Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1251, 121. löggjafarþing 476. mál: meðferð sjávarafurða (innflutningur, landamærastöðvar).
Lög nr. 89 26. maí 1997.

Lög um breytingu á lögum nr. 93 20. nóvember 1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. Í stað 1. og 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður er orðast svo: Við útflutning sjávarafurða sem fluttar hafa verið inn til landsins til vinnslu eða umpökkunar skal upprunalands hráefnis getið í fylgiskjölum.
  2. 2. mgr. fellur brott.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. 2. málsl. orðast svo: Á umbúðum skal koma fram leyfisnúmer vinnslustöðva þannig að unnt sé að rekja uppruna afurðanna til framleiðandans.
  2. Á eftir 2. málsl. kemur nýr málsliður er orðast svo: Sé afurðin send ópökkuð skulu sömu upplýsingar koma fram í fylgiskjölum.


3. gr.

     Á eftir III. kafla laganna koma tveir nýir kaflar, IV. kafli, Innflutningur sjávarafurða, með fjórum nýjum greinum, 19.–22. gr., og V. kafli, Landamærastöðvar, með fimm nýjum greinum, 23.–27. gr., og breytist töluröð annarra kafla og greina samkvæmt því. Þessar nýju greinar orðast svo:
     
     A. (IV. kafli.)
     a. (19. gr.)
Innflutningur frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Innflytjandi sjávarafurða, sem fluttar eru til Íslands frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, skal tilkynna Fiskistofu um komu sendinga með hæfilegum fyrirvara.
     Vinnsluleyfishafi, sbr. 12. gr., eða annar viðtakandi þessara sjávarafurða skal halda dagbók yfir mótteknar sendingar og ganga úr skugga um að samræmi sé milli þeirra og meðfylgjandi skjala. Varðveita skal vottorð og önnur skilríki þeim viðkomandi í eitt ár svo að unnt sé að framvísa þeim að kröfu eftirlitsaðila.
     Fiskistofu er heimil skyndiskoðun á þessum sjávarafurðum og sýnataka til rannsókna.
     Fiskistofa skal tilkynna viðkomandi ef hún óskar eftir að skoða vöruna eða taka sýni af henni til rannsókna. Berist viðtakanda ekki slík tilkynning áður en losun hefst er honum heimilt að ráðstafa sendingunni til vinnslu eða umpökkunar hjá viðurkenndum vinnsluleyfishafa. Afla fiskiskipa frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem landað er hér á landi, skal skoða á sama hátt og afla íslenskra skipa.
     Fiskistofa skal leggja áætlun um fjölda skyndiskoðana og nánari tilhögun þeirra fyrir Eftirlitsstofnun EFTA.
     
     b. (20. gr.)
Innflutningur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Allur innflutningur lifandi fisks og fiskafurða, að meðtöldu fiskmjöli frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, skal fara um landamærastöðvar eða hafnir sem heimild hafa fyrir innflutningi, sbr. V. kafla þessara laga. Heimilt er að landa afla fiskiskipa utan landamærastöðva og skal skoða hann á sama hátt og afla íslenskra skipa.
     Sjávarútvegsráðuneytið getur veitt undanþágu frá 1. mgr. ef sérstakar ástæður réttlæta slíkt eða ef fram kemur rökstudd beiðni þar að lútandi frá yfirvöldum í ríkjum innan EES.
     Innflutningur á sjávarafurðum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins er aðeins heimill frá þeim framleiðendum, verksmiðjuskipum og frystiskipum sem hlotið hafa viðurkenningu þess efnis að framleiðsla og eftirlit með sjávarafurðum uppfylli kröfur Evrópska efnahagssvæðisins.
     
     c. (21. gr.)
     Sjávarútvegsráðuneytið heldur skrá yfir þá aðila sem hlotið hafa viðurkenningu, sbr. 3. mgr. 20. gr. Birta skal þessa skrá í Stjórnartíðindum. Einnig skal birta mánaðarlega þær breytingar sem verða á henni.
     
     d. (22. gr.)
Öryggisákvæði.
     Í þeim tilfellum þegar sjúkdómur eða annað, sem kann að stofna heilbrigði almennings eða heilbrigði dýra í alvarlega hættu, kemur upp eða breiðist út á yfirráðasvæði annars ríkis eða ef einhver önnur alvarleg ástæða er varðar heilbrigði manna og dýra réttlætir slíkt getur ráðuneytið án fyrirvara stöðvað innflutning frá viðkomandi ríki eða sett sérstök skilyrði fyrir innflutningi.
     
