Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 114, 119. löggjafarþing 27. mál: Alþjóðaviðskiptastofnunin (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 87 28. júní 1995.

Lög um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.


I. KAFLI
Um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

1. gr.

     Á 1. gr. laganna verða eftirfarandi breytingar:
     Við lista skilgreininga orða og orðasambanda í 1. mgr. bætist eftirfarandi:
  • Tollabinding: Hámark tolla samkvæmt hinum almenna samningi um tolla og viðskipti 1994 í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar er undirritaður var af Íslands hálfu 15. apríl 1994, sbr. viðauka II við lög þessi.
  • Tollkvóti: Tiltekið magn vöru sem flutt er inn á lægri tollum en getið er um í 4. gr.


  • 2. gr.

         4. gr. laganna orðast svo:
         Af vörum, sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, skal greiða toll eins og mælt er fyrir í tollskrá í viðauka I með lögum þessum sem hefur lagagildi. Tollur skal lagður sem verðtollur á tollverð vöru eða sendingar eins og það er ákveðið samkvæmt ákvæðum 8.–10. gr. og sem magntollur á vörumagn eftir því sem í tollskrá í viðauka I greinir. Aðra tolla og gjöld, sem mismuna innlendum og innfluttum framleiðsluvörum, má eigi leggja á vöruna við innflutning.
         Ákvæði 1. mgr. skulu eigi koma í veg fyrir álagningu verðjöfnunargjalda samkvæmt ákvæðum fríverslunar- og milliríkjasamninga, sbr. 120. gr. laga þessara eða 72. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, enda rúmist slík gjaldtaka innan tollabindinga, sbr. 3. mgr.
         Tollur á vörur frá aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar má eigi vera hærri en þær tollabindingar sem tilgreindar eru í viðaukum IIA og IIB með lögum þessum. Miðist tollabinding bæði við verð og magn skal hámarkstollur miðast við þá bindingu sem hærri álagningu leyfir. Þó er heimilt að víkja frá ákvæðum um tollabindingar þegar ákvörðun er tekin um álagningu undirboðs- og jöfnunartolla skv. 115.–119. gr. og viðbótartolla skv. 120. gr. laga þessara, sbr. 74. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

    3. gr.

         Við III. kafla laganna bætist ný grein, er verður 6. gr. A, er orðast svo:
    Tollkvótar.
         Í viðaukum IIIA og B eru tilgreindir tollkvótar samkvæmt skuldbindingum Íslands í samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar vegna innflutnings á því magni sem tilgreint er fyrir hvert áranna 1995 til og með 2000. Um úthlutun þeirra fer skv. 53. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Tollur á þær vörur, sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum í viðauka IIIA, skal vera 32% af grunntaxta viðkomandi vöruliðar eins og hann er tilgreindur í viðauka IIA með lögum þessum.
         Tollur á þær vörur, sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum í viðauka IIIB, skal vera 30% en þó eigi hærri en í viðaukanum greinir. Við innflutning á fóðurvörum og hráefnum í þær í 10., 11., 12., 17. og 23. kafla tollskrár skulu þó gilda þeir tolltaxtar sem tilgreindir eru í tollskrá í viðauka I.
         Í viðaukum IVA og B eru tilgreindir tollkvótar sem landbúnaðarráðherra úthlutar skv. 53. gr. A laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Tollur á þær vörur, sem fluttar eru inn samkvæmt þeim tollkvótum sem tilgreindir eru í viðauka IVA, skal vera 50 eða 75 hundraðshlutar af þeim magntolli sem lagður er á viðkomandi vörulið eins og hann er tilgreindur í tollskrá eða 32% af grunntaxta viðkomandi vöruliðar eins og hann er tilgreindur í viðauka IIA með lögum þessum.
         Tollur á þær vörur, sem tilgreindar eru í viðauka IVB, skal vera 0, 25, 50 eða 75 hundraðshlutar af þeim tolli sem lagður er á viðkomandi vörulið eins og hann er tilgreindur í tollskrá.

    4. gr.

