Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1203, 123. löggjafarþing 509. mál: Háskóli Íslands (heildarlög).
Lög nr. 41 22. mars 1999.

Lög um Háskóla Íslands.


I. KAFLI
Hlutverk Háskóla Íslands.

1. gr.

Hlutverk.
     Háskóli Íslands skal vera vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun er veiti nemendum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu.
     Háskóli Íslands skal einnig sinna endurmenntun þeirra sem lokið hafa háskólaprófi, miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar, allt eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og öðrum reglum er gilda um skólann.

II. KAFLI
Stjórn Háskóla Íslands.

2. gr.

Stjórnskipulag háskólans.
     Háskóladeildir eru grunneiningar Háskóla Íslands. Um starfsemi deilda gilda ákvæði III. kafla laga þessara. Í Háskóla Íslands eru þessar deildir: guðfræðideild, læknadeild, lagadeild, viðskipta- og hagfræðideild, heimspekideild, tannlæknadeild, verkfræðideild, raunvísindadeild og félagsvísindadeild. Háskólaráð tekur ákvörðun um stofnun og niðurlagningu deilda. Leita skal umsagnar háskólafundar áður en deildir eru lagðar niður, nýjar stofnaðar eða aðrar breytingar gerðar á deildaskipan.
     Stjórn Háskóla Íslands er falin háskólaráði, háskólarektor og deildarfundum og deildarforsetum. Í tengslum við stjórn háskólans er efnt til háskólafundar samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
     Áður en lögum og reglum, er snerta háskólann eða háskólastofnanir, verður breytt eða við þau aukið skal háskólaráð leita umsagnar háskólafundar um breytingar eða viðauka, svo og um nýmæli. Nú varðar málefni sérstaklega eina deild, og skal háskólaráð þá leita álits hennar áður en það lætur uppi umsögn sína. Varði mál sérstaklega háskólastofnun sem ekki heyrir undir deild skal háskólaráð leita álits hennar áður en það lætur uppi umsögn sína.
     Háskólaráð skal kveða nánar á um skipulag sameiginlegrar stjórnsýslu háskólans og stjórnsýslu deilda og stofnana. Leita skal umsagnar háskólafundar áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt.

3. gr.

Hlutverk háskólaráðs.
     Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans. Háskólaráð fer með úrskurðarvald í málefnum skólans og stofnana sem honum tengjast og fer með almennt eftirlit með starfsemi hans og rekstri samkvæmt því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum og reglum settum með stoð í þeim.
     Háskólaráð hefur yfirumsjón með einstökum háskólastofnunum, fyrirtækjum, sjóðum og öðrum eignum háskólans.
     Háskólaráði er heimilt að stofna sérstaka rannsóknar- og þróunarsjóði. Skal um þá sett skipulagsskrá sem menntamálaráðherra staðfestir. Skipulagsskráin skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.

4. gr.

Skipan háskólaráðs.
     Í háskólaráði eiga sæti:
  1. Rektor sem er sjálfkjörinn í ráðið og jafnframt forseti þess.
  2. Fjórir fulltrúar kjörnir til tveggja ára úr hópi kennara í fullu starfi sem skipaðir eru eða ráðnir ótímabundið, og skal við kosningu þeirra gætt að því að einn fulltrúi sé af hverju eftirtalinna fræðasviða: hugvísindasviði, heilbrigðisvísindasviði, samfélagsvísindasviði og verkfræði- og raunvísindasviði.
  3. Einn fulltrúi samtaka háskólakennara kjörinn til tveggja ára úr hópi kennara eða sérfræðinga í fullu starfi.
  4. Tveir fulltrúar stúdenta kjörnir hlutfallskosningu til tveggja ára í sérstökum kosningum þar sem allir skrásettir stúdentar háskólans hafa kosningarrétt.
  5. Tveir fulltrúar sem menntamálaráðherra skipar til tveggja ára í senn.

