Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 783, 118. löggjafarþing 99. mál: samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar (EES-reglur).
Lög nr. 14 6. mars 1995.

Lög um breytingu á lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum.


1. gr.

     Fyrir aftan orðin „bera hann fyrir sig“ í lok 1. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna bætist við: sbr. þó 36. gr. c.

2. gr.

     Á eftir 36. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, fyrst 36. gr. a er orðast svo:
     Ákvæði 36. gr. a–d gilda um samninga, m.a. samningsskilmála, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda, sbr. þó 36. gr. d. Ákvæðin gilda einnig um samninga milli neytenda sem atvinnurekandi stendur að fyrir annan aðilanna.
     Á atvinnurekandanum hvílir sönnunarbyrðin fyrir því að samið hafi verið sérstaklega um samning og hann falli ekki undir 1. mgr.

3. gr.

     36. gr. b laganna orðast svo:
     Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.

4. gr.

     36. gr. c laganna orðast svo:
     Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
     Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.
     Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.

5. gr.

     36. gr. d laganna orðast svo:
     Ef ákvæði samnings tengist náið landsvæði EES-ríkja þannig að samningurinn sé t.d. gerður þar eða einhver samningsaðila búi þar og samingsákvæði kveður á um að löggjöf lands utan Evrópska efnahagssvæðisins skuli gilda um samninginn skal ákvæðið ekki gilda um ósanngjarna samningsskilmála ef neytandinn fær við það lakari vernd gegn slíkum skilmálum en samkvæmt viðeigandi löggjöf lands á efnahagssvæðinu.

6. gr.

     Lög þessi, sem sett eru á grundvelli tilskipunar 93/13/EBE, öðlast þegar gildi.
     Ákvæði 36. gr. b laganna gilda ekki um samninga sem gerðir eru fyrir gildistöku laganna.

Samþykkt á Alþingi 23. febrúar 1995.