Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1115, 122. löggjafarþing 442. mál: lögreglulög (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.).
Lög nr. 29 8. apríl 1998.

Lög um breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, sbr. lög nr. 83 27. maí 1997 (samstarf lögregluliða, valnefnd Lögregluskólans o.fl.).


1. gr.

     Orðin „deildin skal rannsaka mál vegna kæra á hendur lögreglumönnum vegna brots í starfi“ í b-lið 2. mgr. 5. gr. laganna falla brott.

2. gr.

     A-liður 4. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Ríkislögreglustjóri getur ákveðið að höfðu samráði við lögreglustjóra að lögreglulið í einu umdæmi skuli tímabundið gegna lögreglustörfum í öðru umdæmi og ákveður þá jafnframt hver skuli fara með stjórn þess. Dómsmálaráðherra getur samkvæmt tillögu ríkislögreglustjóra kveðið á um skipulagt samstarf lögregluliða við framkvæmd og stjórnun ákveðinna löggæsluverkefna og miðlun mannafla milli lögregluliða á tilteknu svæði til að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu. Þá getur ráðherra samkvæmt tillögu ríkislögreglustjóra falið lögreglustjórum tímabundið tiltekin löggæsluverkefni utan síns umdæmis ef hagfellt þykir vegna staðhátta.

3. gr.

     Í stað orðanna „Skipshafnir varðskipa“ í 3. mgr. 9. gr. laganna kemur: Áhafnir varðskipa og gæsluflugvéla.

4. gr.

     3. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
     3. Við framkvæmd starfa sinna skulu handhafar lögregluvalds bera á sér sérstök skilríki. Ráðherra ákveður útlit, efni og notkun lögregluskilríkja með reglugerð.

5. gr.

     3. og 4. mgr. 28. gr. laganna, sbr. 31. gr. laga nr. 83 27. maí 1997, orðast svo:
     3. Dómsmálaráðherra skipar yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna til fimm ára í senn. Ríkislögreglustjóri skipar aðra lögreglumenn til fimm ára í senn. Hver sá sem skipaður er til lögreglustarfa skal hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsstig innan lögreglunnar.
     4. Ríkislögreglustjóri getur heimilað lögreglustjóra að ráða mann tímabundið til lögreglustarfa vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða tímabundinna leyfa lögreglumanna þó að hann hafi ekki lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins, enda fullnægi hann skilyrðum 2. mgr. 38. gr. laganna og enginn með próf frá Lögregluskóla ríkisins er tiltækur í stöðuna.

6. gr.

     35. gr. laganna orðast svo:
     Kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans skal beina til ríkissaksóknara og fer hann með rannsókn málsins.
     Við meðferð slíkra mála getur ríkissaksóknari beitt þeim heimildum sem lögregla hefur endranær.
     Lögreglu ber að veita ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn mála samkvæmt þessari grein eftir því sem óskað er.

7. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 45. gr., svohljóðandi:
Undanþága frá aldursskilyrði.
     Valnefnd Lögregluskóla ríkisins er heimilt, til ársloka 1998, að undanþiggja umsækjendur, sem voru lausráðnir eða ráðnir tímabundið til lögreglustarfa í tíð eldri laga, aldursskilyrði a-liðar 2. mgr. 38. gr.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 31. mars 1998.