Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 906, 117. löggjafarþing 196. mál: Hæstiréttur Íslands (tala fastra dómara, varadómarar, afgreiðsla kærumála).
Lög nr. 39 19. apríl 1994.

Lög um breyting á lögum um Hæstarétt Íslands, nr. 75 21. júní 1973.


1. gr.

     1. mgr. 2. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Hæstarétt skipa níu dómarar. Forseti Íslands skipar hæstaréttardómara.

2. gr.

     2.–3. mgr. 3. gr. laganna verða svohljóðandi:
     Ef kærður er úrskurður sem varðar rekstur máls í héraði, kærumálið er skriflega flutt og það varðar ekki mikilvæga hagsmuni getur einn dómari skipað dóm í því. Annars skulu þrír dómarar skipa dóm í kærumáli nema sérstaklega standi á. Þrír dómarar geta enn fremur skipað dóm í einkamáli ef úrslit þess varða ekki mikilvæga hagsmuni að mati dómsins. Þá geta þrír dómarar skipað dóm í opinberu máli ef almenna refsingin, sem liggur við broti, er ekki þyngri en sektir, varðhald eða fangelsi allt að átta árum.
     Dómurinn ákveður hve margir dómarar skipa dóm í hverju máli. Þegar fimm eða sjö dómarar skipa dóm í máli skulu eiga þar sæti þeir sem eru elstir að starfsaldri við Hæstarétt, en dómari skv. 4. gr. verður þá ekki kvaddur til setu í dómi nema tölu dómara verði ekki náð í máli vegna forfalla eða vanhæfis reglulegra dómara.

3. gr.

     Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eins má fara að í einstaka málum ef sérstaklega stendur á vegna anna þótt sæti einskis hæstaréttardómara sé autt af áðurnefndum ástæðum.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1994. Sú viðbót, sem er gerð við 1. mgr. 4. gr. með 3. gr. þessara laga, fellur úr gildi 31. desember 1996.

Samþykkt á Alþingi 6. apríl 1994.