Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1137, 116. löggjafarþing 440. mál: Evrópskt efnahagssvæði (brottfall ákvæða er varða Sviss).
Lög nr. 66 6. maí 1993.

Lög um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þessara bandalaga annars vegar og Austurríkis, Finnlands, Íslands, Liechtensteins, Noregs og Svíþjóðar hins vegar, sem undirrituð var í Brussel hinn 17. mars 1993;
  2. bókun um breytingu á samningnum milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, milli Austurríkis, Finnlands, Íslands, Liechtensteins, Noregs og Svíþjóðar, sem undirrituð var í Brussel hinn 17. mars 1993;
  3. bókun um breytingu á samningnum um fastanefnd EFTA-ríkjanna, milli Austurríkis, Finnlands, Íslands, Liechtensteins, Noregs og Svíþjóðar, sem undirrituð var í Brussel hinn 17. mars 1993.


2. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Inngangsorð og 1.–7. gr. bókunarinnar, sem vísað er til í 4. tölul. 1. gr., um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, skulu hafa lagagildi hér á landi. Sama gildir um ákvæði 15. gr. bókunarinnar er varða 81. og 82. gr. EES-samningsins, 21. gr. bókunarinnar, að svo miklu leyti sem greinin á við meginmál samningsins, og 22. gr. hennar.
     Þau ákvæði bókunarinnar, sem vísað er til í 3. mgr., eru prentuð sem fskj. V með lögum þessum.

3. gr.

     Ákvæði 1. gr. laga þessara öðlast þegar gildi.
     Ákvæði 2. gr. laganna öðlast gildi um leið og bókunin, sem vísað er til í 4. tölul. 1. gr., öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Fylgiskjal V.
BÓKUN UM BREYTINGU Á SAMNINGNUM
UM EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐIÐ
EFNAHAGSBANDALAG EVRÓPU,
KOLA- OG STÁLBANDALAG EVRÓPU,
KONUNGSRÍKIÐ BELGÍA,
KONUNGSRÍKIÐ DANMÖRK,
SAMBANDSLÝÐVELDIÐ ÞÝSKALAND,
LÝÐVELDIÐ GRIKKLAND,
KONUNGSRÍKIÐ SPÁNN,
LÝÐVELDIÐ FRAKKLAND,
ÍRLAND,
LÝÐVELDIÐ ÍTALÍA,
STÓRHERTOGADÆMIÐ LÚXEMBORG,
KONUNGSRÍKIÐ HOLLAND,
LÝÐVELDIÐ PORTÚGAL,
HIÐ SAMEINAÐA KONUNGSRÍKI STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR-ÍRLANDS

OG

LÝÐVELDIÐ AUSTURRÍKI,
LÝÐVELDIÐ FINNLAND,
LÝÐVELDIÐ ÍSLAND,
FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN,
KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,
KONUNGSRÍKIÐ SVÍÞJÓÐ,

sem nefnast hér á eftir SAMNINGSAÐILAR;

ÞAR EÐ samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, hér á eftir nefndur EES-samningurinn, var undirritaður í Óportó hinn 2. maí 1992;

ÞAR EÐ kveðið er á um það í 2. mgr. 129. gr. EES-samningsins að samningsaðilar skuli fullgilda eða samþykkja hann í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers um sig;

ÞAR EÐ ljóst er að einn undirritunaraðilanna að EES-samningnum, Ríkjasambandið Sviss, hefur ekki tök á að fullgilda EES-samninginn;

ÞAR EÐ hinir undirritunaraðilarnir að EES-samningnum halda enn fast við markmið hans og eru staðráðnir í að hrinda samningnum í framkvæmd eins fljótt og auðið er;

ÞAR EÐ ákveða þarf nýjan gildistökudag EES-samningsins;

ÞAR EÐ setja þarf sérstök ákvæði um gildistöku EES-samningsins gagnvart Furstadæminu Liechtenstein;

ÞAR EÐ gera þarf nokkrar breytingar á EES-samningnum sökum þess að Sviss mun ekki fullgilda hann;

ÞAR EÐ æskilegt er að hafa meðal slíkra breytinga ákvæði sem sýnir vilja samningsaðila til að gera Sviss kleift að taka þátt í EES síðar meir;

HAFA ÁKVEÐIÐ að gera eftirfarandi viðbótarbókun:

1. gr.

     1. EES-samningurinn, eins og honum er breytt með bókun þessari, skal öðlast gildi daginn sem bókun þessi öðlast gildi, milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu, aðildarríkja þeirra og Lýðveldisins Austurríkis, Lýðveldisins Finnlands, Lýðveldisins Íslands, Konungsríkisins Noregs og Konungsríkisins Svíþjóðar.
     2. Að því er varðar Furstadæmið Liechtenstein skal EES-samningurinn, eins og honum er breytt með bókun þessari, öðlast gildi þann dag sem EES-ráðið ákveður og að því tilskildu að

        —    EES-ráðið hafi ákveðið að skilyrði b-liðar 121. gr. EES-samningsins, nánar tiltekið um að góð framkvæmd EES-samningsins raskist ekki, hafi verið fullnægt; og

        —    EES-ráðið hafi tekið viðeigandi ákvarðanir, einkum að því er varðar beitingu þeirra ákvarðana gagnvart Liechtenstein sem EES-ráðið og sameiginlega EES-nefndin hafa þegar tekið.

