Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1499, 122. löggjafarþing 598. mál: læknalög (óvæntur skaði og mistök).
Lög nr. 68 12. júní 1998.

Lög um breytingu á læknalögum, nr. 53/1988, með síðari breytingum.


1. gr.

     2., 3. og 5. mgr. 18. gr. laganna falla brott.

2. gr.

     Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein sem verður 18. gr. a, svohljóðandi:
     Hafi meðferð heilbrigðisstarfsmanns óvæntan skaða í för með sér skal mál rannsakað til að finna á því skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að atvik eigi sér ekki aftur stað. Óvæntur skaði er þegar árangur og afleiðingar meðferðar verða önnur en gert var ráð fyrir í upphafi. Upplýsa skal sjúkling strax um hinn óvænta skaða sé þess kostur. Jafnframt skal gefa sjúklingi kost á að fylgjast með rannsókn máls.
     Yfirlæknir og hjúkrunardeildarstjóri á heilbrigðisstofnun bera ábyrgð á að óvæntur skaði, sbr. 1. mgr., sé tilkynntur án tafar faglegum yfirstjórnendum stofnunarinnar sem tilkynna málið strax forstöðumanni hennar. Forstöðumaður ákveður hverju sinni, í samráði við faglega yfirstjórnendur, hvort málið skuli jafnframt strax tilkynnt embætti landlæknis. Forstöðumaður ber ábyrgð á að sérhver óvæntur skaði verði rannsakaður, afgreiddur og tilkynntur í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
     Nú verður óvænt dauðsfall á heilbrigðisstofnun sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við meðferð eða forvarnir vegna sjúkdóms og ber yfirlæknir stofnunarinnar þá ábyrgð á að málið sé tilkynnt lögreglu í samræmi við ákvæði laga um dánarvottorð.
     Heilbrigðisstofnanir skulu tvisvar á ári senda landlækni skýrslur um alla óvænta skaða af meðferð ásamt niðurstöðu rannsókna mála. Landlæknir skal árlega senda ráðherra samantekt um óvæntan skaða í heilbrigðisþjónustu og afdrif mála.
     Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn tilkynna óvæntan skaða til embættis landlæknis. Landlæknir tekur ákvörðun um hvernig staðið verður að rannsókn málsins.
     Ráðherra skal setja reglugerð um viðbrögð og rannsókn mála skv. 1. mgr.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 1998.