Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 664, 122. löggjafarþing 303. mál: stjórn fiskveiða (veiðiheimildir krókabáta).
Lög nr. 144 23. desember 1997.

Lög um breytingar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „skv. 9. mgr. þessarar greinar“ í 1. mgr. kemur: samkvæmt þessari grein.
  2. 3. mgr. orðast svo:
  3.      Heildarþorskaflaviðmiðun fyrir krókabáta skal frá og með fiskveiðiárinu 1997/1998 vera 13,75% af ákvörðuðum heildarþorskafla hvers fiskveiðiárs en þó ekki lægri en 21.180 lestir, miðað við óslægðan fisk.
  4. Í stað 1. málsl. 5. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Heimilt er að framselja varanlega þorskaflahámark krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki. Innan hvers fiskveiðiárs er heimilt að flytja allt að 30% af úthlutuðu þorskaflahámarki krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki.
  5. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að veita báti, sem leyfi hefur fengið til veiða með tilteknum fjölda sóknardaga, leyfi til að stunda veiðar með þorskaflahámarki skv. 4.–5. mgr. þess í stað, en reiknað þorskaflahámark bátsins verður þá áfram hluti sameiginlegs hámarksþorskafla báta sem stunda veiðar skv. 6.–10. mgr.
  6. Í stað 2.–4. málsl. 6. mgr. koma fimm nýir málsliðir, svohljóðandi: Sóknardagur telst vera allt að 24 klukkustundir frá upphafi veiðiferðar. Veiðiferð telst lokið þegar bátur landar afla. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga og eftirlit með þeim. Utan sóknardaga eru allar veiðar bannaðar. Ráðherra getur þó heimilað að veiðar í sérhæfð veiðarfæri samkvæmt lokamálslið 1. mgr., sem og veiðar með sérhæfðri línu til veiða á háffiskum, séu utan sóknardaga.
  7. Í stað orðanna „1997“, „meðalafla“ og „hámarksafla“ í 1. málsl. 8. mgr. kemur: 1998, meðalþorskafla, og: hámarksþorskafla.
  8. Í stað orðanna „1997“, „meðalafla“ og „hámarksafla“ í 1. málsl. 10. mgr. kemur: 1998, meðalþorskafla, og: hámarksþorskafla.


2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur niður ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 83/1995.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr. um tímamörk vegna vals á veiðikerfi skal krókabátum, sem stunda veiðar í tiltekinn fjölda sóknardaga skv. 6.–10. mgr. 6. gr., heimilt að endurskoða val sitt. Eigandi krókabáts skal tilkynna Fiskistofu um val sitt fyrir 1. febrúar 1998. Þorskaflahámark þeirra báta sem þann kost velja og breytingar vegna endurvals á sameiginlegum hámarksþorskafla þeirra báta sem stunda veiðar með handfærum, eða handfærum og línu, skulu miðast við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995.
     Á fiskveiðiárinu 1997/1998 skulu sóknardagar þeirra báta sem stunda veiðar með handfærum eingöngu, sbr. 9.–10. mgr. 6. gr., vera 40 en fjöldi sóknardaga þeirra báta sem stunda veiðar með handfærum og línu, sbr. 7.–8. mgr. 6. gr., vera 32.
     Hafi bátur sem velur þorskaflahámark skv. 1. mgr. þegar nýtt hluta af sóknardögum fiskveiðiársins 1997/1998 fyrir 1. desember 1997 skal reikna hvaða hlutfall fimmtungur af nýttum sóknardögum er af heildarfjölda leyfðra sóknardaga bátsins á fiskveiðiárinu 1997/1998 og skerða þorskaflahámark bátsins á fiskveiðiárinu 1997/1998 í sama hlutfalli. Hafi sóknardagar verið nýttir frá og með 1. desember 1997 skal reikna hvaða hlutfall þeir eru af heildarfjölda leyfðra sóknardaga bátsins á fiskveiðiárinu 1997/1998 og skerða þorskaflahámark bátsins á fiskveiðiárinu 1997/1998 í sama hlutfalli.

II.
     Úthluta skal varanlega, samkvæmt reglum í 2. og 3. mgr., 500 lestum af þorski, miðað við óslægðan fisk, sem úthlutað hefur verið árlega af Byggðastofnun fiskveiðiárin 1995/1996 og 1996/1997, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 83/1995.
     Til krókabáta á þorskaflahámarki skal úthluta 180 lestum, miðað við óslægðan þorsk, til báta sem 1. september sl. voru gerðir út frá byggðarlögum sem Byggðastofnun úthlutaði til á síðasta fiskveiðiári. Úthlutað skal hlutfallslegri viðbót miðað við aflaheimildir 1. september 1997, þó þannig að enginn bátur fái meira en 8 lestir í sinn hlut miðað við óslægðan þorsk. Ekki skal bætt umfram þau mörk að þorskaflahámark með bótum verði 80 lestir miðað við 1. september 1997.
     Til aflamarksbáta undir 10 brúttórúmlestum að stærð skal úthlutað 320 lestum, miðað við óslægðan þorsk, til báta sem lönduðu sem samsvarar 6 lestum eða meira í þorskígildum talið samtals á fiskveiðiárunum 1995/1996 og 1996/1997. Úthluta skal hlutfallslega miðað við úthlutaðar aflaheimildir, í þorskígildum 1. september 1997, þó þannig að enginn bátur fái meira en 1,5 lestir í sinn hlut miðað við slægðan þorsk.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1997.