Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 475, 115. löggjafarþing 217. mál: framleiðsla og sala á búvörum (breytingar vegna búvörusamnings).
Lög nr. 5 28. febrúar 1992.

Lög um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð:
      Efri og neðri mörk greiðslumarks eru leyfileg fráviksmörk framleiðslu á lögbýli frá greiðslumarki býlisins án þess að frávikið valdi breytingu á beinum greiðslum úr ríkissjóði.
      Greiðslumark lögbýlis er tiltekið magn kindakjöts, mælt í kílógrömmum, sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli samkvæmt búvörusamningi og veitir rétt til beinnar greiðslu úr ríkissjóði.
      Heildargreiðslumark sauðfjárafurða er tiltekið magn kindakjöts, mælt í tonnum, sem ákveðið er samkvæmt búvörusamningi með tilliti til heildarneyslu innan lands og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.

2. gr.

     Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við gerð verðlagsgrundvallar skulu beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda teljast til tekna og koma til lækkunar á afurðaverði þeirra afurða sem beinar greiðslur taka til.

3. gr.

     Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verði 2. mgr., svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðlagsnefnd heimilt að víkja frá því að gera ársfjórðungslega breytingu á verðlagsgrundvelli og afurðaverði til framleiðenda, að hluta eða öllu leyti. Þrátt fyrir ákvæði 8.–10. gr. er verðlagsnefnd heimilt við ákvörðun á nýjum verðlagsgrundvelli að semja um tilteknar fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur á gildistíma grundvallarins. Verðlagsnefnd er heimilt við ákvörðun og breytingar á verðlagsgrundvelli og afurðaverði til framleiðenda að víkja frá ákvæðum 8.–10. gr. og 1. mgr. 12. gr. og breyta einstökum liðum og verði einstakra afurða, enda sé um það fullt samkomulag innan nefndarinnar.

4. gr.

     Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verði 3. mgr., svohljóðandi:
     Fimmmannanefnd er, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., heimilt í samkomulagi um heildsöluverð að gera tilteknar fyrir fram ákveðnar framleiðnikröfur til afurðastöðva, enda sé það samhljóða ákvörðun nefndarinnar.

5. gr.

     Við 29. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Á meðan ákvæði IX. kafla um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda sauðfjárafurða eru í gildi eða ef samið hefur verið um slíkar greiðslur til framleiðenda mjólkur- og sauðfjárafurða samkvæmt heimild í a-lið 30. gr. gilda ákvæði þessarar greinar um greiðslur afurðastöðvar fyrir innlagðar afurðir allt að efri mörkum greiðslumarks lögbýlis. Sama gildir um slátur, gærur og ull vegna þeirrar framleiðslu.
     Áður en afurðastöð kaupir eða tekur til sölumeðferðar sauðfjárafurðir umfram efri mörk greiðslumarks framleiðanda skal gert sérstakt samkomulag milli afurðastöðvar og framleiðanda um slátrun, afurðaverð og greiðslu þess, eftir því sem við á. Samsvarandi magn afurða skal markaðsfært erlendis á ábyrgð viðkomandi aðila. Þó getur Framleiðsluráð landbúnaðarins heimilað sölu þeirra innan lands ef framleiðsla verður minni en sala.
     Hafi verið tekin ákvörðun um verðskerðingu vegna birgðasöfnunar í lok verðlagsárs skv. 44. gr. er afurðastöð skylt að halda henni eftir við uppgjör til framleiðenda á næsta verðlagsári og standa Framleiðsluráði landbúnaðarins skil á hinu innheimta verðskerðingarfé.

6. gr.

     Við a-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist: Á sama hátt er landbúnaðarráðherra heimilt í stað ofannefndra samninga að semja um beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda mjólkur- og sauðfjárafurða á lögbýlum.

7. gr.