     Kjósa skal og tilnefna tvo varamenn fyrir hvern fulltrúa.
     Háskólaráð setur nánari reglur um kosningarrétt og kjörgengi, vægi atkvæða, undirbúning og framkvæmd kosninga kennara og stúdenta í ráðið. Leita skal umsagnar háskólafundar áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt. Háskólaráðsfulltrúar kjósa úr sínum hópi varaforseta ráðsins.

5. gr.

Fundir háskólaráðs.
     Háskólaráð heldur fundi eftir þörfum. Æski helmingur fulltrúa í háskólaráði fundar er rektor skylt að boða til hans.
     Háskólaráð er ekki ályktunarfært nema sjö atkvæðisbærir háskólaráðsmenn sæki fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði rektors úr eða þess er gegnir forsetastörfum.
     Ef kjörinn háskólaráðsfulltrúi getur ekki sótt fund skal boða varamann hans til fundarsetu.
     Rektor boðar fundi háskólaráðs. Rita skal fundargerð. Háskólaráð setur reglur um undirbúning funda, fundarboð, fundarsköp, birtingu ákvarðana og annað er lýtur að starfsháttum ráðsins og ekki er ákveðið í lögum þessum.

6. gr.

Rektor.
     Háskólarektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan. Hann hefur almennt eftirlit með allri starfsemi háskólans, þar með talið ráðningar- og fjármálum einstakra deilda og stofnana. Rektor á frumkvæði að því að háskólafundur marki heildarstefnu í málefnum háskólans. Á milli funda háskólaráðs fer rektor í umboði þess með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans.
     Rektor ræður starfslið sameiginlegrar stjórnsýslu háskólans og setur því erindisbréf eða starfslýsingar.
     Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs, að undangengnum almennum kosningum í háskólanum. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Háskólaráð setur reglur um hvernig staðið skuli að kosningu, tilnefningu og embættisgengi rektors. Leita skal umsagnar háskólafundar áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt.

7. gr.

Hlutverk háskólafundar.
     Háskólafundur er samráðsvettvangur háskóladeilda og háskólastofnana. Háskólafundur vinnur að þróun og eflingu Háskóla Íslands og mótar og setur fram sameiginlega vísinda- og menntastefnu háskólans. Háskólaráð getur leitað umsagnar háskólafundar um hvaðeina sem varðar starfsemi háskólans og deilda hans.
     Háskólafundur er ályktunarbær um þau málefni sem honum eru falin samkvæmt lögum þessum eða reglum settum með stoð í þeim. Ályktanir háskólafundar skulu kynntar háskólaráði, rektor, deildarforsetum, forstöðumönnum háskólastofnana og öðrum þeim er þær kunna að varða. Ákvörðunum háskólaráðs eða annarra stofnana háskólans verður ekki skotið til háskólafundar.

8. gr.

Skipan háskólafundar.
     Á háskólafundi eiga sæti rektor og forsetar háskóladeilda. Þar sem eru 40 eða fleiri kennarar og sérfræðingar í fullu starfi í deild eða stofnunum sem heyra undir deild skal deildin eiga, auk deildarforseta, einn fulltrúa til viðbótar á háskólafundi og síðan einn fulltrúa í viðbót fyrir hverja 40 starfsmenn í fullu starfi. Þá skal deild að auki eiga einn fulltrúa á háskólafundi úr hópi kennara eða þeirra sem gegna vísinda- og fræðistörfum í fullu starfi fyrir hverja 400 stúdenta sem skráðir eru til náms í deildinni tveimur mánuðum fyrir háskólafund. Fulltrúar deilda, aðrir en deildarforsetar, skulu kjörnir á deildarfundi. Auk framangreindra eiga eftirtaldir aðilar sæti á háskólafundi, tilnefndir eða kjörnir til tveggja ára í senn: tveir fulltrúar samtaka háskólakennara kjörnir í skriflegri kosningu úr hópi félagsmanna sem ekki gegna störfum deildarforseta, tveir fulltrúar starfsmanna við stjórnsýslu háskólans kjörnir í skriflegri atkvæðagreiðslu, einn fulltrúi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og tveir fulltrúar skipaðir af menntamálaráðherra. Auk þess skal eiga sæti á háskólafundi einn fulltrúi samtaka stúdenta á móti hverjum fimm fulltrúum annarra aðila innan háskólans, og skulu þeir kjörnir hlutfallskosningu í sérstökum kosningum til tveggja ára í senn.
     Rektor boðar háskólafund, er forseti hans og stýrir fundi. Ritari háskólaráðs er jafnframt ritari háskólafundar.
     Háskólafund skal halda að minnsta kosti einu sinni á hverju missiri. Æski 2/ 3 hlutar fulltrúa á háskólafundi fundar er rektor skylt að boða til hans.
     Háskólafundur setur nánari reglur um skipan og fundarsköp háskólafundar. Í reglum skal m.a. kveða á um kosningu og setu fulltrúa annarra stofnana og samtaka á háskólafundi en þeirra sem taldir eru í 1. mgr. og um atkvæðisrétt þeirra.

