Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 376, 117. löggjafarþing 131. mál: lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir.
Lög nr. 123 27. desember 1993.

Lög um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.


I. KAFLI
Gildissvið.

1. gr.

     Lög þessi gilda um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

2. gr.

     Með lánastofnun er í lögum þessum átt við félög eða stofnanir sem hafa það að meginverkefni að veita lán í eigin nafni og afla sér í því skyni fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings, sbr. þó 9. gr.
     Lánastofnun er óheimilt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar og stunda aðra starfsemi en þá sem fjallað er um í lögum þessum.
     Þrátt fyrir ákvæði laga um viðskiptabanka og sparisjóði er lánastofnun heimilt að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið „fjárfestingarbanki“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum.

II. KAFLI
Stofnun og starfsleyfi.

3. gr.

     Lánastofnun verður einungis stofnuð sem hlutafélag. Óheimilt er að hefja starfsemi lánastofnunar nema að fengnu starfsleyfi viðskiptaráðherra. Skráning í hlutafélagaskrá veitir ekki sjálfkrafa rétt til að hefja slíka starfsemi. Ráðherra getur bundið starfsleyfi því skilyrði að hefjist starfsemi hlutaðeigandi stofnunar ekki innan tiltekins tíma eftir veitingu leyfisins falli það úr gildi.
     Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja samþykktir hlutafélagsins og jafnframt upplýsingar um stofnendur, hlutafé, hluthafa og hlut hvers um sig, svo og aðrar upplýsingar og gögn sem nánar skal fyrir mælt í reglugerð sem ráðherra setur.
     Áður en ráðherra afgreiðir umsókn um starfsleyfi skal hann leita umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.
     Birta skal tilkynningar um starfsleyfi lánastofnana í Lögbirtingablaði.
     Um veitingu starfsleyfis til lánastofnana, synjun umsókna um starfsleyfi og afturköllun starfsleyfis gilda að öðru leyti ákvæði II., III. og XIII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

4. gr.

     Einungis einstaklingar og lögaðilar búsettir hér á landi geta verið stofnendur lánastofnunar.
     Ríkisborgarar og lögaðilar annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir búsetuskilyrði 1. mgr. Ráðherra er heimilt að veita ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.

5. gr.

     Lánastofnun verður ekki stofnuð með lægra hlutafé en 400 milljónum króna og skal hlutafé aldrei nema lægri fjárhæð. Fjárhæð þessi skal bundin við gengi evrópsku mynteiningarinnar ecu miðað við kaupgengi hennar 11. maí 1993.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að stofna eignarleigufyrirtæki, sbr. 9. gr., með 80 milljóna króna hlutafé hið lægsta og skal það aldrei nema lægri fjárhæð. Fjárhæð þessi tekur sömu breytingum og um getur í 1. mgr.

6. gr.

     Um stofnun lánastofnunar fer að öðru leyti eftir ákvæðum um stofnun hlutafélagsbanka í II. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

III. KAFLI
Stjórnun og starfsemi.

7. gr.

     Hluthafafundur fer með æðsta vald í málefnum lánastofnunar samkvæmt því sem lög og samþykktir stofnunarinnar ákveða.
     Stjórn lánastofnunar skal kjörin af hluthöfum á aðalfundi. Hún fer með málefni félagsins milli hluthafafunda. Stjórnin skal skipuð eigi færri en þremur mönnum og jafnmörgum til vara.
     Stjórn lánastofnunar ræður framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á daglegum rekstri hlutaðeigandi stofnunar og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hennar sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum.
     Um stjórnendur og stjórnun lánastofnunar gilda að öðru leyti ákvæði um stjórn viðskiptabanka og sparisjóða í 38.–43. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

8. gr.

     Starfsemi lánastofnana felst í því að veita lán í eigin nafni og afla sér í því sambandi fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Til starfsemi þeirra telst einnig að veita þjónustu sem er í eðlilegum tengslum við slíka lánastarfsemi. Nánar tiltekið felst starfsemi þeirra í:
  1. Útlánastarfsemi, m.a.:
    1. neytendalánum,
    2. langtímaveðlánum,
    3. kröfukaupum og kaupum skuldaskjala og
    4. viðskiptalánum.
  2. Fjármögnunarleigu.
  3. Greiðslumiðlun.
  4. Útgáfu og umsýslu greiðslumiðla, t.d. greiðslukorta, ferðatékka og víxla.
  5. Að veita ábyrgðir og tryggingar.
  6. Viðskiptum fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:
    1. greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
    2. erlendan gjaldeyri,
    3. framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
    4. gengisbundin bréf og vaxtabréf og
    5. verðbréf.
  7. Þátttöku í útboðum verðbréfa og þjónustuviðskiptum tengdum slíkum útboðum.
  8. Ráðgjöf til fyrirtækja um uppbyggingu höfuðstóls, áætlanagerð og skyld mál og ráðgjöf og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
  9. Peningamiðlun.
  10. Stjórnun og ráðgjöf varðandi samval verðbréfa.
  11. Vörslu og ávöxtun verðbréfa.
  12. Upplýsingum um lánstraust (lánshæfni).
  13. Útleigu geymsluhólfa.
     Um verðbréfaviðskipti lánastofnana gilda auk ákvæða laga þessara ákvæði laga um verðbréfaviðskipti eftir því sem við getur átt.
     Lánastofnunum er heimilt að stunda vátryggingastarfsemi með stofnun dótturfyrirtækis.
     Þeim er einnig heimilt að stunda aðra starfsemi en um ræðir í 1. mgr., enda sé slík hliðarstarfsemi í eðlilegu framhaldi af meginstarfsemi þeirra. Til framangreindrar starfsemi þarf samþykki bankaeftirlitsins sem jafnframt getur ákveðið að hún skuli stunduð í sérstöku félagi.
     Um starfsemi lánastofnana fer að öðru leyti eftir ákvæðum V. kafla í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði að undanskildum ákvæðum um innlánsreikninga og innlánsskilríki.

