Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 838, 118. löggjafarþing 316. mál: atvinnuréttindi skipstjórnarmanna (STCW-reglur o.fl.).
Lög nr. 62 8. mars 1995.

Lög um breytingu á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Þennan rétt hafa einnig ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins samkvæmt nánari ákvæðum sem ráðherra setur með reglugerð, þar á meðal skilyrði um nauðsynlega kunnáttu á íslensku tal- og ritmáli.
     Skipstjóri á íslensku skipi skal ávallt vera íslenskur ríkisborgari eða njóta atvinnuréttinda sem íslenskur ríkisborgari og bera fulla ábyrgð á framkvæmd laga þeirra og reglna sem lúta að starfi hans og settar eru af þar til bærum stjórnvöldum.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
  1. Skip merkir í lögum þessum, sé eigi annað tekið fram, hvert það far sem er 6 m langt eða meira og skráð er í skipaskrá.
  2. Skipstjóri er sá sem fer með æðsta vald á skipi.
  3. Yfirstýrimaður/1. stýrimaður er sá skipstjórnarmaður er gengur næst skipstjóra í starfi.
  4. Undirstýrimaður er hver sá stýrimaður sem er lægra settur en yfirstýrimaður/1. stýrimaður.
  5. Rúmlest merkir í lögum þessum brúttórúmlest. Er þá miðað við Óslóarsamþykkt um skipamælingar frá 10. júní 1947, með áorðnum breytingum, fyrir skip 24 m að lengd og lengri, en við íslenskar reglur um mælingu skipa fyrir skip styttri en 24 m að lengd.
  6. Fiskiskip merkir hvert það skip, skrásett sem fiskiskip, sem notað er til fiskveiða eða annarra veiða úr lífríki sjávar.
  7. Kaupskip merkir hvert það skip, skrásett sem vöruflutninga- eða farþegaskip, er siglir með varning og/eða farþega til og frá landinu, milli hafna innan lands og utan. Til þessa flokks teljast m.a. olíu- og efnaflutningaskip.
  8. Varðskip merkir hvert það skip, skrásett sem varðskip, er stundar landhelgisgæslu og björgunarstörf undir yfirstjórn Landhelgisgæslu Íslands.
  9. Önnur skip en upp eru talin í stafliðum f–h hlíta ákvæðum laganna um fiskiskip.
  10. Strandsigling er sigling innan 50 sjómílna frá ströndum Íslands og á öðrum hafsvæðum eftir nánari ákvörðun Siglingamálastofnunar ríkisins.
  11. Innanlandssigling er sigling innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.
  12. Utanlandssigling er hver sú ferð sem farin er milli landa eða til fiskimiða utan íslenskrar fiskveiðilögsögu þótt hafna sé ekki leitað.
  13. Mánuður telst 30 dagar.
  14. STCW er alþjóðasamþykkt um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978.
  15. Stig merkir námsstig, sbr. lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík.

3. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Lágmarksfjöldi stýrimanna skal vera sem hér segir:
  1. Á fiskiskipum:
  2. á skipum 31–300 rúmlestir einn stýrimaður,
  3. á skipum 301 rúmlest og stærri tveir stýrimenn,
  4. á skipum 30 rúmlestir og minni einn stýrimaður ef ekki er landað daglega,
  5. á skipum 20 rúmlestir og minni er ekki skylt að stýrimaður sé í áhöfn ef útivera skips fer ekki fram úr 36 klst. á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september, en 24 klst. þess utan.
  6. Á varðskipum:
  7. á skipum 400 rúmlestir og minni tveir stýrimenn,
  8. á skipum 401 rúmlest og stærri þrír stýrimenn.
  9. Á kaupskipum fer eftir því sem fyrir er mælt í lögum um áhafnir íslenskra kaupskipa.

4. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Eftirtalin stig skipstjórnarnáms við Stýrimannaskólann í Reykjavík og aðra viðurkennda skóla, er veita sambærilega fræðslu, eru grundvöllur atvinnuréttinda stýrimanna sem hér segir:
I. Fiskiskip:
      1. stig:
  1. Veitir réttindi til að vera yfirstýrimaður á 200 rúmlesta skipum og minni í innanlandssiglingum.
  2. Veitir réttindi til að vera undirstýrimaður á 500 rúmlesta skipum og minni í innanlandssiglingum.

      2. stig:
  1. Veitir réttindi til að vera yfirstýrimaður á skipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði.
II. Kaupskip og varðskip:       2. stig:
  1. Veitir réttindi til að vera yfirstýrimaður á 200 rúmlesta kaupskipum og minni í strandsiglingum (STCW regla II/3 nr. 2).
  2. Veitir réttindi til að vera undirstýrimaður á kaupskipum og varðskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði (STCW regla II/4 nr. 3).

