Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 453, 117. löggjafarþing 244. mál: prestssetur.
Lög nr. 137 31. desember 1993.

Lög um prestssetur


1. gr.

     Í lögum þessum merkir orðið prestssetur lögboðinn aðsetursstað prests og er hluti af embætti hans.
     Prestssetur eru:
  1. Prestssetursjörð: Tiltekin jörð (lögbýli) ásamt mannvirkjum, þar með talið íbúðarhús sem að lögum er prestssetur.
  2. Prestsbústaður: Íbúðarhúsnæði án jarðnæðis í tilteknu sveitarfélagi eða á tiltekinni jörð eða nafngreindum stað þar sem lögboðið er að prestssetur skuli vera.

2. gr.

     Stofnsettur skal sérstakur sjóður, prestssetrasjóður.
     Stjórn sjóðsins, sbr. 3. gr., fer með yfirstjórn prestssetra og hefur fyrirsvar þeirra vegna.
     Prestssetrasjóður stendur straum af kostnaði við prestssetrin, sbr. 6. gr. laga þessara.

3. gr.

     Kirkjuráð kýs þriggja manna stjórn prestssetrasjóðs og varamenn þeirra og skiptir með þeim verkum. Kjörtímabil stjórnar er hið sama og kirkjuráðs.
     Kirkjuþing getur sett sjóðstjórn starfsreglur og gert ályktanir um hvaðeina er lýtur að stjórn og starfrækslu sjóðsins er bindur sjóðstjórn.

4. gr.

     Stjórn prestssetrasjóðs er heimilt að kaupa og selja prestssetur eða réttindi sem tengjast þeim, en samningur verður ekki bindandi fyrir aðila nema kirkjuþing og dóms- og kirkjumálaráðherra hafi heimilað þá ráðstöfun. Þó er ekki heimilt, nema með samþykki Alþingis, að selja prestssetur, eða réttindi sem þeim tengjast, sem prestssetrasjóður tekur við þegar lög þessi öðlast gildi.

5. gr.

     Prestum ber að gjalda prestssetrasjóði leigu fyrir prestssetur. Sjóðstjórn ákveður leigukjör, þar með talið leigugjald, og gerir leigusamninga við presta um prestssetur. Ákvæði húsaleigulaga og ábúðarlaga taka til réttarsambands aðila eftir því sem við getur átt.

6. gr.

     Prestssetrasjóður kostar:
  1. Nýbyggingar prestssetra.
  2. Kaup og sölu prestssetra.
  3. Viðhald prestssetra.
  4. Eignakaup á prestssetursjörðum við ábúðarlok prests ef því er að skipta.
  5. Lögboðnar vátryggingar prestssetra.
  6. Fasteignagjöld prestssetra.
  7. Annan rekstur prestssetranna sem greiðist ekki af presti.
  8. Rekstur sjóðsins.

7. gr.

     Tekjur prestssetrasjóðs eru sem hér segir:
  1. Fast framlag úr kirkjumálasjóði.
  2. Leigutekjur af prestssetrum.
  3. Álag greitt af presti við úttekt samkvæmt lögbundinni úttekt við ábúðarlok hans ef því er að skipta.
  4. Söluandvirði prestssetra.
  5. Framlög sem einstakar sóknir kunna að verja til tiltekinna verkefna.

8. gr.

     Við gildistöku laga þessara tekur stjórn prestssetrasjóðs við þeirri yfirstjórn prestssetra sem verið hefur í höndum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, svo og réttindum og skyldum sem þeim fylgja.

9. gr.

     Reikningshald prestssetrasjóðs skal vera í höndum biskupsstofu nema kirkjuþing geri aðra skipan þar á.
     Ríkisendurskoðun endurskoðar fjárreiður prestssetrasjóðs í samræmi við lög um Ríkisendurskoðun, ásamt síðari breytingum.

10. gr.

     2. málsl. 5. gr. laga um Kristnisjóð o. fl., nr. 35 9. maí 1970, verður svohljóðandi: Nú er presti skylt að hafa aðsetur í kaupstað eða kauptúni og er þá sveitarfélagi skylt að leggja til ókeypis lóð undir íbúðarhús hans ef um lögboðið prestssetur er að ræða.
     2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62 17. maí 1990, fellur úr gildi.

11. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Kirkjuráð kýs svo fljótt sem auðið er þriggja manna stjórn prestssetrasjóðs og varamenn og skiptir með þeim verkum. Sú stjórn skal setja sér starfsreglur að fengnum tillögum Prestafélags Íslands og prófastafundar. Kjörtímabil þeirrar stjórnar skal vera hið sama og núverandi kirkjuráðsmanna.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 1993.