Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 724, 120. löggjafarþing 98. mál: verðbréfasjóðir (EES-reglur).
Lög nr. 21 28. mars 1996.

Lög um breytingu á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.


1. gr.

     1. mgr. 9. gr. laganna hljóðar svo:
     Verðbréfasjóður verður eingöngu stofnaður sem hlutafélag.

2. gr.

     Í stað 2. og 3. mgr. 11. gr. laganna kemur ný málsgrein er hljóðar svo:
     Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi. Þeir skulu vera lögráða, hafa óflekkað mannorð, vera fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Ríkisborgarar þeirra ríkja, sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eru undanþegnir búsetuskilyrðinu, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í EES-ríki. Ráðherra er heimilt að veita þeim sem búsettir eru í öðrum ríkjum sömu undanþágu.

3. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Rekstrarfélag verður eingöngu stofnað sem hlutafélag eða einkahlutafélag og skal hafa aðsetur hér á landi.

4. gr.

     1. málsl. 13. gr. laganna orðast svo: Daglegur stjórnandi rekstrarfélags skal uppfylla sömu skilyrði og framkvæmdastjóri fyrirtækis í verðbréfaþjónustu samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

5. gr.

     Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein er hljóðar svo:
     Vörslufyrirtæki ber ábyrgð gagnvart rekstrarfélagi og eigendum hlutdeildarskírteina vegna tjóns sem þeir kunna að verða fyrir og rekja má til ásetnings eða gáleysis starfsmanna vörslufyrirtækis við framkvæmd verkefna þess skv. 1. mgr.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
  1. 1. málsl. orðast svo: Gefa skal út verðbréf í formi hlutdeildarskírteina til þeirra sem fá verðbréfasjóði fjármuni til ávöxtunar og óska eftir því.
  2. Við bætist ný málsgrein er hljóðar svo:
  3.      Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða eru undanþegin stimpilgjöldum.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Verðbréfasjóði eða einstökum deildum hans er eingöngu heimilt að fjárfesta með eftirfarandi hætti:
    1. Í framseljanlegum verðbréfum sem skráð hafa verið á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti.
    2. Í nýútgefnum, framseljanlegum verðbréfum, enda sé í skilmálum vegna útgáfu þeirra skuldbinding um að sótt verði um skráningu verðbréfanna á skipulegum verðbréfamarkaði skv. 1. tölul. Skráning verðbréfa samkvæmt þessu ákvæði skal fara fram eigi síðar en einu ári frá útgáfu þeirra.

  3. Ný málsgrein bætist við, svohljóðandi:
  4.      Verðbréfasjóði er óheimilt að selja verðbréf sem ekki eru í eigu hans á þeim tíma sem sala þeirra fer fram.

8. gr.

     1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
     Verðbréfasjóði eða einstökum deildum hans er óheimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða en þeirra sem uppfylla skilyrði laga þessara. Fjárfesting verðbréfasjóðs í öðrum verðbréfasjóðum má þó ekki fara yfir 5% af eignum hans eða einstakra deilda hans.

9. gr.

     1. mgr. 26. gr. laganna orðast svo:
     Verðbréfasjóði er óheimilt að fjárfesta í fasteignum eða lausafé.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Verðbréfasjóði er óheimilt að taka önnur lán en skammtímalán til að standa straum af innlausn hlutdeildarskírteina. Slík lán mega ekki nema meira en sem svarar 10% af eignum sjóðsins eða einstakra deilda innan hans.
  3. 2. mgr. fellur brott.

11. gr.

     3. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
     Verði endurskoðendur varir við slíka ágalla í rekstri verðbréfasjóðs að reikningar verði ekki áritaðir eða athugasemdir við þá gerðar, ágalla á innra eftirliti eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu sjóðsins til áframhaldandi reksturs, svo og ef endurskoðandi hefur ástæðu til að ætla að lög og reglugerðir eða reglur sem gilda um sjóðinn hafi verið brotnar, skal endurskoðandi þegar gera stjórn sjóðsins og bankaeftirliti viðvart. Þetta á einnig við um sambærileg atriði sem endurskoðandi verðbréfasjóðs fær vitneskju um og varða fyrirtæki í nánum tengslum við sjóðinn. Ákvæði þessarar greinar brjóta ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðenda samkvæmt ákvæðum annarra laga.

12. gr.

     Á eftir 37. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist númeraröð annarra greina samkvæmt því:
     Rekstrarfélag skal gefa út útboðslýsingu fyrir hvern verðbréfasjóð sem það annast rekstur á samkvæmt lögum þessum. Í útboðslýsingu skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar til að viðskiptavinum sé kleift að meta kosti fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóðs.
     Nánar skal kveðið á um útboðslýsingar verðbréfasjóða skv. 1. mgr. í reglum sem bankaeftirlitið setur.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. mars 1996.