Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 802, 117. löggjafarþing 239. mál: samkeppnislög (hæfniskröfur samkeppnisráðsmanna).
Lög nr. 24 25. mars 1994.

Lög um breytingu á samkeppnislögum, nr. 8 25. febrúar 1993.


1. gr.

     1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra skipar fimm menn í samkeppnisráð og jafnmarga til vara. Skulu þeir hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum. Ráðherra skipar formann og varaformann ráðsins og skal þess gætt að þeir hafi ekki beinna og verulegra hagsmuna að gæta í atvinnustarfsemi sem lögin taka til. Samkeppnisráð setur sér reglur um málsmeðferð.

2. gr.

     1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
     Ákvarðanir samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar sæta kæru til sérstakrar nefndar, áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Skrifleg kæra skal berast innan fjögurra vikna frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála skal liggja fyrir innan sex vikna frá málskoti.

3. gr.

     2. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
     Almennir skilmálar þjónustuaðila, sem bjóða neytendum þjónustu sína hér á landi, skulu vera á íslensku.

4. gr.

     2. mgr. 50. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir 2. mgr. 6. gr. lýkur skipunartíma starfandi samkeppnisráðs við gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 22. mars 1994.