Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1239, 117. löggjafarþing 430. mál: neytendalán (framsal viðskiptabréfa, framkvæmd laganna o.fl.).
Lög nr. 101 20. maí 1994.

Lög um breytingu á lögum nr. 30/1993, um neytendalán.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. Nýr stafliður, c-liður, bætist við, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því: Lánssamningar þar sem lán er veitt gegn lægra gjaldi en almennt gerist og stendur almenningi ekki til boða.
  2. G-liður, sem verður h-liður, orðast svo: Lánssamningar sem eru gerðir í því skyni að stofna til eða viðhalda eignarrétti yfir fasteignum eða til að endurgera eða bæta við fasteign.
  3. Ný málsgrein, 2. mgr., bætist við, svohljóðandi:
  4.       Ákvæði 1. mgr. gildir þó ekki um samninga sem gerðir eru í því skyni að halda þeim utan gildissviðs laga þessara, svo sem með skiptingu fjárhæðar á fleiri en einn lánssamning.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „heimildir til fyrirframúttektar“ í 1. mgr. kemur: yfirdráttarheimildar.
  2. Í stað orðanna „áður en gengið er frá samningnum“ í 1. mgr. kemur: í upphafi viðskipta.
  3. Í stað orðsins „ársvextir“ í b-lið kemur: vextir.
  4. D-liður orðast svo: Hvort breytingar geti orðið á vöxtum eða umsömdum gjöldum á samningstímanum. Í þeim tilvikum skal neytandi upplýstur um það með hvaða hætti breytingar verða tilkynntar honum. Slíkt má gera með því að vekja sérstaka athygli á breytingunni í reikningsyfirliti, með auglýsingum í fjölmiðlum eða á annan sambærilegan hátt.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. A-liður orðast svo: Neytandi er einstaklingur sem á lánsviðskipti sem lög þessi ná til, enda séu þau ekki gerð í atvinnuskyni af hans hálfu.
  2. F-liður orðast svo: Eignarréttarfyrirvari er þegar við kaup á vöru er samið um að lánveitandi sé eigandi söluvöru þar til andvirði hennar er að fullu greitt samkvæmt lánssamningi og að lánveitandi geti tekið vöruna til sín ef neytandi stendur ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. Við 1. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Þegar lánveitandi er jafnframt seljandi vöru eða þjónustu skal höfuðstóll lánsins jafngilda staðgreiðsluverði vörunnar eða þjónustunnar. Ef einungis hluti af andvirði vörunnar eða þjónustunnar er lánaður skal draga útborgunina frá höfuðstól.
  2. Í stað orðanna „Árlega nafnvexti“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: Vexti.
  3. Í stað orðsins „Lántökukostnað“ í 4. tölul. 1. mgr. kemur: Heildarlántökukostnað.
  4. Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, 9. tölul., er orðast svo: Heimild til að greiða fyrir lokagjalddaga, sbr. 16. gr.
  5. Í stað orðanna „árlegir nafnvextir“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: vextir.

5. gr.

     7. gr. laganna breytist þannig að 1. málsl. 1. mgr. verður 1. mgr., 2. málsl. 1. mgr. verður 2. mgr. og 2. mgr. verður 3. mgr.
     Í stað orðanna „1. mgr.“ í 2. mgr., sem verður 3. mgr., kemur: 2. mgr.

6. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Árleg hlutfallstala kostnaðar er það vaxtaígildi sem jafnar núvirðið af greiðsluskuldbindingum lánveitanda annars vegar og neytanda hins vegar samkvæmt lánssamningi þeirra. Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal lýst sem árlegri prósentu af upphæð höfuðstóls lánsins. Hún skal reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkingu sem nánar skal mælt fyrir um í reglugerð er ráðherra setur.

7. gr.

     1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
     Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.

8. gr.

     1. og 2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
     Nú eru vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi og er lánveitanda þá eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Að öðru leyti fer um vexti af neytendalánum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.
     Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar.

9. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Neytanda skal heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningi fyrir þann tíma sem umsaminn er. Notfæri neytandi sér heimild þessa á hann rétt á lækkun á heildarlántökukostnaði sem nemur þeim vöxtum og öðrum gjöldum sem greiða átti eftir greiðsludag. Ekki er hægt að krefjast endurgreiðslu eða lækkunar á gjöldum sem eru óháð því hvenær greiðsla er innt af hendi.
     Ákvæði 1. mgr. á ekki við um greiðslu sem innt er af hendi fyrir gjalddaga þegar hún tengist ekki uppgreiðslu láns fyrir umsaminn lokagjalddaga eða annarri breytingu á umsömdum afborgunum láns.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „kröfu“ í fyrri málslið 1. mgr. kemur: kröfurétt sinn samkvæmt láni sem veitt er samkvæmt lögum þessum.
  2. Í stað orðsins „og“ í síðari málslið 1. mgr. kemur: eða.
  3. 3. mgr. orðast svo:
  4.       Ef neytandi á kröfu á hendur lánveitanda, sem jafnframt er seljandi, vegna kaupa, t.d. vegna galla, er framsalshafi meðábyrgur lánveitanda.

11. gr.

     18. gr. laganna orðast svo:
     Seljandi, sem veitir neytanda lán samkvæmt lögum þessum í formi viðskiptabréfs, skal taka tryggingu vegna hugsanlegrar vanefndakröfu neytanda vegna þeirra viðskipta sem að baki viðskiptabréfi standa.
     Tryggingarfjárhæð innan hvers tryggingartímabils, sem er eitt ár, skal nema 5.000.000 kr. Neytandi skal gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár innan eins árs frá afhendingu vöru eða þjónustu. Séu kröfuhafar fleiri en einn fer um rétt þeirra til tryggingarfjárins eftir röð krefjenda. Að gengnum fullnaðardómi eða að gerðri réttarsátt um vanefnd og þegar ljóst er að seljandi getur ekki efnt skyldu sína samkvæmt dóminum eða sáttinni skal neytanda greitt af tryggingarfénu.
     Ráðherra skal setja nánari ákvæði um tryggingarskylduna, gildissvið tryggingarinnar, hverjir veitt geti tryggingu og skilmála í reglugerð. Í henni má einnig kveða á um lægri tryggingarfjárhæð en greinir í 2. mgr. þegar umfang viðskipta er það takmarkað að lægri tryggingarfjárhæð veitir nægjanlega vernd.
     Nú hefur seljandi ekki gilda tryggingu samkvæmt grein þessari og getur kaupandi þá borið fram mótbárur svo sem bréfið væri ekki viðskiptabréf.

12. gr.

     21. gr. laganna orðast svo:
     Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.

13. gr.

     Í stað orðanna „fjárhæðarmörkum lánssamninga sem lög þessi taka til“ í 23. gr. laganna kemur: fjárhæðum í lögum þessum.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á VII. kafla laganna:
  1. Við bætist ný grein, 25. gr., er orðast svo:
  2.       Samkeppnisstofnun annast eftirlit með ákvæðum laga þessara. Um meðferð mála hjá samkeppnisyfirvöldum fer samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga að öðru leyti en því að ákvörðunum samkeppnisráðs um dagsektir verður ekki skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
  3. Við bætist ný grein, 26. gr., er orðast svo:
  4.       Samkeppnisráð getur bannað athafnir sem brjóta í bága við ákvæði laga þessara. Banni má fylgja ákvörðun um dagsektir sem kemur til framkvæmda ef bannið er brotið. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag.
          Áður en til banns kemur skv. 1. mgr. getur Samkeppnisstofnun lokið málinu með sátt. Hafi sátt komist á gildir hún sem bann skv. 1. mgr.
  5. Núgildandi 25.–26. gr. verða 27.–28. gr.
  6. Fyrirsögn kaflans verður: Bótaskylda, eftirlit og gildistaka.

15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Þegar lögin hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 30/1993, um neytendalán, og gefa þau út svo breytt.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 1994.