III. KAFLI
Háskóladeildir og stofnanir.

9. gr.

Háskóladeildir og rannsóknastofnanir.
     Háskóladeildir eru grunneiningar háskólans. Innan þeirra fer fram kennsla, rannsóknir og stjórnun. Deildir eru sjálfstæðar um eigin málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur háskólans setja. Reglubundið mat skal fara fram á starfsemi deilda í samræmi við ákvæði laga og reglna sem um það gilda.
     Við háskóladeildir er heimilt að starfrækja rannsóknastofnanir og rannsóknastofur samkvæmt nánari reglum sem háskólaráð setur. Háskóladeildum og stofnunum er heimilt að stunda þjónusturannsóknir og standa fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Hver deild eða rannsóknastofnun skal gera sérstakar samþykktir um slíkar þjónusturannsóknir og kennslu sem háskólaráð staðfestir.
     Hver deild semur kennsluskrá fyrir sig, og skal þar m.a. gerð grein fyrir skipan náms í deildinni, námsframvindu, hámarksnámstíma, prófgráðum, prófgreinum og prófkröfum, námskeiðum sem í boði eru og vægi þeirra, kennsluháttum, starfsþjálfun, missiraskiptingu, stjórn deildar og skiptingu í skorir og félagsmálum stúdenta. Árlega skal gefin út kennsluskrá fyrir háskólann í heild.

10. gr.

Stjórn deilda.
     Deildarfundur fer með ákvörðunarvald í málefnum hverrar deildar og er deildarforseti framkvæmdastjóri hennar. Deildarfundir geta framselt ákvörðunarvald sitt í einstökum málum eða málaflokkum til deildarráða. Deildarforseti á frumkvæði að mótun heildarstefnu fyrir deild, hefur eftirlit með starfi og stjórnsýslu deildar, ræður starfslið að stjórnsýslu hennar og ber ábyrgð á fjármálum deildar gagnvart háskólaráði og rektor.
     Háskólaráð setur nánari reglur um starfsemi deilda, stjórn þeirra, deildarráð, skiptingu deilda í skorir, námsnefndir, kjör deildarforseta og hlutverk þeirra og deildar- og skorarfundi. Leita skal umsagnar háskólafundar áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt.

IV. KAFLI
Háskólakennarar og nemendur.

11. gr.

