Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1082, 122. löggjafarþing 606. mál: Kvótaþing.
Lög nr. 11 27. mars 1998.

Lög um Kvótaþing.


Hlutverk og stjórn.

1. gr.

     Kvótaþing Íslands hefur það hlutverk að annast tilboðsmarkað fyrir aflamark. Óskyld starfsemi er Kvótaþingi óheimil.
     Allur flutningur aflamarks milli skipa, annar en sá sem um getur í 3. mgr., er óheimill nema að undangengnum viðskiptum á Kvótaþingi.
     Heimilt er að flytja aflamark milli skipa án undangenginna viðskipta á Kvótaþingi í eftirtöldum tilvikum:
  1. Þegar aflamark er flutt milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila.
  2. Þegar um er að ræða jöfn skipti miðað við meðaltalsviðskiptaverð viðkomandi tegunda á Kvótaþingi í síðastliðinni viku.
  3. Þegar um er að ræða flutning aflamarks af tegund sem ráðherra hefur með reglugerð undanþegið viðskiptaskyldu á Kvótaþingi. Forsenda slíkrar undanþágu er að fyrir liggi tillaga stjórnar Kvótaþings, enda séu viðskipti með aflamark af viðkomandi tegund svo lítil að ekki séu að mati stjórnarinnar forsendur til myndunar markaðsverðs á tilboðsmarkaði.


2. gr.

     Hlutverk Kvótaþings er m.a. eftirfarandi:
  1. Að annast skráningu kaup- og sölutilboða á aflamarki og vera vettvangur viðskipta með aflamark, sbr. 1. gr.
  2. Að annast greiðslumiðlun milli kaupenda og seljenda aflamarks á Kvótaþingi.
  3. Að miðla upplýsingum um viðskipti á Kvótaþingi.


3. gr.

     Sjávarútvegsráðherra skipar þrjá menn í stjórn Kvótaþings til fjögurra ára í senn. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
     Stjórn Kvótaþings skal setja sér starfsreglur. Ákvarðanir sínar skal stjórnin birta á traustan og greinilegan hátt.

4. gr.

     Stjórn Kvótaþings hefur yfirumsjón með starfsemi þingsins. Stjórnin ræður starfsfólk eða semur við óháðan aðila um að annast daglegan rekstur Kvótaþings eða ákveðna þætti starfseminnar.
     Stjórnarmenn Kvótaþings og þeir sem annast kvótaviðskipti á vegum þess á grundvelli 1. mgr. þessarar greinar skulu uppfylla almenn hæfisskilyrði stjórnarmanna Verðbréfaþings Íslands samkvæmt lögum þar um. Þeir skulu ekki eiga beina eignaraðild að útgerðarfyrirtæki eða sitja í stjórn slíks fyrirtækis. Sama gildir um maka þeirra og skyldmenni í beinan legg. Þá skulu þeir ekki hafa slíkra hagsmuna að gæta að draga megi óhlutdrægni þeirra í efa.

5. gr.

     Stjórn Kvótaþings setur reglur um starfsemi þingsins og skulu þær birtar í Lögbirtingablaðinu.

Fjármál.

6. gr.

     Reikningsár Kvótaþings er frá 1. september ár hvert til 31. ágúst á næsta ári. Stjórn Kvótaþings skal fyrir októberlok ár hvert skila til sjávarútvegsráðherra endurskoðuðum ársreikningi og ársskýrslu. Ríkisendurskoðun skal annast endurskoðun reikninga Kvótaþings.

7. gr.

     Þóknun Kvótaþings fyrir skráningu tilboða og greiðslumiðlun skal birt í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Gjaldskráin skal við það miðuð að skráningargjaldið standi undir kostnaði af starfsemi þingsins. Skal gjaldið innt af hendi fyrir fram eða trygging sett áður en þjónusta er veitt.

Hlutverk Fiskistofu.

8. gr.

     Tilboðsgjafi sem hyggst fá skráð tilboð sitt um kaup eða sölu á aflamarki skal senda skriflega beiðni þar um til Fiskistofu í því formi sem stjórn Kvótaþings setur.
     Þegar um er að ræða sölutilboð gengur Fiskistofa úr skugga um hvort heimilt sé að flytja það aflamark sem boðið er til sölu af viðkomandi skipi. Reynist svo vera skal Fiskistofa senda Kvótaþingi sölutilboð viðkomandi aðila ásamt staðfestingu á því að búið sé að flytja umrætt aflamark af skipinu.
     Ef um er að ræða kauptilboð skal Fiskistofa kanna hvort heimilt sé að færa það aflamark sem boðið er í til viðkomandi skips. Reynist svo vera skal Fiskistofa senda Kvótaþingi kauptilboð viðkomandi aðila ásamt staðfestingu um að heimilt sé að flytja það aflamark sem um ræðir til viðkomandi skips.
     Eftir að sölutilboðsgjafi hefur sent inn beiðni skv. 1. mgr. er honum óheimilt að nýta það aflamark sem tilboðið nær til þar til það hefur verið dregið til baka og sölutilboðsgjafi móttekið tilkynningu.

9. gr.

     Tilkynna skal Fiskistofu, í því formi sem hún ákveður, ósk um að tilboð skuli dregið til baka af Kvótaþingi. Skal þá Fiskistofa þegar tilkynna um slíka ósk til Kvótaþings sem ber án tafar að taka viðkomandi tilboð af tilboðsskrá. Þegar um sölutilboð er að ræða skal Fiskistofa jafnframt færa viðkomandi aflamark aftur á það skip sem um ræðir og tilkynna sölutilboðsgjafa um flutninginn.

Gerð tilboða.

10. gr.

