Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 233, 117. löggjafarþing 9. mál: efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga (staðfesting bráðabirgðalaga).
Lög nr. 112 11. nóvember 1993.

Lög um efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga.


I. KAFLI
Um aðgerðir í atvinnu- og verðlagsmálum.

1. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt að verja á árinu 1993 allt að 1.000 millj. kr. til atvinnuskapandi aðgerða, einkum fjárfestinga og viðhalds, og allt að 300 millj. kr. til tímabundinnar niðurgreiðslu á kjötvörum og mjólkurafurðum.

II. KAFLI
Um tímabundna endurgreiðslu tryggingagjalds.

2. gr.

     Heimilt er að endurgreiða tryggingagjald sem lagt er á aðila sem stunda útflutning á tímabilinu frá júní til desember 1993 samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
     Til aðila skv. 1. mgr. teljast:
  1. Aðilar í fiskveiðum, fiskeldi og fiskvinnslu.
  2. Aðilar í atvinnugreinum skv. 2. og 3. flokki í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands.

3. gr.

     Aðilar skv. 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. geta fengið endurgreitt tryggingagjald af öllum tryggingagjaldsstofni á framangreindu tímabili, sbr. III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
     Endurgreiðsla til aðila skv. 2. tölul. 2. mgr. 2. gr. skal miðuð við þann hluta tryggingagjaldsstofns, sbr. III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, sem tengist þeim hluta framleiðslu á framangreindu tímabili sem fluttur er úr landi eða er ætlaður til útflutnings. Koma skal fram í bókhaldi þessara aðila sundurliðun á því hvernig tryggingagjaldsstofn skiptist milli þess hluta framleiðslu sem ætlaður er til útflutnings annars vegar og til sölu innan lands hins vegar.
     Ef aðili, sem fellur undir 1. eða 2. tölul. 2. mgr. 2. gr., hefur annan rekstur með höndum en þar greinir skal hann haga bókhaldi sínu í samræmi við ákvæði 4. mgr. 2. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

4. gr.

     Skýri aðili, sem endurgreiðslu beiðist, vísvitandi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um endurgreiðslubeiðni skal hann greiða sekt er nemi tífaldri þeirri fjárhæð sem beðist er endurgreiðslu á eða allt að þeirri fjárhæð ef háttsemi má rekja til stórkostlegs gáleysis, enda liggi ekki við brotinu þyngri refsing eftir öðrum lögum. Sektir eftir lögum þessum má jafnt gera lögaðila sem einstaklingi. Mál vegna brota á lögum þessum sæta meðferð opinberra mála.

5. gr.

     Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um endurgreiðslu tryggingagjalds samkvæmt lögum þessum. Skal þar m.a. kveðið nánar á um fyrirkomulag endurgreiðslu, kærur og fresti.

III. KAFLI
Um breyting á hafnalögum, nr. 69/1984, með síðari breytingum.

6. gr.

     Við 13. gr. bætist ný málsgrein, 5. mgr., sem orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1., 2. og 4. mgr. þessarar greinar eru einstökum hafnarstjórnum heimiluð frávik til lækkunar á hinni almennu gjaldskrá fyrir hafnir vegna umskipunar, lestunar og losunar á sjávarafla.

IV. KAFLI
Um úthlutun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins.

7. gr.

     Aflaheimildum Hagræðingarsjóðs vegna yfirstandandi fiskveiðiárs skv. 5. gr. laga nr. 65/1992, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, sem óráðstafað er við gildistöku laga þessara, skal úthlutað án endurgjalds til þeirra fiskiskipa sem urðu fyrir mestri skerðingu við úthlutun aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári.
     Skal Fiskistofa úthluta aflaheimildum til þeirra skipa sem orðið hafa fyrir meira en sem nemur 6,9% skerðingu aflamarks, í þorskígildum talið, á milli fiskveiðiáranna, sbr. 8. gr., þannig að skerðing umfram framangreind mörk verði að fullu bætt. Skal aflaheimildum skipt milli tegunda í hlutfalli við samsetningu aflaheimilda Hagræðingarsjóðs og úthlutað þannig til einstakra skipa.

8. gr.

     Fyrir hvert fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni með aflahlutdeild, sbr. lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, skal reikna aflamark fyrir hverja tegund annars vegar fyrir fiskveiðiárið er hófst 1. september 1991 og hins vegar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár miðað við aflahlutdeild viðkomandi skips af hverri tegund eins og hún var hinn 21. maí 1993. Skal miðað við úthlutað heildaraflamark hvors fiskveiðiárs fyrir hverja tegund að teknu tilliti til breytinga sem orðið hafa á heildaraflamarki innan hvers fiskveiðiárs. Við þessa útreikninga skal þó ekki taka tillit til úthlutunar á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs á árinu 1992, sbr. lög nr. 4/1992, um breyting á lögum nr. 40/1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Þannig reiknað aflamark hvers skips fyrir hvort fiskveiðiár um sig skal reiknað til þorskígilda miðað við verðmætastuðla skv. 10. gr. reglugerðar nr. 290/1992, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1. september 1992 til 31. ágúst 1993. Sú hlutfallslega breyting, sem orðið hefur á aflaheimildum einstakra skipa milli fiskveiðiára miðað við framangreindar forsendur, skal lögð til grundvallar við úthlutun skv. 7. gr.

V. KAFLI
Gildistaka.

9. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1993.

Samþykkt á Alþingi 11. nóvember 1993.