     Á eftir VIII. kafla laganna kemur nýr kafli, sem verður IX. kafli, með fyrirsögninni Um aðlögun og stjórn framleiðslu sauðfjárafurða 1991–1998, og breytist kafla- og greinatala í lögunum til samræmis við það. Kaflinn orðast svo:
     
     a. (39. gr.)
     Frá 1. maí 1991 til 31. ágúst 1992 skal laga fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða að innanlandsmarkaði með því að ríkissjóði er heimilt að greiða fyrir fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða allt að 3.700 tonnum og greiða förgunarbætur vegna fækkunar áa eftir nánari ákvörðun í reglugerð.
     Framleiðendur sauðfjárafurða á lögbýlum geta fram til 31. ágúst 1992 haft aðilaskipti að fullvirðisrétti, enda séu uppfyllt skilyrði þau sem ráðherra setur í reglugerð. Ríkissjóði er við slík aðilaskipti heimilt samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra að fella niður allt að 20% fullvirðisréttarins gegn greiðslu eftir nánari ákvörðun í reglugerð.
     Eigendum lögbýla er heimilt að leggja fullvirðisrétt/greiðslumark lögbýlisins inn til geymslu til 31. ágúst 1998 án þess að það veiti hlutdeild í heildargreiðslumarki á tímabilinu og greiðir ríkissjóður þá förgunarbætur vegna fækkunar áa.
     Fullvirðisréttur utan lögbýla, sem ekki hefur verið boðinn ríkissjóði skv. 1. mgr. fyrir 1. september 1992, skal falla niður.
     Takist ekki eftir ofangreindum leiðum að laga fullvirðisréttinn að innanlandsmarkaði skal færa fullvirðisrétt miðað við 31. ágúst 1992 niður um það sem á vantar og komi greiðsla fyrir eftir nánari ákvörðun í reglugerð. Við lok aðlögunar fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði skal miða við að hann verði í samræmi við heildargreiðslumark verðlagsársins 1993/1994, sbr. þó 1. mgr. Landbúnaðarráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð, að höfðu samráði við Stéttarsamband bænda, að niðurfærsla skuli vera mismunandi eftir landsvæðum. Jafnframt er heimilt að undanþiggja einstaka framleiðendur niðurfærslu að því marki sem þegar gerðir samningar við ríkissjóð kveða á um.
     Áður en greiðslur ríkissjóðs fyrir fullvirðisrétt og förgun bústofns verða inntar af hendi skal liggja fyrir staðfesting þess að ám hafi verið fargað og að ásetningur haustin 1991 og 1992 verði í samræmi við umsamda fækkun og niðurfærslu.
     
     b. (40. gr.)
     Heildargreiðslumark sauðfjárafurða er tiltekið magn kindakjöts, reiknað í tonnum, sem beinar greiðslur ríkissjóðs miðast við. Heildargreiðslumark skiptist í greiðslumark lögbýla. Það skal endanlega ákveðið fyrir 15. september ár hvert vegna framleiðslu næsta verðlagsárs, en verður 8.600 tonn verðlagsárið 1992–1993.
     Við ákvörðun heildargreiðslumarks skal byggt á neyslu síðasta almanaksárs og söluþróun fyrstu sex mánuði yfirstandandi árs. Heimilt er einnig að taka tillit til líklegrar neysluþróunar á komandi ári. Þá skal tekið tillit til birgða 1. september þannig að þær samsvari þriggja vikna sölu innan lands. Til neyslu telst öll sala kindakjöts frá afurðastöð á innlendum markaði, svo og það kindakjöt sem framleiðendur taka úr sláturhúsi.
     Landbúnaðarráðherra skal, að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, ákveða heildargreiðslumark fyrir hvert verðlagsár og setja í reglugerð nánari ákvæði um skiptingu í greiðslumark lögbýla.
     
