðuneytisins, hefur forgöngu um umbætur í skólamálum og eftirlit og umsjón með aðbúnaði, skipulagi og árangri skólastarfs.
     Menntamálaráðuneytið samræmir störf fræðslustjóra og setur um þau reglugerð.

16. gr.

     Menntamálaráðuneytið ákveður fræðsluskrifstofu stað í samráði við sveitarfélög í viðkomandi fræðsluumdæmi.
     Starfsmenn fræðsluskrifstofu eru ríkisstarfsmenn. Um ráðningu og starfskjör þeirra fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
     Verkefni fræðsluskrifstofu eru einkum þessi: áætlanagerð og eftirlit með námi og kennslu, sálfræðiþjónusta, kennsluráðgjöf, skólaþróun og nýbreytnistarf, endurmenntun og símenntun kennara í samráði við skóla sem veita kennaramenntun.
     Fræðslustjóra er heimilt að semja svo við samtök sveitarfélaga, einstök skólahverfi og sveitarfélög að fræðsluskrifstofa taki að sér tiltekin verkefni fyrir þessa aðila, enda komi greiðsla fyrir. Á hliðstæðan hátt er fræðslustjóra heimilt að semja svo við samtök sveitarfélaga að skrifstofa þeirra eða einstakar starfsdeildir innan þeirra annist störf fyrir fræðsluskrifstofu, enda komi samþykki menntamálaráðuneytis til.

17. gr.

     Skólahverfi er sú eining sem stendur að einum grunnskóla eða fleiri. Sveitarfélög geta sameinast um rekstur grunnskóla og mynda þá eitt skólahverfi. Sveitarfélag, sem rekur tvo eða fleiri grunnskóla, telst eitt skólahverfi. Sveitarfélag getur átt aðild að fleiri en einu skólahverfi ef börn og unglingar á skólaskyldualdri úr því sveitarfélagi eiga skólasókn til tveggja eða fleiri skólahverfa.

18. gr.

     Í hverju skólahverfi skal vera skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög þessi og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni.
     Skólanefnd skal sjá um að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögboðinnar fræðslu. Hún fylgist með og stuðlar að því að jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi húsnæði og annar aðbúnaður, þar með talin útivistar- og leiksvæði nemenda. Í samráði við skólastjóra lítur nefndin eftir að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða á þessu sviði og gerir tillögur til sveitarstjórnar um úrbætur. Enn fremur getur skólanefnd lagt tillögur um umbætur í skólastarfi fyrir skólastjóra í skólahverfinu.
     Skólanefnd er samráðsaðili um ráðningar starfsmanna hlutaðeigandi skóla, sbr. 31.–35. gr.

19. gr.

     Skólanefnd skal kosin til fjögurra ára í senn af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum í upphafi hvers kjörtímabils. Um kosningu í skólanefnd og starfshætti fer samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986.
     Varamenn í skólanefndum skulu jafnmargir aðalmönnum og kosnir á sama hátt.
     Í sveitarfélagi þar sem skólahverfi eru tvö eða fleiri skulu fulltrúar í skólanefnd vera kosnir úr hópi íbúa í viðkomandi skólahverfi.
     Þar sem fleiri en eitt sveitarfélag standa saman að rekstri grunnskóla eða hluta hans skulu aðilar setja í stofnsamning ákvæði um aðild hvers og eins að skólanefnd.
     Fulltrúar kennara, skólastjóra og foreldra eiga rétt til setu á skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétti.
     Grunnskólakennarar í skólahverfinu kjósa úr sínum hópi fulltrúa til að starfa með skólanefnd. Þar sem stöðugildi við grunnskóla í skólahverfi eru 15 eða færri skal kjörinn einn kennarafulltrúi en tveir þar sem stöðugildi eru 16 eða fleiri. Varamenn kennarafulltrúa skulu vera jafnmargir aðalmönnum.
     Skólastjórar, eða aðstoðarskólastjórar í forföllum þeirra, eiga rétt til setu á skólanefndarfundum.
     Foreldrafélag eða samtök foreldra í skólahverfinu kjósa úr sínum hópi einn fulltrúa til starfa með skólanefnd.

20. gr.

     Við hvern grunnskóla skal starfa skólaráð sem er stjórn skólans til ráðuneytis um innri mál hans, svo sem kennsluskipan, starfsáætlanir, skólatíma, slysavarnir og félagslíf í skólanum og fleira sem varðar daglega starfsemi skólans.
     Skólaráð skal skipað þremur mönnum. Einn tilnefndur af kennurum og öðrum starfsmönnum skólans, einn tilnefndur af foreldrum (foreldrafélagi ef það er til) og einn tilnefndur af nemendum (nemendaráði ef það er til). Fulltrúar í skólaráði skulu valdir við upphaf skólaárs til eins árs í senn. Skólaráð skal koma saman til fundar eigi sjaldnar en þrisvar á ári. Skólastjóri eða staðgengill hans situr fundi skólaráðs. Skylt er fulltrúa skólanefndar, fræðslustjóra, fulltrúa hans eða fulltrúa fræðsluráðs að mæta á fundi skólaráðs ef ráðið óskar þess.
     Menntamálaráðherra setur reglugerð um störf og starfshætti skólaráðs og setur skólaráði erindisbréf.
     Heimilt er skóla að sækja um með rökstuddri greinargerð undanþágu frá ákvæði greinar þessarar til menntamálaráðuneytisins. Gildar ástæður þurfa að liggja fyrir undanþágu, svo sem ef skóli er mjög fámennur.

21. gr.

     Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar og ber ábyrgð á starfi hans undir yfirstjórn menntamálaráðuneytisins. Hann hefur í starfi sínu samráð við kennara, skólanefnd og fræðslustjóra.
     Skólastjóri boðar til kennarafundar svo oft sem þurfa þykir, en þó eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði. Auk þess skal boða til slíks fundar ef þriðjungur kennara æskir þess.
     Öllum föstum kennurum skólans er skylt að sækja kennarafund þá mánuði er skóli starfar ef fundurinn fer fram innan dagvinnumarka.
     Í skólum, sem eiga rétt á 8 stöðugildum eða fleiri auk skólastjóra, skal almennur kennarafundur í upphafi hvers skólaárs kjósa þriggja manna kennararáð sem í umboði kennarafundar er skólastjóra til ráðuneytis um stjórn skólans. Í öðrum skólum fer almennur kennarafundur með hlutverk kennararáðs.
     Ágreiningi milli skólastjóra og kennararáðs eða kennarafundar um meðferð tiltekins máls skal vísa til fræðslustjóra. Ef samkomulag tekst ekki, úrskurðar menntamálaráðuneytið um málið. Ákvörðun skólastjóra gildir uns úrskurður liggur fyrir, nema samkomulag hafi orðið um annað.
     Nánar skal kveðið á um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð.

