Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 933, 118. löggjafarþing 447. mál: greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks (heildarlög).
Lög nr. 51 7. mars 1995.

Lög um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.


1. gr.

     Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna atvinnuleysisbóta fiskvinnslufólks, sem nýtur réttar til kauptryggingar samkvæmt almennum kjarasamningum, skulu inntar af hendi til fiskvinnslufyrirtækja eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
     Vinnuveitandi, sem greiðir starfsfólki sínu föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamnings um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnslu, skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði eftir því sem segir í lögum þessum og reglugerð settri samkvæmt þeim. Með tímabundinni vinnslustöðvun er í lögum þessum átt við að hráefnisskortur eða aðrar sambærilegar orsakir valdi því að vinnsla liggur niðri á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis.
     Fyrirtæki, sem starfrækir fiskvinnslu og fullnægir skilyrðum 2. mgr. þessarar greinar, skal eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag umfram tvo á hverju almanaksári sem það greiðir starfsmönnum laun meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur, sbr. 2. mgr.
     Greiðsla samkvæmt þessari grein skal nema fjárhæð hámarksdagpeninga samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, auk lífeyrissjóðsiðgjalds og tryggingagjalds atvinnurekenda, fyrir hvern starfsmann í fullu starfi sem orðið hefur verkefnalaus vegna vinnslustöðvunar meðan hún varir, þó ekki lengur en 30 greiðsludaga í senn og aldrei lengur en 60 greiðsludaga á hverju almanaksári. Vegna starfsmanna í hlutastarfi skal greiðslan vera í samræmi við samningsbundið starfshlutfall hlutaðeigandi starfsmanna.

2. gr.

     Fyrirtæki, sem hyggst njóta greiðslu skv. 1. gr., skal með a.m.k. þriggja sólarhringa fyrirvara tilkynna fyrirhugaða vinnslustöðvun og orsakir hennar til þess aðila sem lögum samkvæmt annast avinnuleysisskráningu á staðnum. Atvinnuleysisskráningaraðili framsendir gögnin skrifstofu Atvinnuleysistryggingasjóðs, ásamt staðfestingu sinni á því að um vinnslustöðvun sé að ræða af tilgreindum orsökum.
     Skrifstofa Atvinnuleysistryggingasjóðs metur hvort skilyrði greiðslu eru fyrir hendi og ákvarðar fjárhæð bóta í samræmi við starfshlutfall starfsmanna samkvæmt kauptryggingarsamningum. Bætur greiðast vikulega til hlutaðeigandi fyrirtækis meðan á vinnslustöðvun stendur, sbr. þó 4. mgr. 1. gr.
     Ef ágreiningur rís um rétt til greiðslu sker stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs úr honum.

3. gr.

     Skylt er fyrirtæki, sem nýtur greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvæðum þessara laga, að tilkynna skrifstofu Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar í stað ef breyting verður á fjölda starfsmanna sem hafa gildandi kauptryggingarsamninga og eru verkefnalausir af völdum vinnslustöðvunar. Hafi starfsmaður, sem gert hefur kauptryggingarsamning, hafið störf annars staðar meðan vinnslustöðvun varir og launagreiðslur fyrirtækisins fallið niður fellur greiðsla sjóðsins niður frá sama tíma.
     Atvinnuleysisskráningaraðili, sbr. 1. mgr. 2. gr., og Atvinnuleysistryggingasjóður skulu hafa aðgang að launa- og framleiðslubókhaldi fyrirtækis, svo og að kauptryggingarsamningum sem í gildi eru milli fyrirtækis og starfsmanna þess.
     Í reglugerð skal kveðið nánar á um þau gögn sem fyrirtæki, sem óskar eftir greiðslum samkvæmt lögum þessum, skal leggja fram.

4. gr.

     Fyrirtækjum, sem nýta rétt sinn til greiðslu skv. 1. gr., er skylt að hlutast til um að starfsfræðslunámskeið fyrir fiskvinnslufólk verði fyrst og fremst haldin á þeim tíma sem vinnslustöðvun varir. Verði því með engu móti við komið á fyrirtæki rétt á greiðslu fyrir þær vinnustundir hvers starfsmanns sem tapast vegna setu á námskeiðum sem haldin eru að opinberri tilhlutan, þó ekki meira en 40 stundir vegna hvers einstaklings. Þegar svo stendur á fer um tilkynningu og ákvörðun greiðslu eftir ákvæðum 2. gr. eftir því sem við á. Auk þess er þar greinir skal leggja fram staðfestingu þess aðila er stendur fyrir námskeiði um námskeiðshaldið, tíma og efni. Greiðslur þessar teljast hluti þeirra greiðslna sem um ræðir í 1. gr.

5. gr.

     Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög með sama heiti, nr. 34 18. maí 1988 og lög nr. 42 31. maí 1992, um breytingu á þeim.

Samþykkt á Alþingi 25. febrúar 1995.