Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 734, 120. löggjafarþing 106. mál: gatnagerðargjald (heildarlög).
Lög nr. 17 21. mars 1996.

Lög um gatnagerðargjald.


1. gr.

     Sveitarstjórn er heimilt að innheimta gatnagerðargjald af öllum lóðum í sveitarfélaginu og/eða mannvirkjum á þeim. Gatnagerðargjald er fyrst gjaldkræft við úthlutun lóðar, sem er í eigu sveitarfélagsins eða sveitarfélagið hefur ráðstöfunarrétt á, og við útgáfu byggingarleyfis á öðrum lóðum. Sveitarstjórn ákveður í gjaldskrá sinni hvenær gjaldið er innheimt.
     Nú er lóðarúthlutun afturkölluð, lóð skilað, byggingarleyfi afturkallað eða ekki nýtt af lóðarhafa og ber sveitarfélagi að endurgreiða gatnagerðargjald af viðkomandi lóð.

2. gr.

     Gatnagerðargjaldi skv. 1. gr. skal varið til gatnagerðar í sveitarfélaginu, svo sem til að undirbyggja götur með tilheyrandi lögnum, m.a. vegna götulýsingar, og leggja bundið slitlag, gangstéttir, umferðareyjar og þess háttar þar sem gert er ráð fyrir því í skipulagi.

3. gr.

     Við ákvörðun gatnagerðargjalds skal miða við lóðarstærð, rúmmál húss og/eða flatarmál húss samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem félagsmálaráðherra setur. Gjaldið má vera mismunandi eftir notkun lóðar, t.d. eftir því hvort um er að ræða lóð fyrir íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði, iðnaðarhúsnæði o.s.frv. Þá má gjald af lóð fyrir íbúðarhúsnæði vera mismunandi eftir því hvort um er að ræða lóð fyrir einbýlishús, raðhús, fjölbýlishús o.s.frv.
     Heimilt er að innheimta gatnagerðargjald ef reist er nýtt hús á áður byggðri lóð að því er stækkuninni nemur. Sama gildir ef eldra hús er stækkað.
     Gatnagerðargjald, sem miðað er við stærð byggingar, getur af hverjum rúmmetra eða fermetra numið allt að 15% af heildarbyggingarkostnaði samsvarandi einingar í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grundvelli laga nr. 42/1987. Fjárhæð gjaldsins má ákveða með tilliti til leyfilegrar stærðar byggingar samkvæmt því skipulagi sem gildir fyrir viðkomandi lóð. Gatnagerðargjald, sem miðað er við stærð lóðar, skal ekki vera hærra en ef það væri miðað við stærð byggingar samkvæmt gildandi aðal- eða deiliskipulagi.

4. gr.

     Lóðarhafi ber ábyrgð á greiðslu gatnagerðargjalds. Gatnagerðargjald samkvæmt lögum þessum er, ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði, tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.

5. gr.

     Aðili máls getur skotið ákvörðun sveitarstjórnar um álagningu gatnagerðargjalds til úrskurðar félagsmálaráðherra. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að aðili fékk vitneskju um álagningu gjaldsins. Kæruheimild þessi skerðir þó eigi rétt aðila til að höfða mál fyrir dómstólum.

6. gr.

     Félagsmálaráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara og skal í reglugerðinni m.a. kveðið nánar á um álagningu gatnagerðargjalds og endurgreiðslu þess skv. 1. gr.
     Sveitarstjórn skal setja sér sérstaka gjaldskrá fyrir gatnagerðargjald þar sem kveðið er nánar á um álagningu gjaldsins, innheimtu þess og hvað er innifalið í gjaldinu samkvæmt lögum þessum og reglugerð um gatnagerðargjald. Sveitarstjórn skal auglýsa gjaldskrána og efnislegar breytingar á henni á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. Jafnframt falla úr gildi lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, og lög nr. 31/1975, um breytingu á þeim lögum. Enn fremur lög um gjöld til holræsa og gangstétta í kaupstöðum, öðrum en Reykjavík og Akureyri, nr. 18/1920, og 2. gr. laga um gjöld til holræsa, gangstétta og varanlegs slitlags á götum á Akureyri, nr. 87/1970.

Ákvæði til bráðabirgða.
  1. Lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, gilda um innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda á grundvelli 3. og 4. gr. laga nr. 51/1974 sem lokið er við innan tíu ára frá gildistöku laga þessara. Ákvæði eldri laga um álagningu gjalda vegna slíkra framkvæmda gilda einungis um lóðir sem úthlutað hefur verið eða veitt hefur verið byggingarleyfi á fyrir gildistöku laga þessara.
  2. Samningar um gatnagerðargjöld af tilteknum lóðum, sem lóðarhafar eða lóðareigendur hafa gert við sveitarstjórnir, svo og skilmálar varðandi gatnagerðargjöld sem sveitarstjórn hefur sett og lóðarhafi eða lóðareigandi hefur undirgengist, halda gildi sínu þrátt fyrir ákvæði laga þessara, nema aðilar séu um annað sáttir.

Samþykkt á Alþingi 19. mars 1996.