Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1224, 116. löggjafarþing 449. mál: almenn hegningarlög (refsidómar í öðru ríki).
Lög nr. 72 19. maí 1993.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.


1. gr.

     Úr heiti I. kafla laganna falla niður orðin „framsal sakamanna“.

2. gr.

     2. málsl. 3. tölul. 6. gr. laganna fellur niður.

3. gr.

     1. málsl. 7. tölul. 6. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 69/1981, orðast svo: Fyrir háttsemi sem greinir í alþjóðasamningi frá 18. desember 1979 um varnir gegn töku gísla.

4. gr.

     3. og 4. mgr. 8. gr. laganna falla niður.

5. gr.

     Ný grein, 8. gr. a laganna, orðast svo:
     Nú hefur maður hlotið refsidóm í ríki þar sem brot var framið, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr., eða í ríki sem er aðili að samningi um alþjóðlegt gildi refsidóma frá 28. maí 1970 og skal þá ekki höfða mál á hendur honum, dæma hann né fullnægja viðurlögum hér á landi fyrir sama brot og hann var dæmdur fyrir í því ríki ef:
  1. hann var sýknaður,
  2. dæmdum viðurlögum hefur þegar verið fullnægt, verið er að fullnægja þeim, þau eru fallin niður eða hafa verið gefin upp í samræmi við lög í því ríki þar sem dómur var kveðinn upp,
  3. hann hefur verið sakfelldur án þess að refsing eða önnur viðurlög hafi verið ákvörðuð.

     Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við um brot sem falla undir 4. gr. og 1. tölul. 6. gr. nema refsimál hafi verið höfðað í hinu ríkinu að ósk íslenskra stjórnvalda.

6. gr.

     Ný grein, 8. gr. b laganna, orðast svo:
     Ef höfðað er mál á hendur manni hér á landi fyrir brot sem hann hefur þegar sætt viðurlögum fyrir í öðru ríki skal ákveða viðurlögin hér að sama skapi vægari eða láta þau eftir atvikum falla niður að því leyti sem viðurlögunum hefur þegar verið fullnægt í því ríki.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 1993.