Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 452, 117. löggjafarþing 284. mál: ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs.
Lög nr. 119 23. desember 1993.

Lög um ráðstöfun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins til að vega á móti skerðingu þorskveiðiheimilda.


1. gr.

     Aflaheimildum Hagræðingarsjóðs vegna fiskveiðiársins 1. september 1993 til 31. ágúst 1994 skv. 5. gr. laga nr. 65/1992, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, sem óráðstafað er við gildistöku laga þessara, skal úthlutað án endurgjalds til þeirra fiskiskipa sem orðið hafa fyrir mestri skerðingu við úthlutun aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári.
     Skal Fiskistofa úthluta aflaheimildum til þeirra skipa sem orðið hafa fyrir meira en 9,8% skerðingu aflamarks í þorskígildum talið á milli fiskveiðiáranna, sbr. 2. gr., þannig að skerðing umfram framangreind mörk verði að fullu bætt. Skal aflaheimildum skipt milli tegunda í hlutfalli við samsetningu aflaheimilda Hagræðingarsjóðs og úthlutað þannig til einstakra skipa.

2. gr.

     Fyrir hvert fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni með aflahlutdeild, sbr. lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, skal reikna aflamark fyrir hverja tegund annars vegar fyrir fiskveiðiárið er hófst 1. september 1992 og hins vegar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár miðað við aflahlutdeild viðkomandi skips í hverri tegund 7. desember 1993. Skal miðað við úthlutað heildaraflamark hvors fiskveiðiárs fyrir hverja tegund að teknu tilliti til breytinga sem orðið hafa á heildaraflamarki innan hvors fiskveiðiárs. Við þessa útreikninga skal þó ekki taka tillit til úthlutunar á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs, sbr. lög nr. 112/1993. Þannig reiknað aflamark hvers skips fyrir hvort fiskveiðiár um sig skal reiknað til þorskígilda miðað við verðmætastuðla skv. 5. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 274/1993. Sú hlutfallslega breyting, sem orðið hefur á aflaheimildum einstakra skipa milli fiskveiðiára miðað við framangreindar forsendur, skal lögð til grundvallar við úthlutun skv. 1. gr.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 1993.