Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1567, 122. löggjafarþing 715. mál: gjöld af bifreiðum.
Lög nr. 83 16. júní 1998.

Lög um brottfall laga um vörugjald af olíu og breytingu á lagaákvæðum um gjöld af bifreiðum.


I. KAFLI
Brottfall laga nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, sbr. lög nr. 120/1995 og lög nr. 90/1997.

1. gr.

      Lög nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, sbr. lög nr. 120/1995 og lög nr. 90/1997, eru felld úr gildi.

II. KAFLI
Breyting á lögum um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3/1987, með síðari breytingum.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á B-lið 4. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Af bifreiðum, tengi- og festivögnum, sem eru að leyfðri heildarþyngd 14.000 kg eða meira, skal auk gjalds vegna ekinna kílómetra greitt fast árgjald þungaskatts að fjárhæð 100.000 kr.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Kílómetragjald skv. 1. mgr. þessa stafliðar skal vera sem hér segir:
    Leyfð heildarþyngd Kílómetragjald, Leyfð heildarþyngd Kílómetragjald,
    ökutækis, kg kr. ökutækis, kg kr.
    4.000–4.999 6,74 18.000–18.999 12,95
    5.000–5.999 7,16 19.000–19.999 13,94
    6.000–6.999 7,74 20.000–20.999 14,69
    7.000–7.999 8,13 21.000–21.999 15,53
    8.000–8.999 8,48 22.000–22.999 16,51
    9.000–9.999 8,86 23.000–23.999 17,30
    10.000–10.999 9,41 24.000–24.999 18,08
    11.000–11.999 9,76 25.000–25.999 18,96
    12.000–12.999 10,99 26.000–26.999 19,80
    13.000–13.999 12,02 27.000–27.999 20,69
    14.000–14.999 9,80 28.000–28.999 21,57
    15.000–15.999 10,55 29.000–29.999 22,44
    16.000–16.999 11,39 30.000–30.999 23,32
    17.000–17.999 12,22 31.000 og yfir 24,21

  4. Lokamálsliður 3. mgr. orðast svo: Enn fremur skal endurgreiða 70% þungaskatts sem greiddur hefur verið af akstri ökutækja í eigu sérleyfishafa á leiðum sem sérleyfi þeirra nær til, svo og 70% fasts árgjalds skv. 1. mgr. þessa stafliðar, þó einungis að því marki sem ökutækin hafa verið nýtt til sérleyfisaksturs.
  5. 4. mgr. fellur brott.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á B-lið 7. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skattskylda fasts árgjalds af ökutækjum sem eru að leyfðri heildarþyngd 14.000 kg eða meira telst frá afhendingu skráningarmerkis ef um nýskráð ökutæki er að ræða, ella frá upphafi gjaldárs, þ.e. 11. október ár hvert.
  2. Við bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
  3.      Lækka skal eða endurgreiða fast árgjald þungaskatts skv. B-lið 4. gr. að réttri tiltölu hafi skattskylt ökutæki verið afskráð sem ónýtt eða skráningarmerki ökutækis verið afhent Skráningarstofunni hf. til geymslu í a.m.k. 30 daga samfellt. Sama gildir ef framvísað hefur verið útflutnings- og innflutningsskýrslum til sönnunar á tímabundnum útflutningi í jafnlangan tíma.


4. gr.

     Í stað 2. og 3. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að skrá eigendaskipti nema lesið hafi verið af ökumæli og þungaskattur vegna þess álestrar greiddur og fast gjald þungaskatts skv. B-lið 4. gr. greitt til þess dags er eigendaskipti eru skráð í ökutækjaskrá.

5. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 5. gr. eru bifreiðar sem nota innlendan orkugjafa í tilraunaskyni undanþegnar greiðslu þungaskatts frá gildistöku laga þessara til 31. desember 2000.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

6. gr.

     1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
     Vörugjald af eftirtöldum vörum skal vera sem hér segir:
  1. Eftirtalin ökutæki skulu undanþegin vörugjaldi:
    1. Hópferðabifreiðar, þ.e. ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga, sem skráðar eru fyrir 18 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni.
    2. Dráttarbifreiðar fyrir festivagna og sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki, sem eru yfir 5 tonn að heildarþyngd.
    3. Ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga og eru yfir 5 tonn að heildarþyngd.
    4. Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar, kranabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd yfir 5 tonn.
    5. Tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga sem eru yfir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd.
  2. 10% vörugjald: Dráttarvélar.
  3. 15% vörugjald:
    1. Kranabifreiðar og borkranabifreiðar sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd.
    2. Grindur með hreyfli fyrir vélknúin ökutæki.
    3. Yfirbyggingar, þar með talin ökumannshús fyrir vélknúin ökutæki.
    4. Tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd, aðrir tengi- og festivagnar.
  4. 20% vörugjald:
    1. Dráttarbifreiðar fyrir festivagna og sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
    2. Ökutæki, sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
    3. Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
  5. 30% vörugjald: Hópferðabifreiðar sem skráðar eru fyrir 10–17 manns að meðtöldum ökumanni.
  6. 70% vörugjald:
    1. Bifhjól (þar með talin stigin bifhjól) og reiðhjól með hjálparvél.
    2. Beltabifhjól (vélsleðar).
    3. Fjórhjól.
    4. Önnur vélknúin ökutæki sem ekki eru sérstaklega talin upp í þessum kafla.


7. gr.

     10. og 11. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
  1. Leigubifreiðar. Ekki er þó heimilt að lækka gjald af bifreiðum þessum niður fyrir 25%. Frá 1. janúar 2000 skal þó heimilt að lækka gjaldið í 20%.
  2. Hópferðabifreiðar, þ.e. ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga, sem skráðar eru fyrir 10–17 manns að meðtöldum ökumanni. Ekki er þó heimilt að lækka gjald af bifreiðum þessum niður fyrir 10%. Frá 1. janúar 2000 skal þó heimilt að lækka gjaldið í 5%.


8. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði b–e-liðar 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna skal vörugjald af ökutækjum sem flokkast undir þá stafliði vera 7,5% frá gildistöku laga þessara til 1. janúar 2000.
     Þrátt fyrir ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. skal vörugjald af ökutækjum sem flokkast undir þann tölulið vera 25% frá gildistöku laga þessara til 1. janúar 2000.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald.

9. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Bifreiðagjald á hverju gjaldtímabili skal vera 5,86 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar allt að 1.000 kg, 9,66 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar umfram það allt að 3.000 kg, en 2.000 kr. af hverju byrjuðu tonni af eigin þyngd bifreiðar umfram það. Þó skal aldrei greiða lægra gjald en 2.993 kr. af hverri bifreið á hverju gjaldtímabili.

V. KAFLI
Gildistaka.

10. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998 að undanskildum ákvæðum III. kafla sem öðlast þegar gildi og ákvæðum II. kafla sem öðlast gildi 11. október 1998.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Fjármálaráðherra skal fyrir 1. desember 1998 skila skýrslu þar sem í fyrsta lagi verði fjallað um möguleika á því að gera fólksbíla sem nota dísilolíu að samkeppnishæfari kosti, í öðru lagi kannaðar leiðir til að einfalda reglur um og framkvæmd á gjaldtöku samfara skráningu og afskráningu bifreiða og í þriðja lagi gerð úttekt á áhrifum breytinga á þungaskatti, vörugjaldi og bifreiðagjaldi samkvæmt lögum þessum á rekstrarstöðu landflutninga í samráði við hagsmunaaðila og gerðar tillögur um úrbætur ef ástæða er til.

Samþykkt á Alþingi 5. júní 1998.