Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 622, 122. löggjafarþing 167. mál: Kennaraháskóli Íslands.
Lög nr. 137 23. desember 1997.

Lög um Kennaraháskóla Íslands.


I. KAFLI
Hlutverk.

1. gr.

     Kennaraháskóli Íslands er miðstöð kennara- og uppeldismenntunar á Íslandi. Kennaraháskóli Íslands er vísindaleg fræðslu- og rannsóknarstofnun er veitir nemendum sínum menntun til þess að gegna störfum á sviði kennslu, þjálfunar, uppeldis og umönnunar og til þess að sinna sjálfstætt fræðilegum rannsóknum á því sviði.
     Nánari fyrirmæli um skilgreiningu þess náms sem háskólinn veitir og hvernig samstarfi við aðra háskóla á sviði kennara- og uppeldismenntunar skuli háttað skal setja í reglugerð.

II. KAFLI
Kennarar og nemendur.

2. gr.

     Kennarar við Kennaraháskóla Íslands eru prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar og stundakennarar.
     Prófessorar, dósentar og lektorar skulu vera þeir einir sem hafa kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. Aðjúnktar eru ráðnir til eins árs hið skemmsta. Stundakennarar eru ráðnir til eins árs eða skemmri tíma.
     Háskólaráð setur nánari reglur um starfsskyldur fastráðinna kennara.

3. gr.

     Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, aðjúnkta og stundakennara.
     Umsækjendur um prófessorsstöður, dósents- og lektorsstöður skulu láta fylgja umsókn sinni upplýsingar um háskólamenntun sína, vísindastörf og önnur störf, svo og ritsmíðar og rannsóknir.
     Rektor skipar þriggja manna dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs og menntamálaráðherra, til tveggja ára í senn, til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna stöðu prófessors, dósents eða lektors. Háskólaráð tilnefnir tvo menn í nefndina, þar af annan formann nefndarinnar. Annar fulltrúanna sem háskólaráð tilnefnir skal starfa utan háskólans.
     Menntamálaráðherra tilnefnir einn mann í nefndina. Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla.
     Rektor skal eftir ábendingu viðkomandi deildar tilnefna sérfræðing, hverju sinni, er skal vera dómnefnd til ráðgjafar þegar fræðistörf umsækjenda eru metin.
     Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna stöðunni. Engum manni má veita prófessorsstöðu, dósentsstöðu eða lektorsstöðu nema meiri hluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur.
     Háskólaráði er heimilt að setja reglur sem kveða á um að sambærileg ákvæði gildi við ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna og annarra fræðistarfa við skólann.
     Heimilt er að flytja lektor úr lektorsstöðu í dósentsstöðu og dósent úr dósentsstöðu í prófessorsstöðu samkvæmt nánari reglum sem háskólaráð setur.

4. gr.

     Háskólaráð skal, að fengnum tillögum deildarráða, staðfesta reglur um skráningu nemenda í einstakar deildir þar sem nánar er kveðið á um inntökuskilyrði í viðkomandi deild.
     Háskólaráð tekur ákvörðun um fjárhæð skrásetningargjalds sem nemendum er gert að greiða við upphaf skólaárs. Skrásetningargjald skal taka mið af kostnaði vegna innritunar, kennsluefnis og pappírsvara sem skólinn lætur nemendum í té og nauðsynlegt er vegna starfsemi háskólans. Skrásetningargjald skal ekki vera hærra en sem nemur 25.000 kr.
     Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem skrá sig til náms eftir að auglýstu skrásetningartímabili lýkur.
     Þeir einir teljast nemendur við Kennaraháskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms.

III. KAFLI
Stjórnskipulag.

5. gr.

     Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum.
     Í háskólaráði eiga sæti:
  1. rektor sem er sjálfkjörinn í ráðið og jafnframt forseti þess,
  2. fjórir fulltrúar fastráðinna kennara og fjórir til vara kjörnir á almennum fundi fastráðinna kennara hlutfallsbundinni kosningu til tveggja ára í senn,
  3. tveir fulltrúar nemenda og tveir til vara kjörnir hlutfallsbundinni kosningu til tveggja ára í senn samkvæmt reglum nemendafélags skólans,
  4. tveir fulltrúar skipaðir af menntamálaráðherra til tveggja ára í senn.

     Varaforseta og ritara kýs ráðið úr hópi háskólaráðsfulltrúa fastráðinna kennara.

6. gr.

     Rektor boðar til funda í háskólaráði eftir þörfum. Óski þrír háskólaráðsfulltrúar eftir fundi er rektor skylt að boða til hans. Rektor stýrir fundum ráðsins.
     Háskólaráðsfundur er ályktunarbær ef tveir þriðju hlutar atkvæðisbærra manna sækja fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði falla jöfn sker atkvæði forseta úr.
     Varamenn sitja fundi háskólaráðs í forföllum aðalmanna.

7. gr.

     Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Háskólaráð setur reglur um hvernig staðið skuli að tilnefningu rektors.

8. gr.

     Háskólaráð ákvarðar deildarskipan skólans og afmarkar aðrar stjórnunareiningar.
     Deildarfundir og deildarráð, í umboði háskólaráðs og rektors, stjórna málefnum hverrar deildar og fer deildarforseti með framkvæmdarvald í málefnum deildarinnar.
     Háskólaráð setur reglur um skipan deildarráða og val á deildarforsetum. Háskólaráð setur reglur um deildarfundi, hverjir hafi rétt til setu á deildarfundum og hvert skuli vera verksvið þeirra, vald og ábyrgð. Háskólaráð setur deildarráðum starfsreglur. Háskólaráð setur jafnframt reglur um skipan annarra stjórnunareininga.
     Stofnanir og einstakir starfsmenn innan háskólans, sem ekki lúta sérstakri stjórn, heyra beint undir embætti rektors.

9. gr.

     Fyrir hverja deild skólans eða skilgreinda námsbraut skal setja námskrá sem kveður á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, þar með talin starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við. Á grundvelli námskrár skal árlega gefin út kennsluskrá þar sem m.a. er gerð grein fyrir tilhögun náms, kennsluháttum og námsmati. Í kennsluskrá eða öðrum starfsáætlunum einstakra deilda skal enn fremur kveðið á um missira- eða annaskiptingu, kennslutíma, próftímabil, leyfi og önnur atriði sem varða skipulag náms.
     Háskólaráð staðfestir námskrár og kennsluskrá en deildarráð bera ábyrgð á gerð þeirra.

IV. KAFLI
Rannsóknir.

10. gr.

     Heimilt er Kennaraháskóla Íslands að setja á stofn rannsóknarstofnun. Kennarar skólans geta fullnægt rannsóknarskyldu sinni að nokkru eða öllu leyti með störfum í þágu stofnunarinnar. Heimilt er að ráða sérfræðinga að stofnuninni. Háskólaráð getur falið rannsóknarstofnun umsjón með útgáfustarfsemi á vegum háskólans. Háskólaráð skipar stjórn stofnunarinnar.
     Rannsóknarstofnun skal, eftir því sem aðstæður leyfa, veita uppeldisstéttum og nemendum skólans ráðgjöf og fræðslu um skipulagningu og framkvæmd rannsókna.
     Háskólaráð skal setja reglur, sem menntamálaráðherra staðfestir, um starfsemi rannsóknarstofnunarinnar og þar með talið um gjaldtöku fyrir þjónustu sem stofnunin veitir.
     Reglurnar skulu birtar í Stjórnartíðindum.
     Heimilt er háskólaráði að stofna sérstaka rannsóknarsjóði. Skal um þá sett skipulagsskrá sem menntamálaráðherra staðfestir. Skipulagsskráin skal birt í Stjórnartíðindum.

