Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1044, 120. löggjafarþing 492. mál: samningur um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.
Lög nr. 74 5. júní 1996.

Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.


1. gr.

     Ríkisstjórninni er heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum sem gerður var í Strassborg 25. janúar 1988 og prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.

     Þegar samningur sá er um ræðir í 1. gr. hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

SAMNINGUR
um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð
í skattamálum.
     
INNGANGSORÐ
     Aðildarríki Evrópuráðsins og aðildarlönd Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD), sem undirritað hafa samning þennan,
     
     líta svo á að sú þróun sem orðið hefur í tilflutningi fólks, fjármagns, varnings og þjónustu milli landa — þótt hún sé í sjálfu sér mjög til góðs — hafi aukið möguleika á að sniðganga skatta og draga undan skatti og því sé þörf aukinnar samvinnu skattyfirvalda;
     
     fagna hinum ýmsu aðgerðum sem gripið hefur verið til á síðari árum meðal þjóða, bæði tvíhliða og marghliða, til að hamla gegn því að skattar séu sniðgengnir og dregið sé undan skatti á alþjóðavettvangi;
     
     telja samræmdar aðgerðir ríkja nauðsynlegar til að stuðla að hvers kyns stjórnsýsluaðstoð í málum sem varða skatta af öllu tagi, um leið og réttindum skattgreiðenda er tryggð fullnægjandi vernd;
     
     viðurkenna að alþjóðleg samvinna geti haft mikilvægu hlutverki að gegna í því að auðvelda réttar ákvarðanir um skattskyldu og stuðla að því að tryggja réttindi skattgreiðenda;
     
     telja að viðurkenna beri að grundvallarreglur um að hver maður eigi rétt á að réttindi hans og skyldur séu ákvörðuð í samræmi við viðeigandi réttarfarsreglur skuli gilda um skattamálefni í öllum ríkjum og að ríkjum beri að leitast við að vernda réttmæta hagsmuni skattgreiðenda, þar á meðal með viðeigandi vernd gegn mismunun og tvísköttun;
     
     eru því ákveðið þeirrar skoðunar að ríki skuli ekki gera ráðstafanir eða veita upplýsingar nema í samræmi við lög sín og framkvæmdavenjur, með hliðsjón af nauðsyn þess að vernda upplýsingaleynd og með tilliti til alþjóðasamninga um friðhelgi einkalífsins og streymi persónulegra upplýsinga;
     
     óska að gera með sér samning um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum;
     
     hafa komið sér saman um eftirfarandi:
I. KAFLI
Gildissvið samningsins.

1. gr.

Markmið samningsins og aðilar sem hann tekur til.
     1. Aðildarríki skulu veita hvert öðru stjórnsýsluaðstoð í skattamálum, sbr. þó ákvæði IV. kafla. Slík aðstoð getur, þar sem það á við, falið í sér ráðstafanir handhafa dómsvalds.
     2. Í slíkri stjórnsýsluaðstoð skal felast:
  1. skipti á upplýsingum, þar á meðal skattrannsóknir sem fram fara samtímis og þátttaka í skattrannsóknum erlendis;
  2. aðstoð við heimtu, þar með taldar tryggingarráðstafanir; og
  3. birting skjala.

     3. Aðildarríki skal veita stjórnsýsluaðstoð hvort sem sá aðili, sem í hlut á, er heimilisfastur eða hefur ríkisfang í aðildarríki eða í einhverju öðru ríki.

2. gr.

Skattar sem samningurinn tekur til.
     1. Samningur þessi tekur til:
  1. eftirtalinna skatta:
    1. skatta á tekjur og hagnað,
    2. skatta á ágóða af eignum sem lagðir eru á óháð sköttum á tekjur eða hagnað,
    3. skatta á hreina eign,
    sem lagðir eru á af hálfu aðildarríkis; og
  2. eftirtalinna skatta:
    1. skatta á tekjur, hagnað, ágóða af eignum eða hreina eign sem lagðir eru á af hálfu sjálfsstjórnarhéraða eða sveitarstjórna aðildarríkis,
    2. skyldubundinna almannatryggingagjalda sem greiða ber hinu opinbera eða almannatryggingastofnunum sem komið hefur verið á fót samkvæmt opinberum rétti, og
    3. annarra flokka skatta, nema tolla, sem lagðir hafa verið á af hálfu aðildarríkis, þ.e.:
      1. skatta á bú, erfðafé eða gjafir,
      2. skatta á fasteignir,
      3. almennra neysluskatta, svo sem virðisaukaskatts eða söluskatts,
      4. sérskatta á vörur og þjónustu, svo sem vörugjalda,
      5. skatta á notkun eða eignarrétt á vélknúnum ökutækjum,
      6. skatta á notkun eða eignarrétt á lausafé öðru en vélknúnum ökutækjum,
      7. allra annarra skatta;

    4. skatta í flokkum þeim sem greinir í iii-lið hér að framan sem lagðir eru á af hálfu sjálfsstjórnarhéraða eða sveitarstjórna aðildarríkis.


