Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 344, 116. löggjafarþing 20. mál: hópuppsagnir.
Lög nr. 95 2. desember 1992.

Lög um hópuppsagnir.


1. gr.

     Ákvæði 1.–4. gr. eiga við um uppsagnir atvinnurekanda á fastráðnum starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum einstökum þeirra þegar fjöldi starfsmanna, sem sagt er upp á 30 daga tímabili, er:
  1. að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu,
  2. að minnsta kosti 10% starfsmanna í fyrirtækjum sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn, en færri en 300 starfsmenn í vinnu,
  3. að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.


2. gr.

     Áformi atvinnurekandi uppsagnir skv. 1. gr. skal hann hafa samráð við trúnaðarmann starfsmanna eða annan fulltrúa sem þeir hafa til þess valið svo fljótt sem auðið er.
     Með samráðinu skal stefnt að því að ná samkomulagi til að komast hjá uppsögnum að svo miklu leyti sem mögulegt er og draga úr afleiðingum þeirra.
     Trúnaðarmenn eða aðrir fulltrúar starfsmanna skulu eiga rétt á að fá allar upplýsingar frá atvinnurekanda, sem máli skipta, um fyrirhugaðar uppsagnir. Tilgreina skal skriflega ástæður uppsagna, fjölda starfsmanna sem til stendur að segja upp, hve margir eru að jafnaði í vinnu og á hvaða tímabili uppsagnirnar eiga að taka gildi.
     Atvinnurekandi skal senda afrit af öllum skriflegum upplýsingum, sem um getur í 3. mgr., til stjórnar vinnumiðlunar í umdæminu. Sé vinnumiðlun ekki fyrir hendi í sveitarfélaginu skulu gögn send viðkomandi sveitarstjórn.

3. gr.

     Áformi atvinnurekandi að höfðu samráði skv. 2. gr. hópuppsagnir starfsmanna skal hann tilkynna skriflega þær uppsagnir sem fyrirhugaðar eru til stjórnar vinnumiðlunar í umdæminu.
     Í tilkynningu þessari skulu koma fram allar upplýsingar, sem máli skipta, um fyrirhugaðar hópuppsagnir, svo og um samráð það við fulltrúa starfsmanna sem kveðið er á um í 2. gr., einkum ástæður uppsagnanna, hve mörgum starfsmönnum stendur til að segja upp, hve margir starfsmenn eru að jafnaði í vinnu og á hvaða tímabili uppsagnirnar eiga að taka gildi.
     Atvinnurekendur skulu koma afriti af tilkynningunni, sem kveðið er á um í 1. mgr., til fulltrúa starfsmanna.
     Fulltrúar starfsmanna geta komið á framfæri öllum athugasemdum, sem þeir hafa fram að færa, við stjórn vinnumiðlunar í umdæminu.

4. gr.

     Uppsagnir samkvæmt ákvæðum 1.–3. gr. taka fyrst gildi 30 dögum eftir að tilkynning um fyrirhugaðar uppsagnir berst stjórn vinnumiðlunar í umdæminu.
     Frestinn, sem kveðið er á um í 1. mgr., skal stjórn vinnumiðlunar nota til að leita lausnar á þeim vanda sem fyrirhugaðar uppsagnir munu valda.
     Fulltrúar starfsmanna og atvinnurekandi eða fulltrúar hans skulu gæta þagnarskyldu varðandi upplýsingar sem gefnar eru samkvæmt ákvæðum þessara laga.

5. gr.

     Ákvæði 1.–4. gr. gilda ekki um:
  1. uppsagnir sem koma til framkvæmda samkvæmt ráðningarsamningum sem gerðir eru til ákveðins tíma eða vegna sérstakra verkefna nema slíkar uppsagnir eigi sér stað áður en þeir samningar renna út eða verkefni lýkur,
  2. áhafnir skipa,
  3. starfsmenn sem missa vinnu sína þegar starfsemi fyrirtækis stöðvast vegna dómsúrskurðar.

     Uppsagnarfrestur starfsmanna samkvæmt lögum, kjarasamningum eða ráðningarsamningum breytist ekki þrátt fyrir ákvæði laga þessara.

6. gr.

     Leiði ráðgerður samdráttur eða aðrar ráðgerðar breytingar í fyrirtæki til uppsagnar fjögurra eða fleiri starfsmanna er atvinnurekanda skylt að tilkynna uppsagnir til vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins og viðkomandi verkalýðsfélags með tveggja mánaða fyrirvara.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993. Frá sama tíma fellur úr gildi 55. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl.

Samþykkt á Alþingi 25. nóvember 1992.