Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1287, 122. löggjafarþing 164. mál: bæjanöfn (örnefnanefnd).
Lög nr. 40 11. maí 1998.

Lög um breyting á lögum um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953, með síðari breytingum.


1. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Menntamálaráðherra skipar þriggja manna nefnd er nefnist örnefnanefnd. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár í senn. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Örnefnastofnun Íslands, annar af umhverfisráðuneyti en hinn þriðja, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, skipar ráðherra án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Allir skulu nefndarmenn vera kunnáttumenn á sviði örnefna- og staðfræði. Íslensk málnefnd skal hafa áheyrnarfulltrúa í nefndinni með tillögurétti og málfrelsi.
     Örnefnanefnd skal fjalla um nafngiftir býla skv. 5., 7. og 8. gr. laganna. Jafnframt úrskurðar örnefnanefnd um hvaða örnefni verða sett á landabréf sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands, eða með leyfi þeirrar stofnunar, sé ágreiningur eða álitamál um það efni. Þá sker nefndin úr ágreiningi um ný götunöfn og sambærileg örnefni innan sveitarfélaga. Málsaðild eiga Landmælingar Íslands, aðrir kortagerðarmenn, Örnefnastofnun Íslands, landeigendur, sveitarstjórnir og hlutaðeigandi ráðuneyti, en um málsaðild fer að öðru leyti að hætti stjórnsýslulaga. Heimilt er nefndinni að leita álits sérfræðinga áður en ákvarðanir eru teknar. Úrskurðum nefndarinnar er hægt að skjóta til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
     Í reglugerð, sem menntamálaráðherra setur, skal kveðið nánar á um starfsemi örnefnanefndar. Skulu þar m.a. vera ákvæði um undirbúningsferli ákvarðana nefndarinnar um nafnsetningar á landabréf, þar á meðal um að örnefni, sem ágreiningur er um, skuli auglýst fyrir almenningi með hæfilegum fyrirvara þannig að hverjum þeim sem telur sig búa yfir vitneskju eða ábendingum, er að haldi komi, gefist færi á að kynna nefndinni álit sitt. Einnig má þar setja ákvæði um sambærilegt undirbúningsferli að annars konar ákvörðunum nefndarinnar.

2. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Nöfnum á býlum utan kaupstaða og kauptúna eða þorpa, sem skráð hafa verið hjá Fasteignamati ríkisins, má ekki breyta nema með leyfi örnefnanefndar.

3. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Tilkynna skal örnefnanefnd um nafn á nýbýli utan kaupstaða, kauptúna og þorpa.

4. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Vilji eigandi breyta nafni býlis síns skv. 3. gr. skal hann senda örnefnanefnd beiðni um það. Í beiðninni skal hann skýra frá ástæðum þess að farið er fram á að eldra nafn býlisins verði lagt niður og þeim ástæðum er ráðið hafa vali umsækjanda á nýju nafni. Breytingar á nafni býlis skal ekki leyfa, nema alveg sérstaklega standi á, svo sem að býlið eigi samnefnt við annað lögbýli í sama héraði eða því um líkt.
     Í tilkynningu eiganda til örnefnanefndar um nafn á nýbýli skv. 4. gr. skal hann skýra frá þeim ástæðum er ráðið hafa vali á hinu nýja nafni.
     Sé hið nýja nafn býlis dregið af staðháttum skal þeim lýst í umsókn, sbr. 3. gr., eða tilkynningu, sbr. 4. gr. Þá skal fylgja vottorð sýslumanns um eignarrétt málsaðila á býlinu. Við upptöku nýnefna skal gæta þess að fylgt sé þeim venjum sem ráðið hafa nafngjöfum býla hér á landi. Ekki mega nafngiftir leiða til samnefna á fasteignum í sama héraði né nafna sem eru svo lík öðrum nöfnum á fasteignum í héraðinu að hætt sé þess vegna við nafnabrenglum.

5. gr.

     Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
     Ágreiningi um nafngift skv. 1. mgr. verður skotið til úrskurðar örnefnanefndar.

6. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Örnefnanefnd skal svo fljótt sem henni er mögulegt eftir að henni hefur borist beiðni um breytingu á nafni býlis skv. 3. gr., beiðni um nafnfesti á þorpum skv. 7. gr. eða önnur erindi til ákvörðunar leggja rökstuddan úrskurð á málið.
     Heimili örnefnanefnd breytingu á nafni býlis skv. 3. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr., eða nafnfesti á þorpi skv. 7. gr. skal hún senda nafnið hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra til þinglýsingar. Ella sendir hún málsaðila tilkynningu um að beiðni hans sé hafnað.
     Telji örnefnanefnd ekkert athugavert við nafn sem tilkynnt hefur verið til hennar skv. 4. gr., sbr. 2. mgr. 5. gr., skal hún senda það hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra til þinglýsingar. Telji hún nafnið ónothæft skal hún tilkynna það málsaðila svo fljótt sem mögulegt er og óska eftir nýrri tillögu um nafn á býli. Hafi málsaðili ekki innan sex mánaða valið nýtt nafn sem nefndin fellst á og tilkynnt það örnefnanefnd úrskurðar nefndin um það hvert nafn býlið skuli fá. Úrskurðinn sendir örnefnanefnd málsaðila og hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra til þinglýsingar.
     Þinglýsingarstjórar skulu ætíð skýra þinglýstum veðhöfum frá nafnbreytingum ef þeir eru kunnir. Eigi má taka við skjölum til þinglestrar viðvíkjandi fasteign sem hefur ekki fengið viðurkennt nafn samkvæmt lögum þessum. Sýslumaður innheimtir lögboðið þinglestrargjald hjá eiganda býlisins. Birta skal árlega í B-deild Stjórnartíðinda skrá um nöfn þau sem tekin hafa verið upp á árinu. Svo skal og birta skrá yfir nöfn á eldri býlum sem ekki eru talin í fasteignabók 1942 og ekki hafa þegar verið birt.

7. gr.

     2. málsl. 9. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1998. Rennur þá jafnframt út skipunartími þeirrar örnefnanefndar er starfað hefur samkvæmt heimild í 2. gr. núgildandi laga.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. laga þessara er menntamálaráðherra heimilt að skipa örnefnanefnd fyrir þann tíma sem þar er greindur þannig að hún geti tekið við störfum 1. ágúst 1998.

Samþykkt á Alþingi 28. apríl 1998.