     2. Gildandi skattar, sem samningur þessi tekur til, eru skráðir í viðauka A eftir þeim flokkum sem í 1. mgr. greinir.
     3. Samningsaðilar skulu tilkynna aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins eða aðalframkvæmdastjóra OECD (sem hér eftir eru nefndir „vörsluaðilar“) um hverja þá breytingu sem gera ber á viðauka A vegna breytingar á skrá þeirri sem í 2. mgr. greinir. Slík breyting skal öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er vörsluaðili tekur við slíkri tilkynningu.
     4. Samningur þessi skal frá gildistöku hans einnig taka til allra skatta sömu eða svipaðrar tegundar sem lagðir eru á í samningsríki eftir að samningurinn öðlast gildi gagnvart því aðildarríki til viðbótar við eða í staðinn fyrir þá skatta sem þegar hafa verið skráðir í viðauka A, og skal viðkomandi aðildarríki í slíkum tilvikum tilkynna öðrum hvorum vörsluaðilanum um skatt þann sem um ræðir.

II. KAFLI
Almennar skilgreiningar.

3. gr.

Skilgreiningar.
     1. Í samningi þessum hafa neðangreind hugtök eftirfarandi merkingu nema annað leiði af samhenginu:
  1. hugtakið „beiðniríki“ merkir hvert það aðildarríki sem óskar stjórnsýsluaðstoðar í skattamáli og hugtakið „aðstoðarríki“ merkir hvert það aðildarríki sem beðið er að veita slíka aðstoð;
  2. hugtakið „skattur“ merkir hvern þann skatt eða almannatryggingagjald sem samningur þessi tekur til skv. 2. gr.;
  3. hugtakið „skattkrafa“ merkir hverja þá skattfjárhæð sem gjaldfallin er og ógreidd, ásamt vöxtum af henni, tilheyrandi stjórnsýslusektum og heimtukostnaði;
  4. hugtakið „bær stjórnvöld“ merkir aðila þá og stjórnvöld sem skráð eru í viðauka B;
  5. hugtakið „ríkisborgari“ merkir, er það lýtur að aðildarríki:
    1. alla þá menn sem hafa ríkisfang í því aðildarríki og
    2. alla lögaðila, sameignarfélög, samtök og aðra aðila sem byggja réttarstöðu sína sem slíkir á gildandi lögum þess aðildarríkis.


     Að því er varðar hvert það aðildarríki, sem gefið hefur yfirlýsingu um það, skulu framangreind hugtök hafa þá merkingu sem skilgreind er í viðauka C.
     2. Hvað snertir beitingu aðildarríkis á samningi þessum skal hvert það hugtak, sem ekki er þar skilgreint, hafa þá merkingu sem það hefur samkvæmt lögum þess aðildarríkis um þá skatta sem samningur þessi tekur til nema annað leiði af samhenginu.
     3. Aðildarríki skulu tilkynna öðrum hvorum vörsluaðilanum um hverja þá breytingu sem gera ber á viðaukum B og C. Skal slík breyting öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er viðkomandi vörsluaðili tekur við slíkri tilkynningu.

III. KAFLI
Eðli aðstoðar.
I. hluti.
Upplýsingaskipti.

4. gr.

Almenn ákvæði.
     1. Aðildarríki skulu skiptast á öllum upplýsingum, einkum þeim sem kveðið er á um í þessum hluta, sem fyrirsjáanlega skipta máli varðandi:
  1. álagningu og innheimtu skatta, og heimtu og fullnustu skattkrafna, og
  2. málsókn fyrir stjórnvaldi eða höfðun máls fyrir dómi.

     Ekki skal skipst á upplýsingum samkvæmt samningi þessum sem ólíklegt er að skipti máli í þessum tilgangi.
     2. Aðildarríki má aðeins nota upplýsingar sem fengnar eru samkvæmt samningi þessum sem sönnunargagn í sakamáli ef aðildarríki það, sem upplýsingarnar veitti, hefur áður heimilað það. Þó geta tvö eða fleiri aðildarríki gert með sér gagnkvæmt samkomulag um að falla frá skilyrðinu um áður veitta heimild.
     3. Sérhvert aðildarríki getur í yfirlýsingu til annars hvors vörsluaðilans skýrt frá því að samkvæmt landslögum sé stjórnvöldum þess heimilt að láta mann, sem heimilisfastur er þar í landi eða hefur þar ríkisfang, vita áður en upplýsingar, sem hann varða, eru veittar skv. 5. og 7. gr.

5. gr.

Skipti á upplýsingum samkvæmt beiðni.
     1. Að ósk beiðniríkis skal aðstoðarríki veita beiðniríkinu allar þær upplýsingar sem getið er um í 4. gr. og varða ákveðna aðila eða lögskipti.
     2. Nú nægja upplýsingar í skattskrám aðstoðarríkisins ekki til þess að það geti orðið við beiðni um upplýsingar og skal það þá gera allar viðeigandi ráðstafanir til að veita beiðniríkinu þær upplýsingar sem óskað er.

6. gr.

