Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 406, 115. löggjafarþing 30. mál: lánsfjárlög 1992.
Lög nr. 2 24. janúar 1992.

Lánsfjárlög fyrir árið 1992.


I. KAFLI
Lántökur ríkissjóðs.

1. gr.

     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka að láni allt að 13.950 m.kr. á árinu 1992.

2. gr.

     Lánsfé skv. 1. gr. skal ráðstafað í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 1992 og þessara laga.

3. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt að endurlána allt að 5.095 m.kr. af fjárhæð skv. 1. gr. til eftirtalinna aðila:
  1. Lánasjóður íslenskra námsmanna, allt að 2.815 m.kr.
  2. Alþjóðaflugþjónustan, allt að 480 m.kr.
  3. Atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar, allt að 1.650 m.kr.
  4. Fiskeldisfyrirtæki, allt að 150 m.kr.

II. KAFLI
Ríkisábyrgðir.

4. gr.

     Eftirtöldum aðilum, sem heimild hafa í sérlögum til lántöku, er heimilt að nýta þær á árinu 1992, með þeim takmörkunum sem koma fram hér að neðan, sbr. 13. gr. laga nr. 84/1985, um breytingu á lögum nr. 52/1966, um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga:
  1. Landsvirkjun, allt að 845 m.kr., sbr. 14. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með áorðnum breytingum.
  2. Byggingarsjóður ríkisins, allt að 2.785 m.kr., sbr. 9. gr. laga nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með áorðnum breytingum.
  3. Byggingarsjóður verkamanna, allt að 5.640 m.kr., sbr. 64. gr. laga nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með áorðnum breytingum.
  4. Húsbréfadeild Byggingarsjóðs ríkisins, allt að 12.000 m.kr., sbr. 35. gr. laga nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með áorðnum breytingum.
  5. Stofnlánadeild landbúnaðarins, allt að 700 m.kr., sbr. 10. og 11. gr. laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, með áorðnum breytingum.
  6. Byggðastofnun, allt að 850 m.kr., sbr. 18. gr. laga nr. 64/1985, um Byggðastofnun, með áorðnum breytingum.
  7. Iðnlánasjóður, allt að 1.600 m.kr., sbr. 6. og 10. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð, með áorðnum breytingum.
  8. Ferðamálasjóður, allt að 130 m.kr., sbr. 27. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, með síðari breytingum.


5. gr.

     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántökur eftirtalinna aðila á árinu 1992:
  1. Herjólfur hf., allt að 400 m.kr. til smíði á nýrri ferju.
  2. Hitaveita Akureyrar, allt að 356 m.kr. til skuldbreytingar eldri lána.
  3. Bæjarveitur Vestmannaeyja, allt að 21 m.kr. til skuldbreytingar eldri lána.
  4. Skallagrímur hf., allt að 85 m.kr. til skuldbreytingar eldri lána.
  5. Rafmagnsveitur ríkisins, allt að 76 m.kr. til kaupa á eignum Hitaveitu Seyðisfjarðar.


6. gr.

      5. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, með síðari breytingum, orðast svo:
     Ríkissjóður ber eigi ábyrgð á þeim skuldbindingum sem Fiskveiðasjóður stofnar til eftir 1. mars 1992.

7. gr.

     Heimilt er að afnema ábyrgð ríkissjóðs á nýjum skuldbindingum sem Iðnþróunarsjóður stofnar til eftir gildistöku laga þessara, enda sé leitað eftir staðfestingu ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um viðeigandi breytingu á samningi um norrænan iðnþróunarsjóð fyrir Ísland, sbr. lög nr. 9/1970, með síðari breytingum.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.

8. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán að hluta eða öllu leyti í stað þess að veita ríkisábyrgð á lántökur þeirra aðila sem tilgreindir eru í 2.–4. tölul. 4. gr. og í 5. gr. og endurlána til þeirra með þeim kjörum og skilmálum sem hann ákveður.
     Erlendar lántökur þeirra aðila sem tilgreindir eru í 1. mgr. og ríkissjóðs mega nema allt að 8.581 m.kr. á árinu 1992.
     Frá hámarki því, er um getur í 2. mgr., má víkja svo fremi að nettó innstreymi erlends lánsfjár sé í samræmi við forsendur fjárlaga og lánsfjárlaga.

9. gr.

     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs getur heimilað þeim aðilum sem njóta ríkisábyrgðar á lántökum sínum:
  1. að taka lán í því skyni að endurgreiða fyrir gjalddaga eftirstöðvar eldri lána þegar hagstæðari kjör bjóðast,
  2. að stofna til skulda- og vaxtaskipta og nýta aðra möguleika sem bjóðast á markaði til þess að tryggja viðkomandi aðila gegn verulegum vaxtabreytingum,
  3. að taka ný lán til endurgreiðslu skammtímalána, sem tekin voru á grundvelli heimilda í II. kafla, að hluta eða öllu leyti án þess að lánssamningur um þau falli úr gildi, enda sé ekki dregið á slíka lánssamninga að nýju nema lagaheimild liggi fyrir.


10. gr.

     Hyggist aðilar, sem njóta ríkisábyrgðar á lántökum sínum, nýta heimildir II. kafla eða 9. gr. skulu þeir gæta ákvæða 2. mgr. 7. gr. laga nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins.

11. gr.

     Yfirtekin lán, ábyrgðir veittar á lántökum þriðja aðila og milliganga um töku erlendra lána fyrir innlenda aðila á grundvelli auglýsingar viðskiptaráðuneytis, nú nr. 314/1990, um erlendar lántökur og leigusamninga vegna innflutnings á vélum, tækjum og búnaði til atvinnurekstrar, eða annarra heimilda veittra einstökum fyrirtækjum, teljast til lántöku og skulu rúmast innan þeirra heimilda sem tilgreindar eru í II. kafla.

12. gr.

     Erlendar fjárhæðir skulu miðast við kaupgengi íslensku krónunnar samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi lánsfjárlaga.

13. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að yfirtaka skuldir Framkvæmdasjóðs Íslands að fjárhæð allt að 1.700 m.kr.

14. gr.

     Lántökuheimildir og heimildir til veitingar ríkisábyrgða, sem tilgreindar eru í I.–III. kafla, gilda á árinu 1992. Heimildir samkvæmt lögum þessum verða þó nýttar til 1. apríl 1993 standi sérstaklega á og samþykki fjármálaráðherra komi til.

15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 23. janúar 1992.