22. gr.

     Starfsmönnum skóla er skylt að efla sem mest samstarf skóla og heimila, m.a. með því að kennarar miðli fræðslu um skólamál til foreldra og veiti upplýsingar um starfið í skólanum.
     Foreldrar barna í grunnskóla, skólastjóri eða almennur kennarafundur geta óskað eftir því að stofnuð séu samtök foreldra eða foreldra og kennara við skólann í þeim tilgangi að styðja skólastarfið og efla tengsl heimila og skóla. Skólastjóri skal þá boða til stofnfundar slíkra samtaka.
     Fulltrúi foreldra á rétt til setu á kennarafundum, fundum skólanefnda og fræðsluráða með málfrelsi og tillögurétti nema þegar fjallað er um mál einstakra nemenda.
     Samtökin setja sér starfsreglur.

23. gr.

     Nemendum grunnskóla er heimilt að stofna nemendaráð sem vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Skólastjóri felur einum af kennurum skólans að aðstoða nemendaráð.
     Fulltrúi nemenda eða nemendaráðs á rétt til setu á fundum skólastjóra og kennararáðs, svo og á kennarafundum, með málfrelsi og tillögurétti, þegar rætt er um skipulag skólastarfsins.
     Nemendaráð hvers skóla skal setja sér starfsreglur.

III. KAFLI
Skólahúsnæði.

24. gr.

     Gerð skólamannvirkja er undirbúin heima í héraði af sveitarstjórn í samráði við skólanefnd.
     Stofnkostnaður grunnskóla greiðist af sveitarfélögum. Í hverju skólahverfi skal vera skólahúsnæði sem fullnægir þörfum grunnskóla við þær aðstæður sem þar eru. Við gerð eða breytingar skólamannvirkja skal m.a. tekið tillit til hvort nemendur ganga til skóla, er ekið þangað daglega, búa þar í heimavist eða fyrirkomulag er blandað.

25. gr.

     Eigi tvö sveitarfélög eða fleiri félag með sér um byggingu og rekstur grunnskóla skal miða skiptingu kostnaðar við eftirtalin meginatriði nema um annað semjist:
  1. íbúafjölda,
  2. útsvarsskyldar tekjur í sveitarfélaginu næstliðið ár,
  3. fasteignamat skattskyldra fasteigna,
  4. kennslustundafjölda í þeim bekkjum sem aðild sveitarfélags miðast við.

     Eigi einungis hluti sveitarfélags aðild að skólahverfi skal miða liði a–c við þann hluta.

26. gr.

     Í skólahúsi skal, auk kennsluaðstöðu fyrir allar kennslugreinar, gera ráð fyrir skólasafni; aðstöðu fyrir nemendur til náms, annarra starfa og hvíldar utan kennslustunda; aðgengi og aðstöðu fatlaðra; aðstöðu til að neyta málsverðar; snyrtiherbergjum; skrifstofu- og vinnuherbergjum skólastjórnenda og kennara; aðstöðu til heilsugæslu í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, íþróttaiðkana og almennrar félagsstarfsemi í þágu nemenda; húsnæði til sérkennslu og sálfræðiþjónustu og annars þess er lög þessi gera ráð fyrir. Ef henta þykir má ætla aðstöðu til íþrótta eða annarrar kennslu í öðru húsnæði í nágrenni skólans.
     Við gerð heimavista skal kappkostað að þær minni sem mest á venjuleg heimili og þannig sé gengið frá að nemendur geti jafnan náð til umsjónarmanns heimavista.

27. gr.

     Sveitarstjórnir ákveða í samráði við hlutaðeigandi skólanefnd hvaða sérfræðingar skuli annast hönnun skólabygginga, þ.e. undirbúningsvinnu og áætlanagerð, þar með gerð uppdrátta.
     Tillöguuppdrættir að gerð skólamannvirkja skulu kynntir opinberlega í viðkomandi skólahverfi. Fulltrúar skólastjóra og kennara skulu vera með í ráðum við hönnun skólamannvirkja og fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hvað varðar aðstöðu til heilsugæslu.
     Áður en framkvæmdir hefjast skal leitað eftir samþykki menntamálaráðuneytisins fyrir viðkomandi skólamannvirki.
     Skólanefnd ákveður nafn skóla að höfðu samráði við menntamálaráðuneytið.

28. gr.

     Um listskreytingu skólamannvirkja fer eftir lögum nr. 71/1990, um Listskreytingasjóð ríkisins.

29. gr.

     Sveitarfélög annast viðhald skólahúsa og búnaðar á fullnægjandi hátt, þar á meðal endurnýjun kennslutækja, sbr. 84. gr., og greiðist viðhaldskostnaður af sveitarfélögum.

30. gr.

     Dagleg umsjón og umráð skólamannvirkja, þar á meðal skólastjóra- og kennarabústaða sem eru sameign ríkis og sveitarfélaga eða í eigu sveitarfélaga einna, skulu vera í höndum skólanefndar í umboði sveitarstjórnar og skólastjóra í umboði menntamálaráðuneytisins.
     Sveitarstjórn er heimilt að ráðstafa skólahúsnæði eða hluta þess til æskulýðsstarfsemi, íþróttastarfsemi og almennrar félagsstarfsemi í þágu íbúa byggðarlagsins. Slíkt er þó aðeins heimilt að það raski í engu skólahaldi, félagslífi nemenda né annarri lögbundinni notkun húsnæðisins.
     Að fenginni umsögn hlutaðeigandi skólanefndar getur sveitarstjórn ákveðið að skólahúsnæði sé utan venjulegs skólatíma notað til gistingar og veitingareksturs. Tekjur af eignum skóla renna til sveitarsjóða.

IV. KAFLI
Starfslið grunnskóla.

31. gr.