Sjálfkrafa upplýsingaskipti.
     Tvö eða fleiri aðildarríki skulu, innan þeirra málaflokka og samkvæmt þeim starfsháttum sem þau skulu koma sér saman um, skiptast sjálfkrafa á upplýsingum sem getið er í 4. gr.

7. gr.

Skipti á upplýsingum án beiðni.
     1. Við eftirfarandi aðstæður skal aðildarríki veita öðru aðildarríki upplýsingar sem það hefur vitneskju um án undanfarandi beiðni:
  1. ef fyrrnefnda aðildarríkið hefur ástæðu til að ætla að hitt aðildarríkið kunni að verða fyrir skattatapi;
  2. ef skattskyldur aðili fær lækkun eða undanþágu frá skatti í fyrrnefnda aðildarríkinu sem leiða mundi til skattahækkunar eða skattskyldu í hinu aðildarríkinu;
  3. ef lögskipti í atvinnurekstri milli aðila sem skattskyldur er í einu aðildarríki og aðila sem skattskyldur er í öðru aðildarríki fara fram gegnum eitt land eða fleiri á þann hátt að leiða kunni til skattsparnaðar í öðru hvoru aðildarríkinu eða báðum;
  4. ef aðildarríki hefur ástæðu til að ætla að óeðlilegur tilflutningur á hagnaði milli hópa fyrirtækja kunni að leiða til skattsparnaðar;
  5. ef upplýsingar sem fyrrnefnda aðildarríkið hefur fengið frá hinu aðildarríkinu hafa gert því kleift að afla upplýsinga sem máli kunna að skipta varðandi ákvörðun um skattskyldu í síðarnefnda aðildarríkinu.

     2. Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir og beita þeim aðferðum sem nauðsynlegar eru til að tryggja að upplýsingar þær, sem fjallað er um í 1. mgr., verði tiltækar til miðlunar til annars aðildarríkis.

8. gr.

Skattrannsóknir sem fara fram samtímis.
     1. Tvö eða fleiri aðildarríki skulu að beiðni eins þeirra ráðgast sín á milli til að ákveða í hvaða málum og með hvaða hætti skattrannsóknir, sem fara fram samtímis, skuli eiga sér stað. Hvert aðildarríki, sem í hlut á, skal ákveða hvort það óski þess að taka þátt í tiltekinni skattrannsókn sem fer fram samtímis eða ekki.
     2. Í samningi þessum merkir samtímis skattrannsókn tilhögun sem tvö eða fleiri aðildarríki koma á með sér til að rannsaka samtímis, hvort á sínu landsvæði, skattamálefni aðila, eins eða fleiri, sem þeir hafa sameiginlega eða tengda hagsmuni af, í því skyni að skiptast á öllum upplýsingum sem máli skipta og fram koma við rannsóknina.

9. gr.

Skattrannsóknir erlendis.
     1. Að beiðni bærs stjórnvalds beiðniríkis getur bært stjórnvald aðstoðarríkis heimilað fulltrúum hins bæra stjórnvalds beiðniríkisins að vera viðstaddir viðeigandi hluta skattrannsóknar í aðstoðarríkinu.
     2. Sé fallist á beiðnina skal hið bæra stjórnvald aðstoðarríkisins tilkynna hinu bæra stjórnvaldi beiðniríkisins eins fljótt og unnt er um stað og stund rannsóknarinnar, um stjórnvald það eða embættismann sem falið hefur verið að gera rannsóknina og um aðferðir og skilyrði sem uppfylla þarf í aðstoðarríkinu við framkvæmd rannsóknarinnar. Allar ákvarðanir, er lúta að framkvæmd skattrannsóknarinnar, skulu teknar af aðstoðarríkinu.
     3. Aðildarríki getur tjáð öðrum hvorum vörsluaðilanum um þá fyrirætlun sína að fallast almennt ekki á slíkar beiðnir sem í 1. mgr. ræðir. Slíka yfirlýsingu má gefa eða afturkalla hvenær sem er.

10. gr.

Ósamrýmanlegar upplýsingar.
     Nú fær aðildarríki upplýsingar um skattamálefni aðila frá öðru aðildarríki sem ekki virðast samrýmast upplýsingum sem það hefur undir höndum og skal hann þá tilkynna það því aðildarríki sem upplýsingarnar veitti.

II. hluti.
Aðstoð við heimtu.

11. gr.

Heimta skattkrafna.
     1. Að ósk beiðniríkis skal aðstoðarríki gera nauðsynlegar ráðstafanir til að heimta skattkröfur fyrrnefnda ríkisins eins og þær væru kröfur þess sjálfs, sbr. þó ákvæði 14. og 15. gr.
     2. Ákvæði 1. mgr. tekur einungis til skattkrafna sem með skjali hefur verið veitt heimild til fullnustu á í beiðniríkinu og, hafi viðkomandi aðildarríki ekki komið sér saman um annað, sem ekki er mótmælt.
     Beinist krafan hins vegar gegn aðila sem ekki er heimilisfastur í beiðniríkinu á 1. mgr. aðeins við ef kröfunni verður ekki lengur mótmælt, hafi viðkomandi aðildarríki ekki komið sér saman um annað.
     3. Skyldan til að veita aðstoð við heimtu skattkrafna sem varða látinn mann eða dánarbú hans takmarkast við verðmæti búsins eða eigna þeirra sem falla í hlut hvers viðtakanda verðmæta úr búinu, eftir því hvort kröfuna skuli heimta hjá búinu eða hjá þeim sem veitt hafa viðtöku verðmætum úr því.

