Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 321, 121. löggjafarþing 55. mál: umferðarlög (EES-reglur, vegheiti o.fl.).
Lög nr. 138 18. desember 1996.

Lög um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.


1. gr.

     Liðurinn Létt bifhjól í 2. gr. laganna orðast svo:
     Bifhjól sem búið er brunahreyfli sem ekki er yfir 50 rúmsentimetrar að slagrúmmáli eða búið rafhreyfli og er eigi hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst.

2. gr.

     Orðin „eða sýsluvegi“ í 2. mgr. 34. gr. laganna falla brott.

3. gr.

     3. og 4. mgr. 38. gr. laganna, sbr. lög nr. 44/1993, orðast svo:
     Ökuhraði bifreiðar með eftirvagn eða skráð tengitæki má aldrei vera meiri en 80 km á klst.
     Ökuhraði bifreiðar með eftirvagn, sem er án hemla og meira en 750 kg að heildarþyngd, eða óskráð tengitæki má aldrei vera meiri en 60 km á klst.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna, sbr. lög nr. 44/1993:
  1. Í stað orðsins „vörubifreið“ í a-lið 1. mgr. kemur: bifreið, þó ekki hópbifreið.
  2. Í stað orðanna „a.m.k. 750 kg“ og „er innan við 3.500 kg“ í c-lið 1. mgr. kemur: meira en 750 kg, og: fer ekki yfir 3.500 kg.


5. gr.

     A-liður 1. mgr. 52. gr. laganna orðast svo:
  1. ökunám og ökukennslu.


6. gr.

     2. mgr. 54. gr. laganna orðast svo:
     Dómsmálaráðherra getur ákveðið að ökuskírteini útgefin í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, eða í öðru ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, gildi hér á landi, samkvæmt nánari reglum, einnig eftir að skírteinishafi hefur sest hér að.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „eða til að mega stjórna bifhjóli“ í 3. mgr. kemur: eða til að mega stjórna bifreið eða bifhjóli.
  2. 4. mgr. orðast svo:
  3.      Enginn má stjórna torfærutæki nema hann hafi gilt ökuskírteini til að mega stjórna bifreið eða bifhjóli.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
  1. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Dómsmálaráðherra getur sett reglur um stofnun og starfsemi ökuskóla.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Ökukennarar og ökuskólar.


9. gr.

     Í stað orðsins „sex“ í 4. mgr. 57. gr. laganna, sbr. lög nr. 44/1993, kemur: tólf.

10. gr.

     Í stað orðanna „a.m.k. 750 kg“ í 1. mgr. 63. gr. laganna, sbr. lög nr. 44/1993, kemur: meira en 750 kg.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „kaupstaða og kauptúna skv. V. kafla vegalaga“ í 1. mgr. kemur: þéttbýlis.
  2. Orðin „eða sýsluveg“ í 2. mgr. falla brott.
  3. Í stað orðanna „kaupstaða og kauptúna, sbr. V. kafla vegalaga“ í 3. mgr. kemur: þéttbýlis.


12. gr.

     Í stað orðanna „kaupstaða og kauptúna og sýsluveg“ í 85. gr. laganna kemur: þéttbýlis.

13. gr.

     2. mgr. 113. gr. laganna, sbr. lög nr. 12/1992, orðast svo:
     Aðra fulltrúa í Umferðarráð skipar ráðherra samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð.

14. gr.

     4. mgr. 114. gr. laganna orðast svo:
     Dómsmálaráðherra getur skipað sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa. Nefndarmenn skulu hafa sérfræðiþekkingu, svo sem að því er varðar umferðarlöggjöf, löggæslu, slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðatækni eða vátryggingar. Dómsmálaráðherra ákveður fjölda nefndarmanna og setur nánari reglur um starfsemi nefndarinnar.

15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. desember 1996.