     B. (V. kafli.)
     a. (23. gr.)
     Eftirlitsmenn Fiskistofu eða aðrir þar til bærir eftirlitsaðilar annast eftirlit með innflutningi sjávarafurða frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í því skyni skal setja á fót landamærastöðvar þar sem starfi eftirlitsmenn sem eru sérþjálfaðir til þessara starfa og séu ábyrgir fyrir nauðsynlegum skoðunum á sjávarafurðum sem um stöðvarnar fara. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um slíkan innflutning þar sem getið er um magn, tegund, áfangastað og hvenær áætlað er að sending berist.
     
     b. (24. gr.)
     Á landamærastöðvum eða í þeim höfnum sem heimild hafa fengið fyrir innflutningi skal fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu til að sannreyna uppruna hennar og ákvörðunarstað og að sendingin sé frá vinnslustöð, vinnsluskipi eða frystiskipi sem er á skrá ráðuneytisins yfir viðurkennda aðila, sbr. 21. gr. þessara laga.
     Eftirlitsmaður skal kanna ástand afurðanna og taka sýni til rannsókna á rannsóknastofu. Skal hann í þeim efnum fylgja gildandi reglum um tíðni skoðana og um sýnatökur. Komi í ljós við skynmat eða rannsókn að þær séu óhæfar til manneldis skal eyða þeim. Heimilt er þó að endursenda afurðina að fengnu leyfi yfirvalda í framleiðslulandi eða að nýta hana í fiskmjöl enda sé hún laus við eiturefni. Innflytjandi er ábyrgur fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða eyða henni.
     Í tollvörugeymslu skal aðeins fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu.
     
     c. (25. gr.)
     Innflytjandi eða annar viðtakandi sjávarafurða sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna Fiskistofu með hæfilegum fyrirvara hvert afurðirnar verða sendar og tilgreina magn, tegund og hvenær áætlað er að þær berist.
     
     d. (26. gr.)
Um gjaldtöku fyrir landamæraeftirlit.
     Fiskistofa skal innheimta gjald til að bera uppi kostnað af eftirliti með sjávarafurðum frá viðurkenndum framleiðendum, verksmiðjuskipum og frystiskipum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Fyrir hvert tonn af fyrstu 100 tonnum af innfluttum sjávarafurðum úr sömu sendingu skal greiða 405 kr. Fyrir hvert tonn þar umfram skal lækka gjaldið í 202 kr. Þó skal gjald af heilfrystum fiski sem aðeins hefur verið slægður lækka í 121 kr. fyrir hvert tonn. Fyrir hverja sendingu skal þó aldrei greiða minna en 2.460 kr.
     Heimilt er að breyta framangreindum gjöldum með tilliti til breytinga á meðalgengi Evrópumyntar (ECU). Grunngjaldið er miðað við gengi Evrópumyntar í mars 1997 eða 81 kr. Gjaldið greiðist af innflytjanda afurðanna og greiðist þar sem eftirlitið fer fram eða á landamærastöð.
     Sjávarútvegsráðherra er heimilt að hækka gjöld skv. 2. mgr. ef í ljós kemur að kostnaður Fiskistofu af eftirliti með innfluttum sjávarafurðum er meiri en sem nemur þessum gjöldum. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur raunverulegum kostnaði við eftirlitið.
     Innflytjanda sjávarafurða eða öðrum aðila sem óskar eftir aðgangi að tollvörugeymslu ber að greiða fyrir eftirlit þar. Heimilt er að innheimta gjaldið áður en afurðir eru fluttar í tollvörugeymslu.
     
     e. (27. gr.)
     Sjávarútvegsráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um fjölda landamærastöðva, staðsetningu þeirra, rekstur, búnað, útgáfu vottorða, tíðni skoðana, sýnatökur og rannsóknir. Með reglugerð skal einnig kveðið á um hvaða sendingar séu undanþegnar skoðunum og um nánara fyrirkomulag við gjaldtöku, þar á meðal um lækkunarheimildir og innheimtu.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 1997.

Samþykkt á Alþingi 13. maí 1997.