Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 280, 116. löggjafarþing 45. mál: meðferð og eftirlit sjávarafurða.
Lög nr. 93 20. nóvember 1992.

Lög um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Tilgangur laga þessara er að tryggja neytendum að íslenskar sjávarafurðir séu heilnæmar, standist settar kröfur um gæði, séu framleiddar við fullnægjandi hreinlætisaðstæður og að merkingar og upplýsingar um þær séu fullnægjandi.

2. gr.

     Sjávarafli telst samkvæmt lögum þessum öll sjávardýr önnur en spendýr, þar með talin skrápdýr, liðdýr og lindýr. Fiskafurðir teljast matvæli sem unnin eru að öllu leyti eða að hluta úr sjávarafla. Sjávarafurðir teljast sjávarafli og fiskafurðir eins og skilgreint er hér að framan, svo og fóðurvörur unnar úr fiski eða fiskúrgangi.

3. gr.

     Lög þessi taka til veiða og hagnýtingar á sjávarafurðum, þar með talið til löndunar, flutnings, meðferðar, geymslu, vinnslu og útflutnings og jafnframt til eftirlits með slátrun, vinnslu og pökkun hafbeitar-, vatna- og eldisfisks. Lögin taka einnig til innfluttra sjávarafurða sem ætlaðar eru til umpökkunar eða vinnslu hér á landi. Lögin taka ekki til smásöluverslunar innan lands.

4. gr.

     Fiskistofa annast framkvæmd laga þessara og reglna settra með stoð í þeim.

II. KAFLI
Opinberar kröfur.

5. gr.

     Sjávarafurðir, sem ætlaðar eru til manneldis, skulu vera heilnæmar, ómengaðar og uppfylla að öðru leyti skilgreindar kröfur.
     Óheimilt er að nýta sjávarafurðir sem mengaðar eru hættulegum efnum til fóðurframleiðslu.
     Sjávarútvegsráðuneytið getur bannað hagnýtingu sjávarafla af hafsvæðum sem talin eru menguð.
     Sjávarútvegsráðherra setur reglur um efni þessarar greinar, þar á meðal um leyfilegt hámark gerla, niðurbrotsefna og mengandi efna í sjávarafurðum sem ætlaðar eru til útflutnings.

6. gr.

     Sjávarafurðir, sem fluttar eru inn til vinnslu eða umpökkunar hér en ætlaðar síðan til endurútflutnings, skulu uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til innlends hráefnis og afurða. Við útflutning þeirrar vöru skal upprunalands hráefnis getið í fylgiskjölum. Halda skal innfluttum sjávarafurðum aðgreindum frá innlendum uns þær eru fluttar úr landi.
     Sjávarútvegsráðuneytið veitir leyfi fyrir innflutningi lifandi fiska, skrápdýra, liðdýra eða lindýra, sem lifa í söltu vatni, að uppfylltum settum skilyrðum. Ráðuneytið skal leita umsagnar yfirdýralæknis um leyfisveitingar og hafa hliðsjón af lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, eftir því sem við getur átt.

7. gr.

     Geymslu og flutningi sjávarafurða skal haga í samræmi við eðli þeirra og eiginleika.
     Fyrirtæki, sem upp eru talin í 12. gr. laganna, skulu fullnægja kröfum um hreinlæti og búnað.

8. gr.

     Í sjávarafurðir til neyslu innan lands má einungis nota þau aukefni og í því magni sem íslensk yfirvöld leyfa. Í sjávarafurðir, sem ætlaðar eru til útflutnings, má einungis nota þau aukefni og í því magni sem leyft er í viðkomandi markaðslandi.
     Ílát, umbúðir og aðrir fletir, sem sjávarafurðir koma í snertingu við, skulu vera úr efnum sem samþykkt eru af íslenskum yfirvöldum.
     Óheimilt er að nota til þrifa og gerileyðingar önnur efni en þau sem íslensk heilbrigðisyfirvöld heimila.
     Sjávarútvegsráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um notkun hvers kyns efna sem komist gætu í snertingu við sjávarafurðir.

