Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 763, 116. löggjafarþing 439. mál: eiginfjárstaða innlánsstofnana.
Lög nr. 16 25. mars 1993.

Lög um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana.


1. gr.

     Ríkisstjórninni er heimilt að bæta eiginfjárstöðu Landsbanka Íslands á árinu 1993 með allt að 2.000 m.kr. framlagi úr ríkissjóði í reiðufé eða ríkisskuldabréfum, með víkjandi láni eða með öðrum jafngildum hætti. Nánar skal kveðið á um fyrirkomulag á stuðningi ríkissjóðs í samningi milli hans og bankans.

2. gr.

     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka að láni allt að 2.000 m.kr. á árinu 1993 í því skyni sem ákveðið er í 1. gr.

3. gr.

     Í stað 1. mgr. 51. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Tryggingarsjóður viðskiptabanka er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins með sérstakan fjárhag. Hlutverk hans er annars vegar að tryggja full skil á innlánsfé þegar skipti á búi viðskiptabanka ber að skv. 1. mgr. 47. gr. og hins vegar að veita viðskiptabanka víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans, enda verði fjár til þess aflað sérstaklega með lántöku með samþykki ráðherra. Áður en stjórn sjóðsins veitir víkjandi lán úr honum skal hún leita samþykkis viðskiptaráðherra.
     Stefnt skal að því að heildareign Tryggingarsjóðs vegna innstæðutrygginga nái 1% af heildarinnlánum viðskiptamanna bankanna á innlánsreikningum. Í þessu skyni skal hver viðskiptabanki greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til Tryggingarsjóðs er nemi allt að 0,15% af heildarinnlánum samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

4. gr.

     Ný málsgrein, er verður 4. mgr., bætist við 51. gr. laga nr. 87/1985, um sparisjóði, og orðast svo:
     Tryggingarsjóði sparisjóða er heimilt að taka lán með samþykki ráðherra í því skyni að veita sparisjóði víkjandi lán til að efla eiginfjárstöðu hans.

5. gr.

     Fjármálaráðherra er fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántöku Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og lántöku Tryggingarsjóðs sparisjóða samtals að fjárhæð allt að 3.000 m.kr.

6. gr.

     Það er skilyrði fyrir ráðstöfunum til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana samkvæmt lögum þessum að gerður verði samningur milli viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og hlutaðeigandi stofnunar hins vegar um það til hvaða ráðstafana hún skuldbindur sig til að grípa í því skyni að bæta afkomu sína og eiginfjárstöðu.

7. gr.

     Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd 3., 4. og 6. gr. með reglugerð.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. mars 1993.