     Við hvern skóla sem starfar samkvæmt lögum þessum skal vera skólastjóri.
     Menntamálaráðuneytið ræður skólastjóra, að fengnum rökstuddum tillögum og umsögnum skólanefndar, kennararáðs og fræðslustjóra sem í hlut eiga.

32. gr.

     Í grunnskóla sem á rétt á tíu kennurum eða fleiri í fullu starfi, auk skólastjóra, ræður menntamálaráðuneytið aðstoðarskólastjóra, að fengnum rökstuddum tillögum og umsögnum skólastjóra, skólanefndar og kennararáðs.
     Menntamálaráðuneytinu er heimilt að ráða aðstoðarskólastjóra, að fenginni tillögu skólanefndar, skólastjóra og fræðslustjóra, enda þótt forsendur þær sem greindar eru í 1. mgr. séu ekki fyrir hendi. Einnig er menntamálaráðuneytinu heimilt að ráða fleiri en einn aðstoðarskólastjóra við einn og sama skóla vegna sérstakra aðstæðna, komi um það tillaga frá skólanefnd, skólastjóra og fræðslustjóra.
     Aðstoðarskólastjóri er staðgengill skólastjóra. Í skólum þar sem starfa færri en tíu kennarar ákveður skólastjóri í upphafi skólaárs í samráði við kennarafund og skólanefnd hver af föstum kennurum skólans skuli annast skólastjórn í forföllum hans.

33. gr.

     Í grunnskóla skal kennsla falin föstum kennurum eftir því sem við verður komið og stundakennurum að öðru leyti, sbr. þó 13. gr. laga nr. 48/1986. Heimilt er að ráða kennara í einni eða fleiri kennslugreinum fyrir tvö eða fleiri skólahverfi samtímis til þess að fullnægja kennsluþörf ef ekki er fullt verkefni fyrir kennarann í einu skólahverfi.

34. gr.

     Skólastjóri ræður kennara og aðra starfsmenn skóla sem teljast ríkisstarfsmenn í samráði við skólanefnd og innan heimilda fjárlaga. Sé ekki völ á kennara með full kennsluréttindi getur skólastjóri sent undanþágunefnd grunnskóla beiðni um að lausráða umsækjanda til bráðabirgða í samræmi við ákvæði laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
     Fræðslustjóri staðfestir ráðningar þessara starfsmanna.
     Skólastjóri ræður stunda- og forfallakennara við grunnskóla, sbr. þó lög nr. 48/1986.
     Sveitarstjórn eða skólanefnd í umboði hennar ræður þá starfsmenn skóla er teljast starfsmenn sveitarfélaga í samráði við skólastjóra. Starfsmenn þessir lúta stjórn skólastjóra um dagleg störf í skólanum á starfstíma skóla.

35. gr.

     Við einstaka grunnskóla eða fræðsluskrifstofur skulu starfa námsráðgjafar er annast náms- og starfsráðgjöf og persónulega ráðgjöf er snertir nám nemenda.
     Námsráðgjafar annast náms- og starfsfræðslu í samvinnu við kennara.
     Námsráðgjafar skulu ráðnir með sama hætti og kennarar. Starfssvið og menntun námsráðgjafa og umfang þjónustunnar skal nánar skilgreint í reglugerð.

36. gr.

     Menntamálaráðuneytið skipar skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og kennara við grunnskóla að fengnum tillögum umsagnaraðila.

37. gr.

     Stefnt skal að því að ráðningar í stöður kennara og skólastjórnenda fari fram eigi síðar en 1. maí ár hvert.
     Fræðslustjóri auglýsir stöður skólastjórnenda, kennara og annarra starfsmanna grunnskóla sem teljast ríkisstarfsmenn.
     Þurfi að ráða skólastjórnendur eða kennara fyrirvaralítið má ráða í starfið án undangenginnar auglýsingar, en auglýsa skal slíkar stöður svo fljótt sem unnt er, sbr. þó 13. gr. laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

38. gr.

     Skólastjórar, aðstoðarskólastjórar, kennarar og aðrir starfsmenn ríkisins, sem ráðnir eru til starfa við grunnskóla, skulu gegna þeim samkvæmt lögum, reglugerðum og erindisbréfi er menntamálaráðuneytið setur.
     Um vinnutíma og kjör starfsmanna grunnskóla fer eftir ákvæðum laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og kjarasamningum stéttarfélaga eftir því sem við á.
     Um embættisgengi skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og kennara við grunnskóla gilda ákvæði laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

39. gr.

     Fyrir hverja bekkjardeild eða námshóp í grunnskóla skal skólastjóri velja umsjónarkennara í samráði við kennararáð eða kennarafund. Umsjónarkennarinn fylgist sérstaklega með námi nemenda sinna og þroska, leiðbeinir þeim og leitast við að efla samstarf skóla og heimila, sbr. 22. gr.
     Skólastjóra er heimilt að fela föstum kennurum árgangastjórn og fagstjórn, leiðsögn nýliða og leiðsögn kennaranema.
     Menntamálaráðuneytið setur nánari reglur um hlutverk og starfssvið umsjónarkennara, árganga- og fagstjóra og leiðsögukennara.

40. gr.

     Skólastjóri við heimavistarskóla er jafnframt heimavistarstjóri. Í heimavistum skal daglegt eftirlit og umsjón með nemendum jafnframt vera í höndum kennara, fóstra eða annarra starfsmanna sem menntamálaráðuneytið viðurkennir.
     Kostnaður við gæslu á heimavist greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi.
     Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um störf og starfslið í heimavistum og aðbúnað nemenda þar.

41. gr.

     Þegar kennari nær 55 ára aldri minnkar kennsluskylda hans um 1/ 6, og er hann nær 60 ára aldri minnkar kennsluskylda hans enn um 1/ 6 af fullri kennsluskyldu. Til þess að öðlast þennan rétt þarf tíu ára kennsluferil.

42. gr.

     Menntamálaráðuneytið getur veitt kennara námsleyfi á föstum launum í allt að eitt ár til að efla þekkingu sína og starfshæfni. Leyfistímann skal nota til:
  1. reglulegs náms í viðurkenndri menntastofnun eða
  2. a.m.k. tveggja mánaða námsferðar sem skipulögð er og/eða boðið til af aðila eða stofnun sem menntamálaráðuneytið viðurkennir.