9. gr.

     Vatn, sem notað er til þvotta, þrifa, ísframleiðslu og við framleiðslu sjávarafurða, skal uppfylla kröfur íslenskra yfirvalda um gæði drykkjarvatns. Nota má hreinan sjó uppfylli hann sömu kröfur varðandi heilnæmi.

10. gr.

     Sjávarafurðir skulu vera rétt og greinilega merktar þannig að þær upplýsingar, sem fram koma, séu ekki villandi. Á umbúðum eða fylgiskjölum skal koma fram leyfisnúmer vinnslustöðvar eða nafn og heimilisfang framleiðanda eða ábyrgðaraðila þannig að unnt sé að rekja uppruna vörunnar til þeirra. Merkingar skulu að öðru leyti vera í samræmi við kröfur sem gerðar eru í viðkomandi markaðslandi.

11. gr.

     Óheimilt er að vinna, pakka, dreifa eða flytja úr landi sjávarafurðir sem ekki uppfylla settar kröfur um gæði, heilnæmi, aukefni, umbúðir og merkingar samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum með stoð í þeim. Þetta gildir einnig um afurðir sem líklegt er að uppfylli ekki settar kröfur þegar þær koma á áfangastað.

III. KAFLI
Leyfisveitingar og eftirlit.

12. gr.

     Vinnslustöðvar, lagmetisiðjur, skip sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, sbr. lög nr. 38/1990, skip sem vinna afla um borð, uppboðsmarkaðir fyrir sjávarafla og fiskgeymslur sem ekki eru hlutar af fiskvinnslufyrirtæki, fiskimjölsverksmiðjur og framleiðendur dýrafóðurs úr sjávarafurðum skulu hafa tölusett vinnsluleyfi til staðfestingar því að fullnægt sé settum skilyrðum.
     Eldisfiski má aðeins slátra með leyfi yfirdýralæknis og með þeim skilmálum sem hann setur. Fiskistofa gefur út leyfi fyrir vinnslu og pökkun hafbeitar- og eldisfisks.
     Fiskistofa veitir vinnsluleyfi samkvæmt þessari grein að uppfylltum kröfum um hreinlæti, búnað og innra eftirlit, sbr. 13. gr., auk samnings við viðurkennda skoðunarstofu, sbr. 14. gr. Vinnsluleyfi má binda framleiðslu tilgreindra afurða.
     Óheimilt er að veiða, vinna, geyma sjávarafurðir eða starfrækja uppboðsmarkaði án vinnsluleyfis.
     Sjávarútvegsráðherra setur með reglugerð nánari skilyrði fyrir leyfisveitingum samkvæmt þessari grein.

13. gr.

     Forsvarsmenn þeirra aðila, sem falla undir ákvæði laga þessara, sbr. 12. gr., bera ábyrgð á því að sett sé á fót og starfsrækt innra eftirlit með framleiðslu. Innra eftirlit fyrirtækisins skal miðast við umfang reksturs og byggt á eftirfarandi meginatriðum:
  1. Að skráð séu með tilliti til eðlis starfseminnar þau atriði sem farið geta úrskeiðis eða valdið skaða á afurðum, svo sem við veiðar, framleiðslu, flutning eða geymslu.
  2. Að á staðnum sé starfsmaður með sérþekkingu á viðkomandi framleiðslu og fyrir hendi séu skráðar vinnureglur, lýsing á skiptingu ábyrgðar í viðkomandi fyrirtæki og til hvaða aðgerða grípa skuli sé aðstæðum ábótavant eða ef sjávarafurðir uppfylla ekki settar kröfur.
  3. Að tekin séu reglulega sýni í framleiðslunni til greiningar á viðurkenndri rannsóknastofu til að sannprófa að aðferðir við þrif og gerileyðingu séu fullnægjandi.
  4. Að haldin sé aðgengileg skrá um afla, framleiðslu og birgðir.
  5. Að teknar séu upp skráðar vinnureglur til að fylgjast með og hafa stjórn á þeim atriðum sem getið er í 1.–4. tölul.