12. gr.

Tryggingarráðstafanir.
     Að ósk beiðniríkis skal aðstoðarríki gera tryggingarráðstafanir með það fyrir augum að heimta skattfjárhæð, jafnvel þótt kröfunni sé mótmælt eða ekki sé enn fyrir hendi skjal er heimili fullnustu hennar.

13. gr.

Skjöl er fylgja skulu beiðni.
     1. Beiðni um stjórnsýsluaðstoð samkvæmt þessum hluta skulu fylgja:
  1. yfirlýsing um að skattkrafan varði skatt er samningur þessi tekur til og, sé um heimtu að ræða, um að skattkröfunni hafi ekki verið eða verði ekki mótmælt, sbr. þó 2. mgr. 11. gr.;
  2. staðfest endurrit skjals þess er heimilar fullnustu í beiðniríkinu; og
  3. sérhver þau skjöl önnur sem þörf er á vegna heimtu eða tryggingaráðstafana.

     2. Skjal það, er veitir heimild til fullnustu í beiðniríkinu, skal, þar sem við á og samkvæmt ákvæðum þeim er gilda í aðstoðarríkinu, samþykkt eða viðurkennt eða það stutt eða leyst af hólmi með skjali sem heimilar fullnustu í síðarnefnda ríkinu svo fljótt sem unnt er eftir að beiðni um aðstoð er móttekin.

14. gr.

Frestir.
     1. Úr álitaefnum varðandi fresti, sem gilda um hvenær skattkröfu verður ekki lengur fullnægt, skal leyst samkvæmt lögum beiðniríkisins. Í beiðni um aðstoð skulu tilgreindar upplýsingar um þann frest.
     2. Heimtuaðgerðir er aðstoðarríkið lætur fram fara vegna beiðni um aðstoð, sem samkvæmt lögum þess ríkis mundu slíta eða rjúfa frest þann er í 1. mgr. greinir, skulu einnig hafa þau áhrif samkvæmt lögum beiðniríkisins. Aðstoðarríkið skal veita beiðniríkinu vitneskju um slíkar aðgerðir.
     3. Aðstoðarríkinu er ekki í neinu tilviki skylt að sinna beiðni um aðstoð sem borin er fram eftir að 15 ár eru liðin frá dagsetningu hins upphaflega skjals sem heimilar fullnustu.

15. gr.

Forgangur.
     Skattkrafa sú, sem aðstoð er veitt til heimtu á, skal ekki hafa neinn forgang í aðstoðarríkinu sem skattkröfum þess ríkis er sérstaklega veittur, enda þótt beitt sé sömu heimtuaðferðum og gilda um skattkröfur þess sjálfs.

16. gr.

Greiðslufrestur.
     Aðstoðarríkið getur veitt greiðslufrest eða heimilað greiðslu með afborgunum ef lög þess eða stjórnsýsluvenjur heimila það við svipaðar aðstæður, en fyrst skal það upplýsa beiðniríkið um það.

III. hluti.
Birting skjala.

17. gr.

Birting skjala.
     1. Að ósk beiðniríkis skal aðstoðarríki birta viðtakanda skjöl, þar á meðal þau sem varða dómsúrskurði, sem upprunnin eru í beiðniríkinu og varða skatt sem samningur þessi tekur til.
     2. Aðstoðarríkið skal birta skjöl:
  1. með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum þess um birtingu skjala sem eru að verulegu leyti sama eðlis;
  2. að svo miklu leyti sem unnt er, með sérstökum hætti sem beiðniríkið óskar eftir eða þeim hætti sem næst honum kemst samkvæmt lögum þess sjálfs.

     3. Aðildarríki getur birt aðila skjal beint með pósti á landsvæði annars aðildarríkis.
     4. Ekkert í samningi þessum skal túlka þannig að það valdi ógildingu birtingar á skjali af hálfu aðildarríkis sem fram hefur farið í samræmi við lög þess.
     5. Nú er skjal birt samkvæmt grein þessari og þarf þá ekki að fylgja því þýðing. Þó skal aðstoðarríkið, þegar það telur sýnt að viðtakandi skilji ekki það tungumál sem skjalið er ritað á, hlutast til um að fá það þýtt eða að gerður verði af því útdráttur á opinberu tungumáli þess eða einu þeirra. Að öðrum kosti getur það farið þess á leit við beiðniríkið að það láti annaðhvort þýða skjalið eða láti fylgja því útdrátt á einu hinna opinberu tungumála aðstoðarríkisins, Evrópuráðsins eða OECD.

IV. KAFLI
Ákvæði er lúta að hvers konar aðstoð.

18. gr.