     Af því fé, sem veitt er á fjárlögum til að kosta námsleyfi kennara, má veita ferðastyrki og styrki til viðbótar námsleyfi. Menntamálaráðuneytinu er heimilt að auglýsa eftir umsækjendum til að leggja fyrir sig tiltekið nám gegn námsleyfi og/eða styrk.
     Enginn kennari getur á starfsævi sinni fengið hærri fjárhæð í námsleyfi og styrki en nemur tveggja ára embættislaunum.
     Að námsleyfi loknu er kennara skylt að senda ráðuneytinu skýrslu um nám sitt á leyfistímabilinu og er ráðuneytinu heimilt að birta hana.
     Námsleyfi má binda því skilyrði að sá er það hlýtur starfi að skólamálum á Íslandi í minnst þrjú ár að námi loknu.
     Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um skólastjórnendur.
     Setja skal reglugerð sem kveður nánar á um framkvæmd námsleyfis.

43. gr.

     Til endurmenntunar skólastjórnenda og kennara á grunnskólastigi skal auk námsleyfa, sbr. 42. gr., verja fjárhæð sem til þess er ætluð á fjárlögum hverju sinni.

44. gr.

     Hafi starfsmaður grunnskóla gerst brotlegur við lög þessi eða reglugerðir samkvæmt þeim má vísa málinu til fræðslustjóra ásamt nauðsynlegum upplýsingum. Telji fræðslustjóri að aðgerðir í málinu þoli enga bið getur hann gert tafarlausar ráðstafanir til úrbóta um stundarsakir, en gefur þegar í stað skýrslu til menntamálaráðuneytisins sem tekur ákvörðun í málinu.
     Um meðferð slíkra mála fer að öðru leyti samkvæmt lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eftir því sem við á.

V. KAFLI
Starfstími grunnskóla.

45. gr.

     Reglulegur starfstími grunnskóla skal vera níu mánuðir á hverju skólaári og hefjast 1. september en ljúka 31. maí.
     Með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum skólahverfum getur fræðslustjóri veitt tímabundna undanþágu frá framangreindum ákvæðum. Æski skólanefnd að hluta námsskyldu barna sé fullnægt með sumarskóla getur menntamálaráðuneytið heimilað það, að fenginni umsögn fræðslustjóra.
     Nánar skal kveðið á um starfstíma grunnskóla og grunnskólanemenda í reglugerð og með skóladagatali sem ráðuneytið gefur út árlega.

46. gr.

     Vikulegur kennslutími á hvern nemenda í grunnskóla skal að lágmarki vera þessi:
  1. í 1. bekk 1000 mínútur,
  2. í 2. bekk 1000 mínútur,
  3. í 3. bekk 1000 mínútur,
  4. í 4. bekk 1080 mínútur,
  5. í 5. bekk 1280 mínútur,
  6. í 6. bekk 1360 mínútur,
  7. í 7. bekk 1440 mínútur,
  8. í 8. bekk 1440 mínútur,
  9. í 9. bekk 1480 mínútur,
  10. í 10. bekk 1480 mínútur.

     Við ákvörðun daglegs og vikulegs starfstíma nemenda í grunnskóla skal þess gætt að í heild fari hann (þ.e. kennslutími, stundahlé og sjálfsnám utan kennslustunda) ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska.
     Daglegur kennslutími nemenda skal vera samfelldur með eðlilegum stundahléum og matartímum.
     Stundahlé í grunnskóla skulu að jafnaði vera 15 mínútur á móti hverjum 100 mínútum sem kenndar eru.
     Skólastjóri ákveður lengd kennslustunda í samráði við kennararáð/kennarafund. Meðallengd kennslustunda í grunnskóla telst vera 40 mínútur.
     Komið skal á fót skólaathvörfum við hvern grunnskóla, þar sem þörf er á, þar sem nemendur geta dvalist utan kennslustunda. Til að standa straum af viðbótarkostnaði er heimilt að taka gjald fyrir dvöl nemenda í skólaathvörfum og skal upphæð gjaldsins ákveðin af skólastjóra í samráði við fræðslustjóra.

47. gr.

     Í grunnskóla skal jólaleyfi vera frá og með 21. desember til og með 3. janúar og páskaleyfi frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Að öðru leyti skulu leyfisdagar ákveðnir í reglugerð.

VI. KAFLI
Námsskrá og kennsluskipan.

48. gr.

     Menntamálaráðuneytið setur grunnskólum aðalnámsskrá. Í henni er m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans, sbr. 2. gr.
     Í öllu starfi skólans skal leggja áherslu á:

        —    að efla sjálfsvitund og félagsvitund nemenda,

        —    að stuðla að líkamlegri og andlegri velferð, heilbrigðum lífsháttum og ábyrgri umgengni við líf og umhverfi,

        —    þjálfun í íslensku í öllum námsgreinum og leikræna og listræna tjáningu,

        —    hæfni nemenda til að skilja orsakasamhengi og draga rökréttar ályktanir,

        —    skilning og frjótt, skapandi starf og jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms,

        —    að námið nýtist nemendum í daglegu lífi, frekara námi og starfi,

        —    að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi,

        —    margvíslegar leiðir við öflun þekkingar með notkun tæknimiðla, upplýsingatækni, safna- og heimildavinnu,

        —    náms- og starfsfræðslu, kynningu á atvinnulífi og námsleiðum til undirbúnings náms- og starfsvals.

     Við setningu aðalnámsskrár, skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skal þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái sem jöfnust tækifæri til náms, sbr. 2. gr.
     Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar.
     Í öllu skólastarfi skal tekið mið af mismunandi persónugerð, þroska, getu og áhugasviðum nemenda.

49. gr.

     Í aðalnámsskrá skal setja meginmarkmið og ákvæði um megininntak og skipulag náms og kennslu á þessum sviðum:
  1. Notkun íslensku í ræðu og riti, lestur, íslenskar bókmenntir og umræða um mál og málnotkun.
  2. Stærðfræði, hlutverk hennar í að lýsa fyrirbærum og leysa viðfangsefni, gildi röksemda, hlutfirringar og táknmáls.
  3. Listgreinar, fagurskyn, listhneigð og hagleikur; mynd- og handmennt, tónmennt, leiklist og dans.
  4. Heimilishald, heimilisrækt, neysla og hollusta.
  5. Líkams- og heilsurækt, íþróttir, sund.
  6. Eðli lifandi og lífvana náttúru, tækni og gagnkvæm áhrif manns og umhverfis.
  7. Mannlegt samfélag, samfélagshættir, umheimur og umhverfi nær og fjær í fortíð og nútíð, einkum með hliðsjón af Íslandi.
  8. Kristin trú og siður, önnur trúarbrögð og almenn lífsgildi.
  9. Erlend tungumál, að skilja og tjá sig á einu Norðurlandamáli og ensku og kynnast menningu viðkomandi þjóða.

