Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 697, 122. löggjafarþing 328. mál: tekjuskattur og eignarskattur (lífeyrisiðgjöld o.fl.).
Lög nr. 141 24. desember 1997.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað 2.–3. málsl. 26. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir svohljóðandi: Stuðullinn skal miðast við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá upphafi til loka 12 mánaða tímabils. Miða skal breytinguna við þann mun sem verður á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir fyrir janúarmánuð á tekjuári og vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir fyrir janúarmánuð á álagningarári. Hafi aðili annað reikningsár en almanaksárið skal miða stuðulinn við þann mun sem verður á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir fyrir fyrsta mánuð tekjuárs og vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem gildir fyrir fyrsta mánuð eftir lok þess tekjuárs.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 30. gr. laganna:
  1. 5. tölul. orðast svo: Iðgjöld launþega til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að hámarki 4% af iðgjaldsstofni. Að auki allt að 2% af iðgjaldsstofni samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga vegna iðgjalda sem greidd eru til lífeyrissjóða eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda sé iðgjaldinu varið til aukningar lífeyrisréttinda eða lífeyrissparnaðar skv. II. kafla sömu laga. Skilyrði frádráttar samkvæmt þessum lið er að iðgjöld séu greidd reglulega.
  2. 6. tölul. orðast svo: Iðgjöld manna sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi vegna öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að hámarki 4% af iðgjaldsstofni. Að auki allt að 2% af iðgjaldsstofni samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga vegna iðgjalda sem greidd eru til lífeyrissjóða eða til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, enda sé iðgjaldinu varið til aukningar lífeyrisréttinda eða lífeyrissparnaðar skv. II. kafla sömu laga. Skilyrði frádráttar samkvæmt þessum lið er að iðgjöld séu greidd reglulega.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 69. gr. laganna, sbr. lög nr. 65/1997:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Sé svo ástatt að einungis annað hjóna er skattskylt hér á landi skv. 1. gr. skal reikna því fullar barnabætur vegna þeirra barna hjónanna sem eru heimilisföst hér á landi eftir þeim reglum sem gilda um hjón, enda liggi fyrir upplýsingar um tekjur beggja ásamt upplýsingum um barnabætur eða hliðstæðar greiðslur vegna sömu barna sem greiddar hafa verið erlendis.
  2. 5. málsl. 3. mgr. fellur brott.
  3. Á eftir 7. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessa stafliðar má ákvarða barnabætur með börnum sem ekki eru heimilisföst hér á landi en eru á framfæri ríkisborgara hins Evrópska efnahagssvæðis, enda starfi hann og sé skattskyldur skv. 1. gr. hér á landi. Skilyrði fyrir ákvörðun barnabóta samkvæmt þessari málsgrein eru þau að börnin séu heimilisföst í einhverju ríkja hins Evrópska efnahagssvæðis og að fram séu lögð fullnægjandi gögn frá bæru stjórnvaldi í því landi þar sem börnin eru heimilisföst. Heimilt er að setja nánari reglur um framkvæmd þessarar málsgreinar í reglugerð.
  5. Á eftir orðunum „ofgreiddra barnabóta“ í 8. mgr. kemur: þar með taldar ofgreiddar barnabætur erlendis.


4. gr.

     4. tölul. 71. gr. laganna, sbr. c-lið 11. gr. laga nr. 137/1996, orðast svo: Tekjuskattur manna sem hafa takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 3. gr. af arði, leigutekjum og söluhagnaði skal ákvarðaður skv. 3. mgr. 67. gr. Þó skal tekjuskattur af hagnaði af sölu hlutabréfa sem er umfram þau mörk sem um ræðir í 3. mgr. 67. gr. vera skv. 2. tölul.

5. gr.

     Á eftir orðunum „Seðlabanki Íslands“ í 1. tölul. 4. mgr. 72. gr. laganna orðast niðurlag töluliðarins svo: Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Þróunarsjóður sjávarútvegsins og lífeyrissjóðir, sbr. lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu ákvæði um viðbótarfrádrátt skv. 2. gr. ekki koma til framkvæmda fyrr en við staðgreiðslu á árinu 1999 og álagningu á árinu 2000.

Samþykkt á Alþingi 20. desember 1997.