     c. (41. gr.)
     Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Framleiðsluráð landbúnaðarins skal halda skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beinna greiðslna samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega.
     Greiðslumark hvers lögbýlis fyrir verðlagsárið 1992–1993 skal vera í hlutfalli við fullvirðisrétt þess eins og hann er að loknum 1. hluta aðlögunar fullvirðisréttar að innanlandsmarkaði að teknu tilliti til aðilaskipta að fullvirðisrétti fram til 31. ágúst 1992. Heimilt er að binda greiðslumark verðlagsársins 1992–1993 við tiltekinn ásetning sauðfjár á hverju lögbýli.
     Greiðslumark hvers lögbýlis verðlagsárið 1993–1994 skal vera í hlutfalli við fullvirðisrétt þess að lokinni aðlögun að innanlandsmarkaði 31. ágúst 1992 að teknu tilliti til aðilaskipta að fullvirðisrétti.
     Við ákvörðun greiðslumarks ofannefndra verðlagsára er heimilt að taka tillit til fullvirðisréttar sem bundinn er í samningum og heimtekins kjöts haustin 1990 og 1991.
     Greiðslumark þaðan í frá breytist í hlutfalli við breytingar á heildargreiðslumarki.
     Fari framleiðsla á lögbýlinu umfram efri mörk greiðslumarks þess, án sérstaks samkomulags við afurðastöð, skal það sem umfram er og ekki rúmast innan heildargreiðslumarks koma til lækkunar á greiðslumarki þess á næsta verðlagsári. Þá er heimilt að skerða greiðslumarkið um allt að 0,5 kg fyrir hvert framleitt kílógramm umfram efri mörk.
     
     d. (42. gr.)
     Frá 1. september 1992 eru heimil aðilaskipti greiðslumarks á milli lögbýla, enda séu uppfyllt skilyrði þau sem ráðherra setur í reglugerð. Slík aðilaskipti taka ekki gildi fyrr en staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins liggur fyrir. Sé ábúandi lögbýlis annar en eigandi þess þarf samþykki beggja fyrir aðilaskiptum að greiðslumarki frá lögbýli.
     Leiguliða er heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýlið og skal það skráð sérstaklega á nafn hans. Nú vill leiguliði selja slíkt greiðslumark og skal jarðareigandi eiga forkaupsrétt að greiðslumarkinu. Tilkynna skal jarðareiganda um fyrirhugaða sölu, verð og greiðsluskilmála og hann skal hafa sagt til um það innan 30 daga frá því tilkynning barst honum hvort hann ætlar að neyta forkaupsréttar.
     Landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um aðilaskipti með greiðslumark og skráningu þess. Ef hætta skapast á að tilfærsla á greiðslumarki gangi gegn æskilegum landnýtingarsjónarmiðum er landbúnaðarráðherra heimilt að takmarka eða stöðva slík aðilaskipti að höfðu samráði við umhverfisráðuneytið. Sama gildir ef fyrir liggur rökstutt álit Landgræðslu ríkisins um að hin fyrirhuguðu aðilaskipti fari í bága við gróðurverndarsjónarmið.
     
     e. (43. gr.)
     Bein greiðsla er framlag úr ríkissjóði til framleiðanda sauðfjárafurða og skal svara til 50% af framleiðslukostnaði kindakjöts. Það greiðist samkvæmt greiðslumarki hvers lögbýlis.
     Beinar greiðslur skulu greiðast mánaðarlega á tímabilinu frá mars til desember fyrir það verðlagsár sem hefst 1. september það ár, í fyrsta sinn í mars 1992. Fullnaðargreiðsla skal innt af hendi eigi síðar en 15. desember. Heimilt er að binda beinar greiðslur við tiltekinn ásetning sauðfjár á lögbýlinu.
     Beinar greiðslur breytast ekki þegar framleiðsla á lögbýlinu er 80–105% af greiðslumarki þess verðlagsárið 1992–1993. Þó er heimilt að greiða beinar greiðslur út á framleiðslu allt að efri mörkum greiðslumarks við lokauppgjör enda rúmist þær greiðslur innan heildargreiðslumarks ársins. Fráviksmörk þessi, þ.e. efri og neðri mörk greiðslumarks, skulu endurskoðuð árlega með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Nái framleiðsla ekki tilskildu hlutfalli greiðslumarks skerðast beinar greiðslur ársins hlutfallslega frá því marki sem sett er hverju sinni. Heimilt er að víkja frá framangreindu ákvæði vegna fjárskiptasamninga á vegum sauðfjárveikivarna. Heimilt er að telja sölu líffjár til framleiðslu. Heimilt er að skerða eða fella niður beinar greiðslur ef framleiðandi hefur gerst sekur um ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé.
     Landbúnaðarráðherra skal að fengnum tillögum Framleiðsluráðs setja nánari reglur um beinar greiðslur, m.a. um framkvæmd þeirra, viðmiðun við framleiðslukostnað og gæðaflokkun, hlutfall nýtingar til að fá fulla beina greiðslu og greiðslutilhögun.
     