Upplýsingar er beiðniríki skal veita.
     1. Í beiðni um aðstoð skal tilgreina, þar sem við á:
  1. stjórnvald það eða stofnun sem átti frumkvæði að beiðni hins bæra stjórnvalds;
  2. nafn, heimilisfang og öll önnur atriði er orðið geta til hjálpar við að staðfesta hver sá er sem beiðnin lýtur að;
  3. sé um beiðni um upplýsingar að ræða, í hvaða formi beiðniríkið óskar að þær séu veittar til að þörfum þess sé fullnægt;
  4. sé um beiðni um heimtuaðstoð eða tryggingarráðstafanir að ræða, eðli skattkröfunnar, sundurliðun hennar og eignir þær er staðið geta henni til fullnustu;
  5. sé um beiðni um birtingu skjals að ræða, eðli og efni skjals þess er birta skal;
  6. hvort hún samræmist lögum og stjórnsýsluvenjum beiðniríkisins og hvort hún sé réttmæt í ljósi skilyrða 19. gr.

     2. Um leið og einhverjar aðrar upplýsingar, sem máli skipta varðandi beiðni um aðstoð, koma til vitundar beiðniríkinu skal það framsenda þær aðstoðarríkinu.

19. gr.

Möguleiki á að synja beiðni.
     Aðstoðarríki er ekki skylt að fallast á beiðni ef beiðniríkið hefur ekki neytt allra þeirra úrræða sem tiltæk eru á landsvæði þess nema það væri of miklum erfiðleikum bundið að grípa til slíkra úrræða miðað við aðstæður.

20. gr.

Svar við beiðni um aðstoð.
     1. Sé fallist á beiðni um aðstoð skal aðstoðarríkið tjá beiðniríkinu svo fljótt sem unnt er til hvaða aðgerða hefur verið gripið og hvern árangur aðstoðin hefur borið.
     2. Sé beiðni hafnað skal aðstoðarríkið svo fljótt sem unnt er tjá beiðniríkinu þá ákvörðun og ástæður hennar.
     3. Nú hefur beiðniríkið í tengslum við beiðni um upplýsingar tilgreint með hvaða hætti það óskar eftir að upplýsingarnar séu veittar og aðstoðarríkið hefur tök á að veita þær með þeim hætti og skal það þá verða við því.

21. gr.

Persónuvernd og takmarkanir aðstoðarskyldu.
     1. Ekkert í samningi þessum skal hafa áhrif á réttindi eða réttarvernd sem aðilum er veitt samkvæmt lögum eða stjórnsýsluvenjum aðstoðarríkisins.
     2. Með þeirri undantekningu sem í 14. gr. getur skulu ákvæði samnings þessa ekki túlkuð þannig að lögð sé á aðstoðarríkið skylda til að:
  1. gera ráðstafanir sem ekki samrýmast lögum eða stjórnsýsluvenjum þess sjálfs eða lögum eða stjórnsýsluvenjum beiðniríkisins;
  2. gera ráðstafanir sem það telur andstæðar allsherjarreglu (ordre public) eða grundvallarhagsmunum sínum;
  3. veita upplýsingar sem ekki er unnt að afla samkvæmt lögum eða stjórnsýsluvenjum þess sjálfs eða lögum eða stjórnsýsluvenjum beiðniríkisins.
  4. veita upplýsingar sem afhjúpa mundu leyndarmál á sviði viðskipta, kaupsýslu, verslunar eða sérfræðistarfa, eða viðskiptaferli, eða upplýsingar sem væri andstætt allsherjarreglu (ordre public) eða grundvallarhagsmunum þess að láta uppi;
  5. veita stjórnsýsluaðstoð ef og að svo miklu leyti sem það telur skattlagninguna í beiðniríkinu vera andstæða meginreglum um skattlagningu eða ákvæðum samnings til að komast hjá tvísköttun eða einhvers annars samnings sem aðstoðarríkið hefur gert við beiðniríkið;
  6. veita aðstoð ef beiting samnings þessa ylli mismunun milli ríkisborgara aðstoðarríkisins og ríkisborgara beiðniríkisins við sömu aðstæður.


22. gr.