     Í aðalnámsskrá skal nánar kveðið á um uppbyggingu, áherslur og skipan náms í grunnskóla, svo og hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina. Þess skal gætt að námið verði sem heildstæðast.
     Menntamálaráðuneytið hefur aðalnámsskrá grunnskóla stöðugt til athugunar og endurskoðunar og gerir tillögur um breytingar þegar þörf er talin á. Menntamálaráðuneytið gefur aðalnámsskrá grunnskóla út eigi sjaldnar en fimmta hvert ár.

50. gr.

     Í 8.–10. bekk mega námsgreinar vera að hluta frjálst val nemenda. Verja má allt að helmingi námstímans á hverju skólaári í valgreinar. Heimilt er að meta tímabundna þátttöku nemenda í atvinnulífinu á skólatíma sem nám, enda sé það skipulagt í samráði við skólann.
     Menntamálaráðuneytið setur nánari reglur um valgreinar.

51. gr.

     Kennsla er veitt ókeypis í öllum opinberum grunnskólum.
     Ríkið sér nemendum í skyldunámi fyrir ókeypis námsgögnum. Námsgagnastjórn ákveður hvort þau eru afhent nemendum til eignar eða afnota.
     Námsbækur og önnur námsgögn, sem skólar nota, skulu vera í samræmi við gildandi lög og aðalnámsskrá. Vafamálum um hvort námsgögn uppfylla skilyrði laga og aðalnámsskrár má skjóta til sérstakrar nefndar sem skipuð skal einum fulltrúa frá Kennaraháskóla Íslands, einum fulltrúa frá Háskóla Íslands og einum fulltrúa frá Landssamtökum foreldrafélaga. Nefndin gefur út fullnaðarúrskurð í málum sem til hennar er skotið.
     Ekki er heimilt að krefja nemendur í skyldunámi um greiðslu fyrir kennslu, námsgögn og annað efni sem þeim er gert skylt að nota samkvæmt lögum þessum og ríki og sveitarfélög eiga að leggja til.
     Menntamálaráðuneytið setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

52. gr.

     Í öllum grunnskólum skal nemendum gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi á vegum skólans. Tómstunda- og félagsstarf getur bæði verið liður í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma.
     Í félagsstarfi skal m.a. að því stefnt að nemendur verði færir um að taka að sér félagsleg störf í þjóðfélaginu.
     Kostnaður við félagsstörf greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi.

VII. KAFLI
Réttindi og skyldur nemenda.

53. gr.

     Börnum og unglingum er skylt að sækja grunnskóla fái þau ekki hliðstæða kennslu annars staðar, sbr. 7. og 73. gr. þessara laga.
     Skólaskylda barns hefst við upphaf skólaárs á því almanaksári sem barnið verður sex ára. Foreldrar eða forráðamenn barns geta sótt um eða samþykkt að það hefji skólagöngu fyrr eða síðar en segir í lögum þessum um skólaskyldu sex ára barna. Skólastjóri getur veitt slíka heimild, að fengnum meðmælum hlutaðeigandi fræðsluskrifstofu.
     Ljúki nemandi öllu námi grunnskóla með tilskyldum árangri á skemmri tíma en tíu árum telst hann hafa lokið skyldunámi.
     Að höfðu samráði við foreldra eða forráðamenn, auk skólastjóra, getur fræðslustjóri heimilað nemanda að hverfa frá grunnskólanámi að loknum 9. bekk í allt að eitt ár vegna þátttöku í atvinnulífi og lýkur nemandi þá grunnskólanámi þeim mun síðar. Heimilt skal að meta þessa þátttöku nemandans í atvinnulífi til jafns við nám í tilteknum valgreinum 10. bekkjar.

54. gr.

     Börn og unglingar, sem að dómi kennara og annarra sérfræðinga skóla og fræðsluskrifstofu þurfa sérkennslu vegna erfiðleika í námi, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, eiga rétt á kennslu við sitt hæfi, sbr. 2. gr.
     Kennslan getur verið einstaklingsbundin eða farið fram í hópi innan eða utan almennra bekkjardeilda, í sérstökum deildum eða í sérskóla.
     Meginstefnan skal vera sú að kennslan fari fram í heimaskóla.
     Telji foreldrar barns eða forráðamenn, kennarar eða aðrir sérfræðingar skóla og fræðsluskrifstofu að barnið fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í heimaskóla geta forráðamenn sótt um skólavist fyrir það í sérskóla. Heimilt er að fela sérskóla að annast kennslu fatlaðra barna undir skólaskyldualdri, enda verði kennsla við hæfi þeirra ekki tryggð með öðrum hætti.
     Sérmenntaðir kennarar skulu annast kennsluna þar sem því verður við komið.
     Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um sérkennslu í grunnskólum.
     Menntamálaráðuneytið skal gera heildaráætlun um skipulag og framkvæmd sérkennslu í landinu.

55. gr.

     Í grunnskóla er heimilt að stofna nemendaverndarráð til að samræma störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda varðandi sérkennslu, námsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og heilsugæslu.
     Setja skal reglur um nemendaverndarráð.

56. gr.

     Á starfstíma skólans má nemandi ekki stunda vinnu utan hans valdi hún því að nemandinn geti ekki rækt nám sitt sem skyldi eða notið nauðsynlegrar hvíldar að dómi skólastjóra og kennara. Í slíkum tilvikum skal skólastjóri gera nemandanum, forráðamanni hans og hlutaðeigandi vinnuveitanda viðvart. Verði ekki bót á ráðin skal vísa málinu til fræðslustjóra. Vilji forráðamaður barnsins ekki hlíta ákvörðun fræðslustjóra getur hvor aðili um sig vísað málinu til barnaverndarnefndar.

57. gr.

     Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla í öllu því er skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisvenjum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.
     Ef nemanda reynist verulega áfátt í hegðun ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og forráðamenn hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans.
     Meðan mál skv. 2. mgr. eru óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir, enda tilkynni hann forráðamönnum nemanda og fræðslustjóra tafarlaust þá ákvörðun. Takist ekki að leysa málið innan skólans tekur fræðslustjóri það til meðferðar í samráði við skólanefnd.
     Óheimilt er að víkja nemanda úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað úrræði.
     Í reglugerð skal mæla nánar fyrir um framkvæmd þessarar greinar.

VIII. KAFLI
Kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónusta.

58. gr.

     Fræðsluskrifstofa skal veita kennsluráðgjöf til leiðbeiningar kennurum í almennri kennslu og sérkennslu. Hún hefur faglega umsjón og eftirlit með nýbreytni- og þróunarstarfi og sérkennslu í grunnskólum umdæmisins.

59. gr.

     Á fræðsluskrifstofu skal halda uppi sálfræðiþjónustu. Eftir ósk foreldra, kennara og heilsugæslu skóla skal hún annast athuganir á nemendum sem annaðhvort eiga í sálrænum, tilfinningalegum, félagslegum eða öðrum skyldum erfiðleikum og nýtast ekki hæfileikar sínir í námi og starfi. Sálfræðiþjónusta leiðbeinir foreldrum og starfsmönnum skóla um uppeldi þessara nemenda og tekur þá sem með þurfa til greiningar eða vísar þeim á viðeigandi meðferð. Hún skal annast rannsóknir og athuganir á þessu sviði, vinna að forvörnum og stuðla að því að sálfræðileg þekking nýtist í skólastarfi.
     Menntamálaráðuneytinu er heimilt að fela fræðsluskrifstofu að annast sálfræðiþjónustu á öðrum skólastigum, enda sé veitt til þess fé í fjárlögum.

60. gr.

     Á fræðsluskrifstofu eða í tengslum við hana er heimilt að reka kennslugagnamiðstöð og veita sérfræðilega ráðgjöf og þjónustu við stofnun og rekstur skólasafna.

61. gr.

     Fræðslustjóri gerir heildaráætlun fyrir sérfræðiþjónustu í fræðsluumdæminu. Þjónustan skal ná til allra grunnskóla og skal skipulögð miðað við aðstæður á hverjum stað. Heimilt er að fella alla þessa þjónustu í eina heild. Einnig er heimilt að reka hluta hennar utan fræðsluskrifstofu.
     Ákveða skal í reglugerð lágmarkssérfræðiþjónustu á fræðsluskrifstofum og fjölda starfsmanna og menntun þeirra.

62. gr.

     Forstöðumaður kennsluráðgjafar skal vera kennari með framhaldsmenntun í uppeldisfræðum. Forstöðumaður sálfræðiþjónustu skal vera sálfræðingur. Aðrir starfsmenn sérfræðiþjónustu fræðsluskrifstofa geta verið: kennarar, sérkennarar, uppeldisfræðingar, sálfræðingar, félagsráðgjafar eða aðrir sérfræðingar.
     Við ráðningu þess starfsfólks sem þessi grein tekur til skal taka tillit til reynslu og framhaldsmenntunar.
     Kostnaður við kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónustu greiðist úr ríkissjóði.

IX. KAFLI
Námsmat.

63. gr.

     Megintilgangur námsmats er örvun nemenda og námshjálp.
     Með námsmati í grunnskóla skal einnig reynt að afla sem öruggastrar og víðtækastrar vitneskju um það hver árangur hefur orðið af skólastarfinu. Hverjum kennara og skóla ber að fylgjast vandlega með því hvernig nemendum gengur að ná þeim námsmarkmiðum sem aðalnámsskrá og skólinn setja þeim, sbr. 48. og 49. gr. Námsmat fer ekki eingöngu fram í lok námstímans, heldur er það einn af föstum þáttum skólastarfsins, órjúfanlegt frá námi og kennslu.

64. gr.

     Námsmat í grunnskóla skal að jafnaði framkvæmt af kennurum skólans, sbr. þó 65. gr., og skulu nemendur stöðugt fá glöggar upplýsingar um námsárangur. Kennarar skulu gefa vitnisburð a.m.k. í lok hvers námsáfanga.
     Óheimilt er að veita upplýsingar um vitnisburði nemenda öðrum en þeim sjálfum og forráðamönnum þeirra, nema nauðsyn beri til vegna flutnings nemenda milli skóla. Þó skal heimilt að veita fræðsluyfirvöldum þessar upplýsingar og öðrum vegna fræðilegra rannsókna, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu.

65. gr.

     Menntamálaráðuneytið leggur grunnskólum til samræmd próf eða könnunarpróf. Skal einkum við það miðað að þessi próf veiti glögga vitneskju um árangur skólastarfsins.
     Kveða skal nánar á um fyrirkomulag prófanna og leiðbeiningar með þeim í reglugerð.

66. gr.

     Er grunnskólanámi lýkur skal nemandi fá skírteini er votti að hann hafi lokið skyldunámi samkvæmt lögum. Í skírteinið skal skrá vitnisburð í þeim námsgreinum er nemandi lagði stund á í 10. bekk.

67. gr.

     Menntamálaráðuneytið skipar prófdómara við samræmt námsmat, svo og trúnaðarmenn til aðstoðar við framkvæmd samræmdra prófa.
     Nánari ákvæði um tilhögun námsmats setur ráðuneytið í reglugerð. Þar skal og setja ákvæði um hvernig fylgst verði með námi þeirra nemenda á skólaskyldualdri sem eigi sækja almennan grunnskóla.

X. KAFLI
Skólaþróun, tilraunaskólar.

68. gr.

     Menntamálaráðuneytið hefur með höndum gerð áætlana um umbætur í skólastarfi, hefur yfirumsjón með þróunar- og tilraunastarfi í skólum, sér um endurskoðun aðalnámsskrár og hefur með höndum mat á skólum, skólastarfi og námsgögnum. Það veitir upplýsingar og leiðbeiningar um skólamál.
     Til þessara starfa skulu, auk fastráðinna starfsmanna, ráðnir sérfræðingar til allt að fjögurra ára í senn. Við ráðningu þeirra skal tekið tillit til kennslufræðilegrar menntunar og kennslureynslu.

69. gr.