      3. stig:
  1. Veitir réttindi til að vera yfirstýrimaður á kaupskipum og varðskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði (STCW regla II/2).



5. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Atvinnuréttindi stýrimanna eru bundin eftirfarandi skilyrðum um siglingatíma. Siglingatíma skal sanna með sjóferðabók innlendri eða útlendri eða vottorði frá lögskráningarstjóra. Til staðfestingar siglingatíma á skipum 12 rúmlestir og minni má leggja fram vottorð tveggja trúverðugra manna.
     Siglingatími telst sá tími er stýrimannsefni starfar á skipi sem er í rekstri og þar sem viðkomandi fær undirstöðuþekkingu í störfum á þilfari og í brú, stjórn manna og forsjá. Af siglingatíma verður stýrimannsefni að hafa gengið sjóvaktir a.m.k. 6 mánuði í brú undir umsjón skipstjórnarmanns. Af siglingatíma mega 6 mánuðir vera við önnur störf á skipi en skipstjóra-, stýrimanns- eða hásetastörf. Nám eða störf í verklegri sjómennsku og notkun öryggis- og björgunarbúnaðar á viðurkenndum námskeiðum má meta sem siglingatíma í allt að einn mánuð.
I. Fiskiskip:       1. stig:
  1. Yfirstýrimannsréttindi á 200 rúmlesta skipum og minni í innanlandssiglingum: 24 mánaða siglingatími, þar af a.m.k. 12 mánuði háseti á skipum stærri en 30 rúmlestir. Heimilt er að 6 mánuðir séu á 12 rúmlesta skipum og minni.
  2. Undirstýrimannsréttindi á 500 rúmlesta skipum og minni í innanlandssiglingum: Vera handhafi atvinnuskírteinis sem skipstjóri á 200 rúmlesta fiskiskipum og minni í innanlandssiglingum.

      2. stig:
  1. Yfirstýrimannsréttindi. Ótakmörkuð stærð og farsvið: 27 mánaða siglingatími, þar af a.m.k. 12 mánuði háseti á skipum yfir 100 rúmlestum.

II. Kaupskip og varðskip:       2. stig:
  1. Yfirstýrimannsréttindi á 200 rúmlesta kaupskipum og minni í strandsiglingum (STCW II/3 nr. 2): 27 mánaða siglingatími, þar af a.m.k. 12 mánuði háseti á skipum yfir 100 rúmlestum.
  2. Undirstýrimannsréttindi. Ótakmörkuð stærð og farsvið (STCW II/4 nr. 3): 27 mánaða siglingatími, þar af a.m.k. 12 mánuði háseti á skipum yfir 100 rúmlestum.

      3. stig:
  1. Yfirstýrimannsréttindi. Ótakmörkuð stærð og farsvið (STCW II/2): 36 mánaða siglingatími, þar af a.m.k. 18 mánuði háseti á skipi yfir 100 rúmlestum.



6. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Til þess að öðlast réttindi sem skipstjóri í innanlandssiglingum á skipi sem er 30 rúmlestir eða minna þarf viðkomandi að hafa lokið prófum í sjómanna- og skipstjórnarfræðum frá viðurkenndum skóla í samræmi við reglugerð sem menntamálaráðuneytið setur um nám í þessum fræðum. Auk þess skal viðkomandi hafa verið í 18 mánuði háseti á skipi, sbr. 6. gr.
     Ráðuneytið gefur út námskrá til samræmingar kennslu og skipar prófdómara að höfðu samráði við Stýrimannaskólann í Reykjavík og hagsmunaaðila. Þeir sem standast prófin skulu fá vottorð undirrituð af viðkomandi skólastjóra og prófdómara.

7. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Rétt til að vera skipstjóri á skipi sem er meira en 30 rúmlestir hefur sá einn sem hefur öðlast rétt til að gegna starfi yfirstýrimanns á tilgreindum skipum, sbr. 5. og 6. gr. Þó skal skipstjóri á varðskipum hafa lokið námi 4. stigs og eftir öflun stýrimannsskírteinis gegnt a.m.k. eftirtöldum skipstjórnarstörfum í tilskilinn tíma. Lögskráning sem 1. stýrimaður fyrir gildistöku laga þessara jafngildir yfirstýrimannstíma samkvæmt lögum þessum.
I. Fiskiskip:       1. stig:
  1. Skipstjóraréttindi á 200 rúmlesta skipum og minni í innanlandssiglingum: 12 mánuði á skipi yfir 30 rúmlestum.