Leynd.
     1. Öllum upplýsingum, sem aðildarríki fær samkvæmt samningi þessum, skal haldið leyndum á sama hátt og upplýsingum sem fengnar eru samkvæmt lögum þess sjálfs, eða samkvæmt kröfum um leynd sem gilda í því aðildarríki sem upplýsingarnar veitir ef þær kröfur eru strangari.
     2. Hvað sem öðru líður skulu slíkar upplýsingar aðeins látnar í té aðilum eða yfirvöldum (þar á meðal dómstólum og stjórnsýslu- eða eftirlitsaðilum) sem starfa við að leggja á, innheimta eða heimta skatta hjá því aðildarríki eða leita fullnustu, lögsækja eða ákvarða um áfrýjun vegna þeirra. Aðeins framangreindir aðilar eða yfirvöld mega nota þessar upplýsingar og þá aðeins í framangreindum tilgangi. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. mega þeir láta þær uppi í opnum réttarhöldum eða í dómsúrlausnum varðandi þá skatta hafi bær stjórnvöld þess aðildarríkis, sem upplýsingarnar lét í té, áður heimilað það. Þó geta tvö eða fleiri aðildarríki gert með sér gagnkvæmt samkomulag um að falla frá skilyrðinu um áður veitta heimild.
     3. Hafi aðildarríki gert þann fyrirvara sem í a-lið 1. mgr. 30. gr. greinir skal ekkert annað aðildarríki, sem fær frá því upplýsingar, nota þær um skatta í flokki sem fellur undir fyrirvarann. Á sama hátt skal það aðildarríki, sem fyrirvarann gerði, ekki nota upplýsingar, sem fengnar eru samkvæmt samningi þessum, um skatta í flokki sem fellur undir fyrirvarann.
     4. Þrátt fyrir ákvæði 1., 2. og 3. mgr. getur aðildarríki, sem fær upplýsingar, notað þær í öðrum tilgangi þegar nota má þær upplýsingar í þeim sama tilgangi samkvæmt lögum þess aðildarríkis sem þær veitti og bært stjórnvald þess aðildarríkis heimilar þá notkun. Upplýsingar, sem eitt aðildarríki hefur veitt öðru aðildarríki, má síðarnefnda ríkið framsenda þriðja aðildarríkinu, enda hafi bært stjórnvald fyrstnefnda ríkisins áður veitt til þess heimild.

23. gr.

Rekstur máls.
     1. Mál varðandi ráðstafanir, sem aðstoðarríkið hefur gripið til samkvæmt samningi þessum, skal aðeins borið fyrir viðeigandi stofnun þess ríkis.
     2. Mál varðandi ráðstafanir sem beiðniríkið hefur gripið til samkvæmt samningi þessum, einkum þau sem á sviði heimtu lúta að tilvist eða fjárhæð skattkröfunnar eða að skjali því sem heimilar fullnustu hennar, skulu einungis borin fyrir viðeigandi stofnun þess ríkis. Nú er það gert og skal beiðniríkið þá upplýsa aðstoðarríkið um það sem þá skal fresta málarekstrinum meðan beðið er ákvörðunar viðkomandi stofnunar. Þó skal aðstoðarríkið, ef beiðniríkið óskar þess, grípa til tryggingarráðstafana til að tryggja heimtu. Einnig getur hver sá aðili, sem hagsmuna hefur að gæta, upplýst aðstoðarríkið um slíkan málarekstur. Er slíkar upplýsingar berast skal aðstoðarríkið, ef þörf krefur, ráðfæra sig við beiðniríkið um málið.
     3. Jafnskjótt og lokaákvörðun í máli hefur verið tekin skal aðstoðarríkið eða beiðniríkið, eftir því sem við á, tilkynna hinu ríkinu um ákvörðunina og hvaða áhrif hún hafi á aðstoðarbeiðnina.

V. KAFLI
Sérstök ákvæði.

24. gr.

Framkvæmd samningsins.
     1. Samskipti aðildarríkja vegna framkvæmdar samnings þessa skulu fara fram á milli bærra stjórnvalda aðildarríkjanna. Hin bæru stjórnvöld geta haft beint samband í þessu skyni og geta heimilað lægra settum stjórnvöldum að koma fram fyrir sína hönd. Bær stjórnvöld tveggja eða fleiri aðildarríkja geta gert með sér gagnkvæmt samkomulag um hvernig beita skuli samningnum þeirra á milli.
     2. Nú telur aðstoðarríki að beiting samnings þessa mundi í einstöku máli hafa alvarlegar og óæskilegar afleiðingar og skulu þá bær stjórnvöld aðstoðarríkisins og beiðniríkisins bera saman ráð sín og leitast við að leysa það með gagnkvæmu samkomulagi.
     3. Samræmingarnefnd, sem skipuð skal fulltrúum bærra stjórnvalda aðildarríkjanna, skal fylgjast með framkvæmd og þróun samnings þessa á vegum OECD. Í því skyni skal samræmingarnefndin gera tillögur um sérhverjar þær aðgerðir sem líklegar eru til að ná fram markmiðum samnings þessa. Hún skal einkum vera vettvangur til athugunar á nýjum leiðum og aðferðum til að auka alþjóðasamvinnu í skattamálum og getur hún lagt til endurskoðun eða breytingar á samningi þessum eftir því sem við á. Ríki, sem undirritað hafa samning þennan en enn ekki fullgilt hann, viðurkennt eða samþykkt, eiga rétt á að senda áheyrnarfulltrúa á fundi nefndarinnar.
     4. Aðildarríki getur beðið samræmingarnefndina að láta í té álitsgerðir um túlkun ákvæða samningsins.
     5. Nú kemur upp ágreiningur eða vafi milli tveggja eða fleiri aðildarríkja um framkvæmd eða túlkun samningsins og skulu þá bær stjórnvöld þessara aðildarríkja leitast við að leysa málið með gagnkvæmu samkomulagi. Skýra skal samræmingarnefndinni frá samkomulaginu.
     6. Aðalframkvæmdastjóri OECD skal skýra aðildarríkjum og þeim ríkjum, er undirritað hafa samninginn en enn ekki fullgilt hann, viðurkennt eða samþykkt, frá álitsgerðum sem samræmingarnefndin hefur látið í té samkvæmt ákvæðum 4. mgr. þessarar greinar og frá gagnkvæmu samkomulagi sem gert er skv. 5. mgr. þessarar greinar.

