Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1561, 122. löggjafarþing 581. mál: Seðlabanki Íslands (bankaeftirlit, EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 88 16. júní 1998.

Lög um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. F-liður orðast svo: að vera banki innlánsstofnana og stuðla að traustum og heilbrigðum viðskiptum á fjármagnsmarkaði.
  2. Á eftir f-lið kemur nýr liður, g-liður, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því: að stuðla að greiðri, hagkvæmri og öruggri greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Seðlabankinn tekur við innlánum frá innlánsstofnunum en til þeirra teljast viðskiptabankar, sparisjóðir, útibú erlendra innlánsstofnana og aðrar stofnanir og félög sem heimilt er lögum samkvæmt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.
  3. 2. mgr. orðast svo:
  4.      Seðlabankinn má ákveða að taka við innlánum frá öðrum lánastofnunum en bönkum og sparisjóðum og frá fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Seðlabankinn getur veitt þeim aðilum sem fjallað er um í 6. gr. og eiga innlánsviðskipti við bankann lán með kaupum verðbréfa eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn metur gildar. Lánsviðskipti þessi geta verið í innlendri eða erlendri mynt.
  3. 2. mgr. fellur brott.


4. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Seðlabankanum er heimilt með samþykki ráðherra að ákveða að lánastofnanir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum sem nemi tilteknu hlutfalli af ráðstöfunarfé eða innlánsfé þeirra. Þá er bankanum heimilt að ákveða að tiltekinn hluti aukningar innlána eða ráðstöfunarfjár við hverja stofnun skuli bundinn á reikningi í bankanum, enda fari heildarinnlánsfé eða ráðstöfunarfé sem viðkomandi stofnun er skylt að eiga í Seðlabankanum ekki fram úr því hámarki sem sett er skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar. Enn fremur er bankanum heimilt að ákveða að verðbréfasjóðir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum.
     Seðlabankinn setur nánari reglur um grundvöll og framkvæmd bindingar skv. 1. mgr. að fengnu samþykki ráðherra, þar á meðal til hvaða lánastofnana og verðbréfasjóða hún tekur. Í þeim reglum má ákveða að bindihlutfall sé mismunandi eftir eðli lánastofnana og verðbréfasjóða og flokkum innlána og annarra skuldbindinga sem bindingin nær til.
     Seðlabankanum er heimilt að setja reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár lánastofnana sem þeim ber ætíð að hafa yfir að ráða. Í þeim má ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka lánastofnana. Með lausu fé er átt við peninga í sjóði, óbundnar nettóinnstæður í innlendum og erlendum lánastofnunum, ríkisvíxla og aðrar sambærilegar nettóeignir með skemmri binditíma en 90 daga.
     Seðlabankanum er heimilt að setja lánastofnunum reglur um gjaldeyrisjöfnuð. Í slíkum jöfnuði skal auk gengisbundinna eigna og skulda telja skuldbindingar og kröfur sem tengdar eru erlendum gjaldmiðlum utan efnahags, svo sem framvirka samninga og valréttarsamninga.
     Seðlabankinn getur beitt lánastofnanir og verðbréfasjóði viðurlögum samkvæmt ákvæðum 37. gr. sé ákvörðunum bankans varðandi bindiskyldu, laust fé og gjaldeyrisjöfnuð ekki hlítt.

5. gr.

     2., 3. og 4. mgr. 9. gr. laganna falla brott.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Í því skyni að vinna að markmiðum sínum í peningamálum er Seðlabankanum heimilt að kaupa og selja ríkisskuldabréf og önnur trygg verðbréf á skipulegum verðbréfamarkaði eða í beinum viðskiptum við lánastofnanir.
  3. 2. mgr. orðast svo:
  4.      Seðlabankanum er heimilt að gefa út verðbréf í innlendri eða erlendri mynt til að selja lánastofnunum sem geta átt viðskipti við hann. Óheimilt er að framselja slík verðbréf til annarra en lánastofnana sem geta átt innlánsviðskipti við bankann.


7. gr.

     Í stað 13.–17. gr. laganna (IV. kafli, Bankaeftirlit) kemur nýr kafli, IV. kafli, Öflun upplýsinga, með tveimur nýjum greinum, 13.–14. gr., sem orðast svo, og breytast greinatölur samkvæmt því:
     
     a. (13. gr.)
     Seðlabankinn getur milliliðalaust aflað upplýsinga frá innlánsstofnunum, öðrum lánastofnunum en bönkum og sparisjóðum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu sem eru í viðskiptum við bankann skv. 6. gr., sbr. 7. gr., auk fyrirtækja í greiðslumiðlun, til þess að auðvelda honum að sinna hlutverki sínu skv. 3. gr.
     Á grundvelli ákvæða 1. mgr. getur Seðlabankinn krafist þess að þargreindar stofnanir og félög veiti upplýsingar um efnahag, rekstur og önnur atriði sem bankinn metur nauðsynlegar. Upplýsingarnar skulu veittar á þann hátt sem óskað er. Þess skal gætt sem frekast er kostur að samnýta upplýsingar sem aflað er samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. 34. gr. laga þessara.
     
     b. (14. gr.)
     Nú er kröfum Seðlabankans um upplýsingar skv. 13. gr. ekki sinnt og getur bankinn þá gripið til viðurlaga gagnvart hlutaðeigandi aðila, sbr. ákvæði 37. gr.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
  1. Orðin „evrópsku mynteiningunni (ECU) og“ í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
  2. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur Seðlabankinn ákveðið að skrá gengi krónunnar eins og þar segir þótt bankastofnanir séu almennt lokaðar til viðskipta.


9. gr.

     19. gr. laganna orðast svo:
     Seðlabankinn hefur heimild til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri. Um heimildir annarra aðila til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri fer eftir ákvæðum laga um gjaldeyrismál á hverjum tíma.

10. gr.

     22. gr. laganna fellur brott og breytast greinatölur samkvæmt því.

11. gr.

     Orðin „og 2. mgr. 9. gr.“ í niðurlagi fyrri málsliðar 1. mgr. 31. gr. laganna falla brott.

12. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 37. gr. laganna orðast svo: Arðsjóður skal ávaxtaður í tryggum og auðseljanlegum verðbréfum eða innlánum en helmingur árlegra tekna hans skal renna í Vísindasjóð, sbr. lög um Rannsóknarráð Íslands.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Seðlabankanum heimilt að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis um atriði er lög þessi taka til að því tilskildu að sá sem óskar upplýsinga sé háður samsvarandi þagnarskyldu.
  3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Seðlabanki Íslands skal veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem bankinn býr yfir og nýtast kunna í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Upplýsingar, sem veittar eru samkvæmt þessari grein, eru háðar þagnarskyldu samkvæmt lögum þessum og lögum um Fjármálaeftirlitið. Bankastjórn Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins skulu gera með sér sérstakan samstarfssamning þar sem kveðið er nánar á um framkvæmd þessarar málsgreinar.


14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „26. gr.“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 22. gr.
  2. Í stað orðanna „28. gr.“ í 2. og 3. málsl. 2. mgr. kemur: 24. gr.


15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði a-liðar 1. gr., 7. gr., a-liðar 8. gr. og b-liðar 13. gr. öðlast þó ekki gildi fyrr en 1. janúar 1999.

Samþykkt á Alþingi 5. júní 1998.