Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 393, 121. löggjafarþing 135. mál: listamannalaun (markmið, greiðslufyrirkomulag o.fl.).
Lög nr. 144 27. desember 1996.

Lög um breyting á lögum um listamannalaun, nr. 35/1991.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Alþingi veitir árlega fé á fjárlögum til þess að launa listamenn í samræmi við ákvæði laga þessara í þeim tilgangi að efla listsköpun í landinu.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Starfslaun listamanna skulu veitt úr fjórum sjóðum:
  1. Launasjóði rithöfunda,
  2. Launasjóði myndlistarmanna,
  3. Tónskáldasjóði,
  4. Listasjóði.

     Þrír fyrstnefndu sjóðirnir eru sérgreindir sjóðir. Listasjóður er almennur sjóður en sinnir einkum öðrum listgreinum en þeim sem falla undir sérgreindu sjóðina. Allir sjóðirnir veita starfslaun, svo og náms- og ferðastyrki.

3. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Þriggja manna stjórn listamannalauna hefur yfirumsjón með sjóðum skv. 2. gr. Stjórnin skal skipuð af menntamálaráðherra til þriggja ára í senn, einum samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra listamanna, einum tilnefndum af Háskóla Íslands, en af Listaháskóla Íslands þegar stofnaður verður, og loks einum án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórn listamannalauna skal m.a. annast vörslu sjóðanna og sjá um bókhald, en hún getur falið öðrum aðila að sjá um þessa þætti fyrir sína hönd ef allir stjórnarmenn samþykkja.
     Stjórnin úthlutar fé úr Listasjóði, en sérstakar úthlutunarnefndir fyrir hvern hinna sérgreindu sjóða veita fé úr þeim, sbr. 12. gr.

4. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Starfslaun miðast við lektorslaun II við Háskóla Íslands eins og þau eru á hverjum tíma. Þau sem taka starfslaun skulu vera á skrá hjá stjórn listamannalauna og fá greidd starfslaun mánaðarlega að viðbættu 6% álagi. Þau skulu eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Þau skulu ekki gegna föstu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur. Starfslaunaþegar skulu skila skýrslu um störf sín á starfslaunatímanum eigi síðar en ári eftir að honum lýkur. Stjórn listamannalauna má fella niður starfslaun sem veitt eru til lengri tíma en sex mánaða ef talið er að viðkomandi listamaður sinni ekki list sinni.

5. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Samanlögð starfslaun miðast við 1.200 mánaðarlaun eða 100 árslaun.

6. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Launasjóður rithöfunda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 480 mánaðarlauna. Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa íslenskir rithöfundar og höfundar fræðirita. Heimilt er og að greiða úr sjóðnum fyrir þýðingar á íslensku.
     Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Rithöfundasambands Íslands, úthlutar fé úr Launasjóði rithöfunda. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ákvörðun úthlutunarnefndar er endanleg og verður ekki áfrýjað.

7. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Launasjóður myndlistarmanna veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 320 mánaðarlauna.
     Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Sambands íslenskra myndlistarmanna, úthlutar fé úr Launasjóði myndlistarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ákvörðun úthlutunarnefndar er endanleg og verður ekki áfrýjað.

8. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Tónskáldasjóður veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 100 mánaðarlauna.
     Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Tónskáldafélags Íslands, úthlutar fé úr Tónskáldasjóði. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ákvörðun úthlutunarnefndar er endanleg og verður ekki áfrýjað.

9. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Listasjóður veitir starfslaun og styrki er svara til 300 mánaðarlauna og skal allt að þriðjungi þeirra varið til stuðnings leikhópum svo sem mælt er fyrir um í ákvæðum leiklistarlaga, enda verði því framlagi Listasjóðs einvörðungu varið til greiðslu starfslauna til einstakra leikhúslistamanna. Stjórn listamannalauna getur falið framkvæmdastjórn leiklistarráðs að fjalla um veitingu þessara starfslauna.
     Listasjóður veitir einnig sérstök framlög til listamanna sem notið höfðu listamannalauna nokkur ár fyrir 31. desember 1991 og höfðu þá náð 60 ára aldri.
     Við úthlutun úr Listasjóði skulu þær umsóknir njóta forgangs sem lúta að viðfangsefnum er ekki falla undir verksvið annarra sjóða, sbr. 2. gr.
     Ákvörðun stjórnar Listasjóðs um úthlutun er endanleg og verður ekki áfrýjað.

10. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Starfslaun skulu veitt til hálfs eða eins árs, til tveggja ára eða þriggja. Stjórn Listamannalauna og úthlutunarnefndum er þó heimilt að úthluta starfslaunum til skemmri tíma en hálfs árs, þó aldrei skemur en til þriggja mánaða. Sú upphæð, sem varið er til þessa, sem og til náms- og ferðastyrkja, skal ekki vera hærri en sem nemur 10% þeirra mánaðarlauna sem hver sjóður hefur til úthlutunar árlega. Miða skal við að fjórðungur heildarstarfslauna hvers sjóðs samkvæmt lögum þessum verði að jafnaði veittur til listamanna sem taka laun í meira en eitt ár.

11. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara, m.a. um skilgreiningu á því hvað teljist fast starf, sbr. 4. gr., og um tilhögun tilnefninga af hálfu tilnefningaraðila í úthlutunarnefndir, sbr. 6.–8. gr. Þá skal enn fremur setja nánari ákvæði í reglugerð um skilmála fyrir veitingu starfslauna, þar með talið um endurgreiðslu þeirra ef gegn þeim skilmálum er brotið.
     Við framkvæmd þessarar greinar skal haft samráð við Rithöfundasamband Íslands, Samband íslenskra myndlistarmanna, Tónskáldafélag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna eftir því sem við á hverju sinni.

12. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 31. desember 1996.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 1996.