         10. gr. laganna verður svohljóðandi:
         Ráðherra getur með reglugerð eða öðrum fyrirmælum sett nánari reglur um ákvörðun tollverðs er taki mið af samningnum um framkvæmd VII. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti 1994. Reglurnar skulu m.a. tilgreina hvernig tollverð skal ákvarðað í þeim tilvikum sem ekki er hægt að ákvarða tollverð innflutningsvöru skv. 8. gr. og það sem bæta skal við tollverð samkvæmt ákvæðum 9. gr.
         Ráðherra er með sama hætti heimilt að setja reglur um mat á vörum til tollverðs og málsmeðferðarreglur þegar ástæða þykir til að draga í efa sannleiksgildi vörureiknings og annarra þeirra atriða sem um ræðir í 8. gr. og þess sem bæta skal við tollverð samkvæmt ákvæðum 9. gr.

    5. gr.

         2. mgr. 12. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 96/1987, fellur niður.

    6. gr.

         Í VII. kafla laganna kemur ný grein, 50. gr. A, er verður svohljóðandi:
         Ef grunur leikur á að innflutningur eigi sér stað á vöru sem brýtur gegn hugverkaréttindum er tollstjóra heimilt, að beiðni rétthafa, að fresta tollafgreiðslu vörunnar á meðan rétthafi leitar bráðabirgðaaðgerða hjá þar til bærum yfirvöldum og í framhaldi af þeim hefur málarekstur fyrir dómstólum. Eftirfarandi skilyrði eru fyrir heimild tollstjóra:
    1. að rétthafi leggi fram skriflega beiðni til tollstjóra um að tollafgreiðslu verði frestað og skuldbindi sig til að greiða þann kostnað sem leiðir af aðgerðum tollyfirvalda,
    2. að rétthafi leggi fram fullnægjandi gögn þess efnis að hugverkaréttindi njóti verndar hér á landi, að hann sé handhafi þess réttar og að innflutningur vörunnar muni brjóta á rétti hans; hann skal jafnframt leggja fram nógu nákvæma lýsingu á vörunni til að tollyfirvöld geti borið kennsl á hana,
    3. að rétthafi leggi fram tryggingu í formi fjárgreiðslu, eða með öðrum þeim hætti er tollstjóri telur fullnægjandi, er nægi til að bæta rétthafa, eiganda eða innflytjanda vörunnar það tjón eða kostnað sem óréttmæt frestun tollafgreiðslu kann að hafa í för með sér.
         Hafi fullnægjandi gögn verið lögð fram er tollstjóra heimilt að fresta tollafgreiðslu vörunnar í allt að 10 virka daga. Hann skal þegar í stað tilkynna bæði rétthafa og eiganda vörunnar eða innflytjanda um ákvörðun sína. Hafi rétthafi eigi innan framagreinds frests hafist handa við að leita réttar síns hjá þar til bærum yfirvöldum, og tilkynnt tollyfirvöldum slíkt skriflega, er heimilt að tollafgreiða sendinguna. Heimilt er að framlengja framangreindan frest um 10 virka daga ef sérstakar ástæður mæla með því.
         Tollstjóri getur að eigin frumkvæði ákveðið frestun tollafgreiðslu þegar hann hefur í höndum fullnægjandi gögn þess efnis að varan brjóti gegn hugverkaréttindum. Skal hann tilkynna rétthafa um ákvörðun sína með skriflegum hætti þegar í stað og gefa honum frest í þrjá virka daga frá móttöku bréfs til að fara fram á frestun tollafgreiðslu skv. 1. mgr. Geri rétthafi ekki tímanlega kröfu um frestun er heimilt að tollafgreiða vöruna.
         Ef beiðni um bráðabirgðaaðgerð er synjað eða dómstóll hafnar því að um brot á hugverkarétti sé að ræða skal tollstjóri afturkalla ákvörðun sína um frestun tollafgreiðslu. Nú er með dómi kveðið á um að um brot á hugverkarétti sé að ræða og í dóminum er eigi mælt fyrir um ráðstöfun vörunnar og er þá tollyfirvaldi heimilt að farga vörunni eða að ráðstafa henni á annan þann hátt sem ekki brýtur á rétti rétthafa. Hafi dómi verið áfrýjað skal fresta förgun eða ráðstöfun vöru þar til niðurstöður liggja fyrir.
         Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um vörur í litlu magni í farangri ferðamanna eða litlar vörusendingar, enda sé ekki um innflutning í viðskiptaskyni að ræða. Einnig eru undanskildar vörur sem settar hafa verið á markað í öðru landi af rétthafa eða með hans samþykki og vörur í umflutningi.
         Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um frestun tollafgreiðslu. Hann getur jafnframt gert rétthafa að greiða geymslukostnað og þann kostnað sem tollyfirvöld hafa af framangreindum ráðstöfunum. Ráðherra getur ákveðið að framangreind ákvæði taki til útflutnings á vörum.