25. gr.

Tungumál.
     Beiðnir um aðstoð og svör við þeim skulu rituð á einu hinna opinberu tungumála OECD og Evrópuráðsins, eða á hverju því tungumáli öðru sem viðkomandi samningsríki verða bæði ásátt um.

26. gr.

Kostnaður.
     Verði viðkomandi aðildarríki ekki ásátt um annað skal:
  1. aðstoðarríkið bera venjulegan kostnað af aðstoð;
  2. beiðniríkið bera sérstakan kostnað af aðstoð.


VI. KAFLI
Lokaákvæði.

27. gr.

Aðrir alþjóðasamningar eða önnur skipan mála.
     1. Möguleikar þeir til aðstoðar, sem samningur þessi kveður á um, skulu ekki takmarka möguleika samkvæmt núgildandi eða síðari alþjóðasamningum eða annarri skipan mála milli viðkomandi aðildarríkja, eða öðrum samningum sem varða samvinnu í skattamálum, né sæta takmörkunum af þeim.
     2. Þrátt fyrir ákvæði samnings þessa skulu þau aðildarríki, sem aðild eiga að Efnahagsbandalagi Evrópu, beita þeim sameiginlegu reglum sem gilda innan þess bandalags í samskiptum sínum.

28. gr.

Undirritun og gildistaka samningsins.
     1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu aðildarríkja Evrópuráðsins og aðildarlanda OECD. Hann er háður fullgildingu, viðurkenningu eða samþykki. Fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykkisskjali skal koma í vörslu hjá öðrum hvorum vörsluaðilanum.
     2. Samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er fimm ríki hafa lýst því yfir að þau vilji vera bundin af samningnum samkvæmt ákvæðum 1. mgr.
     3. Gagnvart hverju aðildarríki Evrópuráðsins og hverju aðildarlandi OECD, sem síðar lýsir því yfir að það vilji vera bundið af samningnum, skal hann öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykkisskjali er komið í vörslu.

29. gr.

Landsvæði sem samningurinn tekur til.
     1. Hvert ríki getur, þegar undirritun fer fram eða þegar það kemur fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykkisskjali sínu í vörslu, tilgreint það eða þau landsvæði sem samningur þessi skal taka til.
     2. Sérhvert ríki getur, hvenær sem er síðar með yfirlýsingu til annars hvors vörsluaðilans, fært út gildissvið samnings þessa til sérhvers annars landsvæðis sem þar er tilgreint. Að því er slík landsvæði varðar skal samningurinn öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er vörsluaðili tekur við slíkri yfirlýsingu.
     3. Hverja þá yfirlýsingu, sem gefin er samkvæmt annarri hvorri málsgreininni hér að framan, má, að því er það landsvæði varðar sem þar er tilgreint, afturkalla með tilkynningu til annars hvors vörsluaðilans. Skal afturköllunin öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er vörsluaðilinn tekur við tilkynningunni.

30. gr.

Fyrirvarar.
     1. Sérhvert ríki getur, þegar undirritun fer fram eða þegar það kemur fullgildingar-, viðurkenningar- eða samþykkisskjali sínu í vörslu, eða hvenær sem er eftir það, lýst því yfir að það áskilji sér rétt til:
  1. að veita enga aðstoð sem lýtur að sköttum annarra aðildarríkja í þeim flokkum sem tilgreindir eru í b-lið 1. mgr. 2. gr., enda hafi það ekki tilgreint neinn eigin skatt úr þeim flokki í viðauka A við samninginn;
  2. að veita ekki aðstoð við heimtu skattkröfu eða stjórnsýslusektar vegna neinna skatta, eða aðeins vegna skatta í einum flokki eða fleirum sem tilgreindir eru í 1. mgr. 2. gr.;
  3. að veita ekki aðstoð varðandi neina skattkröfu sem í gildi er þann dag er samningurinn öðlast gildi gagnvart því ríki, eða, hafi fyrirvari áður verið gerður skv. a- eða b-lið hér að framan, þann dag er fyrirvarinn er afturkallaður hvað varðar skatta í viðkomandi flokki;
  4. að veita ekki aðstoð við birtingu skjala vegna neinna skatta, eða aðeins vegna skatta í einum flokki eða fleirum sem tilgreindir eru í 1. mgr. 2. gr.;
  5. að leyfa ekki birtingu skjala með pósti eins og kveðið er á um í 3. mgr. 17. gr.

