Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 352, 118. löggjafarþing 165. mál: atvinnuréttindi útlendinga (heildarlög).
Lög nr. 133 21. desember 1994.

Lög um atvinnuréttindi útlendinga.


I. KAFLI
Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

     Ákvæði laga þessara gilda um atvinnuréttindi útlendinga á Íslandi.

2. gr.

     Í lögum þessum merkir:
      Atvinnuleyfi: Leyfi sem félagsmálaráðherra veitir útlendingi til að starfa á Íslandi eða atvinnurekanda til að ráða útlending í starf.
      Tímabundið atvinnuleyfi: Leyfi veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa.
      Óbundið atvinnuleyfi: Leyfi veitt útlendingi til að vinna á Íslandi.
      Atvinnuleyfi vegna námsdvalar og vistráðningar: Atvinnuleyfi erlendra námsmanna í íslenskum skólum eða vegna samninga um vist á heimili.
      Atvinnuleyfi til bráðabirgða: Leyfi veitt atvinnurekanda til að ráða til bráðabirgða útlendinga, einn eða fleiri, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
      Atvinnurekstrarleyfi: Leyfi til að vinna sjálfstætt eða starfrækja fyrirtæki.
      Atvinnurekandi: Einstaklingur eða fyrirtæki sem er með atvinnurekstur hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi og eignarhaldi er háttað.
      Útlendingur: Einstaklingur sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt.

II. KAFLI
Almenn ákvæði.

3. gr.

     Veiting leyfa samkvæmt lögum þessum heyrir undir félagsmálaráðherra.
     Ráðherra er heimilt að fela opinberri stofnun að gefa út atvinnuleyfi samkvæmt nánari ákvæðum sem sett skulu í reglugerð.
     Viðskiptaráðherra veitir atvinnurekstrarleyfi til útlendinga sem eiga lögheimili eða eru búsettir erlendis, sbr. ákvæði laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

4. gr.

     Óheimilt er hverjum manni, félagi eða stofnun, sem rekur atvinnu eða starfrækir fyrirtæki, hverju nafni sem það nefnist, að ráða útlending til starfa, hvort heldur er um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingur flytjist til landsins í því skyni án atvinnuleyfis. Slíkt leyfi skal liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi.
     Útlendingi er óheimilt að ráða sig í vinnu eða starfa sjálfstætt nema leyfi hafi verið veitt samkvæmt lögum þessum eða lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
     Útlendingar, sem falla undir ákvæði 13. og 14. gr., eru undanþegnir ákvæðum 1. og 2. mgr. þessarar greinar.

5. gr.

     Óheimilt er að veita útlendingi leyfi samkvæmt lögum þessum sem hefur ekki dvalarleyfi hér á landi samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum eða hefur verið gert að fara af landi brott.

6. gr.

     Leyfi samkvæmt lögum þessum má binda öllum þeim skilyrðum um löggæslu, hollustuhætti, framfærslu, iðnnám eða aðra sérmenntun og sérhvað annað sem ráðherra telur nauðsynlegt eða heppilegt ríkis eða almennings vegna.
     Atvinnuleyfi veitir rétt til að vinna á Íslandi samkvæmt þeim reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

III. KAFLI
Atvinnuleyfi.

7. gr.

Tímabundið atvinnuleyfi.
     Tímabundið atvinnuleyfi er veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa. Skilyrði þess að atvinnuleyfi megi veita samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:
  1. að kunnáttumenn verði ekki fengnir innan lands, atvinnuvegi landsins skorti vinnuafl eða aðrar sérstakar ástæður mæli með leyfisveitingu,
  2. að fyrir liggi umsögn stéttarfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein eða viðkomandi landssambands,
  3. að fyrir liggi undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefnis sem tryggi erlendum starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, sbr. lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda; í ráðningarsamningi skal einnig vera ákvæði um flutning hlutaðeigandi frá Íslandi að starfstíma loknum, svo og um greiðslur ferðakostnaðar og heimflutning í veikindum eða við óvænt ráðningarslit sem starfsmaður á ekki sök á,
  4. að fyrir liggi heilbrigðisvottorð hlutaðeigandi starfsmanns ásamt yfirlýsingu um síðasta dvalarstað áður en komið er til landsins.

     Atvinnuleyfi, sem veitt er í fyrsta skipti samkvæmt þessari grein, skal eigi veitt til lengri tíma en eins árs. Heimilt er að framlengja það um allt að tvö ár í senn enda séu uppfyllt skilyrði sem fram koma í a–c-liðum.
     Umsögn, sbr. b-lið 1. mgr., skal liggja fyrir innan 14 daga frá móttöku umsagnaraðila á umsókn um atvinnuleyfi.
     Áður en atvinnuleyfi er veitt samkvæmt þessari grein rannsakar vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins sjálfstætt atvinnuástand á hlutaðeigandi stað séu slíkar upplýsingar ekki þegar fyrir hendi.
     Heimilt er að veita útlendingi, sem er ríkisborgari í ríki sem hefur gert samning við íslensk stjórnvöld um atvinnuréttindi eða er aðili að alþjóðasamningum um félagsleg réttindi sem Ísland hefur fullgilt, leyfi til að stunda atvinnu á Íslandi í lengri tíma en greinir í 2. mgr.