     Í tilboði skal greina, auk tegundar og magns, sbr. 8. gr., verð og gildistíma tilboðs.
     Óski aðili þess að eiga því aðeins viðskipti að þau nái til alls þess magns sem tilgreint er í tilboði hans eða ákveðins hluta þess skal þess getið í tilboði.

11. gr.

     Óheimilt er aðilum, einstaklingum eða lögaðilum, að taka þátt í, stuðla að eða hvetja til viðskipta með aflamark eða annarra aðgerða í því skyni að gefa ranga mynd af umfangi viðskipta með aflamark í tilteknum tegundum eða hafa óeðlileg áhrif á verðmyndun þess.

Skráning tilboða.

12. gr.

     Kvótaþing skal skrá þau tilboð sem Fiskistofa hefur sent skv. 8. gr. á tilboðsskrá, enda hafi tilboðsgjafi lagt fram næga tryggingu til staðgreiðslu vegna viðskiptanna samkvæmt reglum þingsins, auk tryggingar skv. 7. gr.
     Kvótaþing skal halda fjármunum viðskiptamanna tryggilega aðgreindum frá eignum sínum. Skulu fjármunir viðskiptamanns varðveittir á sérstökum nafnskráðum reikningi með tryggilegum hætti.
     Kvótaþing skal hafna með skriflegum og rökstuddum hætti skráningu tilboða ef þau brjóta í bága við ákvæði þessara laga, reglugerða settra samkvæmt þeim eða reglna sem stjórn Kvótaþings setur.

Meðferð tilboða.

13. gr.

     Eigi sjaldnar en einu sinni á hverjum virkum degi skulu viðskipti á Kvótaþingi fara fram varðandi kaup- og sölutilboð einstakra tegunda sem eru hæf hvað verð snertir til að mætast. Viðskiptin skulu fara fram á reiknuðu viðskiptaverði í samræmi við reglur sem stjórn Kvótaþings setur.

Frágangur viðskipta.

14. gr.

     Þegar viðskipti hafa átt sér stað skal Kvótaþing annast greiðslumiðlun og annan frágang viðskiptanna. Þá skal Kvótaþing tilkynna Fiskistofu án tafar um viðskiptin í því formi sem Fiskistofa ákveður. Fiskistofa skal þá tafarlaust annast flutning aflamarks af þeim tegundum sem um ræðir til viðkomandi skips.

Meðferð upplýsinga.

15. gr.

     Kvótaþing skal daglega birta aðgengilegar upplýsingar um viðskipti, þar á meðal um viðskiptaverð, heildarmagn og -verðmæti, allt eftir tegundum. Þá skal birta aðrar upplýsingar sem Kvótaþing telur að geti stuðlað að virkri verðmyndun.

16. gr.

     Að því marki sem lög þessi kveða ekki á um skyldu Kvótaþings til upplýsingagjafar eru stjórnarmenn Kvótaþings og þeir sem annast kvótaviðskipti á vegum þess á grundvelli 1. mgr. 4. gr. bundnir þagnarskyldu um einstök viðskipti sem þar fara fram og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Aðilum skv. 1. málsl., svo og hverjum þeim öðrum sem hlotið hafa vitneskju um framangreindar trúnaðarupplýsingar, er óheimilt að nýta þær á nokkurn hátt sjálfum sér eða öðrum til hagsbóta.

Eftirlit.

17. gr.

     Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með að starfsemi Kvótaþings sé í samræmi við lög þessi, reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim og reglur sem stjórn Kvótaþings setur.
     Skal bankaeftirlitið eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum sem afhent hafa verið Kvótaþingi og sem stafa frá því sem að þess mati eru nauðsynleg vegna eftirlitsins. Að öðru leyti gilda um eftirlitið ákvæði laga um Seðlabanka Íslands eftir því sem við getur átt.
     Telji bankaeftirlitið að starfsemi Kvótaþings brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða eða reglna settra samkvæmt þeim eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt hæfilegan frest til úrbóta, nema brot séu alvarleg. Sé um að ræða meint brot kaupenda eða seljenda skal bankaeftirlitið vekja athygli Fiskistofu á því.
     Hafi bankaeftirlitið rökstudda ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga þessara eða annarra laga skal því heimilt að krefja aðila, einstaklinga eða lögaðila, þar á meðal opinberar stofnanir, um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg til rannsóknar málsins.

Viðurlög og ýmis ákvæði.

18. gr.

     Komi í ljós að aðili, einstaklingur eða lögaðili, hafi selt á Kvótaþingi aflamark sem ekki var heimilt að ráðstafa skal útgerð þess skips sem aflamark var flutt af bæta það tjón sem slík sala hefur valdið. Enn fremur er heimilt að útiloka slíkan aðila frá frekari viðskiptum á Kvótaþingi nema hann flytji fyrir fram aflamark frá skipi sínu og setji viðbótartryggingar sem nægilegar eru að mati Kvótaþings.

19. gr.

     Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að einu ári, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt.
     Tilraun til brota á lögum þessum og hlutdeild í þeim eru refsiverðar eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

20. gr.

     Sjávarútvegsráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

21. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. september 1998.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Sjávarútvegsráðherra skal fyrir lok fiskveiðiársins 1998/1999 láta kanna hvaða áhrif lögin hafi haft á íslenskan sjávarútveg, sérstaklega stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar. Skal ráðherra fyrir árslok 1999 leggja fyrir Alþingi skýrslu þar sem niðurstöður könnunar verði birtar.

II.
     Ákvæði 1. tölul. 3. mgr. 1. gr. laganna gildir einnig um flutning aflamarks skipa innan sömu útgerðar ef skip hafa verið tekin á kaupleigu eða leigu og þeir samningar verið gerðir fyrir gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 27. mars 1998.