Háskólakennarar og sérfræðingar.
     Kennarar háskólans eru prófessorar, dósentar og lektorar, þar á meðal erlendir lektorar, aðjúnktar og stundakennarar. Kennara má ráða í hlutastarf í samræmi við reglur sem háskólaráð setur. Heimilt er að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólans eða starfi við stofnanir hans samkvæmt reglum sem háskólaráð setur.
     Heimilt er að ráða til háskólans eða stofnana hans fólk til vísinda- og fræðistarfa án kennsluskyldu. Skulu starfsheiti þeirra vera sérfræðingur, fræðimaður eða vísindamaður.
     Heimilt er að ráða kennara til háskólans tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára. Um tilhögun slíkrar ráðningar skal háskólaráð setja reglur. Sama á við um þá sem eingöngu eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa.
     Háskólaráð setur almennar reglur um starfsheiti og starfsskyldur háskólakennara og þeirra sem ráðnir eru í starf sérfræðings, fræðimanns eða vísindamanns. Háskóladeild ákveður hvernig starfsskyldur einstakra kennara skulu skiptast. Háskólastofnun ákveður hvernig starfsskyldur sérfræðinga, fræðimanna og vísindamanna skulu skiptast samkvæmt þeim reglum sem háskólaráð eða deild hefur sett.
     Háskólaráð setur almennar reglur um leyfi kennara og þeirra sem ráðnir eru til vísinda- og fræðistarfa frá störfum, og skulu allar ákvarðanir deilda og stofnana um leyfi þeirra teknar á grundvelli slíkra almennra reglna.

12. gr.

Ráðning í kennara- og sérfræðingsstörf.
     Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, sérfræðinga, vísinda- og fræðimenn og forstöðumenn háskólastofnana samkvæmt tillögu háskóladeildar eða stjórnar háskólastofnunar. Deildarforsetar ráða aðjúnkta, stundakennara og annað starfsfólk deildar og stofnana sem heyra undir deild. Forstöðumaður háskólastofnunar sem ekki heyrir undir deild ræður annað starfsfólk stofnunar.
     Engan má ráða í starf prófessors, dósents, lektors, vísindamanns, fræðimanns eða sérfræðings við háskólann eða háskólastofnun nema hann hafi lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafi jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Umsækjendur um þessi störf skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á starfssviði sínu. Hver háskóladeild eða háskólastofnun getur með samþykki háskólaráðs gert frekari menntunarkröfur.
     Rektor skipar þriggja manna dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjanda til að gegna kennarastarfi eða vísinda- og fræðistörfum. Háskólaráð tilnefnir einn nefndarmann, menntamálaráðherra annan og deild sú eða stofnun sem hann á að starfa við þann þriðja, og skal hann jafnframt vera formaður dómnefndar. Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla. Háskólarektor skipar ritara dómnefnda sem fylgist með störfum nefndanna og er þeim til aðstoðar.
     Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna starfinu. Engum umsækjanda má veita starf nema meiri hluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur að gegna því.
     Þegar álit dómnefndar liggur fyrir skal tillaga um veitingu starfsins ákveðin í samræmi við reglur hverrar deildar eða stofnunar sem háskólaráð hefur staðfest.
     Heimilt er, án auglýsingar, að flytja lektor í dósentsstarf, dósent í prófessorsstarf, sérfræðing í starf fræðimanns og fræðimann í starf vísindamanns, enda liggi fyrir hæfnisdómur dómnefndar. Á sama hátt er heimilt, samkvæmt samkomulagi deildar og stofnunar, að flytja sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn í starf lektors, dósents eða prófessors, enda hafi þeir þá kennslu- og stjórnunarskyldu í deild.
     Háskólaráð setur nánari reglur um nýráðningar, auglýsingar um störf, umsóknir og meðferð þeirra, skipan og störf dómnefnda, framgang kennara, sérfræðinga og fræðimanna og tilflutning starfsmanna.
     Þegar sérstaklega stendur á getur háskólarektor, samkvæmt tillögu háskóladeildar og með samþykki háskólaráðs, boðið vísindamanni að taka við kennarastarfi við háskólann án þess að það sé auglýst laust til umsóknar.

13. gr.