8. gr.

Óbundið atvinnuleyfi.
     Heimilt er að veita útlendingi óbundið atvinnuleyfi hafi hann samfellt átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár.
     Skilyrði þess að leyfi megi veita samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:
  1. að áður hafi verið veitt leyfi skv. 7. gr.,
  2. að hlutaðeigandi útlendingur hafi öðlast ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi, sbr. lög um eftirlit með útlendingum.

     Heimilt er að veita útlendingi, er hefur fengið landvist hér á landi sem flóttamaður, atvinnuleyfi samkvæmt þessari grein.
     Leyfi samkvæmt þessari grein gildir meðan útlendingur hefur hér fasta búsetu.
     Ef ástæða þykir til er heimilt að afturkalla atvinnuleyfi sem veitt er samkvæmt þessari grein.

9. gr.

Atvinnurekstrarleyfi.
     Útlendingur, sem á lögheimili á Íslandi, getur fengið leyfi til að starfa sjálfstætt eða starfrækja fyrirtæki að uppfylltum neðangreindum skilyrðum:
  1. að umsækjandi sé fjárráða og hafi forræði á búi sínu,
  2. að leitað hafi verið umsagnar hlutaðeigandi heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins um umsóknina.

     Leyfi samkvæmt þessari grein er bundið við ákveðna starfsemi. Sé hún háð heimild annarra stjórnvalda skal umsækjandi leggja fram vottorð þess stjórnvalds um að hann geti fengið leyfi til starfseminnar. Ekki skal veita atvinnurekstrarleyfi í fyrsta skipti til lengri tíma en þriggja ára. Við endurnýjun er heimilt að veita slíkt leyfi til ótakmarkaðs tíma.
     Heimilt er að synja manni um atvinnurekstrarleyfi hafi hann verið sviptur starfsréttindum, sbr. ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga.
     Umsögn, sbr. b-lið 1. mgr., skal liggja fyrir innan 14 daga frá móttöku umsagnaraðila á umsókn um atvinnurekstrarleyfi.

10. gr.

Atvinnuleyfi vegna námsdvalar.
     Heimilt er að veita útlendingi, sem stundar fullt nám við íslenskan skóla samkvæmt vottorði frá hlutaðeigandi skóla, leyfi til að stunda vinnu í tengslum við nám, með námi eða í námsleyfum.
     Skilyrði fyrir veitingu leyfis samkvæmt þessari grein er framvísun innritunarvottorðs hlutaðeigandi skóla og umsögn stéttarfélags eða viðkomandi landssambands. Leyfi skal ekki veitt til lengri tíma en eins árs í senn.
     Nánar skal kveðið á um atvinnuleyfi útlendinga, sem hafa lokið prófum frá íslenskum skólum, í reglugerð.

11. gr.

Atvinnuleyfi vegna vistráðningar.
     Heimilt er að veita leyfi til að ráða útlending í vist á íslensku heimili. Skilyrði fyrir veitingu leyfis er að fyrir liggi skriflegur samningur á milli aðila þar sem fram kemur gildistími samnings, hlunnindi að því er varðar fæði og húsnæði, daglegur vinnutími, daglegur og vikulegur hvíldartími og réttur til að stunda nám. Fæði og húsnæði skal vera ókeypis. Útlendingur, sem óskað er eftir að ráða samkvæmt þessari grein, skal hafa náð 17 ára aldri og ekki vera eldri en 30 ára.
     Félagsmálaráðuneytið skal ákveða upphæð vasapeninga sem greiða skal útlendingi sem ráðinn hefur verið í vist skv. 1. mgr.
     Ráðuneytinu er heimilt að veita stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum heimild til milligöngu um og eftirlit með ráðningum skv. 1. mgr. Aðilum, sem fá slíka heimild, er skylt að veita stjórnvöldum upplýsingar um þessa starfsemi ef eftir þeim er leitað. Ráðuneytið skal gefa út nauðsynleg eyðublöð vegna samninga um vistráðningu. Á eyðublaðið skal prenta upplýsingar um ábyrgð þess sem ræður til sín útlending í vist, m.a. í sambandi við sjúkra- og slysatryggingar.
     Óheimilt er að veita leyfi til ráðningar sama einstaklings skv. 1. mgr. nema til eins árs.

12. gr.

Atvinnuleyfi til bráðabirgða.
     Heimilt er að veita atvinnurekanda nafnlaust atvinnuleyfi til bráðabirgða. Við útgáfu slíkra atvinnuleyfa skal gætt ákvæða 1.–4. mgr. 7. gr. að undanskildum c- og d-liðum 1. mgr.
     Áður en útlendingur, sem hefur verið heimilað að ráða skv. 1. mgr., kemur til landsins ber að fá leyfi útlendingaeftirlitsins til landgöngu.
     Atvinnurekandi, sem hefur fengið heimild til ráðningar samkvæmt þessari grein, skal leggja fram tilskilin gögn innan 14 daga frá komu útlendingsins til landsins, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 7. gr.