     Niðurstöður eftirlits, rannsókna og prófana skal varðveita a.m.k. einu ári lengur en geymsluþol vörunnar segir til um, þó aldrei skemur en í tvö ár.

14. gr.

     Fyrirtækjum og útgerðum skipa, sem falla undir ákvæði 12. gr., er skylt að hafa samning við viðurkennda skoðunarstofu. Ráðherra er þó heimilt að veita undanþágur frá þessu skilyrði mæli sérstakar ástæður með því.
     Fiskistofa eða annar aðili samkvæmt ákvörðun ráðherra veitir skoðunarstofum viðurkenningu að uppfylltum settum skilyrðum. Þær skulu fylgjast reglulega með hreinlæti, búnaði og innra eftirliti fyrirtækja og skipa. Skoðunarstofur fylgjast með því að önnur ákvæði laga þessara og reglna settra með stoð í þeim séu haldin og veita Fiskistofu upplýsingar um starfsemi og ástand fyrirtækja.
     Fiskistofa fylgist með starfi skoðunarstofa og sannreynir að þær ræki skyldur sínar á fullnægjandi hátt. Verði misbrestur þar á, vanræki þær upplýsingaskyldu sína eða gefi rangar upplýsingar veitir Fiskistofa áminningu eða sviptir þær viðurkenningu ef sakir eru miklar.
     Við veitingu viðurkenninga skal lagt mat á hæfni, áreiðanleika og skipulag skoðunarstofu.
     Sjávarútvegsráðherra setur nánari reglur um innra eftirlit og starfsemi skoðunarstofa.

15. gr.

     Forsvarsmönnum fyrirtækja sem 12. gr. tekur til og útflytjendum sjávarafurða er skylt að veita Fiskistofu og samningsbundinni skoðunarstofu allar þær upplýsingar og þá aðstoð sem nauðsynleg er við framkvæmd eftirlits og skoðunar, þar með talinn aðgang að hverjum þeim stað þar sem sjávarafurðir eru unnar eða geymdar. Fiskistofa og skoðunarstofur fara með upplýsingar þær sem leynt eiga að fara sem trúnaðarmál.
     Skylt er að láta skoðunarstofu og Fiskistofu í té án endurgjalds sýni af sjávarafurðum til rannsókna.

16. gr.

     Fiskistofa gefur út opinber útflutningsvottorð sé þess krafist. Fiskistofa getur að uppfylltum sérstökum skilyrðum veitt viðurkenndri skoðunarstofu, sbr. 14. gr., heimild til útgáfu útflutningsvottorða.

17. gr.

     Fiskistofu er heimilt að láta stöðva vinnslu og dreifingu sjávarafurða sem brjóta í bága við 10. eða 11. gr. Enn fremur er heimilt að láta innkalla afurðir sem dreift hefur verið enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að þær brjóti í bága við ákvæði laga þessara.
     Eigandi sjávarafurða ber allan kostnað af nauðsynlegum ráðstöfunum til að framfylgja ákvæðum þessarar greinar.

18. gr.

     Ákvarði Fiskistofa að sjávarafurðir séu óhæfar til manneldis eða fóðurs ber framleiðanda, eiganda eða útflytjanda að eyða vörunni innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar þar um.
     Fiskistofu er þó heimilt í sérstökum tilvikum að ákveða að hagnýta megi sjávarafurðirnar til annarrar framleiðslu.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

19. gr.

     Uppfylli fyrirtæki eða skip, sbr. 12. gr., ekki ákvæði II. kafla um heilnæmi afurða, búnað og hreinlæti eða ákvæði 13. eða 14. gr. um innra eftirlit og samning við viðurkennda skoðunarstofu er Fiskistofu heimilt að svipta þau vinnsluleyfi og jafnframt að loka viðkomandi fyrirtæki með innsigli. Fái skip ekki vinnsluleyfi, sbr. 12. gr., eða sé svipt því er Fiskistofu heimilt að svipta það veiðileyfi. Áður en til sviptingar kemur samkvæmt þessari málsgrein skal gefa viðkomandi kost á að skýra mál sitt og veita honum sanngjarnan frest til úrbóta.
     Veiti framleiðandi, útflytjandi, forsvarsmenn fyrirtækja eða útgerða skipa Fiskistofu eða skoðunarstofu ekki nauðsynlegar upplýsingar eða aðstoð við framkvæmd eftirlits eða skoðun, sbr. 15. gr., getur Fiskistofa svipt viðkomandi vinnsluleyfi.