     2. Aðra fyrirvara má ekki gera.
     3. Eftir að samningurinn hefur öðlast gildi gagnvart aðildarríki getur það gert einn eða fleiri þeirra fyrirvara sem tilgreindir eru í 1. mgr. og hann gerði ekki þegar fullgilding, viðurkenning eða samþykkt átti sér stað. Slíkur fyrirvari öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er annar hvor vörsluaðilinn tekur við fyrirvaranum.
     4. Hvert það aðildarríki, sem gert hefur fyrirvara skv. 1. eða 3. mgr., getur afturkallað hann að öllu leyti eða að hluta með tilkynningu til annars hvors vörsluaðilans. Afturköllunin öðlast gildi á þeim degi er viðkomandi vörsluaðili tekur við tilkynningunni.
     5. Aðildarríki, sem gert hefur fyrirvara við ákvæði í samningi þessum, getur ekki krafist þess að neitt annað aðildarríki beiti því ákvæði, en þó getur það, ef um fyrirvara að hluta er að ræða, krafist þess að ákvæðinu verði beitt að svo miklu leyti sem það hefur samþykkt það sjálft.

31. gr.

Uppsögn.
     1. Sérhvert aðildarríki getur hvenær sem er sagt upp samningi þessum með tilkynningu til annars hvors vörsluaðilans.
     2. Slík uppsögn skal öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er vörsluaðilinn tekur við tilkynningunni.
     3. Sérhvert aðildarríki, sem segir upp samningnum, skal áfram bundið af ákvæðum 22. gr. svo lengi sem það hefur í vörslum sínum skjöl eða upplýsingar sem fengist hafa samkvæmt samningi þessum.

32. gr.

Vörsluaðilar og störf þeirra.
     1. Vörsluaðili sá, sem aðgerð er beint til eða tilkynningu eða orðsendingu hefur verið komið á framfæri við, skal tilkynna aðildarríkjum Evrópuráðsins og aðildarlöndum OECD um:
  1. allar undirritanir;
  2. afhendingu allra fullgildingar-, viðurkenningar- og samþykktarskjala;
  3. alla gildistökudaga samnings þessa samkvæmt ákvæðum 28. og 29. gr.;
  4. allar yfirlýsingar sem gefnar eru samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 4. gr. eða 3. mgr. 9. gr., svo og afturkallanir allra slíkra yfirlýsinga;
  5. alla fyrirvara sem gerðir eru samkvæmt ákvæðum 30. gr. og allar afturkallanir fyrirvara sem gerðar eru samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 30. gr.;
  6. allar tilkynningar sem mótteknar eru samkvæmt ákvæðum 3. eða 4. mgr. 2. gr., 3. mgr. 3. gr., 29. gr. eða 1. mgr. 31. gr.;
  7. allar aðrar aðgerðir, tilkynningar og orðsendingar sem samning þennan varða.

     2. Vörsluaðili sá, sem tekur við orðsendingu eða annast tilkynningu samkvæmt ákvæðum 1. mgr., skal þegar upplýsa hinn vörsluaðilann um það.
     
     Þessu til staðfestu hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.
     
     Gjört í Strassborg 25. janúar 1988, í jafngildum textum á ensku og frönsku, í tveimur eintökum og skal annað þeirra varðveitt í skjalasafni Evrópuráðsins en hitt í skjalasafni OECD. Aðalframkvæmdastjórar Evrópuráðsins og OECD skulu senda staðfest endurrit til hvers aðildarríkis Evrópuráðsins og aðildarlands OECD.

VIÐAUKI A
Skattar sem samningurinn tekur til.

(2. mgr. 2. gr. samningsins.)

     
Ísland.
A-liður 1. mgr. 2. gr.:
  1. tekjuskattur til ríkisins,
    sérstakur tekjuskattur til ríkisins;
  2. eignarskattur til ríkisins,
    sérstakur eignarskattur til ríkisins;
  3. tekju- og eignarskattur innlánsstofnana.

     
B-liður 1. mgr. 2. gr.:
  1. útsvar til sveitarfélaga;
  2. tryggingagjald,
    gjald í framkvæmdasjóð aldraðra;
    1. erfðafjárskattur;
    2. fasteignaskattur sveitarfélaga,
      sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði;
    3. virðisaukaskattur,
      vörugjald;
    4. skemmtanaskattur,
      flugvallarskattur,
      skilagjald á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur,
      höfundarréttargjald;
    5. bifreiðagjald,
      þungaskattur,
      veggjald,
      bensíngjald,
      sérstakt gjald af bifreiðum og bifhjólum;
    6. iðnaðarmálagjald,
      Iðnlánasjóðsgjald,
      markaðsgjald;
    7. skipulagsgjald,
      stimpilgjald,
      skipagjald,
      vitagjald.



VIÐAUKI B
Bær stjórnvöld.

(D-liður 1. mgr. 3. gr. samningsins.)

     
Ísland.
Hugtakið „bært stjórnvald“ merkir: Fjármálaráðherra eða umboðsmann hans.

VIÐAUKI C
Skilgreining hugtaksins „ríkisborgari“ að því er samning þennan varðar.

(E-liður 1. mgr. 3. gr. samningsins.)

     
Ísland.
Hugtakið „ríkisborgari“ merkir:
  1. hvern þann mann sem hefur íslenskt ríkisfang;
  2. sérhvern lögaðila, sameignarfélag eða samtök sem byggja réttarstöðu sína sem slík á gildandi íslenskum lögum.


Samþykkt á Alþingi 22. maí 1996.