Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 597, 122. löggjafarþing 332. mál: skipulags- og byggingarlög (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.).
Lög nr. 135 23. desember 1997.

Lög um breyting á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997.


1. gr.

     Í stað orðsins „umhverfisvernd“ í 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: hverfisvernd.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „sveitarstjórnar“ í 1. mgr. kemur: sveitarstjórna.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
  3.      Ráðherra getur, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, frestað staðfestingu á svæðisskipulagi fyrir ákveðið landsvæði ef nauðsyn þykir til að samræma skipulagsáætlanir aðliggjandi sveitarfélaga. Slík svæði skal auðkenna á uppdrætti.


3. gr.

     5. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
     Þegar að loknum sveitarstjórnarkosningum metur sveitarstjórn hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagið. Um málsmeðferð á endurskoðaðri áætlun fer sem um gerð nýs aðalskipulags væri að ræða.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við.
  2. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Ráðherra skal kveða nánar á um útgáfu framkvæmdaleyfa í reglugerð.
         Landgræðslu- og skógræktaráætlanir skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við.


5. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna orðast svo: Undanþegin byggingarleyfi eru götur, holræsi, vegir og brýr, aðrar en göngubrýr í þéttbýli, jarðgöng, flugbrautir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, svo og hafnir og virkjanir, enda eru þær framkvæmdar á vegum opinberra aðila eða unnar samkvæmt sérlögum.

6. gr.

     5. mgr. 39. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Byggingarfulltrúa er heimilt á kostnað byggjanda að krefjast sérstakra eftirlitsmanna þegar um byggingu meiri háttar mannvirkja er að ræða.
  2. 1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Byggingarfulltrúa er heimilt á kostnað byggjanda að krefjast álagsprófunar mannvirkis til staðfestingar burðarþoli og virkniprófun lagnakerfa eftir að það hefur verið reist.


8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Rétt til að leggja fram uppdrætti vegna byggingarleyfis hafa þeir sem til þess hafa hlotið löggildingu ráðherra.
  3. Lokamálsliður 5. mgr. orðast svo: Ráðherra leitar umsagnar viðkomandi fagfélags og prófnefndar áður en löggilding er veitt.


9. gr.

     53. gr. laganna orðast svo:
Framkvæmda- og byggingarleyfisgjöld.
     Sveitarstjórnum er heimilt að innheimta gjöld fyrir leyfi til framkvæmda, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, sbr. 27. gr., og fyrir leyfi til að reisa, stækka eða breyta byggingarmannvirkjum, sbr. 43. gr. Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjöld fyrir útmælingu, eftirlit, úttektir og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té. Gjöld þessi mega ekki nema hærri upphæð en sem nemur kostnaði við útgáfu leyfa, útmælingu, eftirlit og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té.

10. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 55. gr. laganna orðast svo: Sveitarstjórnir ákveða gjalddaga framkvæmdaleyfis-, byggingarleyfis- og bílastæðagjalda og hvernig þau skuli innheimt.

11. gr.

     1. mgr. 56. gr. laganna orðast svo:
     Ef framkvæmd, sem fellur undir 27. gr. eða undir IV. kafla laga þessara, er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, hún byggð á annan hátt en leyfi stendur til eða ef bygging er tekin til annarra nota en sveitarstjórn hefur heimilað getur skipulagsfulltrúi/byggingarfulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir tafarlaust. Sé um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd að ræða leitar skipulagsfulltrúi staðfestingar sveitarstjórnar. Sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða leitar byggingarfulltrúi staðfestingar byggingarnefndar svo fljótt sem við verður komið.

12. gr.

     Síðari málsliður 2. mgr. 59. gr. laganna orðast svo: Áður en ráðherra tekur ákvörðun um sviptingu viðurkenningar skal hann leita umsagnar byggingarnefndar viðkomandi sveitarfélags og Samtaka iðnaðarins og gefa iðnmeistara kost á að tjá sig.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða í lögunum:
  1. 1. tölul. orðast svo: Skipulagsreglugerð skv. 10. gr. og byggingarreglugerð skv. 37. gr. skulu settar eins fljótt og við verður komið, í síðasta lagi 1. júlí 1998. Þangað til halda núverandi skipulagsreglugerð og byggingarreglugerð gildi sínu að svo miklu leyti sem þær stangast ekki á við lögin.
  2. Við bætist nýr töluliður er orðast svo: Samvinnunefndir um svæðisskipulag sem eru að störfum við gildistöku laganna skulu starfa áfram en um málsmeðferð fer samkvæmt þessum lögum.


14. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 1997.