Nemendur í Háskóla Íslands.
     Nemendur, sem hefja nám í Háskóla Íslands, skulu hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Heimilt er að veita öðrum en þeim sem uppfylla framangreind skilyrði rétt til þess að hefja nám við háskólann ef þeir að mati viðkomandi deildar búa yfir hliðstæðum þroska og þekkingu og stúdentsprófið veitir. Háskólaráð skal setja sérstakar reglur um rétt þeirra til að stunda nám við háskólann.
     Háskólaráð setur, að fenginni tillögu deildar, nánari reglur um inntöku stúdenta í einstakar námsgreinar í grunn- og framhaldsnámi. Í reglum þessum skal m.a. heimilt að binda aðgang að námsgreinum frekari skilyrðum um undirbúning en fram koma í 1. mgr. og takmarka fjölda stúdenta í grunn- og framhaldsnám.
     Við skrásetningu til náms greiðir stúdent skrásetningargjald, allt að 25.000 kr. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningartímabila. Háskólaráði er heimilt að verja hluta skrásetningargjaldsins til Félagsstofnunar stúdenta.
     Þeir einir teljast stúdentar við Háskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms. Í reglum sem háskólaráð setur má kveða nánar á um árlega skrásetningu stúdenta.
     Háskóladeild er heimilt að meta nám sem stúdent hefur stundað utan deildarinnar, þ.m.t. við aðra innlenda eða erlenda háskóla, sem hluta af námi við deildina.

V. KAFLI
Kennsla, próf o.fl.

14. gr.

Háskólaár og missiri. Námseiningar, kennsla og kennsluhættir.
     Háskólaráð setur reglur um lengd háskólaárs og skiptingu þess í kennslumissiri. Heimilt er að ákveða mismunandi missiraskiptingu fyrir einstakar deildir. Fyrirlestrar, æfingar og námskeið í háskóladeildum eru fyrir skrásetta stúdenta, en kennara er heimilt að veita öðrum kost á að sækja slíka kennslu nema háskóladeild mæli öðruvísi fyrir.
     Kennsla í Háskóla Íslands skal fara fram í námskeiðum sem metin eru í einingum. Fullt nám telst 30 einingar á námsári að jafnaði og endurspeglar alla námsvinnu nemenda og viðveru í kennslustundum og prófum. Háskólaráð skal setja almennar reglur um mat námskeiða til eininga. Einstakar deildir skulu setja sér almennar reglur um kennslu og kennsluhætti.

15. gr.

Prófgráður, próf, námstími o.fl.
     Háskólaráð skal setja reglur um prófgráður, prófgreinar, próftíma, prófdómara, endurtekningu prófa, viðurkenningu erlendra prófa, skiptingu fullnaðarprófs í fleiri en einn hluta, undirbúningspróf, einkunnir og annað er að prófum lýtur. Heimilt er í reglum háskólaráðs að kveða á um hámarkstímalengd í námi eða einstökum hlutum þess og um afleiðingar ef þeim ákvæðum er ekki fullnægt. Háskólaráð skal enn fremur setja almennar reglur um meistara- og doktorsnám, svo og um vörn sérstakra doktorsritgerða.
     Háskólakennarar standa fyrir prófum, en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér að svo miklu leyti sem ekki eru sett bindandi ákvæði um það í lögum eða reglum háskólaráðs. Sameiginleg stjórnsýsla háskólans annast skipulag og framkvæmd prófa.
     Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji stúdent, sem ekki hefur staðist próf, þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meiri hluti nemenda, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi.
     Háskólarektor skipar prófdómara að fengnum tillögum háskóladeildar. Þá eina má skipa prófdómara sem lokið hafa viðurkenndu háskólaprófi í þeirri grein sem dæma skal og njóta viðurkenningar á starfssviði sínu. Prófdómarar skulu skipaðir til þriggja ára í senn nema skipun sé skv. 3. mgr.

16. gr.

Veiting doktorsnafnbótar.
     Háskóladeildir hafa rétt til að veita doktorsnafnbót. Slíka nafnbót má veita í heiðursskyni, að undangengnu sérstöku doktorsnámi eða með vörn sérstakrar doktorsritgerðar. Doktorsnafnbót í heiðursskyni verður ekki veitt nema með samþykki 3/ 4 hluta allra atkvæðisbærra deildarmanna og með samþykki háskólaráðs.

17. gr.

