Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1362, 121. löggjafarþing 531. mál: Lánasjóður íslenskra námsmanna (endurgreiðsla o.fl.).
Lög nr. 67 26. maí 1997.

Lög um breyting á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Menntamálaráðherra skipar stjórn sjóðsins þannig: Einn samkvæmt tilnefningu stúdentaráðs Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra námsmanna erlendis, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra sérskólanema, einn samkvæmt tilnefningu Iðnnemasambands Íslands, einn samkvæmt tilnefningu fjármálaráðherra og þrjá án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður stjórnar og annar varaformaður.
  3. 4. mgr. orðast svo:
  4.      Menntamálaráðherra skipar framkvæmdastjóra til fimm ára í senn að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. 5. tölul. 1. mgr. orðast svo: að skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum með bókuðum samþykktum. Úrskurðum stjórnar má vísa til málskotsnefndar, sbr. 6. gr.
  2. Við bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
  3.      Stjórn sjóðsins er heimilt að skipa undirnefndir úr hópi stjórnarmanna til að fjalla um einstök mál og gera tillögur fyrir stjórn sjóðsins.


3. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
     Menntamálaráðherra skipar málskotsnefnd þriggja manna og jafnmarga til vara, sbr. 5. gr., til fjögurra ára í senn og skulu nefndarmenn vera lögfræðingar. Formaður nefndarinnar og varamaður hans skulu fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.
     Nefndin sker úr um hvort úrskurðir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Nefndin getur staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir stjórnar sjóðsins. Úrskurður nefndarinnar skal vera rökstuddur og er endanlegur. Afl atkvæða ræður niðurstöðu nefndarinnar. Ráðherra setur nefndinni starfsreglur.
     Um málsmeðferð að öðru leyti fer eftir stjórnsýslulögum.

4. gr.

     Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
     Námsmaður fær greiddan vaxtastyrk sem ætlaður er til að bæta honum fjármagnskostnað vegna framfærslu í samræmi við rétt hans til námsláns á hverjum tíma. Styrkurinn greiðist við útborgun námsláns og miðast við meðaltal vaxta- og lántökukostnaðar banka og sparisjóða eins og hann er á hverjum tíma samkvæmt nánari reglum sem stjórn sjóðsins setur.

5. gr.

     1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
     Lán úr sjóðnum skulu verðtryggð. Verðtryggingin er miðuð við breytingar á vísitölu neysluverðs, sbr. lög nr. 12/1995. Verðtryggingin reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að lán er veitt eða einstakir hlutar þess greiddir út, til fyrsta dags þess mánaðar er greiðsla fer fram.

6. gr.

     2.–4. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Fastagreiðslan er 52.698 kr. miðað við vísitölu neysluverðs 177,8 nema eftirstöðvar láns ásamt verðbótum og vöxtum séu lægri. Þessi upphæð breytist á hverju ári í hlutfalli við vísitölu neysluverðs 1. janúar hvers árs.
     Viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári. Hundraðshluti þessi er 4,75% við afborganir af skuldabréfinu. Frá viðbótargreiðslunni samkvæmt þessari málsgrein dregst fastagreiðslan skv. 2. mgr.
     Fjárhæðin skv. 3. mgr. skal margfölduð samkvæmt hlutfallslegri breytingu á vísitölu neysluverðs frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári.

7. gr.

     3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og yrði hámark árlegrar endurgreiðslu ákveðið í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna útsvarsstofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum útsvarsstofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Komi í ljós að áætlun þessi sé röng eiga ákvæði 2. mgr. við.

8. gr.

     Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
     Þá er stjórn sjóðsins heimilt að veita lán með sömu kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla en greinir í 1. mgr., svo sem ef námsmanni stendur ekki tímabundið til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla eða veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að standast prófkröfur.

9. gr.

     Við 13. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Ríkisborgari ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, sem starfað hefur sem launþegi á Evrópska efnahagssvæðinu í a.m.k. fimm ár, sbr. lög nr. 47/1993, á rétt á aðstoð til starfstengds náms hafi hann komið hingað til lands vegna starfs síns og átt hér lögheimili í eitt ár. Sama gildir um maka hans og börn þeirra sem eru yngri en 21 árs eða eru á framfæri þeirra hér á landi.
     Skilyrði til lánveitingar frá sjóðnum er að viðkomandi hafi átt lögheimili á Íslandi í eitt ár áður en nám hefst. Íslenskur ríkisborgari heldur þó að jafnaði lánsrétti sínum í tvö ár eftir að hann flytur lögheimili sitt til annars lands.

10. gr.

     3. tölul. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Lánsfé. Sjóðnum er þó ekki heimilt að taka lán með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings.

11. gr.

     2. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
     Sjóðstjórn setur reglur um önnur atriði er greinir í lögum þessum og reglugerð skv. 1. mgr. Reglurnar skulu samþykktar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.

12. gr.

     18. gr. laganna orðast svo:
     Ef skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin eru samkvæmt þessum lögum. Þá gildir endurgreiðsluhlutfallið 4,75% einnig gagnvart þeim sem tóku lán frá árinu 1992 með endurgreiðsluhlutfallið 5–7%. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þar til lán samkvæmt þessum lögum eru að fullu greidd.

13. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1997.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 1997.