9. gr.

     Með eignarleigufyrirtæki er átt við lánastofnun sem hefur eignarleigu að meginstarfsemi sinni, óháð því hvernig sú starfsemi er fjármögnuð. Með eignarleigu er átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selur leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- og afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Eignarleigufyrirtæki er þó einnig heimilt að veita þjónustu á þeim sviðum sem talin eru upp í 1. mgr. 8. gr., enda verði þar aldrei um að ræða meginstarfsemi viðkomandi fyrirtækis.
     Ráðherra getur sett nánari reglur um eignarleigustarfsemi þar sem m.a. koma fram skilgreiningar á hinum ýmsu flokkum eignarleigu og þau atriði sem að lágmarki skal kveðið á um í eignarleigusamningum.

IV. KAFLI
Eigið fé, ársreikningur, endurskoðun, slit og samruni.

10. gr.

     Eigið fé lánastofnunar skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar 8% af áhættugrunni, þ.e. heildareignum hlutaðeigandi félags og liðum utan efnahagsreiknings samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli sem Seðlabankinn setur.
     Um eigið fé lánastofnana gilda að öðru leyti ákvæði VI. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Ákvæði um laust fé viðskiptabanka og sparisjóða gilda þó ekki um lánastofnanir heldur fer um það samkvæmt ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands.

11. gr.

     Um ársreikning, endurskoðun og samstæðureikningsskil lánastofnana fer samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

12. gr.

     Um slit lánastofnana eða samruna við aðrar stofnanir fer samkvæmt ákvæðum VIII. og IX. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

V. KAFLI
Starfsemi erlendra lánastofnana hér á landi og innlendra stofnana erlendis.

13. gr.

     Erlendar lánastofnanir, sem hafa staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og hlotið hafa starfsleyfi lögbærra yfirvalda í því ríki, geta stofnsett útibú hér á landi tveimur mánuðum eftir að bankaeftirlitið hefur fengið tilkynningu þess efnis frá eftirlitsaðilum í heimaríkinu. Útibúinu er heimilt að veita hverja þá þjónustu sem lög þessi taka til, enda sé hlutaðeigandi stofnun heimiluð slík þjónusta í heimaríki hennar.
     Stofnunum, sem um ræðir í 1. mgr., er einnig heimilt að veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús þegar bankaeftirlitið hefur fengið tilkynningu þar að lútandi frá lögbærum eftirlitsaðilum í heimaríki hlutaðeigandi stofnunar. Þessum stofnunum er heimilt að veita hverja þá þjónustu sem lög þessi taka til skv. 8. gr., enda hafi eftirlitsaðilar í heimaríki þeirra staðfest að starfsleyfið taki til slíkrar þjónustu.
     Um heimildir erlendra lánastofnana, annarra en um ræðir í 1. mgr., til starfsemi hér á landi fer eftir reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.
     Um starfsemi erlendra lánastofnana hér á landi gilda að öðru leyti ákvæði XI. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

14. gr.

     Lánastofnanir, sem hlotið hafa starfsleyfi ráðherra skv. 3. gr. og óska eftir að starfrækja útibú í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, skulu tilkynna það bankaeftirlitinu ásamt upplýsingum um:
  1. í hvaða ríki fyrirhugað sé að stofna útibú,
  2. lýsingu á starfsemi útibúsins, skipulagi og fyrirhugaðri starfsemi,
  3. heimilisfang útibúsins og
  4. nöfn stjórnenda þess.
     Óski lánastofnun að veita þjónustu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins án þess að stofna þar útibú skal tilkynna það bankaeftirlitinu. Í tilkynningu skal koma fram hvaða ríki eigi í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin.
     Hyggist lánastofnun hefja starfsemi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal það tilkynnt bankaeftirlitinu fyrir fram ásamt lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi og öðrum upplýsingum sem bankaeftirlitið telur nauðsynlegar þar að lútandi.
     Um starfsemi innlendra lánastofnana erlendis fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

VI. KAFLI
Eftirlit.

15. gr.

     Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með því að starfsemi lánastofnana sé í samræmi við ákvæði laga, reglur settar samkvæmt þeim og samþykktir hlutaðeigandi stofnana. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands.
     Bankaeftirlitið skal rannsaka fjárhag lánastofnana sem skulu veita allar þær upplýsingar sem eftirlitið telur nauðsynlegar. Í þeim mæli, sem bankaeftirlitið telur nauðsynlegt til að meta fjárhagsstöðu lánastofnunar, hefur það rétt til að afla upplýsinga og framkvæma vettvangsrannsókn hjá tengdum fyrirtækjum eða hlutdeildarfyrirtækjum.

16. gr.

     Eftirlitsaðilum í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að framkvæma athugun í útibúum þarlendra stofnana hér á landi að undangenginni tilkynningu þess efnis til bankaeftirlitsins.

17. gr.

     Bankaeftirlitinu er heimilt að banna erlendri lánastofnun með aðalstöðvar í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins að stunda starfsemi hér á landi hafi hlutaðeigandi stofnun brotið gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða samþykktum og reglum settum samkvæmt þeim eða gegn ákvæðum annarra laga um fjármála- og lánastofnanir, enda hafi ekki tekist að binda enda á framangreind brot samkvæmt tilmælum eða viðurlögum þessara laga.
     Málsmeðferð skv. 1. mgr. fer að ákvæðum samnings um Evrópska efnahagssvæðið eftir því sem við á.

18. gr.

     Bankaeftirlitið skal halda skrá yfir starfandi lánastofnanir og útibú þeirra. Í skránni skulu koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar um hlutaðeigandi stofnun. Allar breytingar á áður skráðum upplýsingum, þar á meðal fjölgun eða fækkun útibúa, skulu tilkynntar bankaeftirlitinu fyrir fram.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

19. gr.

     Starfandi lánastofnunum við gildistöku laga þessara með eigið fé lægra en það hlutafé sem mælt er fyrir um í 5. gr. er heimilt að halda áfram starfsemi sinni, enda fari eigið fé þeirra ekki niður fyrir þá fjárhæð sem það nam við gildistöku laganna. Nú fer eigið fé niður fyrir framangreind mörk og er þá bankaeftirlitinu heimilt að veita hlutaðeigandi stofnun hæfilegan frest til úrbóta. Uppfylli stofnunin ekki skilyrðin um eigið fé að liðnum veittum fresti skal starfsleyfi hennar afturkallað samkvæmt ákvæðum II. kafla, sbr. ákvæði XIII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
     Yfirtaki nýir aðilar starfsemi lánastofnunar, sem starfar skv. 1. mgr., skal eigið fé stofnunarinnar hafa náð því lágmarki sem kveðið er á um í 1. eða 2. mgr. 5. gr. innan þriggja mánaða frá yfirtökunni.

20. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. falla Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna ekki undir ákvæði laga þessara.

21. gr.

     Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.

22. gr.

     Kostnaður við birtingar tilkynninga samkvæmt lögum þessum greiðist af hlutaðeigandi lánastofnun.

23. gr.

     Fyrir brot á lögum þessum skal refsað með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum.

24. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eftirtalin lög og lagaákvæði:
  1. Lög nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi.
  2. 2. mgr. 1. gr., 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr. og 4.–9. gr. laga nr. 48/1966, um Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja (verslunarlánasjóð).
  3. 2. mgr. 1. gr., 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr. og 4.–9. gr. laga nr. 45/1972, um Stofnlánadeild samvinnufélaga.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Lánastofnanir, sem falla undir skilgreiningu laga þessara og starfandi eru við gildistöku þeirra, skulu hafa aðlagað starfsemi sína ákvæðum laganna eigi síðar en 1. janúar 1995. Þar til sú aðlögun hefur farið fram er þeim óheimilt að opna útibú eða bjóða fram þjónustu sína í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ekki skylt að breyta félagsformi lánastofnunar, sem starfandi er við gildistöku laga þessara, í hlutafélag. Starfandi lánastofnun, sem breytt er í hlutafélag og skattlögð hefur verið samkvæmt lögum um skattskyldu innlánsstofnana, skal skattlögð þannig áfram.
II.
     Til og með 31. desember 1995 gilda ákvæði laga þessara um stjórnun og starfsemi, sbr. III. kafla, ekki um Iðnþróunarsjóð að því leyti er fer í bága við ákvæði samnings ríkisstjórna Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um stofnun norræns iðnþróunarsjóðs sem gerður var í Reykjavík 12. desember 1969 og ákvæði laga nr. 9/1970 um staðfestingu á þeim samningi. Þangað til er sjóðnum óheimilt að opna útibú eða bjóða fram þjónustu sína í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 1993.