      2. stig:
  1. Skipstjóraréttindi á skipum af ótakmarkaðri stærð: 24 mánuði á skipi stærra en 30 rúmlestir, þar af a.m.k. 6 mánuði yfirstýrimaður/1. stýrimaður á skipum yfir 100 rúmlestum.

II. Kaupskip:       2. stig:
  1. Skipstjóraréttindi á 200 rúmlesta skipum og minni í strandsiglingum (STCW II/3, nr. 2): 24 mánuði á skipi yfir 100 rúmlestum, þar af a.m.k. 6 mánuði sem yfirstýrimaður.

      3. stig:
  1. Skipstjóraréttindi á skipum af ótakmarkaðri stærð í strandsiglingum (STCW II/2): 24 mánuði á skipi yfir 100 rúmlestum, þar af a.m.k. 6 mánuði yfirstýrimaður.
  2. Skipstjóraréttindi á skipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði (STCW II/2): 24 mánuði á skipi yfir 100 rúmlestum, þar af a.m.k. 6 mánuði yfirstýrimaður á skipi í utanlandssiglingum.

III. Varðskip:       4. stig:
  1. Skipstjóraréttindi á skipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði: 30 mánuðir á skipum yfir 100 rúmlestum, þar af a.m.k. 6 mánuði sem yfirstýrimaður á varðskipi.



8. gr.

     9. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

     Í stað orðsins „lögreglustjórum“ í 2. mgr. 13. gr. kemur: sýslumönnum.

10. gr.

     Í stað 3. mgr. 13. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Skírteinin skulu gefin út á íslensku og ensku og gilda til fimm ára í senn. Samgönguráðherra setur reglur um skilyrði til endurnýjunar atvinnuskírteina, svo sem um viðhald réttinda og heilsufar, þar sem taka skal mið af alþjóðasamþykkt um þjálfun, skírteini og vaktstöðu sjómanna frá 1978, eftir því sem við á. Atvinnuskírteini samkvæmt STCW-alþjóðasamþykktinni skulu þó gefin út af Siglingamálastofnun ríkisins.
     Skírteinishafi skal hafa skírteinið meðferðis við skipstjórn og sýna það þegar löggæslumaður krefst þess.

11. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Allir þeir sem öðlast hafa rétt til atvinnu við siglingar á íslenskum skipum áður en lög þessi öðlast gildi skulu halda réttindum sínum óskertum, enda fullnægi þeir kröfum um viðhald réttinda og heilsufar, sbr. 13. gr.

12. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 21. gr. laganna orðast svo: Í nefndinni eiga sæti tveir fulltrúar tilnefndir af fulltrúum útgerðaraðila, einn fulltrúi tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og einn fulltrúi tilnefndur af Vélstjórafélagi Íslands, en formann nefndarinnar skipar ráðherra án tilnefningar.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Í stað A-liðar í ákvæði til bráðabirgða kemur nýr A-liður, svohljóðandi:
  1. Fram til 1. september 1996 getur sá sem fæddur er árið 1945 eða fyrr og stundað hefur skipstjórn lengur en 8 ár fengið réttindi sem skipstjóri á skipi 30 rúmlestir og minna þrátt fyrir ákvæði 7. gr. laganna þegar hann hefur setið námskeið í sjómanna- og skipstjórnarfræðum. Í stað þess að ganga undir próf getur viðkomandi fengið vottorð um að hann hafi setið námskeiðið og sé hæfur til skipstjórnarstarfa að mati námskeiðshaldara.
  2.      Þeir sem fæddir eru árið 1934 eða fyrr og stundað hafa skipstjórn á báti 11 rúmlestir og minni um 10 ára skeið eiga rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini sem bundið er viðkomandi skipi eða öðru skipi þó eigi yfir 11 rúmlestum. Siglingatíma má sanna með vottorðum tveggja valinkunnra manna.

     Í ákvæði til bráðabirgða kemur nýr liður, er verður C-liður, svohljóðandi:
  1. Nú hefur skipstjórnarmaður notið undanþágu frá ákvæðum laganna til skipstjórnarstarfa á sama skipi sem vegna breytinga á því hefur mælst meira en 200 rúmlestir eða aðrar hliðstæðar ástæður eru fyrir hendi sem taldar hafa verið fullgildar ástæður fyrir undanþágu og er þá heimilt að veita honum þau atvinnuréttindi óskert til starfa á sama skipi að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.


Samþykkt á Alþingi 24. febrúar 1995.