Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 567, 116. löggjafarþing 285. mál: almannatryggingar (mæðra- og feðralaun, slysatryggingar o.fl.).
Lög nr. 104 28. desember 1992.

Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. málsl. 6. mgr. 15. gr. laganna (sem var 14. gr. fyrir gildistöku laga nr. 79/1991) orðast svo:
     Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal vera 123.600 kr.

2. gr.

     16. gr. laganna (sem var 15. gr. fyrir gildistöku laga nr. 79/1991) orðast svo:
     Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun einstæðum foreldrum sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eiga lögheimili hér á landi. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. Þar er heimilt að tengja greiðslu bótanna við tekjur. Þar er einnig heimilt að skilyrða greiðslu mæðra- og feðralauna við að meðlagsúrskurður hafi verið kveðinn upp eða að fyrir liggi staðfest samkomulag um greiðslu framfærslueyris.
     Árleg mæðra- og feðralaun skulu vera sem hér segir:
Með einu barni 12.000 kr.
Með tveimur börnum 60.000 kr.
Með þremur börnum eða fleiri 129.600 kr.

     Tryggingaráði er heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til maka elli- eða örorkulífeyrisþega þegar bætur almannatrygginga falla niður vegna vistunar á stofnun. Tryggingaráði er og heimilt að greiða maka einstaklings sem sætir gæslu- eða refsivist mæðra- eða feðralaun enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði.
     Mæðra- og feðralaun falla niður einu ári eftir að viðtakandi launanna skráir sig í þjóðskrá í óvígða sambúð með öðrum en foreldri barnsins eða barnanna, sbr. og 52. gr. Nú skráir viðtakandi launanna sig í óvígða sambúð með foreldri barnsins eða barnanna, fyrrverandi sambýlisaðila eða gengur í hjúskap og falla þá launin strax niður.

3. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 27. gr. laganna:
  1. Í 1. málsl. 1. mgr. falla niður orðin „og stjórnun aflvéla og ökutækja“.
  2. 2. málsl. 1. mgr. fellur niður.


4. gr.

     C-liður 1. mgr. 29. gr. fellur niður.

5. gr.

     C-liður 35. gr. laganna orðast svo: Barnalífeyrir, kr. 123.600 fyrir hvert barn, sbr. að öðru leyti 15. gr.

6. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 36. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Launþegar skv. c-lið 30. gr. skulu standa skil á iðgjöldum sínum.
  2. 4. mgr. orðast svo:
  3.      Með reglugerð skal ákveða fast ársiðgjald af trillubátum og meiri háttar heimilisaflvélum.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 43. gr. laganna eins og henni var síðast breytt með lögum nr. 1/1992:
  1. B-liður 1. mgr. orðast svo:
    1. Nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir hjá sérfræðingum eða stofnunum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur samning við. Ráðherra hefur heimild til þess að ákveða að skilyrði fyrir greiðslu sjúkratrygginga skuli háð tilvísun heilsugæslulæknis eða heimilislæknis. Fyrir hverja komu til sérfræðings samkvæmt tilvísun greiði sjúklingur gjald sem ákveðið skal með reglugerð. Með reglugerð skal sömuleiðis setja nánari reglur um notkun tilvísana, þar á meðal í hvaða tilvikum og með hvaða hætti Tryggingastofnun ríkisins geti tekið þátt í greiðslu kostnaðar vegna rannsókna og aðgerða hjá sérfræðingum þótt sjúklingur hafi ekki tilvísun.

  2. C-liður 1. mgr. orðast svo:
    1. Lyf sem sjúkratryggðum er lífsnauðsynlegt að nota að staðaldri. Af öðrum nauðsynlegum lyfjakostnaði greiðir sjúkratryggður gjald sem ákveðið skal með reglugerð. Sé heildarverð lyfs jafnt eða lægra en þessi mörk greiðir sjúkratryggður það. Eftir að lyf hefur verið skráð hér á landi skal heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið ákveða hvort sjúkratryggingar taki þátt í greiðslu viðkomandi lyfs.



