Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 928, 117. löggjafarþing 235. mál: slysavarnaráð.
Lög nr. 33 25. apríl 1994.

Lög um slysavarnaráð.


1. gr.

     Stofna skal slysavarnaráð sem heyrir undir heilbrigðisráðherra. Landlæknisembættið skal hafa með hendi daglega framkvæmdastjórn ráðsins.

2. gr.

     Tilgangur slysavarnaráðs er að stuðla að fækkun slysa. Þeim tilgangi skal ráðið ná með því að:
  1. móta reglur sem miða að því að slys séu skilmerkilega skráð og sú skráning sé samræmd, jafnframt því sem séð verði um úrvinnslu þeirra upplýsinga og útgáfu á slysatölum,
  2. vera ríkisstjórn, ráðherra og öðrum aðilum til ráðuneytis um allt er lýtur að slysavörnum,
  3. gera tillögur til heilbrigðisyfirvalda um áhersluatriði í slysavörnum á hverjum tíma,
  4. stuðla að rannsóknum á orsökum og afleiðingum slysa,
  5. hvetja til samræmingar á störfum þeirra aðila sem vinna að slysavörnum,
  6. fylgjast með nýjungum og reynslu annarra þjóða í slysavörnum,
  7. halda landsþing um slysavarnir annað hvert ár.

3. gr.

     Heilbrigðisráðherra skipar níu fulltrúa í slysavarnaráð, tilnefnda af eftirtöldum aðilum: landlæknisembættinu, og skal sá vera formaður, dómsmálaráðherra, Landsbjörg, læknadeild Háskóla Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Slysavarnafélagi Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Umferðarráði og Vinnueftirliti ríkisins.
     Slysavarnaráð skal skipað til fjögurra ára í senn.
     Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

4. gr.

     Samræmd slysaskrá, sbr. a-lið 2. gr., skal varðveitt hjá landlækni. Ráðið mótar reglur um framkvæmd skráningar og aðgang að upplýsingum úr skránni.

5. gr.

     Slysavarnaráði skal úthlutað fjármunum til reksturs í sérstökum lið sem fellur undir embætti landlæknis á fjárlögum.

6. gr.

     Slysavarnaráð gerir árlega áætlun um ráðstöfun á því fé sem til þess er veitt.

7. gr.

     Slysavarnaráð sendir ráðuneytinu í lok hvers árs skýrslu um störf þess.

8. gr.

     Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um störf slysavarnaráðs í reglugerð.

9. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1995.

Samþykkt á Alþingi 12. apríl 1994.