     Árlega skal veita fé á fjárlögum í Þróunarsjóð grunnskóla. Menntamálaráðuneytið hefur umsjón með sjóðnum og setur reglur um styrkveitingar.

70. gr.

     Menntamálaráðuneytið getur veitt einstökum fræðsluumdæmum, skólahverfum og opinberum kennslustofnunum heimild til að reka tilraunaskóla eða gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga og reglugerða, svo sem um nám, starfstíma skóla, kennslutilhögun, stundafjölda o.s.frv., enda brjóti slíkar undanþágur ekki í bága við 2. gr. þessara laga eða þrengi hlutverk grunnskóla frá því sem þar er gert ráð fyrir.
     Menntamálaráðuneytinu er heimilt að styrkja tilraunaskóla og sérstakar nýjungar eftir því sem fjárlög heimila hverju sinni.

XI. KAFLI
Skólasöfn.

71. gr.

     Í hverjum grunnskóla skal vera skólasafn. Heimilt er þó að sameina almenningsbókasafn og skólasafn ef það rýrir ekki gildi safnsins fyrir skólann, forstöðumenn beggja telja slíkt æskilegt og menntamálaráðuneytið samþykkir.
     Að skólasöfnum skal þannig búið að því er varðar húsnæði, bókakost, önnur námsgögn og starfslið að þau geti gegnt því hlutverki að vera eitt af meginhjálpartækjum í skólastarfinu.
     Nánari ákvæði um skólasöfn, starfshætti, starfslið og menntun þess setur menntamálaráðuneytið í reglugerð.

XII. KAFLI
Heilsugæsla.

72. gr.

     Um heilsugæslu í grunnskólum fer eftir gildandi lögum um heilbrigðisþjónustu. Yfirlæknir heilsugæslustöðvar skólahverfis skal hafa samráð við skólanefnd og skólastjóra um skipulagningu og fyrirkomulag heilsugæslu.
     Skólastjóra ber að fylgjast með því að nemendur njóti heilsugæslu í skólanum í samræmi við þá tilhögun sem ákveðin hefur verið skv. 1. mgr.

XIII. KAFLI
Einkaskólar.

73. gr.

     Menntamálaráðuneytinu er heimilt að löggilda grunnskóla eða hluta grunnskóla, sbr. 3. gr., sem kostaðir eru af einstökum mönnum eða stofnunum, ef þeir starfa samkvæmt reglugerð eða skipulagsskrá sem ráðuneytið staðfestir, enda hlíti slíkir skólar sama eftirliti og reglum og aðrir grunnskólar. Börn, sem þessa einkaskóla sækja, hafa undanþágu skv. 7. gr., en forstöðumaður skal fyrir upphaf hvers skólaárs senda hlutaðeigandi skólanefnd og fræðslustjóra skrá um nemendur og tilkynna sömu aðilum allar breytingar á nemendaskrá jafnóðum og þær verða.
     Einkaskólar eiga ekki kröfu til styrks af almannafé.

XIV. KAFLI
Fjármál.

74. gr.

     Ríkissjóður greiðir launakostnað vegna almennrar kennslu í grunnskólum skv. 46., 48., 49. og 50. gr. með þeirri skólaskipan sem ákveðin er í hverju skólahverfi skv. 17. gr.
     Fjölda kennslustunda sem ríkissjóður greiðir skal miða við heildarfjölda nemenda er stunda nám samtímis í grunnskólum hvers skólahverfis skv. 75. og 76. gr.
     Að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins er heimilt að víkja frá þeim meginreglum, sem um getur í 1. og 2. mgr., þar sem fleiri en einn grunnskóli eða útibú eru í sama skólahverfi. Skal þá tekið mið af eðlilegri skólasókn eftir búsetu nemenda og staðsetningu skóla innan skólahverfis.

75. gr.

     Að jafnaði skal við það miðað að nemendur í hverri bekkjardeild í grunnskóla séu ekki fleiri en 24 eftir að frá hafa verið taldir sérbekkir fyrir nemendur sem ekki stunda nám í almennum bekkjum grunnskóla.
     Við ákvörðun fjölda kennslustunda, sem ríkissjóður greiðir í hverjum skóla, skal miða við að í 2.–3. bekk séu nemendur í einstökum bekkjardeildum ekki fleiri en 22 og í 4.–10. bekk ekki fleiri en 28. Í 1. bekk séu nemendur í einstökum bekkjardeildum ekki fleiri en 18.

76. gr.

     Í fámennum skólum, þar sem aldursflokkar í 1.–8. bekk eru saman í deild, skal við það miðað að nemendur í bekkjardeild séu ekki fleiri en hér segir:
  1. 8 nemendur ef aldursflokkar eru fleiri en fjórir,
  2. 12 nemendur ef aldursflokkar eru fjórir,
  3. 17 nemendur ef aldursflokkar eru þrír,
  4. 22 nemendur ef aldursflokkar eru tveir.

     Þegar sérstaklega stendur á getur fræðslustjóri ákveðið fjölgun um allt að fjóra nemendur í bekkjardeild gegn aukinni kennslu með fjölgun tíma.
     Í 9. og 10. bekk skal miða við að deildir séu eigi færri en aldursflokkar þeir sem sækja þessa bekki skólans. Til þess að 9. og 10. bekk grunnskóla verði haldið uppi í skólahverfi mega nemendur í þessum deildum þó ekki vera færri en 12 að meðaltali, nema að fenginni heimild menntamálaráðuneytisins.

77. gr.

     Heimilt er að blanda saman bekkjardeildum og aldurshópum ef skólinn telur sig þannig ná betur markmiðum aðalnámsskrár og sérstökum markmiðum skólans, enda sé kennslustundafjöldi innan samþykktra marka.
     Menntamálaráðuneytið setur reglur um greiðslur vegna skiptingar bekkjardeilda, m.a. í verklegri kennslu og valgreinum í 8.–10. bekk, og um undanþágur sem veittar eru skv. 3. mgr. 76. gr.

78. gr.

     Auk almennrar kennslu greiðir ríkissjóður kennslukostnað vegna viðurkenndrar forfallakennslu, sjúkrakennslu og sérkennslu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
     Samþykki viðkomandi skólanefnd og sveitarstjórn að kennslustundir og aðrar starfsstundir við skóla séu fleiri en samrýmist ákvæðum þessarar greinar, 74. og 79. gr. greiðist kostnaður vegna umframstundanna úr sveitarsjóði, nema menntamálaráðuneytið hafi heimilað annað.

