Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1192, 120. löggjafarþing 364. mál: póstlög (Póstur og sími hf.).
Lög nr. 107 14. júní 1996.

Lög um breytingu á póstlögum, nr. 33/1986.


1. gr.

     Í stað orðanna „Póst- og símamálastofnun“ í upphafi 4. gr. laganna kemur: „Íslenska ríkið“.
     Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Samgönguráðherra er heimilt að veita Pósti og síma hf. rekstrarleyfi til að annast þá póstþjónustu sem ríkið hefur einkarétt á samkvæmt þessari grein.

2. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Íslenska ríkið hefur einkarétt á uppsetningu póstkassa á almannafæri.
     Notkun póstlúðurs með eða án stjarna eða örva, til auðkenningar póstþjónustu, er einungis heimil Pósti og síma hf.

3. gr.

     19. gr. laganna orðast svo:
     Samgönguráðherra setur, að fengnum tillögum frá Pósti og síma hf., gjaldskrá fyrir þjónustu sem lýtur einkarétti. Jafnframt getur hann ákveðið gjaldskrá fyrir flutning og dreifingu dagblaða, vikublaða og tímarita á vegum Pósts og síma hf.

4. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     Ríkið hefur einkarétt á útgáfu frímerkja. Með orðinu frímerki er átt við gjaldmiðil sem ætlaður er til greiðslu fyrir póstþjónustu sem innt er af hendi í umboði ríkisins.

5. gr.

     Í stað orðanna: „Póst- og símamálastofnun“ og „póst- og símamálastjóri“ í niðurlagi 5. gr. laganna, 1. mgr. 6. gr., 7., 9., 20., 21., 23., 26., 27., 31., 34. og 36. gr. kemur „Póstur og sími hf.“ með fallbreytingum eftir því sem við á.

6. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.

Samþykkt á Alþingi 4. júní 1996.