Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 891, 115. löggjafarþing 125. mál: fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum.
Lög nr. 54 16. maí 1992.

Lög um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum.


1. gr.

     Sjávarútvegsráðuneytið veitir leyfi til fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipi að uppfylltum skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.
     Það telst fullvinnsla í þessu sambandi ef flökun eða flatning botnfisks er þáttur í vinnslunni.

2. gr.

     Skipum, sem leyfi hafa til fullvinnslu afla um borð, er óheimilt að fleygja fiski, fiskhlutum eða fiskúrgangi fyrir borð. Er skylt að koma með að landi allan afla þessara skipa, þar á meðal það sem til fellur við vinnsluna, svo sem hryggi, afskurð, hausa og innyfli eða afurðir unnar úr þeim. Er óheimilt að veita skipum vinnsluleyfi nema aðstaða sé um borð til að fullnægja þessum kröfum og nýta aflann með fullnægjandi hætti. Ráðherra getur þó með reglugerð til eins árs í senn heimilað að ekki sé nýttur tiltekinn fiskúrgangur enda verði það ekki gert með arðbærum hætti miðað við vinnslutækni og markaðsaðstæður.

3. gr.

     Um borð í vinnsluskipi skal vera aðstaða fyrir móttöku, geymslu, vinnslu og frágang aflans þannig að gæði framleiðslunnar séu tryggð. Setja skal með reglugerð nánari ákvæði um nauðsynlegan búnað í þessu skyni og önnur atriði um framkvæmd laga þessara.

4. gr.

     Það er skilyrði fyrir leyfisveitingu, sbr. 1. gr., að fjöldi í áhöfn sé nægilegur til að vinna afla á fullnægjandi hátt miðað við veiðar, vinnslu og gerð skips, að teknu tilliti til áskilins hvíldartíma og að fyrir hendi sé tilskilin aðstaða fyrir þá áhöfn og eftirlitsmenn, sbr. 6. gr.
     Í áhöfn skal vera maður með sérþekkingu á viðkomandi framleiðslu er hafa skal umsjón með allri vinnslu ásamt nauðsynlegu gæðaeftirliti. Skal með reglugerð kveða á um menntunarkröfur og starfssvið hans.

5. gr.

     Áður en fullvinnsluleyfi er veitt skal liggja fyrir álit Ríkismats sjávarafurða á því hvort búnaður sé fullnægjandi með hliðsjón af ákvæðum laga þessara og reglugerða settra með stoð í þeim. Þá skal liggja fyrir mat Siglingamálastofnunar ríkisins á því hvort reglum um öryggisbúnað varðandi fiskvinnslu og aðbúnað áhafnar sé fullnægt.

6. gr.

     Eftirlitsmaður eða eftirlitsmenn skulu vera um borð í fiskiskipi sem leyfi hefur til fullvinnslu botnfisks fyrstu sex mánuðina eftir að leyfi er veitt í fyrsta sinn. Eftir þann tíma skal eftirlitsmaður vera um borð eftir því sem ástæða er talin til hverju sinni af veiðieftirliti sjávarútvegsráðuneytisins. Skal útgerð sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir eru við eftirlitsstörf um borð. Þá skal útgerð skips greiða allan kostnað sem hlýst af veru eftirlitsmanna um borð.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Skipum, sem hafið hafa fullvinnslu botnfiskafla fyrir gildistöku laga þessara, skal veittur frestur til að fullnægja kröfum laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Er fresturinn við það miðaður að innan hans sé heimilt að halda áfram fullvinnslu botnfisks með svipuðum hætti og hafin var fyrir gildistöku laganna. Skal fresturinn vera til 1. september 1996 en ráðherra getur með reglugerð ákveðið að tilteknum kröfum um nýtingu skuli fullnægt fyrr. Þetta ákvæði tekur einnig til nýrra fullvinnsluskipa hafi verið samið um smíði eða kaup á þeim með bindandi hætti fyrir 10. nóvember 1991, enda sé smíðin það langt komin að breytingum til samræmis við kröfur laganna verði ekki við komið án verulegrar röskunar og kostnaðarauka.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 1992.