     f. (44. gr.)
     Framleiðsla innan heildargreiðslumarks skal notuð til að fullnægja þörfum innlenda markaðarins. Verði birgðir kindakjöts í lok verðlagsárs umfram þriggja vikna sölu skulu þær markaðsfærðar innan lands eða utan með markaðsstuðningi sem kostaður skal með innheimtu verðskerðingar hjá framleiðendum kindakjöts við slátrun og innlegg á því verðlagsári sem birgðirnar verða markaðsfærðar. Verðskerðing þessi má vera allt að 5% af afurðaverði kindakjöts til framleiðenda eftir nánari ákvörðun landbúnaðarráðherra í reglugerð sem hann setur að fengnum tillögum Framleiðsluráðs landbúnaðarins, en það ákveður, að höfðu samráði við samtök sauðfjárframleiðenda og afurðastöðva, hvernig birgðunum skuli ráðstafað og er afurðastöðvum, framleiðendum og öðrum sem kunna að eiga umrætt kjöt skylt að lúta ákvörðun Framleiðsluráðs. Ákvæði 24., 26. og 27. gr. gilda um innheimtu verðskerðingar.
     Þá er heimilt með samkomulagi landbúnaðarráðherra og Stéttarsambands bænda að ákveða sérstaka lækkun á heildargreiðslumarki næsta verðlagsárs til að koma birgðastöðu í jafnvægi á allt að tveimur árum. Fjármunum, sem sparast vegna þessa, skal varið til söluátaks á birgðunum innan lands.
     Ríkissjóður ábyrgist að birgðir 1. september 1992 verði ekki umfram áætlaða þriggja vikna neyslu, þ.e. 500 tonn, og mun bera kostnað af markaðsfærslu á birgðum umfram þau mörk.
     
     g. (45. gr.)
     Ágreiningi um ákvörðun á greiðslumarki lögbýlis, skráningu á greiðslumarki, rétt til beinna greiðslna og framkvæmd verðskerðingar samkvæmt þessum kafla og reglugerðum þar um er heimilt að skjóta til þriggja manna úrskurðarnefndar sem landbúnaðarráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Skal einn tilnefndur af Stéttarsambandi bænda, einn án tilnefningar og einn samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Ráðherra skipar einn úr þeirra hópi formann nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úrskurði nefndarinnar verður ekki skotið til ráðherra.
     
     h. (46. gr.)
     Allir þeir, sem hafa fullvirðisrétt til ráðstöfunar eða hagnýtingar eða hafa með höndum framleiðslu sauðfjárafurða, eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.
     Með hugtakinu fullvirðisréttur í lögum þessum er átt við rétt í sérstakri fullvirðisréttarskrá Framleiðsluráðs landbúnaðarins, sbr. reglugerð nr. 313/1991, með síðari breytingum.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aðlögun og stjórn framleiðslu sauðfjárafurða og störf og málsmeðferð úrskurðarnefndar skv. 45. gr.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 20., 21. og 36. gr., 2. mgr. 37. gr. og 38. gr. laga nr. 46/1985 falla úr gildi 1. september 1992. Eftir þann tíma skal gefa lögin út í heild að nýju með áorðnum breytingum. Ákvæði laga þessara um greiðslumark og beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda sauðfjárafurða á lögbýlum falla úr gildi 31. ágúst 1998, nema samningur hafi verið gerður á grundvelli a-liðar 30. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Í stað I-liðar ákvæða til bráðabirgða koma tvö ný ákvæði er orðast svo:
     a. (I)
     Framleiðnisjóður landbúnaðarins skal bera kostnað við sölu á kindakjöti sem fellur til haustið 1992 vegna ákvæða reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur skv. 5. mgr. 39. gr. laganna um mismunandi niðurfærslu eftir landsvæðum.
     b. (J)
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 43. gr. laganna er landbúnaðarráðherra heimilt að fresta allt að 1/ 6 hluta greiðslna ársins 1992 til janúar–febrúar 1993 að höfðu samráði við Stéttarsamband bænda.

Samþykkt á Alþingi 28. febrúar 1992.