79. gr.

     Auk kostnaðar við kennslu skv. 74. og 78. gr. greiðir ríkissjóður launakostnað við stjórnun grunnskóla, námsráðgjöf og störf í skólasafni samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð, svo og þann launakostnað er stafar af lækkun kennsluskyldu kennara samkvæmt lagafyrirmælum eða ákvörðun menntamálaráðuneytis.
     Ríkissjóður greiðir enn fremur laun stjórnskipaðra prófdómara og kostnað er leiðir af kjarasamningum ríkisins við kennara.

80. gr.

     Sveitarfélög greiða allan annan rekstrarkostnað grunnskóla en laun vegna kennslu og stjórnunar eða kostnað vegna annarra þeirra rekstrarþátta sem greindir eru í lögum þessum sem verkefni ríkissjóðs.
     Sveitarfélög greiða m.a. efni til verklegrar kennslu, svo og pappír og ritföng sem notuð eru í sameiginlegri starfsemi skólans og eru í hans vörslu.

81. gr.

     Skólastjóri skal árlega gera áætlun fyrir skóla sinn um fyrirkomulag kennslu, kennslustundafjölda og annan kostnað sem ríkissjóður og sveitarsjóður bera. Áætlunina skal miða við komandi skólaár. Áætlun þessa skal leggja fyrir skólanefnd og skal hún að því er fjármál sveitarfélaga varðar hljóta samþykki sveitarstjórnar áður en hún er send fræðslustjóra fyrir 15. apríl ár hvert eða annan þann dag sem menntamálaráðuneytið ákveður. Áætlun þessa skal endurskoða við upphaf skólaárs ef þörf krefur.
     Áætlun fyrir fræðsluumdæmið í heild sendir fræðslustjóri til menntamálaráðuneytisins á þeim tíma sem ráðuneytið ákveður.

82. gr.

     Menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með framkvæmd þessara laga.
     Hlutaðeigandi sveitarfélög annast fjármál og reikningshald, en geta falið skólanefnd, skólastjóra eða sérstökum reikningshaldara að hafa á hendi reikningshald í umboði sínu.
     Reikningar skólanna skulu endurskoðaðir á sama hátt og reikningar hlutaðeigandi sveitarfélaga. Þar sem fleiri sveitarfélög en eitt standa að rekstri grunnskóla skulu hlutaðeigandi sveitarstjórnir sameiginlega tilnefna til fjögurra ára í senn tvo fulltrúa til að endurskoða reikninga skólans og tvo til vara. Menntamálaráðuneytið og aðilar í umboði þess skulu eiga aðgang að öllu slíku reikningshaldi og upplýsingum um skólakostnað.

83. gr.

     Ríkissjóður greiðir allan kostnað af rekstri fræðsluskrifstofu, þar með talinn allan kostnað við kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónustu í þeim skólum sem lög þessi taka til. Fjárveitingar til þessara starfa skulu greiddar mánaðarlega til fræðsluskrifstofu.
     Í reglugerð skal setja ákvæði um hvernig reikna skuli framlög til fræðsluskrifstofu.

84. gr.

     Sveitarfélög greiða stofnkostnað grunnskóla, sbr. 24. gr. Jafnframt falla úr gildi að því er tekur til grunnskóla ákvæði laga nr. 49/1967, um skólakostnað. Þó skulu haldast ákvæði þeirra laga um verðtryggingu stofnkostnaðarframlaga ríkissjóðs að því er tekur til framkvæmda sem fullgerðar voru eða hafnar í árslok 1989.
     Menntamálaráðuneytið setur reglur um lágmarksstærð grunnskólahúsnæðis og búnað þess.

XV. KAFLI
Gildistaka og reglugerð.

85. gr.

     Menntamálaráðuneytið setur nánari ákvæði í reglugerðir og reglur um framkvæmd laga þessara.

86. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1991 og jafnframt falla úr gildi lög um grunnskóla, nr. 63/1974, með áorðnum breytingum, lög nr. 13/1962, um heyrnleysingjaskóla, og önnur lagaákvæði sem fara í bága við lög þessi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ákvæði 46. gr. um lágmarks vikulegan kennslutíma á hvern nemenda komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laga þessara.
     Ákvæði 75. gr. um hámarksfjölda nemenda í 4.–10. bekk komi til framkvæmda á næstu þremur árum þannig að miðað verði við hámarkið 29 nemendur skólaárið 1991–92 og hámarkið 28 nemendur skólaárið 1992–93. Ákvæði 75. gr. um fjölda nemenda í 1.–3. bekk komi til framkvæmda á næstu þremur árum þannig að skólaárið 1991–92 verði miðað við hámark 22 nemendur í 1. og 2. bekk og skólaárið 1992–93 verði miðað við hámark 22 nemendur í 2.–3. bekk en 18 nemendur í 1. bekk.
     Ákvæði 35. gr. um námsráðgjafa við einstaka grunnskóla eða fræðsluskrifstofu komi til framkvæmda á næstu fimm árum frá gildistöku laganna samkvæmt ákvörðun í fjárlögum hverju sinni.
     Stefnt skal að því að ákvæði 3. gr. um einsetinn skóla komi að fullu til framkvæmda á næstu tíu árum frá gildistöku laganna samkvæmt áætlun sem unnin yrði í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt verði á því árabili jafnt og þétt aukið við kennslutíma grunnskólanemenda þannig að við lok tímabilsins verði vikulegur stundafjöldi í samræmi við það sem segir í 46. gr., skóladagur samfelldur og nemendur eigi kost á skólamáltíðum.
     Ákvæði 4. gr. um málsverði á skólatíma komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laga þessara.
     Til viðbótar því sem kveðið er á um í 78. og 79. gr. skulu þeir grunnskólar, sem ríkið rekur fyrir fötluð börn (sérskólar), vera reknir á vegum þess þar til grunnskólar geta veitt fötluðum nemendum sambærilega eða betri þjónustu.
     Að fimm árum liðnum frá gildistöku laga þessara skal menntamálaráðherra gera Alþingi grein fyrir framkvæmd og undirbúningi þeirra bráðabirgðaákvæða sem hér eru talin.

Samþykkt á Alþingi 20. mars 1991.