    7. gr.

         120. gr. laganna verður svohljóðandi:
         Þegar svo stendur á er greinir í 5. gr. samningsins um landbúnað í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar varðandi einhverjar af þeim vörum sem tilgreindar eru í viðauka IIA við lög þessi og þar eru merktar SSG að:
    1. innflutt magn fer yfir mörk þau er tilgreind eru í 5. gr. tilvitnaðs samnings um landbúnað; eða, en þó ekki á sama tíma,
    2. innflutningsverð vörunnar fellur niður fyrir tiltekin mörk, sbr. skilgreiningu í 5. gr. samningsins um landbúnað,
    skal, þrátt fyrir ákvæði 1. og 3. mgr. 4. gr., tollur á viðkomandi vöru vera hámarkstollur samkvæmt tollbindingu í viðauka IIA að viðbættum viðbótartolli skv. 5. mgr. 5. gr. samningsins um landbúnað.
         Viðbótartollar skulu að öðru leyti taka mið af skilyrðum 5. gr. samningsins um landbúnað. Tollur samkvæmt þessari grein kemur aðeins til framkvæmda að landbúnaðarráðherra hafi ákveðið að beita 5. gr. samningsins um landbúnað og gefið út reglugerð þar að lútandi.

    8. gr.

         Á 120. gr. A laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 18/1993, verða eftirfarandi breytingar:
    1. 2. málsl. 1. mgr. fellur niður.
    2. Í 2. mgr. breytist tilvísun í 1. málsl. 1. mgr. í tilvísun í 1. mgr.

    9. gr.

         Framan við 122. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar. Aðrar málsgreinar færast til sem því nemur og tilvísanir þeirra í 1. mgr. verða tilvísanir í 1. og 3. mgr. Hinar nýju málsgreinar verða svohljóðandi:
         Ráðherra er heimilt að setja almennar upprunareglur er gildi við innflutning og útflutning vöru. Við setningu upprunareglna skal samráð eftir atvikum haft við iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Reglurnar skulu grundvallaðar á eftirfarandi meginreglum:
    1. Þegar viðmiðun um breytingu á tollflokkun er beitt skal tilgreina nákvæmlega undirliði og vöruliði þeirrar tollnafnaskrár sem notuð er.
    2. Þegar miðað er við hundraðshluta af verðmæti skal tilgreina reikningsaðferðir.
    3. Þegar miðað er við framleiðslu eða aðvinnsluaðferðir skal skýra nákvæmlega frá aðferðum sem gefa til kynna uppruna viðkomandi vöru.
         Upprunareglur skal birta með reglugerð. Ráðherra er jafnframt heimilt að kveða á um að tollyfirvöld veiti innflytjendum, útflytjendum og aðilum sem hagsmuna eiga að gæta bindandi álit um uppruna vöru. Álitið skal veita eins fljótt og hægt er og eigi síðar en 150 dögum eftir að beiðni var lögð fram. Slíku áliti má skjóta til ríkistollanefndar.

    10. gr.

         Á tollskrá í viðauka I við tollalög verða breytingar eins og greinir í viðauka I með lögum þessum.

    11. gr.

         Við lögin bætist nýr viðauki, viðauki II, tollabindingar, er skiptist í A- og B-hluta og er hann að finna í viðauka II með lögum þessum.

    12. gr.

         Við lögin bætist nýr viðauki, viðauki III, er skiptist í A- og B-hluta, yfir tollkvóta sem skylt er að úthluta og er hann að finna í viðauka III með lögum þessum.

    13. gr.

         Við lögin bætist nýr viðauki, viðauki IV, er skiptist í A- og B-hluta, yfir tollkvóta sem heimilt er að úthluta og er hann að finna í viðauka IV með lögum þessum.

    II. KAFLI
    Um breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

    14. gr.

         Eftirfarandi ákvæði falla niður:
    1. C- og d-liðir 1. mgr. 30. gr.
    2. 2. mgr. og 3. mgr. 30. gr.

    15. gr.

