Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 361, 116. löggjafarþing 10. mál: húsgöngu- og fjarsala.
Lög nr. 96 4. desember 1992.

Lög um húsgöngu- og fjarsölu.


1. gr.

     Lög þessi eiga við um samninga sem gerðir eru í húsgöngusölu milli seljanda sem lætur í té vöru eða þjónustu og neytanda í söluferð sem seljandi skipuleggur utan fastrar starfsstöðvar sinnar eða í tengslum við sölustarfsemi á heimili neytandans eða annars neytanda eða á vinnustað neytandans og neytandi hefur ekki óskað eftir.
     Lögin eiga einnig við um samninga sem gerðir eru um afhendingu vöru eða þjónustu, annarrar en þeirrar sem tengist komu seljanda að beiðni neytandans sjálfs. Það er skilyrði að þegar neytandinn hefur sjálfur óskað eftir komu seljandans hafi honum ekki verið kunnugt um eða getað verið kunnugt um að afhending þeirrar vöru eða þjónustu væri hluti af viðskipta- eða þjónustustarfsemi seljanda.
     Lögin eiga við um samninga þar sem neytandinn leggur fram tilboð við svipaðar aðstæður og lýst er í 1. mgr. eða 2. mgr. þótt neytandinn sé ekki bundinn af því tilboði fyrr en seljandi hefur gengið að því.
     Lögin eiga einnig við um tilboð sem neytandinn gerir samningsbundið við svipuð skilyrði og lýst er í 1. mgr. eða 2. mgr. þegar neytandinn er bundinn af tilboði sínu.
     Lögin eiga einnig við um fjarsölu þar sem neytandi gerir samning um kaup á vöru á grundvelli pöntunarlista eða annars konar vörukynningar seljanda án þess að hafa möguleika á að skoða vöruna.

2. gr.

     Húsgöngusala merkir farandsölu sem venjulega fer fram með þeim hætti að seljandi kveður óbeðinn dyra hjá neytanda og býður varning eða þjónustu til sölu.
     Neytandi merkir í lögum þessum einstakling sem í viðskiptum, sem lög þessi taka til, kemur fram sem kaupandi og í tilgangi sem telja má óskyldan starfi hans.
     Seljandi merkir í lögum þessum einstakling eða lögaðila sem vegna hlutaðeigandi viðskipta kemur fram í atvinnuskyni sem verslunarmaður eða hvern þann sem í atvinnuskyni kemur fram í umboði eða fyrir hönd seljanda.
     Fjarsala merkir í lögum þessum sölu sem fer fram milli kaupanda og seljanda án þess að þeir hittist augliti til auglitis. Þetta getur gerst með notkun síma, bréfsíma, sjónvarps, sölulista og heimatölvu.

3. gr.

     Lög þessi eiga ekki við um:
  1. Samninga um smíði, sölu og leigu fasteigna eða samninga um önnur réttindi í sambandi við fasteignir.
  2.      Samningar um að látnar skuli í té vörur og þær felldar að fasteignum eða samningar um viðgerðir fasteigna skulu þó falla undir gildissvið laganna.
  3. Samninga um reglubundna afhendingu matvöru, drykkjarvöru eða annarrar vöru sem ætluð er til heimilisnota.
  4. Vátryggingasamninga.
  5. Samninga um verðbréfakaup.
  6. Samninga um afhendingu vöru eða þjónustu að því tilskildu að eftirfarandi þrjú skilyrði séu uppfyllt:
    1. Að gengið sé frá samningnum á grundvelli sölubæklings seljanda sem neytandinn hefur fengið tækifæri til að skoða án þess að umboðsmaður seljanda sé viðstaddur.
    2. Að ráðgert sé framhald á sambandi neytanda og umboðsmanns seljanda með tilliti til yfirstandandi viðskipta eða annarra viðskipta síðar.
    3. Að í sölubæklingi og samningi komi skýrt og greinilega fram réttur neytanda til að skila vörunum aftur til þess sem lét hana í té innan tíu daga hið minnsta frá móttöku vörunnar eða að öðrum kosti falla frá samningnum án annarrar skuldbindingar en þeirrar að veita vörunni eðlilega umsjá.

  7. Samninga að lægri fjárhæð en 4.500 kr.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 1. gr. er heimilt að undanskilja samninga um afhendingu vöru eða þjónustu sem eru í beinum tengslum við þá vöru og þjónustu sem orðið hafa tilefni til þess að neytandi óskaði sjálfur eftir heimsókn seljanda.

4. gr.

     Þegar um er að ræða samninga er falla undir 1. gr. skal seljandi upplýsa neytanda skriflega um rétt hans til þess að segja samningnum upp innan þess frests sem um getur í 5. gr. Jafnframt skal í hinum skriflegu upplýsingum tilkynna nafn og heimilisfang aðila sem unnt er snúa sér til með uppsögn samnings.
     Hinar skriflegu upplýsingar seljanda skulu vera dagsettar og hafa að geyma einkenni þess samnings sem gerður er milli seljanda og neytanda. Þær skulu látnar neytanda í té við gerð samningsins þegar um er að ræða tilfelli eins og greinir í 1. og 2. mgr. 1. gr. eða þegar neytandi leggur fram tilboð sitt í tilvikum er greinir í 3. og 4. mgr. 1. gr.

5. gr.

     Neytandi skal hafa rétt til að falla frá samningi við seljanda, er fellur undir lög þessi, með því að tilkynna um það með ábyrgðarbréfi sem sent er innan tíu daga frá því að neytanda berast í hendur upplýsingar um söluskilmála sem um getur í 4. gr.
     Með tilkynningunni er neytandi leystur undan öllum skilmálum samningsins sem sagt er upp.

6. gr.

     Neytandi getur ekki afsalað sér þeim réttindum sem honum eru veitt samkvæmt lögum þessum.

7. gr.

     Nýti neytandi sér rétt til að falla frá samningi samkvæmt lögum þessum skal um réttaráhrif þess fara eftir lögum um lausafjárkaup, einkum með tilliti til endurgreiðslu vöru eða þjónustu sem látin var í té og skila á móttekinni vöru.

8. gr.

     Með brot á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála og varða brot sektum.

9. gr.

     Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara og er honum heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna með reglugerð.

10. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993.

Samþykkt á Alþingi 26. nóvember 1992.