IV. KAFLI
Undanþágur.

13. gr.

     Ekki þarf að sækja um leyfi samkvæmt lögum þessum fyrir:
  1. Ríkisborgara í ríkjum sem eiga aðild að samningi um Evrópska efnahagssvæðið hafi þeir fengið dvalarleyfi eða afhent skráningaryfirvaldi norrænt flutningsvottorð.
  2. Útlendinga sem hafa verið íslenskir ríkisborgarar frá fæðingu en hafa misst íslenskan ríkisborgararétt.
  3. Útlendinga í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja.


14. gr.

     Eftirtaldir útlendingar eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að fjórar vikur á ári hér á landi:
  1. Vísindamenn og fyrirlesarar að því leyti sem varðar kennslu eða hliðstæða starfsemi.
  2. Listamenn að undanskildum hljóðfæraleikurum sem ráða sig til starfa á veitingahúsum.
  3. Íþróttaþjálfarar.
  4. Fulltrúar í viðskiptaerindum fyrir fyrirtæki sem ekki hafa útibú hérlendis.
  5. Ökumenn fólksflutningabifreiða sem skráðar eru í erlendu ríki enda hafi þeir komið með erlenda ferðamenn í bifreiðunum til landsins.
  6. Blaða- og fréttamenn erlendra fjölmiðla sem eru í þjónustu fyrirtækja sem ekki hafa starfsstöð á Íslandi.
  7. Sérhæfðir starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur sem vinna að samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja.


V. KAFLI
Viðurlög og afturköllun atvinnuleyfa.

15. gr.

     Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim varða þann sektum er hefur útlending í vinnu án leyfis, svo og útlending er starfar án leyfis. Sömu refsingu varðar það ef ekki eru haldin skilyrði eða brotin ákvæði er sett kunna verða í leyfi sem veitt eru samkvæmt lögum þessum.
     Hafi aðili hlutast til um að útlendingur, sem hefur verið synjað um atvinnuleyfi, flytjist til landsins til að taka hann í þjónustu sína ber þeim aðila að sjá um brottflutning slíks erlends starfsmanns innan þess tíma sem ráðherra tiltekur ríkissjóði að kostnaðarlausu.

16. gr.

     Heimilt er að afturkalla leyfi sem veitt eru samkvæmt lögum þessum ef brotin eru ákvæði laganna eða skilyrðum, sem sett eru í leyfum, er ekki fullnægt, svo og ef veruleg breyting verður á leyfistímanum á eftirspurn og framboði vinnuafls.

17. gr.

     Ef útlendingur stundar atvinnu eða atvinnurekstur hér á landi í andstöðu við ákvæði laga þessara er útlendingaeftirlitinu heimilt að vísa honum úr landi, sbr. ákvæði laga um eftirlit með útlendingum.

18. gr.

     Mál út af brotum gegn lögum þessum skulu sæta opinberri meðferð.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði og gildistaka.

19. gr.

     Þegar það á við skal tilkynna útlendingi leyfisveitingu eða synjun er hann varðar. Allar leyfisveitingar og synjanir skulu tilkynntar útlendingaeftirlitinu.
     Við útgáfu atvinnuleyfis skal afhenda útlendingi, eða umboðsmanni hans, skírteini þar sem fram koma upplýsingar um réttindi hans til að stunda vinnu á Íslandi. Í skírteininu skulu vera nauðsynlegar persónuupplýsingar. Útlendingur skal hafa skírteinið tiltækt og framvísa því ef löggæslumaður óskar þess. Heimilt er að krefja umsækjanda um atvinnuleyfi um endurgjald fyrir skírteinið. Endurgjaldið skal ekki vera hærra en sem nemur kostnaði við útgáfu þess.

20. gr.

     Félagsmálaráðuneytið skal árlega leita álits helstu samtaka atvinnurekanda og launafólks á stefnu sem fylgt er við veitingu atvinnuleyfa til ráðningar á útlendingum til starfa á Íslandi.
     Ráðuneytið útbýr og dreifir prentuðum upplýsingum til sendiráða Íslands og annarra er þess óska. Greint skal frá reglum um dvalarleyfi, almennum launakjörum, vinnutíma, aðbúnaði við vinnu hér á landi, sköttum og opinberum gjöldum, rétti til yfirfærslu fjármuna, réttindum og skyldum sem erlent starfsfólk tekst á hendur við ráðningu í vinnu. Það skal enn fremur gefa út nauðsynleg eyðublöð vegna umsókna um atvinnuleyfi.

21. gr.

     Í reglugerð getur ráðherra sett nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.

22. gr.

     Með lögum þessum eru úr gildi numin lög nr. 26/1982, með síðari breytingum, um atvinnuréttindi útlendinga.

23. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. desember 1994.