20. gr.

     Ákvörðunum Fiskistofu í þá veru að sjávarafurðir teljist ekki uppfylla kröfur laga þessara eða reglugerða settra með stoð í þeim má vísa til málskotsnefndar, sbr. 21. gr., innan sjö daga frá því að ákvörðun var kynnt hlutaðeigandi.

21. gr.

     Sjávarútvegsráðherra skipar nefnd þriggja manna og jafnmarga menn til vara til meðferðar málskots skv. 20. gr. Tveir nefndarmanna og varamenn þeirra skulu hafa sérþekkingu á meðferð og framleiðslu sjávarafurða. Formaður nefndarinnar og varamaður hans skulu fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara. Nefndin úrskurðar hvort ákvarðanir Fiskistofu séu í samræmi við ákvæði laga eða reglugerða. Nefndin getur staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir Fiskistofu. Úrskurður nefndarinnar skal vera rökstuddur og vera endanlegur. Afl atkvæða ræður niðurstöðu nefndarinnar.
     Nefndinni er heimilt að kveðja sérfróða menn til ráðgjafar telji hún þörf á við úrlausn einstakra mála. Nefndin getur krafið málsaðila um greiðslu kostnaðar sem hlýst af meðferð máls. Fulltrúar málsaðila hafa rétt til að koma á fund nefndarinnar og skýra mál sitt.
     Nefndarmaður skal ekki taka þátt í meðferð máls er varðar fyrirtæki ef hann situr í stjórn eða er starfsmaður þess. Hann skal einnig víkja ef hann er fjárhagslega háður málsaðila vegna eignaraðildar, viðskipta eða af öðrum ástæðum. Sama gildir um þátttöku nefndarmanns í meðferð máls er varðar aðila sem honum er persónulega tengdur eða hætta er á að hann fái ekki að öðru leyti litið hlutlaust á mál.
     Ráðherra setur nefndinni starfsreglur.

22. gr.

     Sjávarútvegsráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um efni þessara laga.

V. KAFLI
Viðurlög.

23. gr.

     Fyrir brot á ákvæðum laga þessara eða reglugerða settra með stoð í þeim sem framin eru af ásetningi eða gáleysi skal refsa með sektum eða varðhaldi ef miklar sakir eru.
     Heimilt er að refsa stjórnarmönnum félaga og framkvæmdastjóra fyrirtækja vegna brota á 10. gr., 11. gr., 4. mgr. 12. gr. og 13. gr.

24. gr.

     Rannsókn brota á lögum þessum fer að hætti opinberra mála.

25. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993.
     Frá sama tíma falla niður lög nr. 53/1984, um Ríkismat sjávarafurða, sbr. lög nr. 83/1986. Einnig falla niður frá sama tíma allar löggildingar sem veittar hafa verið á grundvelli laga nr. 53/1984, laga nr. 108/1974, um Framleiðslueftirlit sjávarafurða, laga nr. 55/1968, um eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum, og eldri laga um sama efni.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Fiskistofu er heimilt að veita fyrirtækjum vinnsluleyfi til bráðabirgða með ákveðnum skilyrðum ef ákvæðum um innra eftirlit, hreinlæti og hollustuhætti er fullnægt. Undanþágur þessar skulu þó ekki gilda lengur en til ársloka 1995. Fyrirtæki, sem undanþágu fá, skulu hafa verið í rekstri 31. desember 1992 og umsókn borist frá þeim fyrir 1. apríl 1993.

Samþykkt á Alþingi 11. nóvember 1992.