Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1379, 121. löggjafarþing 524. mál: Suðurlandsskógar.
Lög nr. 93 26. maí 1997.

Lög um Suðurlandsskóga.


1. gr.

Tilgangur.
     Tilgangur laga þessara er að stuðla að ræktun fjölnytjaskóga og skjólbelta á Suðurlandi, þ.e. Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, og umhirðu þess skóglendis sem þar er fyrir og treysta með því byggð og fjárfesta í nýrri auðlind sem efla mun atvinnulíf í framtíðinni.
     Suðurlandsskógar eru samkvæmt lögum þessum sjálfstæður aðili sem sinnir verkefnum skv. 1. mgr., þ.e. ræktun og umhirðu skóga og skjólbelta á jörðum á Suðurlandi samkvæmt sérstakri áætlun.

2. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum er greint milli tveggja greina fjölnytjaskógræktar, annars vegar ræktunar timburskóga, sem hefur að markmiði að framleiða viðarafurðir til iðnaðarnota, og hins vegar ræktunar landbótaskóga, en þá er fyrst og fremst lögð áhersla á verndar- og landbótamátt skógarins, fegurð hans og útivistargildi.
     Skjólbelti eru í lögum þessum greind í tvo flokka, annars vegar belti sem ræktuð eru í því skyni að auka hvers kyns uppskeru og skýla búfénaði og mannvirkjum tengdum landbúnaði, hins vegar belti sem hugsuð eru sem undanfari skógræktar á bersvæði.

3. gr.

Áætlun, tímabil og umfang.
     Gera skal sérstaka áætlun, Suðurlandsskógaáætlun, um nýtingu þess lands sem er fallið til skógræktar. Áætlunin skal vera til 40 ára og skiptast í fjögur tíu ára tímabil og taka til a.m.k. 15.000 ha lands til timburskógræktar, 10.000 km af skjólbeltum, miðað við einfalda plönturöð, og 20.000 ha lands til landbótaskógræktar.
     Gera skal samninga sem landbúnaðarráðherra staðfestir við hvern og einn þátttakanda í Suðurlandsskógum og þinglýsa þeim sem kvöð á viðkomandi jörðum. Samningar skulu taka til afmarkaðs lands sem tekið er til ræktunar í hverju tilviki og kveða á um kostnaðarþátttöku ríkisins, hlutdeild ríkissjóðs í væntanlegum afrakstri skógræktarinnar og annað sem þurfa þykir.

4. gr.

Kostnaður.
     Kostnaður við starfsemi Suðurlandsskóga greiðist úr ríkissjóði með sérstakri fjárveitingu sem færð er undir landbúnaðarráðuneytið.
     Suðurlandsskógar greiða undirbúnings- og rekstrarkostnað verkefnisins og laun stjórnar og fastra starfsmanna. Enn fremur greiða Suðurlandsskógar ákveðinn hluta af samþykktum kostnaði við skógrækt og skjólbeltarækt á lögbýlum, óháð búsetu, með kvöðum um endurgreiðslu til ríkissjóðs, sbr. 5. gr., samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð er landbúnaðarráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar Suðurlandsskóga.
     Landbúnaðarráðuneytið samþykkir skógræktar- og skjólbeltakostnað að fengnum tillögum Skógræktar ríkisins og Samtaka skógarbænda.

5. gr.

Skipting og binding tekna af verkefninu.
     Af heildarframleiðsluverðmæti trjáviðar úr skógunum skulu 5% lögð á endurnýjunarreikning í vörslu Suðurlandsskóga. Þeim fjármunum skal innan fimm ára frá lokum skógarhöggs varið til endurnýjunar skóglendis á viðkomandi jörð. Sé nýliðun skógar fullnægjandi má nýta fjármuni endurnýjunarreiknings til að hirða um nýliðunina án tímatakmarka. Til ríkissjóðs skal greiða 15% af söluverðmæti hvers rúmmetra timburs á rót og skal því fé varið til ræktunar nýrra skóga.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um álagningu og innheimtu gjalda skv. 1. mgr.
     Undanþegin ákvæði 1. mgr. er fyrsta grisjun, enda sé hún skóginum nauðsynleg að mati Skógræktar ríkisins, og hagnaður af henni skal renna óskiptur á endurnýjunarreikning jarðarinnar.

6. gr.

Forgangur að vinnu.
     Skógarbændur, sem hafa til umráða jarðir sem teknar eru til skógræktar samkvæmt samningi við Suðurlandsskóga, skulu hafa forgang að vinnu á vegum verkefnisins á jörðum þeim sem þeir nýta. Að þeim frágengnum hafa aðrir skógarbændur, sem aðild eiga að Suðurlandsskógum, forgang að vinnu við verkefnið.

7. gr.

Stjórn og rekstur.
     Landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna stjórn Suðurlandsskóga til tveggja ára í senn. Skal einn stjórnarmanna tilnefndur af Félagi skógarbænda á Suðurlandi, annar af Skógrækt ríkisins og sá þriðji skipaður án tilnefningar. Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn Suðurlandsskóga og samþykkir starfs- og fjárhagsáætlanir verkefnisins. Hún ræður framkvæmdastjóra sem annast daglegan rekstur.
     Skógrækt ríkisins veitir Suðurlandsskógum aðstoð og faglegar leiðbeiningar samkvæmt samstarfssamningi er viðkomandi aðilar gera þar um.

8. gr.

Ársskýrslur og ársreikningar.
     Ársskýrslur og ársreikningar Suðurlandsskóga skulu samþykkt af stjórn og staðfest af landbúnaðarráðherra. Þar komi m.a. fram staða framkvæmda á hverjum tíma og yfirlit yfir ráðstöfun fjármuna.
     Reikninga Suðurlandsskóga skal birta í Stjórnartíðindum, endurskoðaða af Ríkisendurskoðun.

9. gr.

Reglugerð og almenn lagaákvæði.
     Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer um ræktun og meðferð Suðurlandsskóga eftir því sem við á eftir ákvæðum skógræktarlaga, nr. 3/1955, með síðari breytingum.
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

10. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. maí 1997.