Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 338, 115. löggjafarþing 172. mál: eftirlaun til aldraðra (kostnaðarskipting o.fl.).
Lög nr. 80 23. desember 1991.

Lög um breyting á lögum um eftirlaun til aldraðra, nr. 2 14. febrúar 1985, sbr. lög nr. 130/1989.


1. gr.

     Í stað lokamálsliðar 1. mgr. 6. gr. laganna komi þrír nýir málsliðir er orðist svo: Frá 1. janúar 1992 skal í stað grundvallarlauna miða við grundvallarfjárhæð sem tengist lánskjaravísitölu þeirri sem Seðlabanki Íslands auglýsir með heimild í 39. gr. laga nr. 13/1979, með síðari breytingum. Grundvallarfjárhæð í janúar 1992 er 45.602 kr. miðað við þá lánskjaravísitölu sem gildir í þeim mánuði og tekur fjárhæðin sömu hlutfallsbreytingu í mánuði hverjum og lánskjaravísitalan. Verði gerð breyting á grundvelli eða útreikningi lánskjaravísitölu skal ráðherra, að fengnum tillögum umsjónarnefndar eftirlauna, ákveða hvernig stigagrundvelli og breytingum hans skuli háttað þaðan í frá.

2. gr.

     12. gr. laganna orðist svo:
     Eftirlaun skv. I. og II. kafla skiptast í ellilífeyri, örorkulífeyri og makalífeyri.
     Fjárhæð ellilífeyris í hverjum mánuði er hundraðshluti af grundvallarlaunum — frá 1. janúar 1992 grundvallarfjárhæð — eins og þau eru í byrjun hvers mánaðar og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem hlutaðeigandi hefur áunnið sér skv. 11. gr., margfölduðum með 1,8. Aldrei skal þó reiknað með færri stigum en 5. Til frádráttar ofangreindum stigafjölda skulu koma þau stig sem maðurinn hefur áunnið sér með greiðslum iðgjalda til lífeyrissjóðs, reiknuðum á sama hátt og segir í 2. mgr. 11. gr.
     Fjárhæð örorkulífeyris, miðað við 100% örorku, reiknast á sama hátt og ellilífeyrir með þeirri breytingu að auk áunninna stiga skal reikna þau stig sem ætla má að öryrkinn hefði áunnið sér fram til 70 ára aldurs, miðað við meðaltal stiga þrjú síðustu almanaksárin áður en hann varð öryrki. Sé orkutap minna en 100% greiðist örorkulífeyrir í hlutfalli við orkutapið. Örorkulífeyrir fellur niður við 70 ára aldur. Reiknast þá ellilífeyrir í samræmi við þann stigafjölda sem örorkulífeyrir miðast við.
     Fjárhæð makalífeyris í hverjum mánuði er hundraðshluti af grundvallarlaunum — frá 1. janúar 1992 grundvallarfjárhæð — eins og þau eru í byrjun hvers mánaðar og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem hinum látna var reiknaður að viðbættum 5 stigum. Falli maður frá áður en hann nær 70 ára aldri skal auk áunnina stiga reikna þau stig sem ætla má að hann hefði áunnið sér fram til 70 ára aldurs, miðað við meðaltal stiga þrjú síðustu almanaksárin áður en hann féll frá. Til frádráttar ofangreindum stigafjölda skulu koma þau stig sem maðurinn hefur áunnið sér með greiðslum iðgjalda til lífeyrissjóðs, reiknuðum á sama hátt og segir í 2. mgr. 11. gr.
     Verði það þriggja ára meðaltal stiga, sem um ræðir í 3. og 4. mgr., talið óhagstætt vegna sjúkdómsforfalla eða atvinnuleysis er heimilt að leggja til grundvallar meðaltal stiga fleiri ár aftur í tímann og sleppa úr meðaltalinu því almanaksári sem lakast er.
     Maður getur notið samtímis makalífeyris og elli- eða örorkulífeyris samkvæmt lögum þessum, enda sé heildarfjárhæð eftirlauna eigi hærri en sem svarar fjárhæð ellilífeyris fyrir 20 áunnin stig.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. og 4. mgr. er umsjónarnefnd eftirlauna heimilt að ákveða að í sérstökum tilvikum skuli stig, sem eftirlaunaþegi hefur áunnið sér með greiðslum iðgjalds til lífeyrissjóðs, ekki dregin frá heildarstigafjölda hans eða frádráttur þeirra takmarkaður. Með sérstökum tilvikum er átt við að lífeyrissjóður sá, sem veitti iðgjaldi viðtöku, sé gjaldþrota eða gjaldþol hans svo rýrt að hann hafi gripið til skerðingar á lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga.

