Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 30, 117. löggjafarþing 29. mál: þingsköp Alþingis (ræðutími, nefndastörf).
Lög nr. 102 6. október 1993.

Lög um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. lög nr. 74/1992.


1. gr.

     Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Formanni nefndar er skylt að boða til fundar ef ósk berst um það frá a.m.k. þriðjungi nefndarmanna og taka á dagskrá þau mál sem tilgreind eru. Sama gildir um ósk frá þeim nefndarmanni sem falið hefur verið að vinna að athugun máls, sbr. 27. gr.

2. gr.

     Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Ef nefndarmaður gerir tillögu um að athugun máls sé hætt og það afgreitt frá nefndinni er formanni skylt að láta ganga atkvæði um þá tillögu á þeim fundi sem hún er borin fram. Tillagan telst því aðeins samþykkt að meiri hluti nefndarmanna greiði henni atkvæði.

3. gr.

     Í stað fyrri málsliðar 1. mgr. 48. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Við umræður um skýrslur skv. 45.–47. gr. mega þingmenn og ráðherrar tala tvisvar, sá er fyrir skýrslu mælir eigi lengur en þrjátíu mínútur í fyrra sinn og eigi lengur en fimmtán mínútur í síðara sinn, en aðrir eigi lengur en fimmtán mínútur í senn. Þó má veita talsmönnum þingflokka lengri tíma þegar um er að ræða skýrslur um utanríkismál og önnur viðamikil mál ef fyrir liggur samþykki þingflokka.

4. gr.

     Við 50. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Í upphafi fundar, áður en gengið er til dagskrár, geta þingmenn gert athugasemdir er varða störf þingsins. Enginn má tala oftar en tvisvar og ekki lengur en tvær mínútur í senn. Umræður um athugasemdir mega ekki standa lengur en í tuttugu mínútur.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „um gæslu þingskapa“ í 2. mgr. kemur: um fundarstjórn forseta.
  2. Við síðari málslið 2. mgr. bætist: og ekki oftar en tvisvar um hvert atriði.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
  4.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má framsögumaður máls, ráðherra eða þingmaður, eigi tala lengur en þrjátíu mínútur í fyrsta sinn, fimmtán mínútur í annað sinn og fimm mínútur í þriðja sinn við 1. umræðu um lagafrumvörp. Aðrir þingmenn og ráðherrar mega eigi tala lengur við þá umræðu en 20 mínútur í fyrra sinn og tíu mínútur í síðara sinn. Hver þingflokkur á rétt á að fá ræðutíma samkvæmt þessari málsgrein lengdan, allt að tvöföldum tíma, ef fyrir liggur rökstudd beiðni þar að lútandi áður en frumvarp er tekið til umræðu.


6. gr.

     Við 66. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Við atkvæðagreiðslu með rafbúnaði, svo og nafnakall, er þingmanni heimilt að gera stutta grein fyrir atkvæði sínu. Slík greinargerð má þó eigi taka lengri tíma en eina mínútu.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 72. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætist: Forseti getur þá, með samþykki allra þingflokka, ákveðið að ræðutími skuli vera annar en ákveðið er í 44., 48. og 50. gr. og hve lengi umræðan má standa. Um slíka ákvörðun skal þó leita samþykkis þingfundar ef a.m.k. þrír þingmenn krefjast þess.
  2. Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
  3.      Formenn þingflokka eru réttir aðilar gagnvart forseta að því er varðar lengingu ræðutíma, sbr. 3. og 5. mgr. 44. gr., 48. gr. og 3. mgr. 55. gr., svo og breytingar skv. 2. mgr. þessarar greinar.

8. gr.

     Í stað orðsins „tíu“ í fyrri málsgrein 73. gr. laganna kemur: fimm, og í stað orðsins „viku“ í sömu málsgrein kemur: þremur dögum.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ákvæði laga þessara skal taka til endurskoðunar fyrir 10. október 1994.

Samþykkt á Alþingi 6. október 1993.