         31. gr. laganna orðast svo:
         Andvirði tolla af innfluttu fóðri og hráefnum í það í 10., 11., 12., 17. og 23. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög, nr. 55/1987, skal renna í sérstakan sjóð, fóðursjóð, sem skal vera í vörslu landbúnaðarráðherra.
         Landbúnaðarráðherra er heimilt að greiða innflytjendum eða kaupendum fóðurs fé úr fóðursjóði sem samsvarar tollum þeim sem þeir hafa greitt við innflutning vörunnar eða fóðurkaup. Þá er enn fremur heimilt að greiða framleiðendum búvara fé úr fóðursjóði eftir afurðamagni. Ráðherra getur falið Framleiðsluráði landbúnaðarins að annast greiðslur samkvæmt þessari grein og skal þá Ríkisendurskoðun endurskoða reikninga sjóðsins.
         Ráðherra setur reglugerð um starfsemi fóðursjóðs og tilhögun greiðslna.

    16. gr.

         32. gr. laganna fellur niður.

    17. gr.

         33. gr. laganna orðast svo:
         Eftirstöðvar tekna fóðursjóðs eftir greiðslur samkvæmt ákvæðum 31. gr. skulu renna í Framleiðnisjóð landbúnaðarins.
         Framleiðnisjóður skal, að fenginni staðfestingu landbúnaðarráðherra, ráðstafa umræddu fé sem lánum eða framlögum til eflingar nýjum viðfangsefnum í landbúnaði og til stuðnings við búgreinar og breytingar búskaparhátta á lögbýlum.

    18. gr.

         52. gr. laganna orðast svo:
         Innflutningur landbúnaðarvara frá ríkjum, sem staðfest hafa aðild sína að samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, skal vera óheftur nema önnur lög takmarki. Með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum fríverslunar- og annarra milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að er landbúnaðarráðherra heimilt að takmarka innflutning landbúnaðarvara frá ríkjum utan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á vörum þeim er greinir í viðaukum I og II með lögum þessum.
         Landbúnaðarráðherra er einnig heimilt að banna innflutning á afurðum dýra og plantna sem gefin hafa verið vaxtaraukandi efni á framleiðsluskeiðinu eða kunna að fela í sér leifar lyfja og annarra aðskotaefna umfram það sem leyft er við framleiðslu hér á landi og geta verið hættuleg heilsu manna. Landbúnaðarráðherra ákveður með reglugerð á hvern hátt hagað skuli eftirliti með innflutningi afurðanna, sýnatöku og rannsóknum.

    19. gr.

         53. gr. laganna verður svohljóðandi:
         Landbúnaðarráðherra úthlutar tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur samkvæmt viðaukum IIIA og B við tollalög, nr. 55/1987, á þeim tollum sem tilgreindir eru í 6. gr. A í tollalögum.
         Úthlutun tollkvóta skal, eftir því sem við getur átt, vera í samræmi við samninginn um málsmeðferð við veitingu innflutningsleyfa sem birtur er í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
         Umsókn um tollkvóta má aðeins taka til greina að umsækjandi hafi heildsöluleyfi. Heimilt er að skipta tollkvótum upp í einingar. Tollkvótum skal úthlutað til ákveðins tíma, allt að einu ári í senn. Berist umsóknir um meiri innflutning en sem nemur tollkvóta vörunnar skal heimilt að láta hlutkesti ráða úthlutun eða leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum og skal andvirðið þá renna í ríkissjóð. Endurúthluta má tollkvótum sem ekki eru nýttir innan þess frests sem tilgreindur er við úthlutun kvótans. Heimilt er í stað úthlutunar á tollkvóta að veita almenna heimild til innflutnings á þeim tollum sem um tollkvótana gilda.
         Um viðurlög við misnotkun tollkvóta í því skyni að fá ívilnun í tolli eða sköttum við innflutning á vörum sem ekki falla undir tollkvótann skal fara skv. XIV. kafla tollalaga, nr. 55/1987. Heimilt er að synja þeim um úthlutun tollkvóta sem gerst hefur sekur um misnotkun.
         Landbúnaðarráðherra birtir í reglugerð þær reglur sem gilda um úthlutun tollkvóta samkvæmt þessari grein þar sem m.a. komi fram úthlutunarkvóti, innflutningstímabil, tollataxtar, viðurlög við misnotkun og aðrir skilmálar sem um innflutninginn skulu gilda.

    20. gr.