Agaviðurlög.
     Rektor getur veitt stúdent áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans eða framkoma hans gagnvart starfsmönnum háskólans eða öðrum stúdentum er ósæmileg eða óhæfileg. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal leita umsagnar háskóladeildar og gefa stúdent kost á að tjá sig um málið. Stúdent er heimilt að skjóta ákvörðun rektors til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar rektors. Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað stúdent sem vikið hefur verið að fullu úr skóla að skrá sig aftur til náms í háskólanum ef aðstæður hafa breyst. Stúdent er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar.

VI. KAFLI
Ákvæði sem varða fjárhag, fyrirtæki og stofnanir.

18. gr.

Gjöld fyrir þjónustu.
     Háskóla Íslands skal heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Honum er enn fremur heimilt að taka gjöld fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Háskólaráð setur nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda samkvæmt ákvæði þessu.
     Háskólaráði er heimilt að semja við stúdenta, samtök þeirra og félög, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands, enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

19. gr.

Ársfundur Háskóla Íslands, stofnanir, aðild að fyrirtækjum o.fl.
     Háskóli Íslands skal árlega halda opinn ársfund þar sem fjárhagur skólans og meginatriði starfsáætlunar hans eru kynnt. Háskólaráð skal setja reglur um fyrirkomulag ársfundar.
     Háskóla Íslands skal heimilt með samþykki menntamálaráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum er séu hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að miðla, hagnýta og þróa niðurstöður rannsóknar- og þróunarverkefna sem háskólinn vinnur að hverju sinni. Háskólaráð fer með eignarhlut háskólans í slíkum fyrirtækjum. Jafnframt er háskólanum heimilt að starfrækja stofnanir sem eru á verksviði hans og heyra beint undir háskólaráð.
     Háskóla Íslands er heimilt að semja við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfssviði skólans um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annarra starfsmanna.

VII. KAFLI
Birting reglna, gildistaka o.fl.

20. gr.

Birting reglna.
     Reglur þær, sem háskólaráð setur samkvæmt lögum þessum, skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.
     Háskólaráð skal gefa út handbók sem hefur að geyma ákvæði gildandi laga og reglna sem á hverjum tíma eru í gildi fyrir Háskóla Íslands.

21. gr.

Gildistaka o.fl.
     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma að fullu til framkvæmda 1. maí 1999 og falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 131 31. desember 1990, um Háskóla Íslands, með síðari breytingum, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða í lögum þessum.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara skulu menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra hafa komið sér saman um reglur um starfstengsl prófessora læknadeildar við heilbrigðisstofnanir. Þar til slíkt samkomulag hefur náðst skulu gilda um það efni ákvæði 38. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990.
     Starfandi háskólaráð skal setja reglur til bráðabirgða um kosningarrétt, undirbúning og framkvæmd kosninga kennara og stúdenta í háskólaráð, sbr. 3. mgr. 4. gr. þessara laga, þannig að nýtt háskólaráð geti hafið störf eigi síðar en 1. maí 1999. Jafnframt setur starfandi háskólaráð reglur fyrir háskólafund um fundarsköp, sbr. 4. mgr. 8. gr., og ákveður hvenær háskólafundur verður fyrst kallaður saman. Þessar reglur skulu endurskoðaðar er nýtt háskólaráð hefur verið skipað og háskólafundur hefur verið skipaður.
     Núverandi rektor Háskóla Íslands situr út yfirstandandi kjörtímabil sitt, en að því loknu skal skipa rektor til fimm ára skv. 6. gr. laga þessara.
     Ákvæði reglugerðar fyrir Háskóla Íslands, nr. 98/1993, með áorðnum breytingum, og þeirra reglna sem háskólaráð hefur sett gilda, að svo miklu leyti sem þau fara ekki gegn þessum lögum, þar til háskólaráð hefur sett nýjar reglur samkvæmt ákvæðum þessara laga. Hið sama gildir um reglugerðir háskólastofnana sem nú eru í gildi og settar hafa verið með stoð í gildandi lögum.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 1999.