Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 460, 121. löggjafarþing 119. mál: ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997 (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 140 27. desember 1996.

Lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997.


Um breytingu á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.

1. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., sbr. 3.–6. gr., laganna skulu tekjur af sérstökum eignarskatti á árinu 1996 umfram 330 m.kr. renna í ríkissjóð og á árinu 1997 skulu tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 285 m.kr. renna í ríkissjóð.

Um breytingu á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla.

2. gr.

     Í stað 2. mgr. 7. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Skólanefnd ákveður upphæð innritunargjalds og efnisgjalds sem nemendum er gert að greiða við upphaf námsannar eða skólaárs. Upphæð innritunargjalds skal taka mið af kostnaði vegna ýmiss konar kennsluefnis og pappírsvara sem skóli lætur nemendum í té án sérstaks endurgjalds og nauðsynlegt er fyrir starfsemi skólans. Innritunargjald skal þó aldrei vera hærra en 6.000 kr. á skólaári. Heimilt er að taka 25% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til innritunar utan auglýsts innritunartíma og er skólanefnd heimilt að láta gjaldið renna í skólasjóð, enda sé tekjum hans samkvæmt skipulagsskrá ráðstafað í þágu nemenda. Efnisgjald er innheimt af nemendum sem njóta verklegrar kennslu vegna efnis sem skóli lætur nemendum í té og þeir þurfa að nota í námi sínu. Skal það taka mið af raunverulegum efniskostnaði. Efnisgjald skal þó aldrei vera hærra en 25.000 kr. á skólaári eða 12.500 kr. á önn. Halda skal bókhald um fjárreiður þessar. Um endurskoðun gilda sömu reglur og um annan rekstur. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um innritunar- og efnisgjöld.
     Heimilt er framhaldsskólum að innheimta sérstakt endurinnritunargjald af nemendum sem endurinnritast í bekkjardeild eða áfanga og skal upphæð gjaldsins miðast við 500 kr. fyrir hverja ólokna einingu frá síðustu önn. Menntamálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um gjaldtökuna, m.a. um viðmiðun gjaldtökunnar, um mat á bekkjardeildum til eininga, tilhögun innheimtu og undanþágur frá greiðslu gjaldsins.

Um breytingu á lögum nr. 84/1989, um búfjárrækt, með síðari breytingum.

3. gr.

     Á undan hlutfallstölunni „65%“ í 6. mgr. 8. gr. laganna kemur: allt að.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. Á undan hlutfallstölunni „65%“ í b- og c-liðum 1. mgr. kemur: allt að.
  2. Við bætist ný málsgrein og orðast svo:
  3.      Framlag ríkissjóðs skv. a-, b- og c-liðum 1. mgr. skal ákveðið í fjárlögum ár hvert.


Um breytingu á lögum nr. 56/1987, jarðræktarlögum, með síðari breytingum.

5. gr.

     3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
     Ríkissjóður greiðir búnaðarsamböndum allt að 65% af launum héraðsráðunauta og trúnaðarmanna. Hluti ríkissjóðs í launagreiðslum fer eftir kjarasamningum opinberra starfsmanna. Ríkissjóður greiðir allt að 65% af ferðakostnaði héraðsráðunauta og trúnaðarmanna samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands. Greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt þessari grein skulu vera innan þeirra marka sem ákveðin eru í fjárlögum ár hvert.

Um breytingu á lögum nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum.

6. gr.

     Lokamálsgrein 9. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 144/1995, orðast svo:
     Til að standa straum af kostnaði við yfirmat samkvæmt lögum þessum og lögum nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, með síðari breytingum, skal innheimta sérstakt gjald. Gjald þetta skal vera 0,55 kr./kg kjöts sem innvegið er í afurðastöð. Landbúnaðarráðherra er heimilt að kveða nánar á um innheimtu gjaldsins með reglugerð.

Um breytingu á lögum nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull, með síðari breytingum.

7. gr.

     Lokamálsgrein 7. gr. laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 144/1995, orðast svo:
     Um gjald af sláturleyfishöfum fyrir yfirmat fer samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum.

Um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra.

8. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 40. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, um hlutverk Framkvæmdasjóðs fatlaðra, greiðist á árinu 1997 af ráðstöfunarfé sjóðsins kostnaður vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar skv. 27. gr. laganna og kostnaður vegna starfsemi stjórnarnefndar skv. 52. gr.

Um breytingu á lögum nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, með síðari breytingum.

9. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laga nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, skulu tekjur af erfðafjárskatti á árinu 1997 umfram 165 m.kr. renna í ríkissjóð.

Um breytingu á lögum nr. 19/1992, um starfsmenntun í atvinnulífinu.

10. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Félagsmálaráðherra og sjávarútvegsráðherra gera tillögur um fjárþörf vegna starfsmenntunar í atvinnulífinu að fengnum umsögnum starfsmenntaráðs og stjórnar starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar. Árlega skal verja fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu, sbr. 4. gr., og skulu fjárhæðir ákvarðast við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Starfsmenntaráð fer með stjórn framlaga til starfsmenntunar.

Um breytingu á lögum nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

11. gr.

     Í stað fjárhæðarinnar „2.433 kr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna, sbr. 26. gr. laga nr. 144/1995, kemur: 2.482 kr.

12. gr.

     Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Auk framlaga skv. 1. mgr. skal árlega verja ákveðnum fjárhæðum úr sjóðnum til að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu, sbr. lög þar að lútandi, og til sérstakra þróunarverkefna til að fjölga atvinnutækifærum fyrir konur samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Fjárhæð þessara framlaga ákvarðast við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

13. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða V í lögunum orðast svo:
     Í samræmi við 5. mgr. 22. gr. skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt á árinu 1997, þrátt fyrir ákvæði 37. gr., að gera tillögu til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífi, enda verði dregið samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað. Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem ráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingu skulu staðfestar af ráðherra.

Um breytingu á lögum nr. 82/1989, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

14. gr.

     Í stað fjárhæðarinnar „3.985 kr.“ í 2. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 4.065 kr.

Um breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.

15. gr.

     2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
     Þar sem aðstæður leyfa skulu heilsugæslustöð og sjúkrahús rekin sem ein stofnun undir einni stjórn, sbr. 2. mgr. 21. gr.

16. gr.

     10. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

17. gr.

     15. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að breyta skiptingu í heilsugæsluumdæmi, fjölda og flokkun heilsugæslustöðva og starfssvæði þeirra með reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga.

18. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 21. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Stjórn heilsugæslustöðva í Reykjavíkurhéraði skal skipuð fimm mönnum.
  2. Síðari málsliður 5. mgr. fellur brott.


19. gr.

     2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um flokkun sjúkrahúsa, starfssvið og verkaskiptingu, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga. Hann getur jafnframt ákveðið sameiningu sjúkrastofnana sem reknar eru af ríkinu með reglugerð að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga.

20. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum:
  1. Í stað orðanna „ársloka 1996“ í 1. málsl. kemur: 30. apríl 1997.
  2. Í stað orðanna „1. janúar 1997“ í 4. málsl. kemur: 1. maí 1997.


Um breytingu á lögum nr. 113/1994, um eftirlaun til aldraðra, með síðari breytingum.

21. gr.

     20. gr. laganna fellur brott.

Um breytingu á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

22. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, skulu 856 m.kr. af innheimtum mörkuðum tekjum samkvæmt lögunum renna í ríkissjóð á árinu 1997.

Um breytingu á lögum nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, með síðari breytingum.

23. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 14. gr. laga nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, sbr. 11. gr. laga nr. 148/1994, skal heimilt að verja tekjum af flugvallagjaldi á árinu 1997 til greiðslu stofnkostnaðar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.

Um breytingu á lögum nr. 58/1967, orkulögum, með síðari breytingum.

24. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 74. gr. laganna:
  1. 1., 2. og 3. tölul. orðast svo:
    1. Að styrkja gerð yfirlitsathugana á möguleikum til að auka hlutdeild innlendra orkulinda í orkubúskap þjóðarinnar.
    2. Að styrkja sérstök verkefni á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þar með talda fræðslu- og upplýsingastarfsemi.
    3. Að veita fyrirtækjum eða einstaklingum styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerða tækja og búnaðar sem ætla má að leiði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.
  2. 5. tölul. fellur brott.


Um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

25. gr.

     2. málsl. 4. mgr. l2. gr. laganna orðast svo: Viðkomandi sveitarstjórnir skulu árlega gefa skýrslur til veiðistjóraembættis um refaveiðar og kostnað við þær, hver á sínu svæði, og endurgreiðir ríkissjóður þá hluta kostnaðar við veiðarnar m.a. með tilliti til fjárhagslegrar getu hlutaðeigandi sveitarfélaga eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum.

26. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. Þó skal ákvæði 1. gr. öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1996.