         Við bætist ný grein sem verður 53. gr. A laganna, svohljóðandi:
         Landbúnaðarráðherra er heimilt að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur samkvæmt viðaukum IVA og B við tollalög, nr. 55/1987, á þeim tollum sem tilgreindir eru í 6. gr. A í tollalögum. Getur hann ákveðið hverju sinni hvaða tolltöxtum 3. og 4. mgr. tilvitnaðs ákvæðis er beitt. Úthlutun tollkvóta skal eftir því sem við getur átt fara eftir ákvæðum 53. gr.
         Ráðherra getur ákveðið að tollkvóti í viðauka IVB, sem við úthlutun ber lægri toll en kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. A tollalaga, komi til frádráttar tollkvóta í viðauka IIIB. Skerðir þá kvótinn ekki úthlutunarheimildir samkvæmt þessari grein.
         Við úthlutun tollkvóta hefur ráðherra hliðsjón af því hvort nægilegt framboð af viðkomandi vörum á hæfilegu verði er til staðar og hvort innflutningsmagn í tollkvótum IIIA og IIIB hafi náð þeim mörkum sem þar eru sett.
         Landbúnaðarráðherra birtir í reglugerð þær reglur sem gilda um úthlutun tollkvóta samkvæmt þessari grein þar sem m.a. komi fram úthlutunarkvóti, innflutningstímabil, tolltaxtar, viðurlög við misnotkun, sbr. 4. mgr. 53. gr., og aðrir skilmálar sem um innflutninginn skulu gilda.

    21. gr.

         Á 72. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 34/1994, verða eftirfarandi breytingar:
    1. 1. mgr. orðast svo:
    2.      Landbúnaðarráðherra er heimilt, til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara, að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar vörur úr viðaukum I og II með lögum þessum, sem unnar eru úr landbúnaðarhráefnum, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi og sem heimilt er að leggja verðjöfnunargjöld á samkvæmt ákvæðum í fríverslunar- og öðrum milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
    3. 7. mgr. fellur brott.

    22. gr.

         2. mgr. 73. gr. laganna fellur brott.

    23. gr.

         Við lögin bætist ný grein, 74. gr., sem orðast svo:
         Landbúnaðarráðherra getur ákveðið að lagður verði á tollur samkvæmt ákvæðum 120. gr. tollalaga við innflutning á þeim vörum sem vísað er til í 1. mgr. 5. gr. samningsins um landbúnað í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar og merktar eru SSG í viðauka IIA í tollalögum. Ráðherra setur reglugerð þar sem m.a. skal kveðið á um þær vörur sem álagningin tekur til, viðmiðanir um verð og magn skv. a- og b-liðum 1. mgr. 5. gr. samningsins um landbúnað.

    24. gr.

         Við lögin bætist ný grein, 75. gr., sem orðast svo:
         Landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna nefnd sem skal vera til ráðuneytis um ákvæði laga þessara um inn- og útflutning landbúnaðarvara. Einn skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar, annar skal tilnefndur af fjármálaráðherra og sá þriðji skal tilnefndur af viðskiptaráðherra. Varamenn skal skipa með sama hætti.
         Nefndin skal vera landbúnaðarráðherra til ráðuneytis um neðangreind atriði:
    1. Úthlutun tollkvóta skv. 53. gr. og 53. gr. A.
    2. Ákvörðun verðjöfnunargjalda við inn- og útflutning skv. 72. og 73. gr.
    3. Beitingu viðbótartolla skv. 74. gr.
         Nefndin skal afla allra upplýsinga um verð á viðkomandi landbúnaðarvörum innan lands og utan, framleiðslumagn, innflutning og útflutning og annað sem nauðsynlegt er vegna starfa hennar og gera tillögur til landbúnaðarráðherra um þau verkefni sem henni eru falin með lögum þessum.

    III. KAFLI
    Um breyting á lögum nr. 51/1981, um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum.

    25. gr.

         2. mgr. 3. gr. laganna, sbr. lög nr. 59/1990, verður svohljóðandi:
         Til þess að standa straum af kostnaði við eftirlit með plöntum samkvæmt lögum þessum er ráðherra heimilt að láta innheimta eftirlitsgjald vegna innflutnings á plöntum og vegna dreifingar innan lands og útflutnings á innlendum plöntum. Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um gjaldskyldu, innheimtu, gjalddaga, lögvernd og annað er lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldsins.