V. KAFLI
Gildistaka, reglugerð o.fl.

11. gr.

     Við gildistöku þessara laga renna eignir Kennaraháskóla Íslands, Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands til Kennaraháskóla Íslands.

12. gr.

     Menntamálaráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd þessara laga.

13. gr.

     Allar reglur sem háskólaráð setur á grundvelli þessara laga skulu birtar í Stjórnartíðindum.

14. gr.

     Lög þessi, sem sett eru með hliðsjón af lögum um háskóla, öðlast gildi 1. janúar 1998 og skulu vera komin að fullu til framkvæmda eigi síðar en 31. júlí 1999.

15. gr.

     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands, lög nr. 10/1973, um Fósturskóla Íslands, lög nr. 65/1972, um Íþróttakennaraskóla Íslands, og lög nr. 40/1985, um Þroskaþjálfaskóla Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Um þá sem við gildistöku laga þessara eru starfsmenn eða nemendur í Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands gildir eftirfarandi:
  1. Nemendur, sem við gildistöku laga þessara stunda nám í þeim skólum sem eru sameinaðir með lögum þessum og ljúka námi áður en þau koma til fullra framkvæmda, eiga rétt á að ljúka prófum samkvæmt gildandi námsskipulagi skólanna við gildistöku laganna. Háskólaráði, sbr. e-lið, er heimilt að ákveða að þeir nemendur geti lokið háskólaprófgráðu.
  2. Núverandi rektor Kennaraháskóla Íslands er rektor hins nýja Kennaraháskóla Íslands þar til nýr rektor hefur verið skipaður, sbr. e-lið. Störf skólastjóra Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands eru lögð niður frá og með 1. janúar 1998. Þó skulu þeir sem gegna þessum störfum við gildistöku laganna eiga rétt til starfa hjá Kennaraháskóla Íslands samkvæmt c- og d-lið.
  3. Skipaðir og ótímabundið ráðnir kennarar við Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands, sem uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um háskóla, eru starfsmenn Kennaraháskóla Íslands frá og með 1. janúar 1998. Hið sama gildir um prófessora, dósenta og lektora við Kennaraháskóla Íslands og þá starfsmenn skólanna sem gegna öðrum störfum en þeim sem upp eru talin í d-lið.
  4. Störf skipaðra og ótímabundið ráðinna kennara við Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands sem ekki uppfylla starfsskilyrði samkvæmt lögum um háskóla skulu lögð niður 1. janúar 1998. Þó er heimilt að fresta niðurlagningu starfanna til 31. júlí 2001. Sé heimild til frestunar á niðurlagningu starfanna nýtt teljast starfsmenn samkvæmt þessum lið vera starfsmenn Kennaraháskóla Íslands frá og með 1. janúar 1998.
  5. Er Alþingi hefur samþykkt lög þessi skal menntamálaráðherra skipa níu manna háskólaráð til 31. júlí 1999. Það skal starfa í samræmi við ákvæði laga þessara og tryggja framkvæmd þeirra, sbr. 14. gr. Skólanefnd Fósturskóla Íslands, skólanefnd Íþróttakennaraskóla Íslands, skólaráð Kennaraháskóla Íslands og skólastjórn Þroskaþjálfaskóla Íslands skulu hver um sig tilnefna einn fulltrúa til setu í því ráði og menntamálaráðherra tvo fulltrúa. Jafnframt skulu stjórnir nemendafélaga skólanna tilnefna sameiginlega tvo fulltrúa í ráðið. Rektor Kennaraháskóla Íslands, sbr. b-lið, skal vera forseti háskólaráðs þar til nýtt háskólaráð hefur verið skipað, sbr. 5. gr., og nýr rektor skipaður, sbr. 7. gr., samkvæmt tilnefningu þess háskólaráðs.


Samþykkt á Alþingi 18. desember 1997.