     3. Liechtenstein skal vera heimilt að eiga þátt í ákvörðunum EES-ráðsins skv. 2. mgr. hér að framan.

2. gr.

     1. Þar eð Ríkjasambandið Sviss hefur ekki fullgilt EES-samninginn og er ekki aðili að honum skal tilvísun í inngangsorðunum að samningnum til „RÍKJASAMBANDSINS SVISS“ sem eins af samningsaðilunum felld niður.
     2. Í stað b-liðar 2. gr. EES-samningsins kemur eftirfarandi: hugtakið „EFTA-ríki“ merkir Lýðveldið Austurríki, Lýðveldið Finnland, Lýðveldið Ísland, Konungsríkið Noregur, Konungsríkið Svíþjóð og, með þeim skilyrðum sem eru sett í 2. mgr. 1. gr. bókunarinnar um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Furstadæmið Liechtenstein.
     3. EES-samningnum skal enn fremur breytt í samræmi við 3.–20. gr. bókunar þessarar.

3. gr.

     Í 120. gr. koma orðin „bókunum 41 og 43“ í stað „bókunum 41, 43 og 44“.

4. gr.

     Í 1. mgr. 126. gr. koma orðin „Konungsríkisins Noregs og Konungsríkisins Svíþjóðar“ í stað „Konungsríkisins Noregs, Konungsríkisins Svíþjóðar og Ríkjasambandsins Sviss“.

5. gr.

     Í stað 1. mgr. 128. gr. kemur eftirfarandi:
     Evrópuríki sem gengur í bandalagið er skylt, og Ríkjasambandinu Sviss eða öðru Evrópuríki sem gengur í EFTA heimilt, að sækja um að gerast aðili að samningi þessum. Það skal senda EES-ráðinu umsókn sína.

6. gr.

     Í stað 3. mgr. 129. gr. kemur eftirfarandi:
     3. Samningur þessi öðlast gildi þann dag og með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í bókuninni um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

7. gr.

     Í 11. tölul. bókunar 1 um altæka aðlögun kemur „gildistökudag“ í stað „3. mgr. 129. gr.“

15. gr.

     Eftirfarandi ákvæði EES-samningsins:

        —    a-, b-, d-, e- og f-liðir 81. gr.;

        —    82. gr.;

        —    fyrsta og önnur undirgrein 2. mgr. bókunar 30;

        —    a-, b- og c-liðir 1. mgr. 1. gr., 1., 3. og 4. mgr. 4. gr., fyrsta og önnur undirgrein 3. mgr. 5. gr. í bókun 31 og

        —    bókun 32
öðlast gildi 1. janúar 1994.

21. gr.

     Ákvæði, tilvísanir, sérstök aðlögun, tímabil og dagsetningar, sem varða Liechtenstein í EES-samningnum, eins og honum er breytt með bókun þessari, öðlast þá fyrst gildi er samningurinn, eins og honum er breytt með bókun þessari, hefur öðlast gildi gagnvart Liechtenstein í samræmi við 2. mgr. 1. gr. bókunar þessarar.

22. gr.

     1. Bókun þessi er gerð í einu frumriti á dönsku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, íslensku, ítölsku, norsku, portúgölsku, spænsku, sænsku og þýsku og er hver þessara texta jafngildur.
     2. Samningsaðilar skulu fullgilda eða samþykkja bókun þessa í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers um sig.
     Henni skal komið í vörslu hjá aðalskrifstofu ráðs Evrópubandalaganna sem skal senda hverjum hinna samningsaðilanna staðfest endurrit.
     Fullgildingar- eða samþykktarskjölunum skal komið í vörslu hjá aðalskrifstofu ráðs Evrópubandalaganna sem skal tilkynna öllum hinum samningsaðilunum það.
     3. Bókun þessi skal öðlast gildi 1. júlí 1993 að því tilskildu að samningsaðilarnir, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., hafi komið fullgildingar- eða samþykktarskjölum sínum vegna EES-samningsins og bókunar þessarar í vörslu fyrir þann dag. Eftir þann dag öðlast bókun þessi gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að síðustu skjölunum hefur verið komið í vörslu. Sé þeim hins vegar komið í vörslu þegar færri en fimmtán dagar eru að upphafi næsta mánaðar öðlast bókun þessi ekki gildi fyrr en fyrsta dag annars mánaðar eftir að skjölunum var komið í vörslu.
     4. Að því er Liechtenstein varðar skal bókun þessi öðlast gildi þegar það hefur komið fullgildingarskjölum sínum vegna EES-samningsins og bókunar þessarar í vörslu, þann dag sem EES-ráðið ákveður með þeim skilyrðum sem eru sett í 2. mgr. 1. gr.

Samþykkt á Alþingi 5. maí 1993.