8. gr.

     44. gr. laganna, eins og henni var síðast breytt með lögum nr. 1/1992, orðast svo:
     Fyrir tannlæknaþjónustu, aðra en tannréttingar, greiða sjúkratryggingar samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Gjaldskráin gildir bæði um tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera og annarra. Í stað gjaldskrár ráðherra er Tryggingastofnun þó heimilt að semja um gjaldskrá er gildi um tannlæknaþjónustu, alla eða að hluta, aðra en tannréttingar.
     Greiðslur sjúkratrygginga skv. 1. mgr. skulu vera sem hér segir:
  1. Fyrir tannlækningar barna og unglinga, 15 ára og yngri, aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð, 75%.
  2. Fyrir tannlækningar 16 ára unglinga, aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð, 50%.
  3. Heimilt er að greiða allt að 50% kostnaðar við gullfyllingar, krónu- og brúargerð hjá börnum og unglingum, 16 ára og yngri, samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs. Því aðeins kemur til greiðslna samkvæmt þessum tölulið að fyrir liggi sérstök umsókn og samþykki sjúkratrygginga.
  4. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta fullrar tekjutryggingar, 75% kostnaðar, en 50% kostnaðar sé tekjutrygging skert, þó er ekki greitt fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr. Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega í allt að 100% eftir reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs.

     Reikningi fyrir tannlæknaþjónstu skal framvísað á reikningsformi sem Tryggingastofnun ákveður.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 2. mgr. skulu börn og unglingar, 15 ára og yngri, eiga kost á einni skoðun á ári hjá tannlækni sér að kostnaðarlausu.

9. gr.

     48. gr. laganna, eins og henni var breytt með lögum nr. 1/1992, orðast svo:
     Sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins er heimilt að semja við stofnanir, fyrirtæki eða einstaklinga um þá þjónustu sem henni ber að veita samkvæmt lögum þessum. Slíkan samning má gera í framhaldi af útboði. Í þeim tilvikum ákveður sjúkratryggingadeild hvaða tilboði skuli taka eða hvort öllum skuli hafnað. Ef tilboð eru óhæfilega há eða að öðru leyti ekki aðgengileg getur sjúkratryggingadeild ráðstafað verkinu á grundvelli fasts samningsverðs.

10. gr.

     52. gr. laganna orðast svo:
     Sama rétt til bóta og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig karl og kona sem eru í óvígðri sambúð er skráð hefur verið í þjóðskrá lengur en eitt ár. Sama rétt hafa karl og kona sem átt hafa saman barn eða konan er þunguð af hans völdum, enda sé óvígð sambúð þeirra skráð í þjóðskrá. Sama gildir um bótarétt þess sem eftir lifir.
     Slíkt sambúðarfólk öðlast aldrei meiri bótarétt en þau hefðu haft ef þau væru hjón. Þó er heimilt að greiða sambúðaraðila slysabætur.
     Sameiginlegt lögheimili eða sambúð eftir öðrum ótvíræðum gögnum lengur en eitt ár skal lagt að jöfnu við skráningu sambúðar í þjóðskrá.

11. gr.

     Síðasti málsliður 1. mgr. 65. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

     67. gr. laganna orðast svo:
     Iðgjöld slysatrygginga skulu innheimt af innheimtumönnum ríkissjóðs og sveitarsjóðs eða sérstökum innheimtustofnunum. Ákvæði laga nr. 75/1981, þar á meðal um um dráttarvexti og lögtaksrétt, gilda um innheimtu iðgjalda.

13. gr.

     71. gr. laganna orðast svo:
     Iðgjöld sjómanna skv. 36. gr. og iðgjöld af aflvélum samkvæmt sömu grein skulu hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipum og aflvélum og ganga fyrir öllum öðrum veðum en lögveðum fyrir gjöldum ríkissjóðs.

14. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993. Ákvæði 3.–4. gr., 6. gr. og 11.–13. gr. öðlast þó eigi gildi fyrr en 1. janúar 1994.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 1992.