3. gr.

     1. málsl. 14. gr. laganna orðist svo: Greiðslur eftirlauna úr ríkissjóði eða öðrum opinberum sjóðum koma til frádráttar greiðslum skv. 12. gr.

4. gr.

     16. gr. laganna orðist svo:
     Umsjónarnefnd eftirlauna úrskurðar eftirlaun samkvæmt lögum þessum. Hlutaðeigandi lífeyrissjóðir annast greiðslu eftirlauna skv. I. kafla, en umsjónarnefnd eftirlauna skv. II. kafla.
     Eftirlaun skulu ekki greidd lengra aftur en tvö ár, reiknuð frá lokum næsta mánaðar áður en umsókn barst umsjónarnefnd eftirlauna.

5. gr.

     4. mgr. 17. gr. laganna orðist svo:
     Kostnaði við störf nefndarinnar skal skipt á kostnaðaraðila í hlutfalli við útgjöld til greiðslu eftirlauna.

6. gr.

     Í stað „samkvæmt 14. gr.“ í 2. mgr. 18. gr. laganna komi: skv. 12. gr.

7. gr.

     19. gr. laganna orðist svo:
     Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi greiðslur til lífeyrissjóða og annarra aðila samkvæmt úthlutun og úrskurðum umsjónarnefndar eftirlauna, færir þau á viðskiptareikning nefndarinnar hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og krefur ríkissjóð og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um útgjaldahluta þeirra.

8. gr.

     20. gr. laganna orðist svo:
     Eftirlaunagreiðslur samkvæmt lögum þessum falla niður eigi síðar en 1. janúar 1997.

9. gr.

     Í stað IV. og V. kafla laganna, 21.–26. gr., komi nýr kafli, IV. KAFLI, Fjárhagsákvæði:
     a. (21. gr.)
     Kostnaður af eftirlaunum skv. I. kafla greiðist að 3/ 4 hlutum úr Atvinnuleysistryggingasjóði og að 1/ 4 hluta úr ríkissjóði.
     b. (22. gr.)
     Kostnaður af eftirlaunum skv. II. kafla greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að 1/ 4 hluta af Atvinnuleysistryggingasjóði og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hvorum um sig.
     c. (23. gr.)
     Þeim eftirlaunaþegum, sem njóta réttar skv. I. kafla laga þessara, skal greidd viðbót sem nemur þremur stigum umfram þann stigafjölda sem önnur ákvæði þessara laga kveða á um. Viðbót þessi skal greidd úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
     Viðbót samkvæmt þessari grein skerðir ekki þann rétt sem kveðið er á um í 6. mgr. 12. gr.
     Þegar um er að ræða rétt skv. 13. gr. laga þessara skal veita viðbót samkvæmt þessari grein í hlutfalli við þann rétt sem reiknaður er skv. I. kafla laganna.

10. gr.

     27. gr. laganna verði 24. gr. svohljóðandi:
     Lög þessi gilda frá 1. janúar 1992.
     Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög um eftirlaun til aldraða, nr. 2 14. febrúar 1985, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við endanlegt uppgjör á framlagi lífeyrissjóða til greiðslu sérstakrar uppbótar skv. I. kafla og greiðslur eftirlauna skv. II. kafla fyrir árið 1991 skal farið eftir áður gildandi reglum, sbr. lög nr. 2/1985 og 130/1989.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1991.