    IV. KAFLI
    Um breyting á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993.

    26. gr.

         10. gr. laganna orðast svo:
         Til að hindra að dýrasjúkdómar berist til landsins er óheimilt að flytja til landsins eftirtaldar vörutegundir:
    1. Hey, hálm, alidýraáburð, gróðurmold og rotmassa blandað alidýraáburði, hráar og lítt saltaðar sláturafurðir, unnar og óunnar, ósótthreinsuð hrá skinn og húðir, kjötmjöl, beinamjöl, fóðurvörur unnar úr afurðum eða úrgangi spendýra og fugla sem ekki hafa hlotið viðeigandi hitameðferð, blóð og blóðvatn, ógerilsneydda mjólk eða vörur unnar úr henni og hrá egg.
    2. Ull, notaða poka eða aðrar umbúðir, óhreinan fatnað og tuskur, fiður, fjaðrir, dún, stráteppi, strákörfur og óunnið dýrahár, enn fremur notaðan reiðfatnað, reiðtygi og annað sem notað hefur verið við geymslu og flutninga á dýrum og dýraafurðum.
    3. Hvers konar notaðan búnað til stangveiði.
         Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er landbúnaðarráðherra heimilt að leyfa innflutning á vörum þeim sem taldar eru upp í a–c-liðum að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum. Um framkvæmd þessarar greinar fer eftir ákvæðum samningsins um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
         Heimilt er landbúnaðarráðherra, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, að leyfa í rannsóknarskyni innflutning á vörutegundum sem upp eru taldar í a-lið 1. mgr. Ef hey eða hálmur er notað sem pökkunarefni fyrir aðra vöru sem flutt er inn og ekki er háð sérstöku leyfi má flytja heyið eða hálminn inn án leyfis ef telja má að slíkt pökkunarefni hafi ekki smithættu í för með sér. Þá getur ráðherra ákveðið með reglugerð að ákvæði 1. mgr. skuli ekki gilda fyrir einstakar vörutegundir sem þar eru taldar upp ef varan sótthreinsast við tilbúning eða sérstök sótthreinsun er framkvæmd fyrir innflutning og vörunni fylgir vottorð um uppruna, vinnslu og sótthreinsun.
         Landbúnaðarráðherra er heimilt að banna með auglýsingu innflutning á öðrum vörum sem hætta telst á að smitefni geti borist með.

    V. KAFLI
    Önnur ákvæði.

    27. gr.

         Lög um tilbúning og verslun með smjörlíki o. fl., nr. 32/1933, falla úr gildi.

    28. gr.

          Lög um innflutningsbann á niðursoðinni mjólk og þurrmjólk, nr. 88/1949, falla úr gildi.

    29. gr.

         Ákvæði 2. gr. og ákvæði til bráðabirgða í lögum um innflutning, nr. 88/1992, falla úr gildi.

    VI. KAFLI
    Gildistaka.

    30. gr.

         Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1995. Ákvæði þeirra skulu taka til allra þeirra vara sem þá eru ótollafgreiddar, þó ekki vara sem afhentar hafa verið með bráðabirgðatollafgreiðslu.

    Ákvæði til bráðabirgða.
    I.
         Úthluta skal tollkvótum samkvæmt lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. viðauka IIIA við tollalög, nr. 55/1987, í fyrsta sinn frá og með gildistöku laga þessara, í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af árinu 1995. Að svo miklu leyti sem innflutningur samkvæmt tollkvóta fer fram á tilteknum tímabilum þá skal telja innflutning frá og með þeirri dagsetningu sem ákveðin er skv. 4. mgr. 53. gr. búvörulaga. Tollkvótar skulu auglýstir lausir til umsóknar fyrir 1. ágúst 1995 og skal fyrsta úthlutun fara fram fyrir 15. september 1995.

    II.
         Fóðurgjald, sem innheimt hefur verið skv. 30. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og hefur við gildistöku laga þessara ekki verið ráðstafað, skal renna í fóðursjóð, sbr. 31. gr. tilvitnaðra laga. Þessi ráðstöfun skal þó eigi skerða endurgreiðslurétt þeirra aðila sem eiga rétt á endurgreiðslum vegna fóðurs sem tollafgreitt var fyrir gildistöku laganna.

    (VIÐAUKAR MYNDAÐIR)

    Samþykkt á Alþingi 15. júní 1995.